Morgunblaðið - 10.08.2003, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 10.08.2003, Blaðsíða 21
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 10. ÁGÚST 2003 21 Aríar Skilgreining orðsins náði upphaflega yfir þær þjóðir sem töluðu tungumál af indó-evrópskum uppruna. Nasistar þrengdu hópinn niður í fólk af norður- evrópskum toga. Efst á blaði var há- norrænt fólk, bláeygt og ljóshært. Að dómi nasista voru aðrir kynstofnar þeim óæðri og ógnuðu hinum göfugu Germönum með blöndun og úrkynjun. Einsatzgruppen Færanlegar herdeildir sem voru af- tökusveitir öryggislögreglunnar og SS; fylgdu eftir þýska innrásarhern- um í Sovétríkin í júní 1941. Þær nutu fulltingis óeinkennisklæddra, þýskra öryggislögreglumanna og þess hluta íbúa innlimaðra ríkja á borð við Eista, Letta, Litháa og Úkraínumenn, sem gengu til liðs við nasista. Fórnarlömb morðsveitanna voru yfirleitt aflífuð með skotvopnum, komið fyrir í fjölda- gröfum sem síðar voru grafnar upp og líkin brennd. A.m.k. ein milljón gyð- inga var myrt á þennan hátt. Evian-ráðstefnan (6. júlí 1938) Fundur 32 vestrænna þjóðarleiðtoga sem kallaður var saman af Franklin D. Roosewelt Bandaríkjaforseta í Evian- les-baines, í Frakklandi. Tilgangurinn var að ræða flóttamannavandamál gyðinga en árangurinn varð nánast enginn þar sem langflest Vesturlanda voru treg til að taka á móti flótta- mönnum af gyðingaættum. Fangabúðir Jafnskjótt og þeir komust til valda í lok janúar 1933, stofnuðu nasistar „fangabúðir“ þar sem „óvinum“ Þriðja ríkisins var komið fyrir. Upphaf- lega kommúnistar og vinstri menn; menn sem studdu gamla keisaraveld- ið, Vottar Jehóva, hommar, vanvitar, sígaunar og „andþjóðfélagslegir hóp- ar“. Árið 1938 var farið að fangelsa gyðinga fyrir það eitt að vera af þeim kynþætti. Fyrstu fangabúðirnar voru stofnaðar í Dachau, Buchenwald og Sachsenhausen. Gettó Nasistar endurreistu gyðingahverfin sem gengið höfðu undir þessu nafni allt frá miðöldum. Gettóið var borg- arhluti þar sem öllum íbúum af gyð- ingaættum var smalað saman og skipað að dvelja. Hverfunum var í flestum tilfellum lokað með mann- heldum veggjum og gaddavírsgirðing- um auk strangrar gæslu hermanna. Gettóin voru einkum í Austur-Evrópu þar sem gyðingar voru fjölmennastir (í Lódf, Vilnius, Ríga, Mínsk, Lublin og Varsjá, sem var langstærst þeirra allra.) Helförin Þjóðarmorð á um 6 milljónum manna af gyðingaættum, framin af nasistum og meðreiðarsveinum þeirra í Evrópu á árunum 1933–45. Fjöldi annarra einstaklinga og þjóðfélagshópa var tekinn af lífi og þjáðist ólýsanlega en engir aðrir en gyðingar voru auð- kenndir og eytt af fullkominni ná- kvæmni þjóðarmorðsins. Kapo Fangi sem nasistar skipuðu yfir sam- fanga sína. Líknardráp Upphafleg merking orðsins er einfald- ur og kvalalaus dauðdagi þeirra sem eru dauðvona, haldnir ólæknandi sjúk- dómi. Líknardrápsáætlun nasista var öllu ómennskari: Að kynbæta og auka gæði hins þýska kynstofns með „náð- ar“-drápum á „fávitum“, þeim sem voru varanlega fatlaðir og afskræmd- ir, auk þeirra sem var „ofaukið“. Lokalausnin Nafngift áætlunarinnar um útrýming- arherferð á gyðingum í Evrópu – „lokalausn gyðngavandamálsins“. Aðgerðin hófst í desember 1941 þeg- ar fyrstu lestarfarmarnir af hinum „óæðri“ kynstofni voru fluttir austur á bóginn. Var einnig felumáluð undir blekkingarheitinu „Endurlandnámið í austri“. Mein Kampf „Barátta