Morgunblaðið - 12.11.2002, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 12.11.2002, Blaðsíða 24
LISTIR 24 ÞRIÐJUDAGUR 12. NÓVEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ M ATTHÍAS Johannessen er einna afkastamestur núlifandi rithöfunda hér á landi. Auk fjölbreytts efnis í blöðum og tíma- ritum hefur hann sent frá sér á sjötta tug verka – ljóðabækur, prósaverk, leikrit, rit- gerðir, samtalsbækur og ævisögur, annast út- gáfur og samið formála að ýmsum ritum, auk þýðinga. Matthías lauk cand.mag. prófi í nor- rænum fræðum frá Háskóla Íslands árið 1955 og stundaði um tíma nám í almennri bók- menntasögu og leiklistarfræði í Kaupmanna- höfn. Árið 1951 hóf Matthías störf á Morg- unblaðinu, hann var blaðamaður til ársins 1959 og síðan ritstjóri fram til ársbyrjunar 2001. Silja Aðalsteinsdóttir var stjórnandi rit- þings um Matthías Johannessen sem haldið var í Gerðubergi á laugardaginn. Þar voru mættir til leiks ásamt Silju og Matthíasi þeir Ástráður Eysteinsson bókmenntafræðingur og Bernard Scudder þýðandi. Á þinginu var rætt um feril og skáldskap Matthíasar í víðu samhengi. Silja Aðalsteinsdóttir hóf samtal dagsins með því að kynna Matthías sem mann með meiri yfirsýn yfir íslenska sögu, bókmenntir og samfélag en nokkur annar nú- lifandi Íslendingur, en þá yfirsýn hefði hann hlotið í gegnum störf sín sem afkastamikill rithöfundur og ritstjóri stærsta dagblaðs landsins í 42 ár. „En þrátt fyrir þetta op- inbera líf hefur Matthías ekki verið áberandi í íslensku þjóðlífi. Þess vegna fannst for- ráðamönnum Gerðubergs svo freistandi að fá Matthías á ritþing og gefa fólki tækifæri til að sjá þennan dularfulla mann og hlusta á hann tala um líf sitt og ævistarf eins og þau blasa við honum sjálfum,“ segir Silja. Reykjavík bernskunnar Fyrsta spurning Silju til Matthíasar lýtur að uppvaxtarárum Matthíasar í Reykjavík, en umfjöllun um borgina er eitt af meg- ineinkennum skáldskapar hans. Matthías er fæddur í Reykjavík árið 1930 og má segja að hann hafi tekið við sæmdarheitinu „borg- arskáld“ af vini sínum og útgefanda, Tómasi Guðmundssyni. „Eins og hjá Tómasi verður þessi litla og sem þótti í þá daga „ljóta“ borg ótrúlega stór, spennandi og lifandi staður,“ segir Silja um borgarskáldskap Matthíasar. Matthías minntist þess að hafa skrifað ritgerð um dásemdir Reykjavíkurborgar, bernsku- borgar sinnar, umhverfis æsku sinnar, í ís- lenskutíma í Menntaskólanum í Reykjavík, en þurft að rökræða við bekkinn um þá skoðun sína. Reyndist það honum þá sterk málsvörn að hafa einn bekkjarsystkinanna séð borgina úr lofti. „En svona var nú horft á Reykjavík í þá daga, að hún gæti ekki verið fögur borg og gæti ekki borið fegurðinni vitni,“ segir Matthías en bendir þó á ólíka sýn sína á borgina í samburði við hina rómantísku Reykjavík sem Tómas Guðmundsson orti um. „Ég þekkti bara Reykjavík sem fiskistöð en það var eitthvað indælt við þessa borg, þarna var gott mannlíf. Fólk var að berjast í krepp- unni en hún gerði fólkið ekki verra. Það reyndi að mennta mann og koma til manns. Ég hef aldrei upplifað það að Reykjavík brygðist,“ segir Matthías en gefur í skyn að í borgarskáldskap sínum felist líka almenn um- fjöllun um borgina sem umhverfi nútíma- mannsins. „Hér er malbik og hef ég ort um malbikið. Ég hef ort um skógana í malbikinu, því það er partur af umhverfi okkar, partur af mannlífinu.