Morgunblaðið - 30.10.2001, Blaðsíða 39

Morgunblaðið - 30.10.2001, Blaðsíða 39
laðimola ef ég borðaði kjötbollur. Ég borðaði enga bollu, en samt gaf hann mér súkkulaði. Svo einu sinni fyrir nokkrum vikum ætlaði ég að senda pabba mínum SMS með farsímanum hennar mömmu og biðja hann um þrjár pylsur í hádegismat. En pabbi í símaskránni hennar mömmu var auðvitað afi og hann skyldi ekkert í af hverju stelpan hans í Namibíu var að biðja hann um pylsur. Afi hló mjög mikið þegar hann uppgötvaði að barnabarnið hans var að senda hon- um þetta skeyti. Tinna Rut. Elsku Elli afi, það er svo skrítið að þú sért farinn frá okkur. Svo erfitt að skilja, þegar maður er svona ungur. Biðjum góðan Guð og alla englana að passa þig. Elsku Una amma megi Guð gefa þér styrk í þessari sorg. Nú veit ég að sumarið sefur í sál hvers einasta manns. Eitt einasta augnablik getur brætt ísinn frá brjósti hans, svo fjötrar af huganum hrökkva sem hismi sé feykt á bál, uns sérhver sorg öðlast vængi og sérhver gleði fær mál. (Tómas Guðmundsson.) Hvíl í friði, elsku Elli afi. Daníel Þór og Karen Björg. Þó vér skiljum um stund, þá mun fagnaðarfund okkur fljótt bera aftur að höndum; því að hjólið fer ótt, því að fleyið er fljótt. Er oss flytur að Glólundar ströndum. (J. H.) Elli vinur okkar er farinn frá okk- ur fyrr en við ætluðum. Við sitjum eftir og rifjum upp allar góðu stund- irnar. Myndirnar hrannast upp í huganum og flestar tengjast þær hestum: Elli með nokkra til reiðar og skiptir engu þó ótamin trippi séu þar í kippunni hjá honum, allt gengur það átakalítið og engar gjarðir að slitna eða taumar að flækjast. Elli á Fjöður sem dansar og hoppar með hann um gerðið en ekki haggast knapinn og glott út í annað er á sín- um stað. Elli á yfirferðartölti á Skandal svo þýðum að gjörð undir kviðinn er næsta óþörf. Elli að spjalla í hesthúsinu yfir rjúkandi kaffi sem Una skenkir okkur. Elli með kíki við auga í eldhúsinu í Arnarholti að fylgjast með vinafólki sínu upp með Hlíðum, spyr svo næst þegar leiðir liggja saman hvaða sprettur hafi ver- ið á hinum eða þessum á brúnum klár eða jörpum upp brekkur eða niður hlíðar. Hann taldi heyrúllurnar á túnunum og vissi upp á hár hvað var enn óslegið. Ekkert fór framhjá hinu sívakandi Arnarholtsauga. En hann kunni að gera grín að sjálfum sér ekki síður en öðrum og var ófeiminn að upplýsa hversu vel hann fylgdist með okkur. Og óþreytandi var hann að hrósa fögru fjallasýninni sem eld- húsglugginn í Arnarholti rammaði inn. Við kveðjum góðan vin og félaga með þökk fyrir samferðina í reiðtúr- um og sleppitúrum að ógleymdum hlýjum móttökum á kaffistofu hest- hússins. Við minnumst hans við þær aðstæður sem við þekktum hann best: Á hestbaki með Unu sinni með vind í hári, hófadyn í eyrum, beitta stríðni á vör og meðfylgjandi blik í auga. Við sendum Unu og öllu hans fólki okkar innilegustu samúðar- kveðjur. Kristín (Stína), Ólöf (Ollý), Grétar, Melkorka, Sigrún og Elín. Leiðir okkar Ella lágu fljótt sam- an, strax á fyrsta æviári þar sem for- eldrar okkar voru vinafólk. Þó svo að það væri ofsagt að við hefðum verið óaðskiljanlegir leikfélagar á þessum árum, áttum við margar góðar stund- ir sem ljúft er að minnast og alltaf vissum við hvor af öðrum. Við erum af þeirri kynslóð, sem átti þess kost að fara í sveitina að loknum síðasta skóladegi á vorin og vera þar fram yfir réttir. Elli var ungur að árum þegar hann byrjaði að fara í sveit og sveitin og allt sem henni tengdist, bú- störfin, skepnurnar og landið, átti hug hans allan. Því kom það ekki á óvart að hann færi til náms á Bænda- skólanum á Hvanneyri en þaðan lauk hann búfræðinámi. Á Hvanneyri kynntust Erlendur