mín“, sjálfsævisögulegt ritverk sem Adolf Hitler skráði meðan hann sat í fangelsi árið 1923 fyrir mis- lukkaða uppreisnartilraun. Þar kemur m.a. fram trú hans á yfirburði hins s.k. aríska kynstofns og rétt hans til að fá andrúm (lebensraum) í austri (sem var byggt hinum óæðri kynþætti slava); ofsafenginn andkommúnismi og gyðingahatur. Hér var línan lögð, verkið varð e.k. stefnuskrá nasista síðar meir. Var, til allrar ógæfu, ekki tekið alvarlega en álitið óráðshjal brjálæðings, er það kom út. Nürnberg-lögin Tveir andgyðinglegir lagabálkar, sam- þykktir í sept. 1933, á þingi nasista- flokksins í Nürnberg. Sá fyrri svipti alla þýska gyðinga borgaralegum réttindum og ríkisfangi. Sá síðari inni- hélt verndarlög þýsks blóðs og heið- urs. Lagt var bann við blönduðum hjónaböndum Þjóðverja og gyðinga; gyðingum bannað að ráða þýskt kvenfólk á barneignaraldri í vinnu og gyðingum bannað að umgangast þýska fánann. Síðari viðbætur við bálkana bannfærðu gyðinga í þýsku samfélagi. SS Skammstöfun, jafnan rituð einsog tvenn eldingartákn, fyrir Schultz- staffell (varnar- og öryggisdeildir). Upphaflega skipaðar sem persónu- legar lífvarðarsveitir foringjans, en fengu risavaxið hlutverk er þær kom- ust undir stjórn Heinrichs Himmler; sem leyniþjónusta og afl er fylgdi eftir útrýmingaráætlun gyðinga. Útrýmingarbúðir Fyrst og fremst sex búðir, allar í Pól- landi, þar sem nasistar framkvæmdu þjóðarmorð á gyðingum og fleirum (einkum sígaunum, sovéskum stríðs- föngum og sjúkum föngum). Þekkt- astar sem „útrýmingar- eða dauða- búðir“, þær 6 illræmdustu kenndar við Auschwitz-Birkenau, Belzec, Chelmno, Majdanek, Sobibor og Treblinka. Varsjár-gettóið Sett á laggirnar í nóv. 1940, umkringt mannheldum veggjum umhverfis hrikalegar aðstæður um hálfrar millj- ónar gyðinga. Á því eina ári 1942 létu þar lífið um 45 þúsund gyðingar sök- um fólksmergðar, af þrældómi, sulti, skorti á hreinlætisaðstöðu og sjúk- dómum. Íbúarnir gerðu uppreisn gegn kúgurum sínum í apríl/maí 1943, sem lauk með því að hverfið var jafn- að við jörðu og hundruð þúsunda eft- irlifenda flutt til Treblinka þar sem þeir voru kæfðir í gasklefunum, allir sem einn. Wannsee-ráðstefnan (20. janúar 1942) Þing æðstu manna Þriðja ríkisins, þ.á m. Reinhard Heydrich og Adolf Eichmann, kennt við samnefnt vatn rétt utan við Berlín. Þar var lagt á ráð- in um „Lokalausnina“ – þjóðarmorðið á gyðingum. Veigamiklir atburðir, hugtök og staðir sem tengjast Helförinni Gömul mynd af horfnu aðalhliðinu inn í dauðabúðirnar í Majdanek. sem hann varð að leggjast ofaná líkin sem fyrir voru. Þannig voru þær smám saman fylltar, hvert líklagið ofan á annað uns þær voru barma- fullar. Karlar voru aðskildir frá kon- um. Slátrunin stóð hvíldarlaust frá því árla morguns til kl. 5 um daginn. SS liðarnir höfðu vaktaskipti og nýir leystu þá af sem fyrir voru á mat- málstímum svo ekkert hlé yrði á drápinu. Allan daginn hljómaði tón- list frá tveimur bílum, útbúnum há- tölurum.“ Við nálgumst lokaáfangann, lík- brennsluna á hæðinni, ásamt sínum gasklefum og öðru tilheyrandi morð- verksmiðjunni. Byggingin er furðu heilleg enda kom Sovétherinn nasist- unum í opna skjöldu svo þeir náðu ekki að eyða nema litlu af verksum- merkjunum. Þá höfðu þeir drepið um 360.000 fanga; flutt 45.000 til annarra dauðabúða; um 20.000 var sleppt. 