Morgunblaðið - 24.03.2002, Síða 16

Morgunblaðið - 24.03.2002, Síða 16
16 SUNNUDAGUR 24. MARS 2002 MORGUNBLAÐIÐ FÁAR hljómsveitir hafa feng-ið annað eins fljúgandistart og bandarísra rokk-sveitin The Strokes sem breska popppressan kepptist um að lofsyngja á síðasta ári. Þegar út kom fyrsta smáskífa sveitarinnar, sem á voru prufuupptökur þriggja laga, undir lok janúar á síðasta ári, hófst lýsingarorðakeppni bresku poppblaðanna og þau sem gengu lengst sögðu sveitina fela í sér framtíð rokksins; The Strokes væri besta rokksveit Bandaríkj- anna síðan Velvet Underground sendi frá sér fyrstu plötuna 1967. Breiðskífa Strokes, sem kom svo út um sumarið, fékk álíka mót- tökur og var víða á listum yfir bestu plötur ársins. Því er þetta rifjað upp að hljómsveitin The Strokes heldur tónleika hér á landi á Hótel Íslandi 2. apríl næstkom- andi. Vellystingar og einkaskólar Strokes-félagar eru flestir aldir upp í vellystingum og einkaskól- um, og þannig eyddi leiðtogi sveit- arinnar, Julian Casablancas, sonur stofnanda Elite fyrirsætufyrirtæk- isins, unglingsárunum í L’Institut Le Rosey einkaskólanum sviss- neska. Þar kynntist hann Albert Hammond yngri, syni Alberts Hammonds sem var gríðarlega vinsæll í upphafi áttunda áratug- arins og hefur verið afkastamikill lagasmiður síðan. Þeir félagar náðu vel saman fyrir sameiginleg- an tónlistaráhuga, en Hammond var liðtækur gítarleikari eins og hann á kyn til. Casablancas hafði lengi ætlað sér að verða tónlist- armaður og kynnin af Hammond urðu til þess að hann fór að semja lög á fullu, en áður en lengra var haldið var náminu í Sviss lokið. Hammond sneri heim til Kaliforn- íu en Casablancas til heimilis síns í New York. Meðal kunningja Casablancas í New York var trommuleikarinn Fab Moretti, en þeir höfðu kynnst í Dwight-einkaskólanum á Man- hattan. Þeir stofnuðu hljómsveit 1998 og kölluðu til tvo kunningja sína, gítarleikarann Nick Valensi og bassaleikarann Nikolai Frait- ure. Ári síðar fluttist Hammond til New York til að fara í kvikmynda- skóla og Casablancas var ekki seinn á sér að fá hann til liðs við sveitina. Casablancas segir að þeir hafi byrjað á því að henda öllum lögum sem kvartettinn hafði verið að æfa og byrja upp á nýtt með nýjan hljóm og nýjan stíl. Æft á nóttunni Casablancas gaf sveitinni nafnið The Strokes og út árið 1999 æfðu þeir félagar sig í Tónlistarhúsinu í New York. Að því er Casablancas segir deildu þeir æfingaplássi með þremur sveitum öðrum og þurfu að sæta lagi að komast að, mættu stundum kl. þrjú á nóttunni og æfðu fram undir morgun er þeir þurftu að víkja fyrir öðrum. Haustið 1999 hélt sveitin sína fyrstu tónleika í Spiral klúbbnum, var með sex lög æfð og tilbúin til flutnings, en þeir félagar segja að tónleikagestir hafi verið fjórir eða fimm. Þrátt fyrir litla mætingu þótti sveitinni hafa tekist svo vel upp að auðsótt var að komast að í öðrum búllum. Næstu mánuði léku þeir félagar á flestum tónleikabör- um New York og náðu svo langt að vera boðið að spila á tveimur helstu stöðunum, Mercury Lounge og Bowery Ballroom. Kynningarupptökur á plast Haustið 2000 fóru Strokes fé- lagar í ódýrt kjallarahljóðver í New York og tóku upp nokkur lög sem kynningarútgáfur. Um líkt leyti náðu þeir sér í umboðsmann, Ryan Gentles, sem sendi upptök- urnar til ýmissa útgáfufyrirtækja. Sá fyrsti sem áttaði sig á hvað væri á ferðinni var Geoff Travis, eigandi og stjóri Rough Trade út- gáfunnar bresku, sem fór strax fram á að fá að gefa út fyrstu upp- tökurnar á smáskífu. Það gekk eft- ir og í framhaldi tóku stórfyrir- tækin að bítast um sveitina í Bandaríkjunum og hreppti RCA hnossið. Þeir félagar segja það segja sitt um ástandið í bandarísku rokki að það hafi verið breskt fyrirtæki sem varð fyrst til að átta sig á hvað væri á seyði. „Bandarískar útgáfur eru svo uppteknar af því að gera MTV til geðs og græða peninga að þær hafa engan áhuga á listinni.