Morgunblaðið - 07.11.2001, Page 23
ERLENT
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 7. NÓVEMBER 2001 23
MÖRG hundruð arabískir hermenn
sem talið er að hafi tengsl við Osama
bin Laden fengu afganskan ríkis-
borgararétt í tíð fyrrverandi ríkis-
stjórnar landsins, en leiðtogar hennar
njóta nú aðstoðar Bandaríkjanna í
baráttu sinni við stjórn talibana.
Kemur þetta fram í skjölum sem
fulltrúar talibana sýndu fréttamanni
Associated Press í Kabúl.
Skjölin eru rituð á dari, tungumáli
sem talað er í Afganistan, og sýna að
604 mönnum frá löndum á borð við
Alsír, Líbýu, Sádi-Arabíu og Egypta-
land var veittur afganskur ríkisborg-
araréttur í mars 1993 af þáverandi
forseta landsins, Burhanuddin Rabb-
ani.
Rabbani var steypt af stóli af talib-
önum 1996 og er nú leiðtogi Norður-
bandalagsins, sem berst gegn yfirráð-
um talibana. Bandaríkjamenn hafa
gert loftárásir á stöðvar talibana í
þeirri von að Norðurbandalagið nái
borginni Mazar-e-Sharif, í norður-
hluta landsins, og öðrum stórum
borgum.
Í skjölunum eru ekki nafngreindir
neinir sem vitað er að séu félagar í al-
Qaeda-samtökum bin Ladens er
tengjast hryðjuverkunum í Banda-
ríkjunum 11. september, sem urðu
4.500 manns að bana. En skjölin
renna stoðum undir fullyrðingar
þeirra, sem gagnrýnt hafa Norður-
bandalagið á þeim forsendum að sum-
ir frammámenn í því hafi haft náin
tengsl við öfgafulla múslima allar göt-
ur síðan í stríðinu gegn Sovétmönn-
um 1979–89.
Arabískir hermenn eru kjarninn í
al-Qaeda-hreyfingunni, og komu
sumir þeirra til Afganistans til að
berjast gegn sovésku innrásarliði.
Aðrir hafa ekki getað snúið aftur til
síns heima vegna niðurrifsstarfsemi
þar. Með því að veita þeim ríkisborg-
ararétt gerði ríkisstjórn Rabbanis
hermönnunum – sem nefndir eru af-
ganskir arabar – kleift að vera um
kyrrt í Afganistan til frambúðar.
Sjálfur flutti bin Laden til Afgan-
istans 1996, nokkrum mánuðum áður
en stjórn Rabbanis var steypt af stóli
í Kabúl, en ekki er vitað hvort bin
Laden var nokkurntíma veittur rík-
isborgararéttur. Hann kom til Afgan-
istans frá Súdan eftir að þrýstingur
frá Bandaríkjamönnum varð til þess
að súdönsk yfirvöld báðu hann að fara
úr landi.
Talið er að þegar bin Laden var
kominn til Afganistans hafi hann leit-
að stuðnings arabískra hermanna úr
stríðinu gegn Sovétríkjunum – bæði í
Afganistan og annars staðar – og
hvatt þá til að halda baráttunni áfram
sem liðsmenn al-Qaeda.
Gagnrýnendur óttast margir að
Bandaríkjamenn og bandamenn
þeirra muni á endanum sitja uppi með
nýja leiðtoga í Afganistan sem hafi
sjálfir tengsl við meðlimi í al-Qaeda,
ef Norðurbandalagið kemst til valda.
Hamid Gul, fyrrverandi hershöfðingi
og yfirmaður pakistönsku leyniþjón-
ustunnar, kveðst telja að sumir ráða-
menn Norðurbandalagsins hafi enn
sambönd við arabíska öfgamenn, og
að „einn góðan veðurdag muni þeir
beina byssum sínum“ að Bandaríkja-
mönnum og bandamönnum þeirra.
