Morgunblaðið - 12.11.2002, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 12.11.2002, Blaðsíða 30
UMRÆÐAN 30 ÞRIÐJUDAGUR 12. NÓVEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ É g heiti Octave og ég er klæddur Tom Ford frá toppi til táar,“ segir sögu- maðurinn í skáld- sögu franska rithöfundarins Frédérics Beigbeder, 99 francs (2000; £9.99 í enskri staðfærðri þýðingu, 2002), og heldur áfram: „Ég stýri auglýsingastofu: Jú, einmitt, ég menga umheiminn. Ég er náunginn sem selur þér alls konar drasl. Sem fær þig til að láta þig dreyma um hluti sem þú munt aldrei eignast. Himinninn er alltaf blár, stelpurnar eru aldrei ljótar, fullkomin hamingja löguð til í Photoshop. Gallalausar myndir, sláandi tónlist. Þegar þér tekst að kaupa draumabílinn (þann sem ég myndaði í síðustu herferð) eftir sársaukafullan sparnað mun ég þá þegar hafa séð til þess að hann líti út fyrir að vera gamaldags. Ég er þremur trendum á undan og kem því þannig fyrir að þú sért alltaf fullur gremju. Flottheit er land sem enginn kemst nokkurn tíma til. Ég smita þig með nýjum hlutum en kosturinn við hið nýja er að það er aldrei nýtt lengi. Það eru alltaf nýir hlutir sem láta þá sem á und- an komu líta út fyrir að vera gaml- ir. Ég vil fá þig til að slefa – það er köllun mín. Enginn í minni atvinnugrein vill í raun að þú sért hamingjusamur vegna þess að hamingjusamt fólk eyðir ekki peningum.“ Beigbeder var rekinn úr starfi sínu sem framúrskarandi hug- myndasmiður hjá leiðandi auglýs- ingastofu í Frakklandi eftir að hann skrifaði þessa skáldsögu. Í bókinni er líka dregin upp sótsvört mynd af auglýsingaiðnaðinum og neyslusjúku samfélagi. Sögumað- urinn, Octave Parengo, er 33 ára hugmyndasmiður hjá stórri aug- lýsingastofu, eins og Beigbeder var. Hann er með himinhá laun, hefur aðgang að fínustu sportbíl- unum, ver sumarfríunum á dýr- ustu hótelunum og býr í stórkost- legri íbúð á besta stað í París (í London í ensku þýðingunni). Í fljótu bragði virðist hann hafa allt sem hugurinn girnist en svo er aldeilis ekki. Undir þessu glæsi- lega yfirborði er vondur veruleiki. Unnustan hefur nýlega yfirgefið Parengo, hann er kókaínfíkill og líður auk þess herfilega í vinnunni vegna þess að hann hefur ímugust á gegndarlausri markaðs- hyggjunni, neysluhyggjunni og yf- irborðsmennskunni sem einkennir starfsvettvang hans og samfélag. Kominn á ystu nöf grípur hann til þess ráðs að vinna skemmdarverk á stórri auglýsingaherferð um mjólkurvörur sem honum er falið að þróa í von um að geta komist heill frá þessari, að eigin mati, sjúklegu veröld. Beigbeder sló í gegn með þess- ari skáldsögu í Frakklandi. Bókin metseldist og Beigbeder fékk gríð- arlegt umtal. Auðvitað skemmdi það ekki fyrir að hann var rekinn úr vinnunni en umfjöllunarefni sögunnar og efnistökin eru með þeim hætti að þau hlutu að kalla á viðbrögð. Beigbeder gengur eins langt og hann treystir sér til í lýs- ingum á öfgakenndri hlutadýrkun, tilfinningalegri og líkamlegri firr- ingu og svæsnu ofbeldi sem endar raunar með hrottalegu morði. Að flestu leyti minnir bókin og eft- irmáli hennar mjög á skáldsög- urnar Öreindirnar (1998; íslensk þýðing 2000) og Áform (2001; ís- lensk þýðing 2002) eftir landa Beigbeders, Michel Houellebecq. Í þeim er fjallað um svipað efni, grasserandi efnishyggju og kyn- lífsvæðingu, og viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa eins og ný- leg réttarhöld yfir Houellebecq fyrir frönskum dómstólum eru til vitnis um. Ennfremur er augljós skyldleiki með bók Beigbeders og skáldsögum bandaríska rithöfund- arins Brets Eastons Ellis sem kunnastur er fyrir skáldsögur