500 tókst að flýja og um 1.500 fangar voru frelsaðir. Við erum aleinir í garranum á hæðinni. Opnum þessar dauðans dyr og förum með hálfum huga inní gluggalitla bygginguna. Komum fyrst að líkbrennslunni. Ofnarnir Tárin byrja að trilla niður kinnarnar á gamla manninum. Maður andar léttara eftir að lyftan hefur brunað með okkur uppí dags- ljósið að nýju. Ég hef fengið að heyra eina örlagasögu af milljón, sögu sem til tilbreytingar fór blessunarlega vel þegar allt kemur til alls. Endastöðin Við félagarnir ákváðum að gera Majdanek að næsta viðkomustað. Þessar illræmdu útrýmingarbúðir höfðum við frétt að væru þær best varðveittu í Póllandi en eru lítið þekktar miðað við Auschwitz – Birk- enau. Fjærri alfaraleið, nokkra kíló- metra utan við borginni Lublin í Austur-Póllandi. Við gerðum okkur ekki fyllilega grein fyrir fjarlægðun- um, lestin staðnæmdist víða þannig að ferðin frá Kraká tók lungann úr degi. Veðrið kólnaði eftir því sem norðar dró, við komum til Lublin síðla dags í dæmigerðu íslensku maíveðri. Sval- ur norðangarrinn gat þess vegna staðið af Esjunni. Mátturinn þverr í Majdanek Morguninn eftir er napurt og sól- arlítið. Við Eyvi semjum við Lödu- eiganda um að aka okkur til Majd- anekbúðanna og sækja okkur fjórum tímum síðar. Eftir örfárra mínútna akstur staðnæmist hann við gríðar- stóra höggmynd. Annan helming minnismerkis um fórnarlömb Hel- fararinnar á þessum eyðilega stað – þó svo útjaðar Lublinborgar sé í nánd. Við hefjum gönguna við þann hluta verksins sem er í formi risavax- ins hliðs með stórum táknum sem hafa margvíslega merkingu. Þau geta táknað sorg, gleði, sigur. Hinn hlutinn er við enda svæðisins í u.þ.b. kílómetrafjarlægð þar sem lík- brennslan stendur enn heilleg uppi. Sá helmingur nefnist Grafhýsið; risa- vaxinn hringlaga brunnur, yfir- byggður svipmiklum hjálmi úr ryð- fríu stáli. Brunnurinn hýsir mörg tonn jarðneskra leifa fórnarlamb- anna, teknum úr öskuhaug lík- brennslunnar, sem var rofinn 1969 er listaverkin voru reist. Milli helftanna er stígur sem er í dag kenndur við Lotningu. Á tímum Helfararinnar hét hann hinsvegar Svartistígur og var aðalflutningsleið- in með fangana inn í dauðahverfið. Efnið sem notað var í þessa heljar- slóð er viðeigandi: Bautasteinar úr grafreitum gyðinga í Lublinborg. Heinrich Himmler ákvað staðsetn- ingu Majdanek árið 1941. Stríðs- rekstur nasista gekk vel, hvert landð af öðru lagt undir Þriðja ríkið og stríðsfangavandamálið orðið umtals- vert. Staðarvalið að hætti hússins: Tveir risastórir grafreitir hins fjöl- menna gyðingasamfélags í Lublin. SS-mönnum var því hægt um heima- tökin hvað snerti efnið í Svartastíg. Upphaflega áttu búðirnar að hýsa 25–50.000 fanga og starfsorka þeirra að nýtast margvíslegum iðnaðarfyr- irtækjum á Lublinsvæðinu. Þær voru austastar þrælabúða ríkisins og komust ráðamenn fljótlega að gildi þeirra sem birgðastöð vinnuafls. Hér var kjörlendi matar- og stríðsgagna- framleiðslu. Síðar átti að stækka búðirnar um helming. Á örskömmum tíma reis fjöldi bygginga á svæðinu. Þetta voru vandaðir herskálar fyrir SS-menn með spilavíti, krám og veit- ingasölum; stjórnstöðvar, verkstæði og hráslagaleg fangaskýli. Að ógleymdri, betrumbættri fjölda- morðsaðstöðu með 9 gasklefum og stórri og afkastamikilli líkbrennslu sem reist var 1943. Tvöföld rafmögn- uð gaddavírsgirðing með u.