Morgunblaðið - 10.08.2003, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 10.08.2003, Blaðsíða 15
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 10. ÁGÚST 2003 15 RÚMT ár er síðan Þorkell Þor- steinsson fékk inni á Leikskólanum Ásum í Garðabæ. Hann er ein- hverfur, yngstur þriggja sona þeirra Margrétar Dagmarar Ericsdóttur og Þorsteins Guðbrandssonar. Þorkell, sem er að verða sex ára, greindist einhverfur þegar hann var fjögurra ára. Þorsteinn segir að fljótlega eftir fæðingu hafi grunsemdir vaknað um að hann væri fatlaður og var hann skömmu síðar greindur með þroska- hömlun. Þorkell var fyrst á leikskóla í Reykjavík en eftir að þau Margrét og Þorsteinn höfðu kynnt sér atferl- ismótun Lovas fyrir einhverfa, sem byggist á samfelldri þjálfun allan daginn, alla daga ársins, ákváðu þau að beita sér fyrir því að Þorkell fengi slíka þjálfun. Rannsóknir sýna að um 50% líkur eru á að börn, sem fá þessa þjálfun á réttum aldri og við réttar aðstæður, nái að lifa heil- brigðu lífi, fara jafnvel í háskóla og gifta sig eins og aðrir. „Ég er ein af þeim sem hélt að ég myndi aldrei eignast fatlað barn,“ segir Margrét. „Ég taldi alltaf sjálf- sagt að ég myndi eignast heilbrigð börn eins og flestir en við getum öll lent í þessu og því er þetta eitthvað sem varðar alla. En svo kemur fyrsta áfallið þegar í ljós kemur að barnið er fatlað og annað áfall þegar við gerðum okkur grein fyrir hversu lítið er í boði fyrir þann fatlaða. Eins og þessi atferlismeðferð til dæmis. Af hverju er hún ekki í boði fyrir öll ein- hverf börn þegar rannsóknir sýna að hún skilar mestum ávinningi til ein- hverfra barna og til samfélagsins í heild þegar til lengri tíma er litið? Við verðum að berjast fyrir öllu á meðan heilbrigðu drengirnir mínir eiga kost á því besta, sem til er.“ Hentar ekki öllum Þau hjónin voru ekki á því að gef- ast upp þrátt fyrir að viðkvæðið í öðrum leikskólum væri að því miður væri ekki hægt að beita atferl- ismótun þar. Skólastarfið miðaðist við heiltæka leikskólastefnu en sú stefna hentar ekki einhverfum börn- um. „Að komast að með drenginn minn á þessum leikskóla tel ég vera minn stærsta lottóvinning og reynd- ar má segja það um öll börnin sem hér eru,“ segir Margrét. „Þegar öll sund virtust lokuð fékk ég allt í einu þá hugdettu að hafa samband við Margréti Pálu, sem er þekkt bar- áttukona. Ég hugsaði sem svo að hún hefði örugglega sjálf mætt viss- um fordómum og þetta var mjög sérstakt samtal sem við áttum. Hún tók mér strax opnum örmum og var tilbúin til að gera allt fyrir okkur eins lengi og bæjaryfirvöld í Garðabæ samþykktu atferlismeðferðina, en við búum í Garðabæ. Það sem er einstakt er að við fengum Margréti Pálu strax til liðs við okkur. Við höf- um ekki þurft að standa ein og berj- ast. Hér eru allir tilbúnir til að gera allt fyrir okkur. Bæjaryfirvöld og þar með Ásdís Halla Bragadóttir, bæj- arstjóri, komu strax til móts við okk- ur því þessi meðferð er dýr og er al- mennt ekki í boði. Hér er tekið brosandi á móti okkur og hér ríkir mikill mannkærleikur, virðing og reisn og ég er ekki ein um þessa skoðun,“ segir Margrét. „Við sjáum marktækan mun á þroska Þorkels eftir þetta ár, sem hann hefur verið hér, en við sjáum líka að það er alltaf hægt að gera betur. Atferlismótun er umfangsmikið verkefni og krefst mikillar vinnu af leikskólanum og for- eldrum.