Bandarískir embættismenn hafa
ítrekað sagt að þeir eigi sameiginlegt
með Norðurbandalaginu það mark-
mið að koma talibönum á kné – en
ekki sé þar með sagt að bandarísk
stjórnvöld og Norðurbandalagið hafi
sömu langtímamarkmið. John
Stufflebeem, talsmaður bandaríska
varnarmálaráðuneytisins, komst svo
að orði í síðustu viku:
„Við hvikum ekki frá leikáætlun
okkar, markmiðum okkar ... Þegar
hún er sú sama og það sem Norður-
bandalagið hefur í huga er ekki nema
gott eitt um það að segja. En við mun-
um ekki samræma leikáætlun okkar
þeirra áætlun, og við væntum þess
heldur ekki að þeir samræmi sína
okkar. Þannig að við veitum hvorir
öðrum gagnkvæman stuðning.“
Óttast tengsl
Norðurbanda-
lagsmanna við
öfgasinna
Reuters
Hermenn Norðurbandalagsins hlýða á fyrirmæli í þjálfunarbúðum
skammt frá Deshitiqala í norðurhluta Afganistans.
Kabúl. AP.
MIKIL umræða fer nú fram í Sví-
þjóð um hlutleysisstefnuna sem Sví-
ar hafa haldið sig við í alþjóðamálum
undanfarin tvö hundruð ár. Endalok
kalda stríðsins og breytt heimsmynd
hafði þegar valdið því, að Svíar fóru í
naflaskoðun hvað hlutleysið varðaði,
en eftir atburðina 11. september sl.
viðurkenna sænskir stjórnmála-
menn nú að erfitt sé að komast hjá
því að taka afstöðu eftir að menn hafi
horft upp á árásir sem beinist gegn
sjálfum lífsgildum Vesturlandaþjóð-
anna.
Svíar voru hlutlausir í báðum
heimsstyrjöldunum á síðustu öld og
jafnframt í kalda stríðinu, sem skipti
veröldinni í áhrifasvæði stórveld-
anna tveggja, Bandaríkjanna og
Sovétríkjanna sálugu. Fyrir um ári
boðaði ríkisstjórn Jafnaðarmanna-
flokks Görans Perssons hins vegar
endurmat á viðhorfi Svía í öryggis-
og varnarmálum og sagði þá að fall
járntjaldsins í Austur-Evrópu hefði
nánast eytt þeirri gjá milli austurs
og vesturs sem mótaði stefnu Sví-
þjóðar.
Hafa stjórnmálamenn úr öllum
flokkum lýst þeirri skoðun, í kjölfar
árásanna á Bandaríkin í september,
að hlutleysi sé nú ekki aðeins úrelt
hugtak heldur óverjandi afstaða við
núverandi aðstæður. „Þótt hlutleysi
sé einn af kostum okkar er ekki þar
með sagt að við séum tilneydd til að
vera hlutlaus. Við erum sannarlega
ekki hlutlaus í baráttunni gegn
hryðjuverkum. Við tökum þátt í
þeirri baráttu rétt eins og allir aðrir
vinir Bandaríkjanna,“ segir Hans
Dahlgren, aðstoðarutanríkisráð-
herra Svíþjóðar.
Hafa tekið upp
samstarf við NATO
Göran Persson og Anna Lindh, ut-
anríkisráðherra Svíþjóðar, hafa bæði
heitið Bandaríkjunum aðstoð í þeim
hernaðaraðgerðum sem nú standa
yfir og beinast gegn Osama bin Lad-
en, sem grunaður er um hryðjuverk-
in 11. september, og talibanastjórn-
inni í Afganistan. Fram að þessu
hefur sú aðstoð aðeins falið í sér mór-
alskan stuðning en hún markar engu
að síður þáttaskil enda hefði hvers
konar stuðningsyfirlýsing við hern-
aðaraðgerðir sem þessar fengið
fjarska slæmar undirtektir fyrir
aðeins nokkrum árum.
Svíar hafa í gegnum
tíðina verið býsna
ánægðir með
hlutleysis-
stefnuna en
tilraunir stjórn-
valda á undan-
förnum áratug til
að taka á sig
stærri byrðar í al-
þjóða öryggis-
málum njóta þó
dágóðs stuðnings
meðal almenn-
ings, a.m.k. ef
eitthvað er að
marka nýlegar skoðanakannanir.
