Morgunblaðið - 21.09.2003, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 21.09.2003, Blaðsíða 30
MINNINGAR 30 SUNNUDAGUR 21. SEPTEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Axel ArthúrKristjánsson fæddist í Kaup- mannahöfn 20. sept- ember 1924. Hann lést á Hjúkrunar- heimilinu Skógarbæ í Reykjavík 8. sept- ember síðastliðinn. Móðir Axels var Vilborg Guðlaugs- dóttir, f. 25. júlí 1902, d. 18. desember 1961. Systkini Axels sammæðra eru Guð- mundur Pétursson, f. 1931; Haraldur Haf- steinn Pétursson, f. 1933; Ellert Hallur Pétursson, f. 1937; Nína Ágústa Pétursdóttir, f. 1944; og Hulda Erla Pétursdóttir, f. 1945. Dóttir Axels er Ágústa Hrönn Axelsdóttir, f. 21. september 1952. Móðir hennar er Selma Sig- urjónsdóttir, f. 2. ágúst 1930. Sambýlismaður Ágústu er Þorsteinn Snædal, f. 11. febr- úar 1953. Sonur þeirra er Óttar Snæ- dal Þorsteinsson, f. 20. apríl 1985. Eldri sonur Ágústu er Daði Ingólfsson, f. 13. febrúar 1975. Faðir hans er Ing- ólfur Steinsson, f. 25. janúar 1951. Sambýliskona Daða er Gunnhildur Ólafs- dóttir, f. 24. mars 1972. Axel ólst upp frá ungum aldri hjá afa sínum og ömmu á Frakka- stíg 5. Hann lærði bakaraiðn og vann mestallan sinn starfsferil hjá Brauðgerð Mjólkursamsöl- unnar. Útför Axels hefur farið fram í kyrrþey. Þá er hann afi minn endanlega farinn frá mér. Það er nú orðið nokkuð fráliðið síðan sjaldgæf heilabilun gerði það að verkum að sá maður sem ég þekkti og elskaði sem afa minn tók að hverfa mér og fjölskyldu minni sjónum. Þessi maður sem gekk mér í föðurstað og var mér á margan hátt einstök fyr- irmynd tók að sýna ýmis einkenni heilabilunar um það leyti sem hann lagði bakarahúfuna á hilluna. Hér var maður sem unnið hafði hörðum höndum verkamannavinnu verksmiðjubakarans. Hann hafði lagt sæmilega fyrir og átti skuld- lausa íbúð í vesturbænum þrátt fyr- ir að hafa séð mér og móður minni fyrir hverju því sem hann taldi okk- ur skorta. Í seinni tíð áskotnaðist okkur mömmu svo bróðir og sonur og mamma fékk manninn, Þorstein Snædal, í kaupbæti. Afi tók sig nú fljótt til og hóf að dekra við nýja dóttursoninn líkt og hann hafði við þann fyrri. Því þótti mér það grát- legt að einmitt á þeim tíma sem afi ætlaði að fara að njóta elliáranna skyldi þessi veiki gera vart við sig. Þetta hljómar sjálfsagt biturt, og það er það, en auðvitað var ekkert við þessu að gera og því reynir maður nú að minnast hans sem mest eins og hann var fyrir veik- indin. Hann afi er í minningunni sá besti, snyrtilegasti, kurteisasti, best klæddi og svo ekki sé minnst á örlátasti maður sem ég hef kynnst. Hann var auðvitað enginn engill frekar en aðrir menn og barðist hann lengi við alkóhólisma, en ein- hvern veginn man ég þó aldrei eftir honum drukknum. Ég hef á tilfinn- ingunni að hann hafi reynt að passa upp á að ég sæi hann ekki þegar hann fór á túr. Flestar mínar bestu minningar um afa eru þær þegar við gerðum eitthvað saman tveir. Afi gekk og hjólaði alla sína ævi og tók aldrei bílpróf. Því er ekki skrítið að oft muni ég eftir mér sitjandi á stöng- inni milli sætis og stýris á DBS- hjólinu hans (sem enn er í notkun og sér varla á eftir rúmlega 20 ára notkun!) þar sem við þeystum í hjó- latúrum hingað og þangað um bæ- inn. Hann afi minn gaf mér líka fyrstu tvö hjólin mín sem ég gleymi seint, en ég veit þó ekki hversu ánægður hann var með hvernig ég fór með hið fyrra sem var að Kalk- hoff-gerð. Það var mjög flott með brettum og bögglabera sem ég reif af þegar í stað til þess að gera það að meira „toffæruhjóli“. Mig minnir að honum hafi ekki þótt það sérlega herralegt. Hann afi fór nú ekki oft í bíó en hins vegar fór hann alltaf með mig á James Bond myndirnar um leið og þær komu í bíó sem oftast ef ekki alltaf var gamla Tónabíó. Ég held reyndar að séntilmaðurinn Bond hafi að sumu leyti höfðað til hans þar sem báðir áttu þeir sam- eiginlegt að vera nokkuð fágaðir