Morgunblaðið - 07.09.2002, Side 4
FRÉTTIR
4 LAUGARDAGUR 7. SEPTEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
ÚTLIT er fyrir að fluttir verði inn
um 7.000 fólksbílar á þessu ári að
mati fjármálaráðuneytisins. Í ný-
birtu vefriti ráðuneytisins segir að
þessi fjöldi slagi hátt upp í end-
urnýjunarþörf bílaflotans. Miðað
við reynslutölur um endingartíma
bíla þurfi að flytja inn 7–7.500
fólksbíla á ári til að viðhalda fjöld-
anum.
Forsvarsmenn Bílgreinasam-
bandsins gagnrýna þessar fullyrð-
ingar fjármálaráðuneytisins.
„Þarna skeikar ráðuneytinu um
mörg þúsund bíla,“ segir í frétta-
tilkynningu sem Jónas Þór Stein-
arsson, framkvæmdastjóri Bíl-
greinasambandsins, sendi frá sér í
gær.
Þarf að flytja inn
12–14 þúsund bíla á ári
„Samkvæmt áætlun Bílgreina-
sambandsins þarf að flytja inn á
milli 12 og 14 þúsund nýja bíla hér
á landi til að halda í horfinu og
stuðla að eðlilegri endurnýjun.
Annars verður bílaflotinn of gam-
all, óhagkvæmur og mengandi, auk
þess sem nýjungar í öryggismálum
skila sér ekki. Meðalaldur bíla hef-
ur farið hækkandi hér á landi og er
nú hærri en almennt er í Evrópu-
löndum,“ segir Jónas.
Í vefriti fjármálaráðuneytisins
segir að sá mikli vöxtur sem varð í
innflutningi bíla á árunum 1997–
2000 hafi náð hámarki 1999 þegar
fluttir voru inn rúmlega 15.000
bílar. „Þrátt fyrir mikinn samdrátt
frá fyrra ári varð innflutningur ár-
ið 2001 nokkuð meiri en endurnýj-
unarþörfin og varð nokkur aukning
í bílaflotanum. Fyrstu 8 mánuði
þessa árs hefur bílaflotinn svo tek-
ið að vaxa hraðar á ný. Fólksbíla-
floti landsmanna hefur vaxið um
tæplega 1.000 það sem af er árinu,
meira en helmingi meira en hann
óx allt árið í fyrra,“ segir í vefriti
fjármálaráðuneytisins.
Dregið hefur úr afskráningu
Jónas Þór bendir aftur á móti á
að þessi stækkun fólksbílaflotans
felist einkum í því að með minnk-
andi innflutningi nýrra bíla dragi
úr afskráningum gamalla og segir
að fjöldi innlagðra bílnúmera sé í
dag yfir 25 þúsund. „Þetta eru
bílar sem eru á skrá en ekki í notk-
un og þýðir þetta að af um 180 þús-
und ökutækjum á skrá eru um 155
þúsund í notkun,“ segir hann.
Einnig bendir Jónas á að á þessu
ári og því síðasta sé influtningur
fólksbíla að jafnaði um 50% af því
sem var á árunum 1998–2000. Sam-
drátturinn sé áhyggjuefni, því að
með nýjum bílum komi framfarir,
ekki síst hvað varðar aukið öryggi
og minni mengun.
Forsvarsmenn Bílgreinasambandsins
gagnrýna fjármálaráðuneytið
Ósammála um
þörf á endurnýjun
bílaflotans
SAMKVÆMT áreiðanlegum heim-
ildum Morgunblaðsins leikur grunur
á að kveikt hafi verið í tveggja hæða
húsi við Strandgötu á Stokkseyri í
fyrrinótt. Norðanstrekkingur tafði
fyrir slökkvistarfi og er húsið mikið
skemmt, ef ekki ónýtt.
Um er að ræða tveggja hæða báru-
járnsklætt timburhús með kjallara,
byggt 1915 og gekk það undir nafninu
Skálavík. Búið var í íbúð á annarri
hæð en alls eru þrjár íbúðir í húsinu
sem er jafnframt notað sem sumarbú-
staður. Nágranni tilkynnti um eldinn
til lögreglu upp úr klukkan tvö í fyrri-
nótt. Fyrstir á vettvang voru slökkvi-
liðsmenn frá Stokkseyri þar sem einn
slökkviliðsbíll er staðsettur. Síðan
dreif að fleiri menn úr Brunavörnum
Árnessýslu, alls á þriðja tug manna. Í
fyrstu var óttast að hugsanlega væru
eldri hjón og jafnvel fleiri inni í húsinu
og tók það talsverðan tíma að ganga
úr skugga um að svo væri ekki.
