Morgunblaðið - 05.03.2002, Page 10
FRÉTTIR
10 ÞRIÐJUDAGUR 5. MARS 2002 MORGUNBLAÐIÐ
ÁRNI M. Mathiesen sjávarútvegs-
ráðherra mælti fyrir frumvarpi til
laga um breytingu á lögum um
stjórn fiskveiða á Alþingi í gær en í
frumvarpinu er m.a. lagt til að lagt
verði á 9,5% veiðigjald á handhafa
aflaheimilda. „Í frumvarpinu er gert
ráð fyrir því að lagt verði á magn- og
afkomutengt veiðigjald,“ sagði ráð-
herra. „Með því móti næst fram
hvort tveggja í senn tenging við af-
komu og magn veiðiheimilda hverju
sinni. Er hér um að ræða útfærslu á
hugmyndum nefndar um endurskoð-
un laga um stjórn fiskveiða. Er
gjaldið fundið út með því að draga
helstu kostnaðarliði útgerðarinnar,
olíu-, launa- og annan rekstrarkostn-
að ákveðins tímabils frá aflaverð-
mæti sama tímabils. Gerir frumvarp-
ið ráð fyrir að 9,6% þeirrar
fjárhæðar sem eftir stendur, reiknuð
í krónum á þorskígildiskílógrömm,
verði lögð á þorskígildiskílógrömm
komandi fiskveiðiárs. Til þess að fyr-
irtæki geti lagað rekstur sinn að
breytingum er lagt til að veiðigjaldið
verði tekið upp í áföngum á árunum
2004 til 2000,“ sagði ráðherra í fram-
söguræðu sinni.
Ráðherra ítrekaði að yrði frum-
varpið að lögum hefði það auknar
álögur á sjávarútveginn í för með
sér. Að lokum sagði ráðherra: „Hér
hef ég fylgt úr hlaði frumvarpi mínu
sem m.a. felur í sér að leggja skuli
veiðigjald á sjávarútveginn sem er í
samræmi við þingsályktun þá sem
Alþingi samþykkti og kvað á um að
innheimta skyldi hóflegt veiðigjald.
Síðan hefur verið fjallað um það í
auðlinda- og endurskoðunarnefnd-
um. Ég gat þess í upphafi ræðu
minnar að þingsályktunin um auð-
lindagjald hefði verið samþykkt hér
á Alþingi mótatkvæðalaust. En auð-
vitað vitum við að ýmsir voru á móti
gjaldtöku af þessu tagi og það eru
því einmitt þeir sem mest hafa gefið
eftir í því skyni að skapa sátt um
stjórnun veiða á Íslandsmiðum.“
Ekki tekið á
því sem skiptir máli
Jóhann Ársælsson, þingmaður
Samfylkingarinnar, hóf mál sitt á því
að velta því upp hvort frumvarp ráð-
herra svaraði kallinu um að koma á
„réttlæti í sjávarútvegi“, eins og
hann orðaði það. Síðan sagði hann:
„Svar mitt við því er alveg klárt nei.
Það er ekki verið að taka á neinu af
því sem skiptir mestu máli í þessu
deilumáli, þ.e. það er ekki verið að
koma á jafnræði til að nýta auðlind
hafsins. Um það hefur deilan staðið
frá upphafi, þ.e. að fólki eða þeim
sem vilja taka þátt í þessum atvinnu-
rekstri er mismunað til að taka þátt í
honum.“ Síðan sagði hann: „Þessi
niðurstaða mun leiða til þess að kerf-
ið lokast enn frekar, einfaldlega
vegna þess að þeir sem fyrir eru í
kerfinu fá veiðiheimildirnar áfram á
silfurfati; þurfa ekki að kaupa veiði-
heimildir af öðrum, þeir eru í ennþá
betri stöðu í samkeppni við hina, sem
þurfa að kaupa veiðiheimildir af
þeim sem fyrir eru og borga nýtt
gjald ofan á.“
Kristinn H. Gunnarsson, formað-
ur þingflokks framsóknarmanna,
sagði m.a. að ekki væri hægt að segja
að frumvarpið væri íþyngjandi fyrir
útgerðina. „Breytingarnar á því að
taka upp veiðigjald frá því sem við
höfum verið með eru ekki mjög mikl-
ar,“ sagði hann. Síðar sagðist hann
ekki gera ráð fyrir því að tillögur
þær sem fram kæmu í frumvarpinu
yrðu varanlegar. „Ég tel þær ekki
líklegar til að lægja öldurnar um
kerfið. Það eru aðrir sem eru ann-
arrar skoðunar og trúa því að þetta
geti orðið viðunandi niðurstaða. Tím-
inn verður að leiða í ljós hver hefur
rétt fyrir sér í þeim efnum.“
Auðlindagjaldið skálkaskjól
Sverrir Hermannsson, formaður
Frjálslynda flokksins, sagðist hafa
leitað logandi ljósi í frumvarpinu að
einhverri breytingu sem teldist geta
verið bitastæð en ekkert fundið.