og snyrtilegir til fara. Svo man ég ennþá nokkuð glögglega eftir því þegar ég var svona 5-6 ára að ég fékk að gista hjá honum í herberg- inu sem hann leigði í gömlu Mjólk- ursamsölunni. Ég man að það að liggja á vindsæng fyrir framan sjónvarpið hjá afa á föstudagskvöldi var mikill toppur á minni tilveru. Ísskápurinn hans afa skipaði líka merkan sess í tilverunni ásamt „skúffunni“. Ísskápurinn var alltaf fullur af gosi og í frystinum var iðu- lega að finna rjómaís. Afi svitnaði töluvert við vinnu sína og fannst gott að koma heim og sturta í sig lítilli kók eða jafnvel Sinalco og ekki þótti afastrákunum hans það neitt verra! „Skúffan“ geymdi svo ýmsar gerðir súkkulaðis, brjóstsykurs og tyggjós; í herberginu í Mjólkursam- sölunni var „skúffan“ í skrifborðinu en vestur á Álagranda var hún flutt í eldhúsið og munum við bræður báðir vel eftir því að koma til afa og biðja fljótt um að fá að fara í „skúff- una“. Sumarið áður en ég fór í tíunda bekk í grunnskóla reddaði afi mér svo vinnu í Brauðgerðinni og rætt- ist þá sá draumur sem ég bar í brjósti mér sem polli. Þegar ég var lítill kom ég nefnilega ansi oft að heimsækja afa í vinnuna og fékk að borða innan úr franskbrauðum sem eitthvað höfðu mislukkast, en brögðuðust svona líka einstaklega vel. Þá aðeins nokkurra ára gamall tók ég loforð af yfirmanni afa að ég fengi vinnu þegar ég hefði aldur til og stóð það eins og stafur á bók þarna þegar ég var fimmtán ára. Mikið vildi ég að síðustu árin hans afa hefðu getað verið ham- ingjuríkari og að við hefðum átt fleiri góð ár saman en enginn veit víst sína ævina fyrr en öll er. Ég sakna afa míns sárlega og mun ávallt elska hann og heiðra. Ég vona bara að hann hafi það gott og sé einhvers staðar með filterslausa Camel í annarri og kaffibolla í hinni. Þinn afadrengur, Daði. Það er föstudagur. Ég, lítill pjakkur, stekk spenntur upp stig- ann á Álagrandanum. Afi Axel stendur á stigapallinum, hallar sér yfir handriðið og býður okkur mömmu velkomin. Við göngum inn í tandurhreina íbúðina en afi hefur rétt lokið við að þrífa hana hátt og lágt eins og hann gerði alltaf á föstudögum áður en við komum, ekki rykkorn að sjá enda hefur það örugglega ekki verið þar fyrir. Við innganginn tek ég af mér skóna og mér verður litið á stytturnar af Don Kíkóta og Sansjó Pansa sem minna mig á dálæti afa á Don Kíkóta. Ég set turtles-strigaskóna mína hjá skósafni afa en það er nú ekki af verri endanum. Fallegir, vandaðir og vel pússaðir skór standa undir fallegum frökkum og jökkum sem hanga á herðatrjám í fatahenginu enda er það lýsandi fyrir afa þar sem hann var annálað snyrtimenni sem lét ekki sjá sig nema í nýpress- uðum fötum og nýpússuðum skóm með sixpensara eða hatt yfir vel greiddu hárinu. Þegar við förum að koma okkur fyrir er afi ekki lengi að skynja það sem ofarlega er í huga sex ára pilts. Hann gengur rösklega að frystinum og tekur til við að skammta veglega af ís og síðan nammi meðan hann spyr okkur frétta, léttur á fæti, grannur og glaðlyndur. Það var ekki einungis genatengt líkamlegt atgervi sem gerði hann svona léttan á fæti heldur var það lífsstíll hans. Hann afi gekk eða hjólaði nefnilega eiginlega allra sinna ferða, bílpróf var óþarft. Þegar nóg er komið af sælgæti held ég inn í svefnherbergi afa á meðan feðginin sötra kaffi og halda áfram að spjalla um daginn og veg- inn. Ég sest í fína leðurstólinn hans og skoða hillurnar. Einu sinni sem oftar gríp ég bækurnar með mynd- unum af stöðunum sem afi hefur heimsótt. Ég gapi yfir myndum af framandi stórborgum og risamann- virkjum en í návist þeirra hefur afi eflaust kunnað vel við sig þar sem hann ferðaðist mikið, bæði einn og með vinum sínum. Þegar tími er kominn til að halda heim á leið fylgir afi okkur út á stigapall og horfir á eftir okkur. Ég þakka kærlega fyrir mig og kveð afa. Óttar. Tengdafaðir minn, Axel Krist- jánsson bakari, lést 8. september