þ.b. 9 metra háum varðturnum með skömmu millibili umlykur svæðið. Eftir drjúgan göngutúr náum við að fyrstu byggingunum, fangaskýl- unum sem standa utarlegaá afgirtu útrýmingarbúðasvæðinu. Þeir eru nýfúavarðir, það breytir engu um að frá þeim andar köldu í pasturslitlum gróandanum. Engu líkara en hálf- kæringur ríki í öllu lífi á svæðinu. Örfáirgestir á ferli fyrir utan okkur. Majdanek virðist vel geymt og vel við haldið leyndarmál. Hér virkar allt til muna raunveru- legra og ólíkt safnkenndu andrúminu og túrismanum í Auschwitz – Birk- enau. Áhrifin skella af fullum þunga á taugakerfið. Áfram er arkað milli hráslagalegra skálanna í nepjunni. Einn er fullur af mannshári, annar af skóm. Hér er samankominn fróðleik- ur um sögu búðanna, nokkrir skál- arnir hlaðnir skjölum og pappírum. Allir eru þeir illa lýstir, ég hnýt um bekk og sköflungarnir fá heldur bet- ur fyrir ferðina. Vansæld mín er al- gjör. Við Eyvi höldum þögulir áfram okkar þrautagöngu frá hjalli til hjalls. Einn hýsir dísilvél, útblástur- inn tengdur gasklefa. Þessi búnaður var víða notaður áður en herraþjóðin náði tökum á tækninni og hóf fram- leiðslu á Zyklon B. Annar skáli geymir nokkuð magn af þeim ófögn- uði. Kútastæðan stendur úti í horni, það glittir í hana í hálfrökkrinu líkt og djöflaglyrnur og er sannast sagna óféleg sjón. Við berum talsverðan kvíðboga fyrir skála 12, sem samkvæmt bæk- lingnum var endastöð fársjúkra fanga. Um leið og einhver var álitinn nær dauða en lífi var honum stungið inní skálann og hurðinni læst. Eng- inn fékk matarbita í hjallinum, þaðan bárust öskur og óhljóð sjúkra og solt- inna, nótt sem nýtan dag. Jafnvel úkraínsku málaliðunum, frægum sakir mannvonsku, var illa við að sinna þeirri einu þjónustu sem íbúar í skála 12 fengu að njóta: Að drösla þeim út dauðum. Fangarnir í Majdanekbúðunum bjuggu við þá lítt eftirsóttu sérstöðu að hér voru böðlarnir kærulausari en annars staðar við framkvæmd þjóð- armorðsins. Gengin í líkbrennslu og gasklefum voru mestmegnis gyðing- ar. Fjöldaaftökur fyrir opnum tjöld- um voru algengar. Til er þekkt, skrá- sett lýsing á slíkum hrottaatburði sem gerðist 3. nóvember 1943 þegar 18.000 fangar voru skotnir til bana. Þeir voru síðustu einstaklingar gyð- ingsamfélagsins í Lublin. Þrír djúpir skurðir voru grafnir í grennd við lík- brennsluna. Eftir hefðbundna könn- un í fangabúðunum árla morguns, var gyðingunum smalað inní skála, þeir klæddir úr hverri spjör og síðan reknir að gröfunum í litlum hópum. Látum vitnisburð Erics Muhsfeldt við Nürnberg réttarhöldin 1945, lýsa atburðarásinni: „Gyðingarnir lögðust niður í graf- irnar og SS liðar úr Sonderkomm- ando-sveitunum, sem stóðu uppi á grafarbakkanum, hófu á þá vélbyssu- skothríð. Hver hópurinn á fætur öðr- um var rekinn niður í grafirnar þar standa í langri röð, tveir frekar en þrír á hæðina. Þeir eru stærrri og veigameiri en í Auschwitz. Einum þremur líkum má troða í hverja skúffu, sem síðan er rennt inn í múr- steinsofnana. Inni í þeim er talsverð aska, hér hefur ekki mátt snerta við neinu frá því að Rauði herinn og pólskir skæruliðar frelsuðu búðirnar, tæpum mánuði eftir að við Íslending- ar lýstum yfir stofnun lýðveldisins. Ég reika inn eftir byggingunni, við Eyvi verðum viðskila, hann er sem bergnuminn við líkbrennsluofnana. Helst vil ég leggja á flótta, forða mér út, en ætla mér ekki að gefast upp á síðustu metrunum. Ég finn á mér að endapunktur ferðarinnar nálgast. Kem inn í lítið, ljóslaust og drungalegt herbergi. Sé votta fyrir borði á miðju gólfi. Þegar augun fara að venjast myrkrinu sé ég að það er merkt: „Krufningarborð. Hér var gerð hinsta rannsókn á líkunum í leit að verðmætum.