„Auðlindagjald á að vera skálka-
skjólið, á að sýna breytinguna, ein-
hverja nýja byltingu í þessum mál-
um. En allt annað í kerfinu á að vera
óbreytt,“ sagði hann. Síðar sagði
hann að ekkert frumvarp eins og
þetta hefði verið lagt fram nema með
fullu samþykki, vitund og vilja
Landssambands íslenskra útvegs-
manna. „Samt eru menn að tala um
sættir þegar svo virðist sem allir séu
eiginlega á móti þessu,“ sagði hann.
Bætti hann því við að aðeins einn
hópur mann fylgdi þeim hugmynd-
um sem fram kæmu í frumvarpinu af
alúð en það væri þingflokkur Sjálf-
stæðsflokksins. „Alveg frá upphafi
var enginn sáttahugur í mönnum.
Þetta var kosningabrella sem for-
maður Sjálfstæðisflokksins fann
upp,“ sagði hann. „Auðlindanefndin,
– innan hennar var haldið á floti
þessari aðferð sem menn komust frá
upphafi að niðurstöðu um; óbreyttu
kerfi. Skeytt við auðlindagjaldi sem
allir vissu að yrði aðeins til mála-
mynda.“
Árni Steinar Jóhannsson, þing-
maður Vinstrihreyfingarinnar –
græns framboðs, sagði m.a. að það
yrði að koma skýrt fram að frum-
varpið breytti í engu fiskveiðistjórn-
unarkerfinu. „Það frekar stuðlar að
því að framkalla frekari ágalla þess
kerfis sem við höfum búið við og er-
um svo óánægð með; frekari sam-
þjöppun í útgerðinni, færri og stærri
fyrirtæki, gríðarlegan byggðavanda
og möguleika manna á því að fara
með verulegar fjárhæðir út úr grein-
inni. Og þetta eru hlutir sem við get-
um og þjóðin engan veginn sætt okk-
ur við.“
Umræður um frumvarpið stóðu
fram eftir kvöldi í gær.
Stjórnarandstæðingar gagnrýndu frumvarp sjávarútvegsráðherra á þingi í gær
Segja veiðigjaldið að-
eins til málamynda
Stjórnarandstæðingar á Alþingi sögðu í
gær enga sátt felast í frumvarpi sjávarút-
vegsráðherra um 9,5% veiðigjald. Árni M.
Mathiesen mælti fyrir frumvarpinu og
sagði að með því væri verið að leggja aukn-
ar álögur á sjávarútveginn.
Morgunblaðið/Golli
Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra mælti fyrir frumvarpinu.
HEGNINGARHÚSIÐ við Skóla-
vörðustíg verður lokað frá 18. maí til
9. september í sumar og hluti fang-
elsisins á Litla-Hrauni verður sömu-
leiðis lokaður frá 1. maí fram í miðj-
an september vegna fjárskorts hjá
Fangelsismálastofnun ríkisins. Um
35 milljónir króna vantar upp á til að
hægt verði að komast hjá lokunum í
sumar og hafa lokanirnar það í för
með sér að dómþolar verða að bíða
fram til sumars eða hausts eftir boð-
un í afplánun.
Í heildina þarf að fækka plássum
úr 138 í 100, 22 á Litla-Hrauni og 16 í
Hegningarhúsinu við Skólavörðu-
stíg. Þorsteinn A. Jónsson, forstjóri
Fangelsismálastofnunar, segir þær
617 milljónir króna sem stofnun fær
til reksturs á þessu ári, ekki duga til
að halda öllum fangaplássum opnum
og því þurfi að grípa til umræddra
ráðstafana.
„Ég tel að til þess að halda Hegn-
ingarhúsinu opnu í sumarleyfi þurfi
15 milljónir og 20 milljónir til við-
bótar vegna deildarinnar á Litla-
Hrauni,“ segir Þorsteinn. Um er að
ræða svokallað Hús 3 á Litla-
Hrauni, sem tekið var í notkun árið
1971.