sín- ar Less Than Zero (1986) og Am- erican Psycho (1991) en nýjasta bók hans nefnist Glamorama (1999). Í sögum Ellis er því lýst hvernig neyslumettun og hömlu- laus hluthyggja brýst út í tilfinn- ingadeyfð, veruleikaupplausn og ómannlegu ofbeldi. Bækur Ellis (og kvikmyndir byggðar á þeim) hafa notið gríðarlegra vinsælda en þær hafa einnig mætt harðri gagn- rýni í fjölmiðlum þótt Ellis hafi ekki verið dreginn fyrir dómstóla eins og Houellebecq. Hérlendis hefur Mikael Torfason einkum valdið usla af svipuðum toga (þótt viðbrögðin séu hvergi nærri jafn sterk og í fyrrnefndum tilfellum) en Mikael er augljóslega undir áhrifum af Ellis í bókum sínum. Beigbeder, Houellebecq og Ellis hafa allir mátt sæta gagnrýni um að þeir geri út á það ástand sem þeir ætli sér að beina spjótum sín- um að. Bent hefur verið á að bæk- ur þeirra séu bókmenntir um sam- tímann en einnig fyrir samtímann, þær lýsi vissulega ríkjandi ástandi á sannferðugan hátt en fyrir vikið innihaldi þær klámið og ofbeldið sem sé hvað auðveldast að selja nú um stundir. Að auki verði siðferð- isboðskapur innantómur í bókum sem lýsi siðlausum samtíma. Höf- undarnir þrír hafa allir verið gagn- rýndir fyrir að taka fullan þátt í þeirri markaðshyggju sem þeir gagnrýna í bókum sínum, til dæm- is með glæfralegum (og söluvæn- legum) efnistökum sínum og bein- línis með því að vinna leynt og ljóst að markaðssetningu á sjálfum sér sem andmarkaðslegum listamönn- um. Þeir séu hluti af einsleitum fjöldanum sem þeir séu að gagn- rýna – í raun séu þeir fórnarlömb þrárinnar eftir speglinum sem spegilmynd þeirra birtist í eins og George Bataille talaði um. Beigbeder lýsir þessu ástandi í bók sinni og svarar kannski gagn- rýninni: „Allir þeir sem gagnrýna skemmtiiðnaðinn eiga sjónvarp. Allir þeir sem fyrirlíta neysluþjóð- félagið eiga Visakort. Það er engin leið út. Ekkert hefur breyst frá dögum Pascals: maðurinn er enn að reyna að flýja það sem hann ótt- ast með því að dreifa huganum, með afþreyingu. Nema hvað nú er afþreyingin alls staðar nálæg og þannig komin í stað Guðs. Hvernig flýr maður afþreyinguna? Með því að horfast í augu við óttann. Heimurinn er ekki raunveruleg- ur, nema þegar hann er leið- inlegur.“ Spegilþráin Um Beigbeder, Houellebecq, Ellis og Mikael Torfason, að þeir séu hluti af einsleitum fjöldanum sem þeir séu að gagnrýna – í raun séu þeir fórnarlömb þrárinnar eftir speglinum sem speg- ilmynd þeirra birtist í eins og George Bataille talaði um. VIÐHORF Eftir Þröst Helgason throstur @mbl.is NÚ að afloknu vel heppnuðu Textaþingi sem haldið var a Grand hótel 2. nóvember sl. hefur maður verið að velta sér fyrir því af hverju textun er ekki enn orðin að raunveruleika eins og maður hefði viljað, en það þýðir lítið að velta sér upp úr hlutum sem eru ekki enn orðnir að raunveruleika. En eitt er víst að mikillar viðhorfs- breytingar er þörf í textun á öllu innlendu sjónvarpsefni hérlendis, það verður að viðurkennast. Margt mjög áhugavert kom fram i ræðu Martin Davies, yf- irmanns textunardeildar BBC, sér í lagi það að textun á innlendu efni í BBC var fyrst hleypt af stokkn- um árið 1983 og voru það ár 6 starfsmenn. Nú 19 árum síðar eru starfsmenn deildarinnar orðnir 90. BBC hefur því mjög mikla reynslu af textun og í máli Martins Davies kom að deildin sinnir einnig ráð- gjafahlutverki til annarra sjón- varpsstöðva um textun. Í BBC er hlutfall útsendinga í textun 78%, afgangurinn 22% er sendur út að næturlagi ótextaður, einmitt þegar áhorf er minnst. Markmið þeirra er að árið 2006 verða textaútsend- ingar komnar í 100%, þeim finnst það mjög raunhæf markmið, enda