“ Þegar Matthías er spurður nánar hvað hann telji að hafi mótað hann mest á æsku- og uppvaxtarárum, víkur hann að upplifun sinni af stríðinu, þ.e. „þegar Reykjavík fór af sauðskinnsskóm“. Við hernám Breta segist Matthías hafa kynnst nýjum heimi og hafi stríðið verið Bretum fljótunnið í huga hans og strákanna vina hans þegar karamellur voru bornar upp úr kjallaranum á þýska sendi- ráðinu og afhentar börnunum. Matthías telur sig hafa notið góðs af kynnum við útlendinga, þar hafi einangrun Íslendinga gagnvart um- heiminum verið rofin. „Ég hef eiginlega aldr- ei verið hræddur við það að erlend áhrif myndu ríða okkur að fullu. Ég hef verið miklu hræddari við það að við gerum það sjálf,“ segir Matthías. Kynni af dauða og sorg fylgdu þó einnig stríðinu og segir Matthías að nálægðin við dauðann hafi mótað hann fyrir lífstíð. „Ljóð- skáldið er alltaf að glíma við tortímingu. Ljóðskáldið er Davíð andspænis Golíati, en þar er það Golíat sem sigrar en ekki Davíð,“ segir Matthías. Hann lýsir jafnframt þeim áhrifum sem foreldrar hans höfðu á hann, þau hafi verið ákaflega ólíkrar gerðar, bætt hvort annað upp en árekstrarnir einnig verið margir. Móðir Matthíasar var mjög trúuð en faðirinn veraldarmaður með bóhemskar tilhneigingar og höfðu þau ólíkar skoðanir og væntingar til skáldskapar hans. Þegar Silja spyr Matthías hvort vera megi að hann hafi togast dálítið milli þessara tveggja póla í skáldskapnum, bóhemsins og trúarmanneskjunnar, segir Matthías líf sitt allt hafa markast af tog- streitu milli andstæðna. „Ég hugsa að ég hafi alltaf togast á milli einhvers. Hvernig held- urðu að maður togist þegar maður er ritstjóri Morgunblaðsins og það á kaldastríðsárunum? Maður verður bara alveg hreint eins og Gosi. Það eina sem vex á manni er nefið,“ segir Matthías og uppsker mikinn hlátur meðal þinggesta. Aðspurður segir hann nefið þó komið í samt lag núna, því sé að minnsta kosti haldið í skefjum. Ein af bókunum Þegar rætt er um námsár Matthíasar seg- ist hann hafa kunnað best við sig í Háskól- anum þó svo að menntaskólaárin hafi verið ágæt og hann beri mikla virðingu fyrir Menntaskólanum í Reykjavík. „Þar var manni kennt að skrifa z. Ég held í hana. Ég læt ekki bjóða mér að einhver ráðherra gefi út reglu- gerð um það að eyðileggja heils árs nám fyrir mér,“ segir Matthías við mikil hlátrasköll. Tekur Matthías ekki fyrir orð Silju þess efnis að e.t.v. hafi hann lesið meira utan menntaskólans en innan hans. Í Háskólanum fannst Matthíasi hann „einhvern veginn frjáls“, naut sín vel, tók þátt í félagsmálum og var formaður Stúdentaráðs. En eftir að Matthías lauk sinni meistaragráðu í íslensk- um bókmenntum stóð hann frammi fyrir vali sem Ástráður Eysteinsson spyr hann nánar út í. „Þú varst að hugsa um að halda áfram og verða doktor í Grími Thomsen. Eftir að hafa valið að fylga ekki þeim akademíska ferli sagðist þú síðar feginn að hafa ekki lokast inni í þeim heimi. Tala ég þá innan úr lok- uðum heimi samkvæmt því?“ spyr bók- menntaprófessorinn. Matthías segir annað eiga við um Háskól- ann nú en þegar hann var í námi. „Þá var Há- skólinn mikill fílabeinsturn og hefði ég mjög auðveldlega lokast þar af. Ég hef bara þannig sálarlíf. Mér líður mjög vel uppi í Þjóð- arbókhlöðu. Þar er ég bara ein af bókunum. Síðan kemur einhver og flettir upp í henni, eins og hér í dag. Á síðari árum hef ég kennt í Háskólanum og finnst mér þar skemmtilegt fólk og víðsýnt. En tímarnir voru aðrir þegar ég var í Háskólanum.“ Aðspurður segist Matthías líta á það sem veigamikinn hluta af menntun sinni að lesa erlendan skáldskap. „Ég hef alltaf lesið mikið erlend skáld og fór snemma að fylgjast með á því sviði. Ég geri það af þörf til að mennta mig. Maður getur ekki alltaf verið að bíða eft- ir að aðrir mennti mann, maður verður bara að gera þetta sjálfur.