og Ólafía Guðna- dóttir. Þau giftust og eignuðust þrjú börn, Þórð, Guðlaugu og Maríu. Elli og Ollí, eins og Ólafía var gjarnan kölluð, hófu búskap í Útey í Laug- ardal, yndislegri sveit. Eftir nokk- urra ára sveitabúskap fluttu þau til Reykjavíkur en þar kom að þau skildu. Þegar til Reykjavíkur var komið stundaði Elli ýmis störf, bæði hjá Olíufélaginu Esso auk þess sem hann vann við langferða- og leigu- bílaakstur. Í hestamennskunni átti Elli sínar góðu stundir og í gegnum hana tengdist hann sveitalífinu og landinu á nýjan leik. Hjá Arnóri Karlssyni, bónda í Arnarholti í Biskupstungum, höfðu Elli og Una, eftirlifandi eigin- kona hans, aðstöðu fyrir hestana og sumarfríum sínum vörðu þau gjarn- an þar í viðfangi við hestana og við heyskap og ýmis bústörf. Göngur með Tungnamönnum og réttir voru ómissandi þáttur í lífi Erlendar á hverju hausti mörg undanfarin ár. Frá Arnarholti var gjarnan lagt upp í hestaferðir um hálendið og nutum við hjónin einnar slíkrar ógleyman- legrar ferðar með þeim hjónum þeg- ar farið var yfir Kjöl í Skagafjörðinn. Fyrir það erum við þakklát. Elli var sérstaklega þolinmóður og laginn við baldna hesta og var aðdá- unarvert að fylgjast með honum tala til þeirra þar til þeir voru orðnir ró- legir. Fyrir um tíu árum réðst Er- lendur til starfa sem húsvörður við Öskjuhlíðarskóla. Hann naut sam- vistanna við börnin, hann unni þeim og starfinu sínu. Við sviplegt fráfall hans stöndum við nú eftir með sorg í hjarta en þökkum fyrir stundirnar sem við áttum saman. Við hjónin sendum Unu Hlín, Dodda, Gullu, Maríu, fjölskyldum þeirra og Löllu móður Erlendar sem og ástvinum öðrum öllum, okkar einlægustu sam- úðarkveðjur og biðjum þeim styrks í þeirra miklu sorg. Hið sama geri ég fyrir hönd starfsfólks Öskjuhlíðar- skóla, nemendanna og fjölskyldna þeirra. Ég bið Erlendi Þórðarsyni, vini mínum, blessunar og friðar. Einar Hólm Ólafsson. Við sitjum hér saman og deilum minningum um góðan vin sem horf- inn er til nýrra heimkynna. Elli var samstarfsmaður okkar í Öskjuhlíðar- skóla til margra ára og má með sanni segja að aldrei hafi borið skugga á samskipti okkar. Hann var einstak- lega hjálpsamur þeim sem stuðnings þurftu við og ætíð fljótur að setja sig inní aðstæður og rétta fram hjálp- arhönd. Í huga okkar bregður fyrir svip- myndum úr anddyri skólans en þar er stundum líflegt og leysa þarf ýmis verkefni með skjótum hætti. Við þessar kringumstæður var húsvörð- urinn fljótur að bregðast við hverjum vanda og leysa hann. Sem vinur var Elli afar traustur og hugulsamur. Oft sló hann á þráðinn til að vita hvernig lífið gengi fyrir sig og hvernig börn- unum okkar liði. Þá var hægt að ræða málin eins og þau komu fyrir, vitandi það að sjónarmið hans kæmu fram á hreinskilinn hátt. Það var sveitamaðurinn í okkur öllum sem gaf okkur sameiginlega sýn. Oftar en ekki var Elli með hug- ann í sveitinni eða hjá hestunum sín- um en þeir voru hans aðaláhugamál. Það er dýrmætt að hafa átt slíkan vin, en eins og segir í spámanninum: Þegar vinur þinn talar, þá andmælir þú honum óttalaust eða ert honum samþykkur af heilum hug. Og þegar hann þegir, skiljið þið hvor annan. Því að í þögulli vináttu ykk- ar verða allar hugsanir, allar langanir og allar vonir ykkar til, og þeirra er notið í gleði, sem krefst einskis. Þú skalt ekki hryggjast, þegar þú skilur við vin þinn, því að það, sem þér þykir vænst um í fari hans, getur orðið þér ljósara í fjarveru hans, eins og fjallgöngumaður sér fjallið best af slétt- unni. (Kahlil Gibran.) Við vottum eiginkonu hans og öðr- um aðstandendum okkar dýpstu samúð. Hafdís og Þórkatla. MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 