“ Ekki vert að æsa sig um of Þeim liggur reyndar mikið á hjarta þegar rætt er um banda- rískan tónlistariðnað, en segja þó að ekki sé vert að æsa sig um of, það sé eins og að vera fúll út í Kók eða hvað annað stórfyrirtæki. „Menn hafa einfaldlega lært að græða peninga og eru í því á fullu, ráða lagasmiði sem eru búnir að stúdera Bítlana, músíkanta sem geta spilað og sæta dansara sem geta sungið,“ segir Casablancas og heldur áfram: „Ég held að fólk falli þó ekki fyrir þessu almennt, en foreldrar kaupa þetta fyrir krakkana sína af því þeir halda að þetta sé sniðugt. Fyrir börnunum er þetta svo eins og að fá leikföng, þau eru ekkert að spá í tónlistina. Ég hef í sjálfu sér enga sérstaka skoðun á þessu, þetta kemur mér svo sem ekki við, en verð þó að viðurkenna að það fer svolítið í taugarnar á mér þegar fjölmiðlar láta eins og þetta sé tónlist, mér finnst það sorglegt að vissu leyti.“ Margir hafa haft orð á að rétt áður en sveitin kemur á svið á hverjum tónleikum heyrist gamli Cyndi Lauper slagarinn Girls Just Wanna Have Fun. Þeir segjast spila það lag vegna þess að það komi þeim í gott skap og bæta við að það sé líka til að hnippa í fólk og minna á að popplög geti líka verið svöl. Eina markmiðið að verða góðir Casablancas segist alls ekki hafa átt von á að þeir myndu ná svo langt á svo skömmum tíma. „Mér fannst líklegt að við myndum ná það langt að við gætum farið í stuttar tónleikaferðir og myndum finna einhvern sem vildi gefa okk- ur út; að við yrðum ekki frægir, hálfgerð neðanjarðarsveit eins og Built To Spill. Þegar við fórum af stað spáðum við ekki í það að verða frægir, eina markmiðið var að verða góðir, enda skiptir það meira máli. Okk- ur fannst að ef við yrðum nógu góðir myndi fólk vilja hlusta á okk- ur og þá væri allt komið.“ Brit-verðlaun og NME Eftir að fyrsta smáskífan kom út snemma á síðasta ári var Strok- es-æðið rétt að byrja á Bretlands- eyjum og fram til þess að fyrsta breiðskífan, Is this it?, kom út um sumarið kepptust bresku popp- blöðin við að lofsyngja þá félaga og ekkert dró úr viðurkenning- unum þegar breiðskífan loks kom út. Í því sambandi má geta þess að í byrjun þessa árs hlaut The Strokes Brit-verðlaunin bresku sem besti alþjóðlegi nýliðinn, og síðan þrenn verðlaun popptíma- ritsins NME: besti nýliðinn, hljómsveit ársins og fyrir bestu plötuna, Is this it?. Frá því platan kom út má segja að Strokes hafi verið á stöðugu tónleikaferðalagi um heiminn og heimaslóðir, fóru í sína fyrstu tón- leikaferð um Bandaríkin með Dov- es, en síðan tók við spilirí með Guided By Voices og And You Will Know Us By the Trail of Dead vestan hafs og austan. Fyrir vikið hefur eðlilega ekki gefist mikill tími til að semja lög. Þeir eru þó með tvö ný lög á dagskránni, Meet Me In The Bathroom og annað sem ekki er komið með heiti. Alls eiga þeir því um 50 mínútur af tónlist og spila hana alla í beit, ekkert eftir í uppklapp segja þeir. „Það er líka hallærislegt að hafa skipulagt uppklapp,“ segir Casa- blancas, „mér finnst alltaf út í hött þegar hljómsveitir eru að gera lagalista fyrir tónleika og skrifa niður hvert uppklappið á að vera. Við spilum bara allt sem við kunn- um og síðan förum við. Þeir sem kveina yfir því að við séum ekki lengur á sviðinu skilja bara ekki pælinguna.“ Fimm mínútur af músík eftir sjö tíma æfingu Casablancas semur öll lög þeirra félaga, en hann segir að þeir vinni í raun að þeim sameiginlega, því hann kemur með hugmyndir og laglínur og síðan hjálpast þeir fé- lagar við að berja þau saman, ríf- ast um framvindu og kaflaskipt- ingar og prófa sig áfram þegar þarf. Að sögn Casablancas er það framundan að ljúka við tónleika- ferðina og taka síðan nokkurra mánaða frí til að ná áttum og fara að semja lög í framhaldi af því. Hann bætir við að það skipti sveit- ina miklu að fá samfelldan tíma saman til að æfa og spila eigi henni að takast að ljúka við lög, því venjulega standi fimm mínútur af góðri músík eftir hverja sjö tíma æfingu. Eina markmiðið að verða góðir Bandaríska rokksveitin The Strokes er væntanleg hingað til lands eftir páska og heldur tónleika á Hótel Íslandi 2. apríl. Árni Matthíasson segir frá sveit- inni sem breskir hafa kallað „framtíð rokksins“. ’ Menn hafa einfaldlega lært að græðapeninga og eru í því á fullu, ráða lagasmiði sem eru búnir að stúdera Bítlana, músík- anta sem geta spilað og sæta dansara sem geta sungið. Ég held að fólk falli þó ekki fyrir þessu almennt, en foreldrar kaupa þetta fyrir krakkana sína af því þeir halda að þetta sé sniðugt. ‘

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.