“ Í framhaldinu spyr Bernard Scudder hvort sú hefðarúrvinnsla sem er svo áberandi og djúprætt í skáldverkum Matthíasar sé til staðar vegna meðvitaðrar notkunar eða af einhvers konar eðlishvöt. Segir Matthías að líklega sé um hvort tveggja að ræða. „Ég lærði mikið af Borges. Hann sagði mér að vera óhræddur við að skírskota í fornar ís- lenskar bókmenntir því bókmenntahefðin væri lifandi tungumál sem skáldið mætti nota að vild. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að við göngum undir himinhvolfi skáldskap- arins og þar er allt fullt af stjörnum. Ég get ekkert hugsað mér það að sumar séu dauðar. Ég veit það vel að margar stjörnurnar á him- inhvolfinu eru útbrunnar þótt við sjáum enn ljósið af þeim. En við sjáum ljósið og meðan við sjáum það er eitthvað spunnið í það, það er hluti af því að muna, hluti af arfleifðinni. Það sem gerir okkur merkileg er að geta lifað í samtíðinni með allri okkar arfleifð og sögu.“ Skáldið og ritstjórinn Að loknu stuttu kaffihléi spurðu Bernard Scudder og Ástráður Eysteinsson Matthías út í valið efni úr skálskaparsmiðju hans. Rætt var um og lesin ljóð eftir Matthías og hafði Scudder þar m.a. valið ljóð þar sem meg- inminni í skáldskap Matthíasar, borgin, vís- anir í fornbókmenntir, bernskuminningar og umfjöllun um heimsmál, koma fram. Verður þeim Matthíasi tíðrætt um þá úrvinnslu á sögu og samtíð, pólitík og tungumáli sem möguleg er með fáum sterkum dráttum í skáldskapnum. Þegar Matthías er spurður af Bernard hvort hann telji sig pólitískt skáld segist Matthías yrkja um það áreiti sem hann verði fyrir, um atburði líðandi stundar. Þegar Silja setur spurninguna í samhengi við póli- tískar hliðar ritstjórastarfsins segir Matthías þinggestum söguna af því er skeggjað at- ómskáldið tók við ritstjórastarfinu á Morg- unblaðinu og sjálfstæðismenn drógu þá álykt- un að þar hlyti að vera kommi á ferð. Á flokksþingi Sjálfstæðisflokksins náði Matthías þó að rétta við ímynd sína með því að sýna í verki að atómskáldið gæti ort ferskeytlu. Matthías segir í framhaldinu að vitanlega mótumst við af aðstæðum og áreiti tímanna og nú séu tímar breyttir frá því sem var á tíma kalda stríðsins. „Í dag er allt þver- pólitískt en svoleiðis var það ekki. Það voru átök og gerðu þau okkur kannski að meiri vígamönnum en við hefðum viljað vera. En við börðumst og ber ég virðingu fyrir mínum andstæðingi í þeim leik. En ég er eiginlega búinn að afskrifa þann leik,“ segir Matthías. Ástráður dregur í framhaldi þessara um- ræðna fram ljóð eftir Matthías, sem birtist árið 1975 í ljóðabókinni Dagur ei meir, þar sem tekinn er upp hanskinn fyrir „alþjóða- samband frjálsrar verkalýðshreyfingar“ gegn „fjölþjóðafyrirtækjum, hnattlægum verð- bólguþrýstingi auðfélaga“ og „tillitslausum auðhringum“. Þegar Ástráður spyr hvort ekki hafi þurft talsverða dirfsku fyrir ritstjóra Morgunblaðsins að birta ljóð á borð við þetta árið 1975, segir Matthías að þar hafi ritstjór- inn ekki setið að skrifum, heldur skáldið sem hér sitji og ritstjórinn sé smám saman orðinn að. „Þú verður líka að athuga að ég er svolítið alinn upp af öðrum. Ég tók fagnandi blóma- kynslóðinni eftir að sonur minn kom með gít- ar heim í hlað og byrjaði að syngja. Þetta hafði mikil áhrif á mig. Ég tel að við eigum ekki að festast í einu eða neinu. Ég tel að hreyfingin í hvaða mynd sem er sé mikilvæg- ust af öllu.