30. OKTÓBER 2001 39 ✝ Guðrún BjörgSigurðardóttir fæddist á Rauðuvík á Árskógsströnd í Eyjafirði 23. septem- ber 1923. Hún lést á líknardeild Land- spítalans í Kópavogi 21. október síðastlið- inn. Foreldrar henn- ar voru Baldrún Laufey Árnadóttir, f. á Ytrihaga á Ár- skógsströnd 28. maí 1897, d. 2. mars 1983, og Sigurður Bjargvin Jóhannsson frá Selárbakka, f. 2. nóvember 1896, d. 8. september 1945. Þau eignuðust þrjú börn, auk Guðrún- ar Bjargar voru það þau Þor- steinn Mikael, f. 24. mars 1922, d. 23. mars 1993, og Guðný, f. 21. nóvember 1933, d. 25. júlí 1994. Hinn 7. júlí 1950 giftist Guðrún Björg Magnúsi Sigurjóni Þor- steinssyni frá Ólafsfirði, f. 29. júlí 1923, d. 24. nóvember 1987. Stofnuðu þau heimili sitt í Hrísey, en fluttu 1964 til Reykjavíkur og settust að á Ægisíðu 50 þar sem þau bjuggu alla tíð. Guðrún Björg og Magnús eignuðust sam- an fjögur börn. Þau eru: 1) Val- gerður, f. 31. janúar 1950, gift Elíasi Þorsteinssyni, f. 22. febrúar 1946, þau eiga eina dótt- ur, Guðrúnu Björgu. 2) Auður, f. 5. mars 1953, gift Marko Lekay, f. 12. ágúst 1951, þau eiga tvo syni, Magnús og Ró- bert. 3) Erna, f. 15. maí 1954, gift Rad- islav Vidakovic, f. 28. júlí 1963, þau eiga eina dóttur, Söru Björgu. 4) Skúli, f. 14. febrúar 1961, ókvæntur. Guðrún Björg átti tvö börn áð- ur en hún giftist Magnúsi. Þau eru: 1) Sigrún Bjarglind Valdi- marsdóttir, f. 24. apríl 1941, gift Ingólfi Ingólfssyni, f. 28. nóvem- ber 1937, eiga þau fimm börn, Ingólf Björgvin, Valdimar Ómar, Ævar, Þórdísi Björgu og Heiðu. 2) Mikael Sigurðsson, f. 30. sept- ember 1943, kvæntur Ebbu Sig- urhjartardóttur, f. 8. ágúst 1945, og eiga þau þrjú börn, Magnús Jóhann, Eydísi og Nínu. Lang- ömmubörn Guðrúnar Bjargar voru orðin tuttugu. Útför Guðrúnar Bjargar fer fram frá Neskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30. Horfin er á braut elskuleg móð- ursystir mín, Guðrún Björg Sig- urðardóttir, kölluð Bogga móður- systir. Með henni er horfin heil kynslóð úr móðurætt minni. Ég minnist Boggu fyrir margt. Stór- brotinn persónuleiki hennar lét engan ósnortinn sem kynntist henni. Hún var mikil í öllu, útliti, framkomu, hjartahlýju, viðurgjörn- ingi og öllu sem hún kom nærri. Ég minnist þess sem barn þegar hún kom heim til Húsavíkur með hrokkinkollana sína á leið til Rauf- arhafnar í síldina, hve allt lifnaði við. Mikið hlegið og talað hátt. Ég minnist heimsókna út í Hrísey, meðan hún bjó þar með Magga sín- um og börnum, og ýmissa atvika, t.d. hvað ég grét yfir því að fá ekki lús í hárið eins og frænkur mínar, mér fannst ég víst höfð útundan, því þær fengu mikla athygli vegna þessa. En það var ekki háttur Boggu að skilja einhvern útundan. Eftir að þau hjón fluttu til Reykjavíkur og stofnuðu heimili á Ægissíðu 50 varð það griðastaður okkar hjóna í Reykjavík á náms- árunum. Alltaf var hægt að koma þangað, nóg pláss þótt fermetrarn- ir væru ekki margir og nóg að borða. Ægissíðan líktist meira stóru sveitaheimili en heimili í borg. Fullt hús matar af kjarngóð- um íslenskum mat og ef fátækir námsmenn, eins og við vorum oft, áttu ekki fyrir mat þá var ekki amalegt að eiga Boggu að. Ein jólin komumst við ekki norður og hvað var sjálfsagðara en að bæta þrem- ur við þau níu sem fyrir voru í jóla- haldið og þröngt máttu sáttir sitja. Þetta voru yndisleg jól og eina hefð frá þessum jólum höfum við í okkar jólahaldi enn í dag. Eftir að við fluttum norður og lengra varð á milli fækkaði heim- sóknunum en aldrei komum við suður nema að hitta Boggu og allt- af vorum við jafnhjartanlega vel- komin. Ómetanlegt var að eiga hana að þegar mamma barðist við sjúkdóm sinn á Landspítalanum því að hjá