Reynt að gæta fyllsta
réttaröryggis
Þorsteinn segir að þrátt fyrir
þetta ástand verði reynt að gæta
fyllsta réttaröryggis aðspurður
hvort allir sakamenn verði látnir
bíða eftir boðun í afplánun án tillits
til eðlis brota þeirra. „Þeir sem eru
væntanlega dæmdir fyrir alvarleg
brot eða ítrekuð brot verða látnir
ganga fyrir,“ segir hann og bendir
aðspurður á að dómþolar í mann-
drápsmálum sæti alla jafna gæslu-
varðhaldi þar til dómur fellur og því
fari ekki svo að dæmdir morðingjar
muni ganga lausir á meðan þeir bíða
boðunar í afplánun.
Þorsteinn segir að rekja megi
hluta rekstrarerfiðleika Fangelsis-
málastofnunar til þess að illa hafi
gengið að afla sértekna, sem eru um
10% af fjárveitingum til stofnunar-
innar. „Stærstur hluti sérteknanna
er fyrir framleiðslu á bílnúmeraplöt-
um og samdráttur í bílainnflutningi
hefur þar af leiðandi bein áhrif á að
við getum staðið við þær forsendur
fjárlaga að afla þessara tekna.“
Er til skoðunar
Sólveig Pétursdóttir dómsmála-
ráðherra sagði á Alþingi í gær að
hún hefði rætt sérstaklega við fjár-
málaráðherra, Geir H. Haarde, um
fjárhagsvanda Fangelsismálastofn-
unar. „Það er ljóst að fjárhagsstaða
fangelsanna er afar slæm,“ sagði
hún og bætti við: „En verið er að
vinna í þessu máli.“ Stjórnarand-
stæðingar tóku málið upp í upphafi
þingfundar í gær og kváðust margir
þeirra hafa áhyggjur af stöðu fang-
elsanna vegna fjárhagsvanda Fang-
elsismálastofnunar. Þá minntust
þeir á 50% hækkun almennra núm-
eraplatna sem framleiddar væru á
Litla-Hrauni. Sagðist Lúðvík Berg-
vinsson, þingmaður Samfylkingar-
innar, telja þá hækkun sérstaka í
ljósi þess að Davíð Oddsson for-
sætisráðherra hefði „gengið á milli
manna,“ eins og hann orðaði það „í
þeim erindagjörðum að tryggja að
verðhækkanir verði haldið í lág-
marki.“
Dómsmálaráðherra greindi frá því
að gripið hefði verið til þess ráðs að
auka tekjur fangelsanna með því að
hækka verð á almennum númera-
plötum í samræmi við kröfur fjár-
laga um sértekjur fangelsanna.
Sagði hún að skv. upplýsingum frá
Hagstofunni hefðu þær hækkanir
hverfandi áhrif á vísitölútreikninga.
Bætti hún því þó við að hækkun
númeraplatnanna nægði ekki til þess
að tryggja að ekki þyrfti að grípa til
lokunar fangelsa að hluta til í sumar
til að mæta rekstrarvanda stofnun-
arinnar.
Að lokum kvaðst ráðherra vera
sammála þingmönnum um það að
ástand Fangelsismálastofnunar væri
ekki nógu gott. „Ég vil svo sannar-
lega að við fáum úrbætur í þessu
máli.“
Ekki unnt að boða dómþola í afplánun fyrr en síðar á árinu
Grípa þarf til lokana í fang-
elsum vegna fjárskorts REYKJAVÍKURLISTINN mælist
með 56,9% fylgi þeirra sem afstöðu
taka í nýrri fylgiskönnun DV um
stuðning framboðslista fyrir borgar-
stjórnarkosningarnar í vor en Sjálf-
stæðisflokkurinn mælist með 39,5%
stuðning þeirra sem afstöðu taka.
Skv. þessari niðurstöðu fengi R-list-
inn níu borgarfulltrúa en D-listinn
sex ef kosið yrði nú. 3,6% þeirra sem
afstöðu tóku sögðust mundu kjósa
önnur framboð.
Ríflega tveir af hverjum tíu hafa
enn ekki gert upp hug sinn skv.
könnuninni, sem gerð var sl. laug-
ardag og sunnudag. 82,3% aðspurðra
tóku afstöðu í könnuninni samanbor-
ið við 79,5% í könnun sem DV gerði í
janúar. Ef litið er til alls úrtaksins er
niðurstaða könnunarinnar sú að
32,5% sögðust mundu styðja D-
listann, 46,8% R-listann, 2,2%
Frjálslynda flokkinn, 0,2% úthverfa-
lista og 0,7% aðra lista. 12% voru
óákveðnir og 5,7% neituðu að svara.
Mun fleir konur sögðust ætla að
kjósa R-listann en Sjálfstæðisflokk-
inn. Úrtakið í könnuninni var 600
manns í Reykjavík.
Fylgiskönnun DV
R-listi
mælist með
56,9% fylgi