“ „Hér á Ásum stóð okkur allt til boða,“ segir Þorsteinn. „Þegar við komum var spurt: Hvernig viljið þið hafa þetta og hvað vantar ykkur? Og eins og Margrét Pála segir þá miðast skólastarfið við heiltæka skólastefnu en ef hún hentar ekki ykkar barni þá munum við skapa svigrúm. Við þurf- um til dæmis að þjálfa Þorkel um helgar og fengum til þess lykla að skólanum og frábæra vinnuaðstöðu. Hér sitjum við með hann alla laug- ardaga og sunnudaga.“ Fyrstu rannsóknir á atferlismótun fyrir þroskahamlaða og einhverfa eru næstum 40 ára gamlar en það er ekki fyrr en á síðustu árum sem hún hefur fengið viðurkenningu og þá vegna þess árangurs sem náðst hefur. Yfirvinna fötlunina „Þessi meðferð hefur verið að ryðja sér til rúms á síðustu árum,“ segir Þorsteinn. „Til þessa hefur við- horf til fatlaðra einstaklinga og þjálf- un miðast við að kenna þeim fatlaða að athafna sig með sinni fötlun og lifa með henni en atferlismótunin miðar að því að yfirvinna fötlunina og ná að lifa eðlilegu lífi.“ „Áður sætti fólk sig við fötlunina og þjálfun einhverfra miðaðist við að þeir gætu bjargað sér og að þeir slösuðust ekki. Sá fatlaði fékk hjálm og allt umhverfið var gert þannig úr garði að engin hætta væri á að hann færi sér að voða,“ segir Margrét. Þorkell er í markvissri átta klukku- stunda þjálfun í skólanum og er hver mínúta skipulögð. Einhverf börn taka ekkert frumkvæði og beinist þjálfun Þorkels að því að fá hann til að herma eftir öðrum, fyrst þjálf- urunum, sem eru þrír og fylgja hon- um til skiptis hvert fótmál og síðan lærir hann að herma eftir börnunum á leikskólanum. Þau Þorsteinn og Margrét eru sammála um að hin börnin taki Þorkeli mjög vel og án nokkurra fordóma. „Eitt barnanna hafði orð á því að Þorkell talaði „útlensku“,“ segir Mar- grét og hlær. „En hann talar aðeins öðruvísi en þau. Þau eru alveg laus við fordóma þannig að hann er einn af þeim og fær að njóta sín. Fyrir þeim er hann einstakur, sérstakur.“ Einstakur leikskóli Þau segjast ekki hafa verið með uppeldisstefnu skólans í huga þegar þau ákváðu að leita til Margrétar Pálu. „Það er ekki vegna kynjastefn- unnar sem er hluti af uppeldisstefnu leikskólans sem við leituðum hing- að,“ segir Margrét. „En hefði ég vit- að um þennan skóla þegar eldri syn- irnir voru ungir þá hefði ég farið með þá hingað. Þessi leikskóli er ein- stakur að öllu leyti. Í raun hafði ég ekki hugsað svo mikið um mismun kynjanna en það er ekki laust við að ég sé farin að líta þennan mun öðr- um augum. Á leikskólanum sem Þorkell var áður á voru stúlkurnar alltaf í mömmuhlutverkinu þegar hann átti í hlut og strákarnir skiptu sér lítið sem ekkert af honum. En hér sé ég að strákarnir eru líka komnir í mjúku umönnunarhlut- verkin með stelpunum. Hér er verið að byggja upp og hlúa að styrk- leikum kynjanna þannig að bæði kynin fá að njóta sín á sínum eigin forsendum. Þannig að það hefur verið gaman að fylgjast með þeim.“ Margrét Dagmar Ericsdóttir, Þorkell og Cecilia C. Castro við æfingar. Mannkærleikur, virðing og reisn

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.