síðastliðinn, tæpra 79 ára gamall. Hann hafði átt við vanheilsu að stríða síðustu árin en bjó þó við góða heilsu fram undir sjötugt. Kynni okkar Axels hófust þegar við Ágústa dóttir hans rugluðum sam- an reytum og hófum búskap fyrir tæpum tuttugu árum. Allar götur síðan voru kynni okkar traust og góð. Ég held að margir samferðamenn Axels muni minnast hans fyrir fá- gæta glæsimennsku og kurteisi sem hann hafði svo sannarlega til að bera; hann var hávaxinn og grann- ur, mikill göngugarpur, enda léttur á fæti og bar sig vel. Auk þess hafði Axel gott skopskyn og var oft glett- inn í tilsvörum. Við sem stóðum honum nær munum ekki síður hversu nærfærinn og góður afi hann var og hve hann var alltaf tilbúinn að leggja lið. Að leiðarlok- um kveð ég góðan dreng með virð- ingu og þakklæti. Hvíl í friði. Þorsteinn Snædal. AXEL ARTHÚR KRISTJÁNSSON Elskuleg systir okkar og mágkona, BIRNA ÁRMANNSDÓTTIR, Hátúni 12, Reykjavík, sem lést föstudaginn 5. september, verður jarðsungin frá Hafnarfjarðarkirkju mánudaginn 22. september kl. 13.30. Blóm og kransar eru vinsamlegast afþakkaðir, en þeim, sem vilja minnast hennar, er bent á Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra. Guðný Ármannsdóttir, Baseer Paracha, Vigfús Ármannsson, Sæunn Sigursveinsdóttir, Heiða Ármannsdóttir, Halldór Frank, Jón Birgir Ármannsson. Faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, BJÖRGVIN FREDERIKSEN, sem andaðist á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ föstudaginn 12. september, verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju mánudaginn 22. september kl. 13.30. Þeim, sem vilja minnast hans, er vinsamlega bent á að láta hjúkrunarheimilið Skógarbæ njóta þess, sími 510 2100. Hilmar Björgvinsson, Rannveig Haraldsdóttir, Birna Björgvinsdóttir, Bjarni Stefánsson, Friðrik Björgvinsson, Sigrún Valsdóttir, Sigurbjörg Björgvinsdóttir, Sigurður Björgvinsson, barnabörn og barnabarnabörn. Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengda- móðir, amma og langamma, ELSA S. MELSTED, sem andaðist fimmtudaginn 11. september sl., verður jarðsungin frá Neskirkju þriðjudaginn 23. september kl. 15.00. Páll Melsted, Victor Melsted, Rannveig Árnadóttir, Halldór Melsted, Þórunn Kristinsdóttir, Hansína Melsted, Ævar Sigurðsson, Stefán Melsted, Kristín Árnadóttir, Páll Melsted, Guðlaug Elíasdóttir, Ruth Melsted, Ólafur Melsted, Valgerður Ásta Sveinsdóttir, ömmu- og langömmubörn. Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, BOGA KRISTÍN KRISTINSDÓTTIR MAGNUSSEN, Skarði 2, Skarðsströnd, andaðist á dvalarheimilinu Barmahlíð fimmtudaginn 18. september. Ólafur Eggertsson, Svava Hjartardóttir, Elinborg Eggertsdóttir, Kristinn Thorlacíus, barnabörn og barnbarnabörn. Elskulegi drengurinn okkar, bróðir og barna- barn, ÁRNI ÁSBERG ALFREÐSSON, Stuðlabergi 76, Hafnarfirði, sem lést sunnudaginn 14. september, verður jarðsunginn frá Vífilsstaðakirkju þriðjudaginn 23. september kl. 15.00. Blóm og kransar vinsamlega afþakkaðir, en þeim, sem vilja minnast hans, er bent á Barnaspítala Hringsins. Alfreð Ásberg Árnason, Magnea Snorradóttir, Guðný Ásberg Alfreðsdóttir, Árni Samúelsson, Guðný Ásberg Björnsdóttir, Snorri Magnússon, Elísabet Hrefna Jónsdóttir. Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma, langamma og vinkona, GUÐNÝ GUÐNADÓTTIR, Egilsbraut 9, Þorlákshöfn, lést á heimili sínu fimmtudaginn 18. septem- ber. Jarðarförin auglýst síðar. Kjartan Óskarsson, Sigríður Óskarsdóttir, Ragnhildur Óskarsdóttir, Pálmi Ragnarsson, Björg Óskarsdóttir, Þórður Ólafsson, Hjördís Óskarsdóttir, Ólafur Sæmundsson, Þórarinn Óskarsson, Valgerður Guðmundsdóttir, Jensína Óskarsdóttir, Birgir Guðmundsson, Sigurður Óskarsson, Jónína Sigurjónsdóttir, Guðmundur Óskarsson, Sveindís Alexandersdóttir, barnabörn og barnabarnabörn, Guðbjörn S. Jónsson.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.