Norðanstrekkingur gerði slökkvi-
liðsmönnum erfitt fyrir í upphafi en
vindáttin var þó hagstæð að því leyti
að það blés á milli húsa og á haf út.
Kristján Einarsson slökkviliðsstjóri
segir að mikill eldsmatur hafi verið í
húsinu sem var einangrað með reið-
ingi, hálmi og sagi. Mestur var eld-
urinn í suðvesturhorni á fyrstu hæð
og stóðu þar eldsúlur út um glugga.
Slökkvistarfi lauk undir morgun og
var höfð vakt við húsið fram eftir degi.
Lögreglan á Selfossi rannsakar
málið og voru brunasérfræðingar frá
tæknideild lögreglunnar í Reykjavík
tilkvaddir að rannsaka eldsupptök.
Grunur um að
eldur hafi verið
lagður að húsinu
Morgunblaðið/Sigurður Jónsson
Húsið sem hefur staðið frá árinu 1915 er mikið skemmt ef ekki ónýtt eftir brunann í fyrrinótt.
MÁLFLUTNINGUR um kæru
Baugs vegna húsleitar lögreglu í höf-
uðstöðvum fyrirtækisins fór fram í
Héraðsdómi Reykjavíkur í gær en
Baugur krefst þess að rannsóknarat-
hafnir lögreglu verði úrskurðaðar
ólögmætar og að öllum gögnum sem
lagt var hald á verði skilað þegar í
stað.
Hervör Þorvaldsdóttir, héraðs-
dómari mun kveða upp úrskurð nk.
miðvikudag klukkan 11.30.
Hreinn Loftsson hrl., lögmaður
Baugs, segir að ekki sé verið að kæra
úrskurð um húsleitina heldur bygg-
ist kæran á sjálfstæðri heimild í 75.
gr. sbr. 79. gr. í lögum um meðferð
opinberra mála til að bera undir úr-
skurð dómara ágreining um lögmæti
rannsóknarathafna lögreglu. Efna-
hagsbrotadeild ríkislögreglustjóra
hafi ekki gætt skyldu sinnar um að
rannsaka málið nægilega vel áður en
gripið var til aðgerða og ekki hafi
verið gætt meðalhófs við aðgerðir
lögreglu. „Við teljum að þeir hafi far-
ið offari og ekki á nokkurn hátt tekið
nægjanlegt tillit til hagsmuna brota-
þola sem er Baugur. Það hefði verið
hægt að ná markmiðum rannsókn-
arinnar með mun mildari hætti
gagnvart fyrirtækinu á þessum við-
kvæma tíma sem þarna var um að
ræða,“ segir Hreinn. Hann segir að
lögregla hefði þurft að skoða mála-
vexti betur áður en hún hóf aðgerðir
en þess í stað hafi hún byggt málið á
einhliða framburði eins manns, Jóns
Geralds Sullenberger. Málið snúist
annars vegar um svonefndan kred-
itreikning fyrir tæplega 60 milljónir
sem fram hafi komið að ekki hafi ver-
ið gjaldfærður eins og lögregla virt-
ist telja, byggt á upplýsingum frá
Jóni Gerald. Hins vegar lúti málið að
33 reikningum, samtals að upphæð
30 milljónir króna. Þessa reikninga
hafi fyrirtæki Jón Geralds, Nordica
inc. sent mánaðarlega til Baugs á
tæplega þriggja ára tímabili í
tengslum við viðskipti fyrirtækj-
anna. Lögreglan mótmælir kröfu
Baugs og krefst þess að dómurinn
hafni kröfunni.
Málflutningur vegna húsleitar lögreglu hjá Baugi
Úrskurður kveðinn
upp á miðvikudaginn
UM níu milljónir og þrjú hundruð
þúsund krónur hafa safnast í söfn-
un til styrktar Kristínu Ingu Brynj-
arsdóttur, þriggja barna einstæðri
móður, sem lenti ásamt börnum
sínum í bílslysi undir Hafnarfjalli
um miðjan ágúst sl. og lamaðist
varanlega fyrir neðan axlir. Vinir
og ættingjar fjölskyldunnar standa
að söfnuninni, sem hófst 1. sept-
ember sl.