hefur reynsla þeirra sýnt sig og sannað að textunarútsending gefur meira af sér en ótextað innlent sjónvarpsefni. Jafnvel beinar út- sendingar eru textaðar, í þeim út- sendingum liggur helsti metnaður þeirra. Þeir hafa þá reynslu frá notendum. Textunardeild BBC fær mörg bréf/tölvupósta frá áhorfendum á hverjum degi, þar eru þeir kannski ýmist að hrósa eða gera að umtals- efni einhverja villu í textun eða jafnvel koma með ábendingar um aukna möguleika notenda að hafa texta eins og ein ábending sem kom nýlega og var á þá leið að mjög sniðugt og þægilegt sé að hafa texta, því þá er hægt að tala í símann og horfa um leið á sjón- varpið með texta og ekki missa af neinu, mjög afslappandi. Jafnvel fólk með fulla heyrn nýtur þess að hafa texta. Í sem stystu máli er ekki lengur „in“ að senda út ótextað innlent efni, það ættum við Íslendingar að tileinka okkur, eins og við erum svo vön að gera með allt sem útlenskt er, við viljum ekkert vera síðri en aðrir. Þátta- gerðarstjórnendur, framleiðendur og aðrir sem hafa með innlenda þáttagerð hvers konar að gera ættu að taka sér það til fyrirmynd- ar að senda ekki efni frá sér í út- sendingu ótextað. Textun marg- faldar gæði þáttarins, gæðin felast í því að áhorfshópurinn stækkar til muna, jafnvel auglýsendur eða kostendur fá sanngjarnari tölur um áhorf þegar þáttur er sendur út textaður. Textun er ekki dýr, fram kom á Textaþinginu að oft mætti áætla að um 2% af framleiðslukostnaði fari í textun. Þannig að ef um 50 miljóna innlenda kvikmynd væri að ræða myndi textun á myndina kosta 200 þúsund. Það skilar sér fljótt því fleiri koma til með að fara á myndina og njóta hennar með texta. Það var ein saga sögð að í Nor- egi hafi eitt sinn verið sýnd inn- lend mynd með texta í litlum sal en í stærri sal ótextuð, aðsókn var meiri á textuðu myndina svo hún var flutt í stærri sal. Það ætti því líka að vera umhugsunarefni allra kvikmyndagerðamanna sem vel vilja gera við sína kvikmynd að sýna hana textaða líka. Ég fagna hinsvegar orðum menntamálaráð- herra í fjölmiðlum að hann ætli að beita sér fyrir því að textun verði aukin á RÚV á næstunni, því hon- um finnst RÚV ekki texta nóg. Það þarf meira til en að auka bara textun á RÚV, það eru líka fleiri sjónvarpsstöðvar í landinu, svo ekki sé minnst líka á kvikmynda- gerðarmenn og miðað við textun hjá þeim síðustu árin þýðir víst lít- ið annað en að setja á löggjöf um textun á innlendu efni samþykkta af Alþingi. Það er oftast sú lausn sem farin hefur verið erlendis í textun á inn- lendu efni og reynst sú farsælasta, því þá gilda sömu reglur fyrir alla bæði ríkisreknar og einkasjón- varpstöðvar sem og kvikmynd- gerðarmenn. Enn um textun Eftir Sigurlín Margréti Sigurðardóttur „Ég fagna hinsvegar orðum mennta- málaráð- herra í fjölmiðlum að hann ætli að beita sér fyrir því að textun verði aukin á RÚV á næst- unni…“ Höfundur er táknmálskennari og fulltrúi Félags heyrnarlausra í þrýstihóp um textun á innlent efni. SUMU fólki er sama um allt nema sjálft sig. Ef einhver á bágt þá kærir það sig kollótt um það. Þannig virðist sumum Íslendingum til dæmis vera nokk sama um það þótt fjöldi landa þeirra eigi varla í sig og á. Sumir virðast þannig láta sér í léttu rúmi liggja hvort mörg íslensk börn og foreldrar þeirra líði sáran skort og eigi varla að borða. Ég verð að játa að mér finnst svo- lítið sérstakt að verða vitni að því- líkum kulda í garð annarra. Slíkum skorti á samúð. Í mínum huga er þetta ekki síst spurning um siðferð- isþroska einstaklingsins. Ég tel að þetta hafi ekkert með stjórnmála- skoðanir hans til hægri né vinstri að gera, heldur