“ Ég stend stjarfur, mér finnst ein- hver anda helköldu niður um háls- málið. Hrekk í kút þegar Eyvi kemur allt í einu náhvítur inn úr dyrunum. „Er eitthvað að?“ spyr ég hjáróma. „Ég fékk hálfgert sjokk,“ segir hann, „mér fannst einhver standa á bak við mig.“ Hér liggur illskan í loftinu. Lík- brennsluhúsið í Majdanek kemur enn fram gæsahúðinni og veldur okk- ur martröðum. Áfallið sem heltók okkur austur í Malopolska, vorið 2001, var lokapunkturinn, svarið við spurningunni sem hafði ásótt mig í áratugi. Ég hafði snert sannleikann. Snemmbúin leiðarlok Það er skemmst frá að segja að eftir að hafa skoðað gettóið fræga í Lublin, þar sem veggir húsanna bera enn greinileg verksummerki síðari heimsstyrjaldarinnar, héldum við í snatri til Varsjár. Við eyddum hálfum degi í að skoða Varsjárgettóið fræga en þar var lítið að sjá. Nánast ekkert stendur eftir annað en örfáir húsveggir sem minna á risavaxinn harmleikinn sem átti sér stað og lýst er í bókum einsog Mila 18 og Glóðu ljáir, geirar sungu; að ógleymdri The Pianist, nýju kvik- myndinni hans Polanski. Þar er sögusviðið og atburðarásin endur- sköpuð af fullkominni virðingu. Skoðuðum Ghettosafnið en fannst lít- ið til koma. Við vorum búnir að sjá þetta allt og miklu meira til. Vorum búnir að fá okkur fullsadda. Treblinka? Birgðir kjarks og orku voru gjörsamlega uppurnar. Við gát- um ekki til þess hugsað að upplifa fleiri hörmungar þessa vikuna. Treblinka varð að bíða. Vitanlega vorum við ekki að upp- götva neinn nýjan stórasannleik í þessari einstæðu ferð. Aðeins að upplifa staðreyndir, sjá með eigin augum staði sem í dag eru orðnir ótrúlega fjarlægir samtíðinni þrátt fyrir þjóðarmorðið á gyðingum og önnur glæpaverk sem þar voru fram- in. Í kennslubókum fer æ minna fyrir Helförinni. Ungt fólk í dag hefur tak- markaða hugmynd um þann hrylling sem átti sér stað fyrir ekki lengri tíma en röskri hálfri öld. Það er vara- samt. Með því að gleyma fljótum við fyrr að feigðarósum. Það er hollt að hafa hugfast að sú hrakta og smáða og nánast útrýmda þjóð sem slapp lífs af frá Helförinni á lítið skylt við það brot Ísraelsmanna sem sýnir eilífa hörku gegn andstæð- ingum sem sýnt hafa þeim hatur og blý allt frá því að skammhuga, sam- viskubitið Alþjóðasamfélagið holaði leifum gyðingaþjóðarinnar niður í Ísrael. Í auðskildri óþökk þeirra sem fyrir voru. Hvað augun viðvíkur sem ég nefndi í upphafi, þá ásækja þau mig enn. Helstu heimildir Atlas of the Holocaust Ritstjóri: Martin Gil- bert. The Holocaust: The Destruction of Europ- ean Jewry 1933–1945, e. Noru Levin. Encyclopedia of the Holocaust (Macmillan Publishing Co.). The Rise and Fall of the Third Reich, e. William L. Shirer. The Secretary: Martin Bormann, The Man Who Manipulated Hitler, e. Jochen Von Lang. The Theory and Practice of Hell e. Eugen Kogon (Um SS og útrýmingarbúðirnar.) Majdanek e. Önnu Wisniewska og Czeslav Rajca. http://www.wiesenthal.com http://www.nizkor.org/ saebjorn@mbl.is Ljósmynd/Eyjólfur Karlsson Annar hluti risavaxins minnismerk- is um fórnarlömb Helfararinnar í út- rýmingarbúðunum í Majdanek. Táknin merkja sorg, gleði og sigur.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.