Dýrleif Ólafsdóttir, vinkona
Kristínar og ein þeirra sem sjá um
söfnunina, segir í samtali við Morg-
unblaðið að söfnunin hafi gengið
vonum framar. „Við erum rosalega
ánægð. Við áttum alls ekki von á
þessum góðu viðtökum. Við erum
afar þakklát fyrir hennar hönd,“
segir Dýrleif og biður fyrir þakk-
læti til allra þeirra sem hafa lagt
söfnuninni lið. Hún segir aðspurð
að bæði fyrirtæki og einstaklingar
hafi lagt fé til söfnunarinnar.
Söfnunin stendur enn yfir. Opn-
aður hefur verið reikningur í Ís-
landsbanka í Hafnarfirði, banka-
númer 0545, höfuðbók 14,
reikningsnúmer 604000 og kenni-
tala 160468-4599.
Söfnun til styrktar Kristínu Ingu
Rúmlega 9 millj-
ónir hafa safnast
ENDURTEKNAR verða varnarað-
gerðir gegn fjárkláða á vestanverðu
Norðurlandi frá Hrútafirði að
Blöndu í vetur og á einstökum bæj-
um utan þeirra marka.
Í frétt frá embætti yfirdýralæknis
til fjáreigenda á fjárkláðasvæðunum
frá Hrútafirði að Hólabyrðu segir að
aðgerðirnar verði með sama hætti og
á sama tíma og síðastliðinn vetur.
Stefnt sé að því að uppræta fjárkláða
í landinu. Því megi hvergi gefa eftir
og alger samstaða verði að ríkja í
þessum efnum.
Fram kemur að allir gangnakofar
þar sem fé hefur verið hýst verða úð-
aðir með mauralyfi. Þá verða hand-
samaðar og einangraðar svo fljótt
sem verða megi allar útigengnar
kindur sem ekki fengu kláðasprautu
síðastliðinn vetur og allar kindur
sem vekja grun um kláða. Segir að
kalla skuli á dýralækni sem gefi leið-
beiningar, taki sýni og sprauti kind-
urnar tvisvar sinnum með 7-10 daga
millibili. Þá eru fjáreigendur í Stein-
grímsfjarðarhólfi á Vestfjörðum og á
öðrum svæðum þar sem kláði gæti
leynst hvattir til að láta strax vita um
grunsamlegar kindur.
Varnaraðgerðir
gegn fjárkláða
JAKOB Bjarnason, stjórnar-
formaður Kers, eignarhalds-
félags Olíufélagsins, sagði í
samtali við Morgunblaðið í
gær að félagið myndi ekki tjá
sig um kaupin í útgerðarfélag-
inu Festi.
Eins og fram kom í Morg-
unblaðinu í gær keypti Ker
hlut Arnar Erlingssonar út-
gerðarmanns í útgerðarfélag-
inu Festi. Um er að ræða
42,93% hlut en fyrir áttu Ker
hf. og dótturfélag þess, Íshaf
hf., um 15,06% hlut í félaginu.
Örn Erlingsson segist ósáttur
við þessar málalyktir en hann
hafði átt í viðræðum við Þor-
björn-Fiskanes um samstarf í
uppsjávarfiskveiðum.
Að sögn Arnar hafi Ker náð
saman við næststærsta hlut-
hafann og beitt leiðum til að
fara í kringum forkaupsrétt-
arákvæði félagsins, með því að
næststærsti hluthafinn veð-
setti Keri hlut sinn í félaginu
og fékk síðan hlutinn greidd-
an. Ker var þannig komið með
meirihlutaeign í félaginu, að
sögn Arnars í Morgunblaðinu í
gær.
Ker tjáir
sig ekki
um Festi
FORSETI Búlgaríu, Georgi Parva-
nov, heimsækir Ísland á mánudag-
inn kemur og mun hitta forseta Ís-
lands á Bessastöðum þá um
morguninn. Þar verða rædd alþjóða-
málefni og málefni sem tengjast tví-
hliða samskiptum ríkjanna, við-
skiptamál og fjárfestingar
Íslendinga í Búlgaríu.
Að lokinni heimsókninni heldur
Búlgaríuforseti áfram vestur um haf
til Bandaríkjanna en Búlgaría fer
um þessar mundir með forsæti í ör-
yggisráði Sameinuðu þjóðanna. Mun
forseti Búlgaríu ávarpa öryggisráðið
11. september næstkomandi í tilefni
af hryðjuverkaárásunum á Banda-
ríkin í fyrra.
Forseti Búlgaríu
heimsækir Ísland