einfaldlega mann- gildi hans og hjartalag. Eigingjörn öryggisþörf Fátækt er þjóðfélagslegt vanda- mál hvernig sem á það er litið. Því þetta er vandamál sem hreyfist að- eins í eina átt ef ekkert er að gert: Það vex. „Dómínó-áhrifin“ eru þau að vandinn stækkar og stækkar og smitar útfrá sér með ófyrirsjáan- legum afleiðingum. Börn þeirra sem eiga enga peninga fá oft lélegt uppeldi og hætta snemma í námi. Afleiðingarnar eru andleg fátækt. Þannig verður til fjárhagslega og andlega fátæk undirstétt sem vex og vex. Reiðin og örvæntingin kraumar og veldur smám saman óróa í þjóðfélaginu sem ógnar að lokum þeim sem mest hafa. Fyrir þá sem hafa engan áhuga á neinu nema eiginhagsmunum sín- um og sjá heiminn aðeins í eig- ingjörnu ljósi, má varpa fram eft- irfarandi rökum fyrir því að sporna þurfi við vandanum tímanlega: Með því að loka augunum fyrir vand- anum mun hann vaxa og skapa óþægilega spennu og nýjar hættur. Öryggið í þjóðfélaginu mun minnka og glæpir aukast. Tap hinna efna- meiri og þjóðfélagsins alls verður að lokum miklu meira en sá kostn- aður sem hefði farið í að hjálpa fólki úr fátækragildrunni. Hjálpin þarf semsagt ekkert að hafa með mannúð að gera heldur má allteins gera þetta af eigingjarnri örygg- isþörf. Borgaraleg hjálpsemi Til er sú miðstöð mannúðar hér í þjóðfélaginu sem kalla má eitt besta birtingarform borgaralegrar hjálpsemi á Íslandi. Þetta er Mæðrastyrksnefnd. Mæðrastyrks- nefnd er engin byrði á ríkinu. Eng- inn starfsmaður hennar þiggur laun heldur vinnur allt sitt í sjálf- boðavinnu. Öllum kostnaði er hald- ið í algjöru lágmarki. Peningafram- lög til nefndarinnar og gjafir eru frá borgurunum sjálfum; einstak- lingum og fyrirtækjum sem vilja hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi. Nefndin aðstoðar gefendurna með því að útdeila framlögum þeirra til fólks sem þarf á hjálp að halda. Nær borgaralegum aðferðum og fjær ríkisafskiptum er ekki hægt að komast. Ég hef sjálfur orðið vitni að mat- arúthlutun Mæðrastyrksnefndar um jól. Það þarf enginn að segja mér að það fólk sem þá var þar saman komið til að þiggja hjálp meðborgara sinna hafi verið þar að nauðsynjalausu. Dómgreind mín nægir mér. Ég fullyrði að allir sem ég sá með útrétta hönd við mat- arlúguna voru í sárri neyð. Sú reynsla, að standa augliti til auglit- is við skjólstæðinga nefndarinnar sem búa við svo sára fátækt að þeir eru tilbúnir að bíða í tvær til þrjár klukkustundir í hagléli og frosti til þess að fá hjálp, er átakanleg. Eng- inn sem ekki þarf nauðsynlega á hjálp að halda leggur slíkt á sig fyrir allra augum. Þegar við, sem búum við allsnægtir, stöndum skyndilega frammi fyrir fólki í sár- ustu neyð með þessum hætti verð- ur fallið úr fílabeinsturninum hátt. Firring manns og skeytingarleysi gagnvart neyð annarra eru strokuð út á einu andartaki. Við slíka reynslu hverfur sú afneitun að fá- tækt sé ekki til á Íslandi. Ég fékk nýjan skilning á sjálfum mér og því þjóðfélagi sem ég er sprottinn úr þegar ég leit í augu barnanna sem þurftu að þola þessi lífskjör. Lífsbaráttan er hörð á Íslandi. Það þarf engan að undra að hluti þeirra sem minnst mega sín þurfi hjálp til að brúa bil sinna lág- markslífskjara. En sá, sem ekki getur skilið að í þjóðfélaginu séu til fleiri en þeir glöðu og bústnu; hann á væntanlega enga samúð með þeim sem hann heldur að séu ekki til! Fallið úr fílabeins- turninum Eftir Ragnar Halldórsson „Það þarf engan að undra að hluti þeirra sem minnst mega sín þurfi hjálp til að brúa bil sinna lág- markslífskjara.“ Höfundur er kvikmynda- gerðarmaður.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.