henni áttum við pabbi at- hvarf. Ég held við höfum aldrei þakkað það sem skyldi en þannig var Bogga, hún gaf án þess að ætl- ast til að fá eitthvað til baka. Ég veit að vel hefur verið tekið á móti henni í nýjum heimkynnum af þeim sem eru á undan gengnir. Blessuð sé minning hennar og hafi hún þökk fyrir allt. Elsku Sigrún, Mikki, Vallý, Auð- ur, Erna, Skúli og fjölskyldur. Guð gefi ykkur styrk í sorginni. Hugur okkar allra dvelur með ykkur. Ykkar Anna Ólafsdóttir. Hún mamma er dáin. Þetta hljómar dálítið einkennilega, mamma sem alltaf var til staðar og hugurinn var oft hjá. Það er dálítið skrítið að skrifa minningargrein um hana núna, hún sem alltaf var svo hress og ekkert amaði að, hún kvartaði aldrei og þegar hún var spurð um líðan þá svaraði hún alltaf: „Ég hef það gott.“ Eitt er þó víst, við deyjum öll, það vitum við en þegar kallið kemur þá hrökkva allir við og öll- um er brugðið. Mamma greindist með krabba- mein í september 1999 og kom sú frétt eins og reiðarslag, á þessu átti enginn von, það kom fljótlega í ljós að meinið var svo langt gengið að engin meðferð dygði til að hefta framgöngu sjúkdómsins, hún tókst á við örlög sín og barðist af hörku og lét ekki bugast, hún var hörku- tól. Mamma hafði alla tíð þurft að standa svo til ein í uppeldi allra sinna barna og var það ekki alltaf auðvelt, pabbi vann alla tíð fjarri heimilinu og kom það í hlut mömmu að vera bæði bíll og bíl- stjóri. Hún kom okkur öllum til manns og höfum við öll komist áfram í líf- inu svo til áfallalaust, hún var stolt af börnunum sínum. Þótt hún segði okkur það sjaldan þá dáðist hún að því barnaláni sem hún nyti á við aðra. Mamma vann ekki utan heimilis meðan við vorum ung , hún var allt- af til staðar. Hún var mikil hann- yrðakona og féll henni aldrei verk úr hendi. Hún var meira að segja að prjóna lopapeysu og trefil fjór- um dögum fyrir andlát sitt. Hún kvartaði aldrei þótt oft væri ástæða til, það var ekki hennar stíll. Mamma var vinmörg og átti hún marga góða vini sem voru vinir í raun, það sýndi sig í veikindum hennar núna. Hún var ekki alltaf auðveld í samskiptum en trygglynd var hún og vinur vina sinna. Hún var hreinskiptin og féll það ekki alltaf í kramið eins og gengur. En nú er þessi sómakona gengin á vit feðra sinna og viljum við þakka öllum þeim sem studdu hana í veikindum hennar og má þar fyrst þakka vinkonu hennar, henni Sig- rúnu Runólfsdóttur, sem létti henni stundirnar með spjalli í síma og heimsóknum, Ingibjörgu Sveinsdóttur, sem kom og þreif hjá henni og veitti henni ómetanlega aðstoð með hlýrri framkomu og viðmóti, lækninum, honum Karli á kvennadeild Landspítala við Hringbraut, hann er kominn í dýr- lingatölu, svo dásamlega talaði hún um hann, hann reyndist henni ómetanlegur á erfiðum stundum. Hún treysti honum fullkomlega, einnig öðru starfsfólki á kvenna- deild, svo og starfsfólki hjá heima- hlynningu krabbameinssjúkra, Margréti vinkonu hennar á Ægis- íðu og að lokum er þakkað öllu starfsfólki á „Kærleiksheimilinu“, sem er líknardeild Landspítalans í Kópavogi. Þar naut hún umönnun- ar og kærleiks sem er ólýsanlegur. Það er vart hægt að finna annan eins stað fullan af dásamlegu starfsfólki og þar, þar naut hún sín fullkomlega og þar endaði hún líf sitt sátt við guð og menn. Við vilj- um að lokum þakka öllum öðrum sem léttu henni lífið í veikindum hennar. Guð geymi minningu henn- ar. Börnin. GUÐRÚN BJÖRG SIGURÐARDÓTTIR Sími 562 0200 Erfisdrykkjur Davíð Osvaldsson útfararstjóri Sími 551 3485 • Fax 568 1129 Áratuga reynsla í umsjón útfara Önnumst alla þætti Vaktsími allan sólarhringinn 896 8284
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.