“ Köngurló í leit að snertingu Í umræðum um prósaskáldskap Matthíasar berst talið að mörkum veruleika og skáld- skapar. Þar segist Matthías ekki kæra sig um formúlur í skáldskap fremur en í lífinu og yrki hann því ekki innan strangra marka ljóðs og prósa, skáldskapar og raunverulegra minninga – nú eða framtíðarótta, t.d. við að vera lagður inn á elliheimili eins og hann fjalli um í nýrri bók sem nýkomin var úr prentun á laugardaginn. Þá bók, sem nefnist Vatnaskil: Dagbókarsaga, og Hann nærist á góðum minningum, sem út kom í fyrra, má lesa í nokkru samhengi við ævi og reynslu Matthíasar þó svo að reynslan og minni skáldsins verði þar að uppsprettu skrifa sem lúti skáldlegum og ljóðrænum lögmálum. Ást- ráður vísar til bókanna sem skáldævisagna og segir að þar megi sjá stef sem birtist einnig í mörgum smásagnanna. Spyr Ástráður Matthías þá hvort prósaskáldskapurinn sé ekki síður persónulegur skáldskapur en ljóð- listin. Matthías segir að vissulega sé svo og að ýmislegt í fyrrnefndum sögum eigi rætur í hans reynslu og sálarlífi, en minnið sé brigð- ult og allur skáldskapur verði til úr einhverju efni, eins og Snorri sagði. Mörkin milli skáld- skapar og reynslu séu á gráu svæði og eigi það ekki síður við um sjálfsævisögur ein- hverra stórmenna úr sögunni eða samtöl tek- in við þjóðþekkta menn. Eitt samtalanna sem Matthías tók sem blaðamaður hafi ratað í smásagnasafnið Flugnasuð í farangrinum. Matthías er nú spurður nánar út í samtölin margrómuðu sem hann tók í starfi sínu sem blaðamaður. Aðdragandi þess að Matthías hóf að skrifa samtöl var einfaldur að hans sögn. „Ég varð að gera eitthvað á Morgunblaðinu og fann mér leið til að gera eitthvað sem mér fannst skemmtilegt og langaði til að gera. Þetta var náttúrulega partur af skáldinu í mér. Ég gat ekki hætt að vera skáld þótt ég byrjaði á Morgunblaðinu,“ segir Matthías en bætir því við að í blaðamannsstarfinu hafi fal- ist ákveðin tengsl við mannlífið sem hafi verið honum nauðsynleg í skáldskapnum. „Skáldið spinnur út í tómið eins og Walt Whitman seg- ir í ljóði. Atómskáldið spinnur út í tómið og hefur alltaf gert það meira og minna. En sem köngurló dugði það mér ekki. Ég vildi fá að komast í snertingu við eitthvað, við mannlífið í landinu,“ segir Matthías. Ritþinginu í Gerðubergi lauk með upplestri Matthíasar á kafla úr bókinni Vatnaskilum. Áður en samtali þeirra Silju, Ástráðs og Bernards lauk spurði Silja skáldið hvort það iðraðist einhvers þegar hann liti aftur til fer- ils síns sem ritstjóri og skáld. „Að hafa ekki getað orðið dýrlingur,“ segir Matthías í gamni áður en hann kemur orðum að svari við þessari dramatísku spurningu. Vísar hann þá til smásögu sem Ástráður hafði vakið máls á og fjallar um persónu sem liggur milli svefns og vöku og upplifir sig sem öskutunn- una sem verið er að tæma úr í öskubílinn fyr- ir utan gluggann. Þykir Ástráði þar um djarfa myndlíkingu að ræða, milli hins innra lífs skáldsagnapersónunnar og öskutunnu sem gáttar út í samfélagið. Segir Matthías hér um mjög ævisögulega sögu að ræða, sem lýsa megi sem eins konar mottói um líf sitt sem ritstjóri Morgunblaðsins þar sem hann hafi stöðugt verið að taka við innihaldi ann- arra til birtingar í þeirri gátt sem Morg- unblaðið er út í samfélagið. „Ef það er eitt- hvað sem ég iðrast þá er það að hafa verið öskutunna. Hvernig á maður að lifa svoleiðis af? Auðvitað iðrast ég margs,“ segir Matthías að lokum og liggja orðin einhvers staðar milli gamans og alvöru. Undir himinhvolfi skáldskapar Morgunblaðið/Golli Matthías Johannessen og Silja Aðalsteinsdóttir rabba saman á ritþinginu í Gerðubergi. Matthías Johannessen, skáld og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, líkti sér við bók sem flett er uppí, köngurló, stjörnuskoðara og öskutunnu á ritþingi sem haldið var um skáldskap hans í Gerðubergi á laugardaginn. Heiða Jóhannsdóttir hlýddi á umræður dagsins og hefur þær hér eftir á prenti. heida@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.