Þar er t.d. um að ræða þátttöku í
friðargæslusveitum í Kosovo, er lúta
yfirstjórn Atlantshafsbandalagsins,
NATO, auk annarra friðargæslu-
starfa á vegum Sameinuðu þjóðanna.
Jafnframt hafa Svíar á vettvangi
Evrópusambandsins tekið þátt í að
móta eins konar Evrópuher, er væri
ætlað að geta brugðist skjótt við vá
er að álfunni steðjaði.
Flestir eru enn andsnúnir
aðild að NATO
„Breytingin er sú að Svíar hafa
núna sjálfdæmi um það hvort þeir
láta til sín taka. Við getum núna gert
hluti í samstarfi við önnur lönd sem
við hefðum ekki getað á tímum kalda
stríðsins,“ segir Dahlgren og vísar
Svíar í naflaskoðun
Hlutleysisstefnan á undanhaldi í kjölfar hryðjuverka
Los Angeles Times.
þar til samstarfsins við NATO, sem
án efa hefði reitt nágrannann í austri
til reiði þegar Sovétríkin voru og
hétu.
Sænska stjórnin er sem fyrr mót-
fallin formlegri aðild að NATO, rétt
eins og meirihluti þjóðarinnar. Þann-
ig sýna kannanir að 65% Svía eru
andsnúin NATO-aðild en á sama
tíma eru flestir Svíar hlynntir þátt-
töku í friðargæsluverkefnum og mót-
un varnarstefnu á vettvangi ESB.
Stjórnmálaleiðtogar telja eigi að síð-
ur aukin færi á samstarfi við NATO
með það að markmiði að leggja nokk-
uð af mörkum til friðsamlegri heims-
myndar.
Hlutleysi er því ekki lengur
óhagganleg stjórnarstefna í Svíþjóð
þegar kemur að þeim deilum, sem
hæst ber í heiminum á hverjum tíma.
Hitt er ljóst að flestir eru Svíar á
þeirri skoðun að enga nauðsyn beri
til þess að svo stöddu að leggja alger-
lega þeirri stefnu, að landið skuli
standa utan hernaðarbandalaga.
Hætt er hins vegar við að naflaskoð-
un Svía aukist enn að umfangi ef
NATO býður Eystrasaltsríkjunum
þremur, Lettlandi, Litháen og Eist-
landi, inngöngu í bandalagið.
PAKISTANSKIR stjórnarerindrek-
ar sögðu í gær að bandarísk herþyrla
hefði brotlent í Balúkistan í Suðvest-
ur-Pakistan á mánudag eftir að hafa
lent í skothríð frá hersveitum talib-
ana í Afganistan. Talibanar sögðu
fjóra bandaríska hermenn hafa fallið
í árásinni en þyrlan er sögð hafa
hrapað til jarðar nærri Dalbandin-
herflugvellinum, við landamæri Afg-
anistans og Pakistans.
Fulltrúar Bandaríkjastjórnar
báru fregnirnar til baka en Pakist-
anar sögðu hins vegar að enn mætti
sjá brak úr þyrlunni á staðnum, þar
sem hún skall til jarðar. „Þyrlan varð
fyrir skothríð yfir Afganistan en
tókst að fljúga yfir til Pakistans þar
sem hún brotlenti. Bandaríkjamenn
reyndu í kjölfarið að fjarlægja brak-
ið,“ sagði ónafngreindur stjórnarer-
indreki í Balúkistan. „Þeim tókst að
hafa meirihluta þess á brott með sér
en það má þó enn finna leifar úr þyrl-
unni á slysstaðnum.“
Jay Steuck, talsmaður bandaríska
varnarmálaráðuneytisins í Pakistan,
sagðist ekki geta staðfest þessar
fregnir. Pakistanskar fréttastöðvar
höfðu hins vegar eftir íbúum á svæð-
inu að atburður þessi hefði átt sér
stað aðfaranótt mánudags.
Bandarísk herþyrla brotlenti í
vondu veðri í Afganistan á föstu-
dag en fjögurra manna
áhöfn var bjargað.
Bandarískar her-
flugvélar eyði-
lögðu síðar
þyrluna.
Segjast hafa
grandað þyrlu
Quetta í Pakistan. AFP.
Göran Persson