Morgunblaðið - 31.10.2003, Page 10
FRÉTTIR
10 FÖSTUDAGUR 31. OKTÓBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ
ÍSLAND færir sig upp um fjögur
sæti á lista yfir samkeppnishæfni
þjóða heims sem unninn er af World
Economic Forum. Ísland er nú í átt-
unda sæti en var í 12 sæti á síðasta
ári.
Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar-
og viðskiptaráðherra kveðst ánægð
með niðurstöðuna. „Við erum á upp-
leið sem sýnir að það er einhver
heildarhugsun í gangi hjá íslenskum
stjórnvöldum. Á þeim opna markaði
sem við störfum á í dag er aðalmálið
auðvitað að geta staðist samkeppni
og mér finnst stjórnmálin snúast
meira og minna um það að styrkja
samkeppnisstöðu Íslands. Þess
vegna er mjög ánægjulegt að sjá að
við erum á réttri leið í þeim efnum,“
sagði Valgerður í samtali við Morg-
unblaðið.
Valgerður sagði að góð samkeppn-
ishæfni landsins skipti unga fólkið
ekki síst máli. „Til þess að unga fólk-
ið velji að setjast að á Íslandi þarf Ís-
land einfaldlega að vera best.“
Ísland fékk hvað lakasta einkunn
þegar gefin var einkunn fyrir ný-
sköpun í landinu. Valgerður segist
skilja það mjög vel. „Innan stjórn-
kerfisins höfum við ekki verið með
nógu góðan farveg fyrir nýsköpun.
Það sem hins vegar gerist með sam-
þykkt laganna um vísinda- og tækni-
ráð og það að á næsta ári skuli verða
settur á laggirnar tækniþró-
unarsjóður skiptir mjög miklu máli.
Ég hef tekið eftir því í mínu starfi að
það er ákveðin nýsköpunargjá hér
sem ekki hefur verið brúuð, en þessi
nýju lög og sjóðurinn nýi ættu að
hafa verulega mikið að segja um
stöðu okkar að þessu
leyti.“
Gleðileg niðurstaða
Ari Edwald, fram-
kvæmdastjóri Samtaka at-
vinnulífsins, segir að niður-
staðan sé gleðileg. Hann
segir að kannanir sem
þessar staðfesti þá þróun
sem samtökin telji að hafi
orðið til batnaðar á starfs-
skilyrðum íslensks atvinnu-
lífs. „Það er ánægjulegt að
hækka á listanum, en um
leið sést að mörg okkar
helstu nágranna- og sam-
keppnislönd skora hærra en við,
þannig að það er enn svigrúm til að
gera betur,“ sagði Ari í samtali við
Morgunblaðið.
Hann segir að það sé hins vegar
bagalegt hve Ísland kemur illa út úr
mælingu á nýsköpunarhlutanum.
„Aðrar kannanir sýna mikinn frum-
kvöðlavilja Íslendinga. Við höfum ný-
lega endurskipulagt mikið stuðnings-
umhverfi rannsókna og nýsköpunar
og ég held að þessi niðurstaða hljóti
að vera okkur hvatning til að setja
meira kjöt á þau bein og styrkja þá
sjóði sem fjármunum er veitt úr í
þeim málaflokki.“
Mælikvarði á bætt umhverfi
Tryggvi Þór Herbertsson, for-
stöðumaður Hagfræðistofnunar Há-
skóla Íslands, segir að aukin sam-
keppnishæfni Íslands sé ótvírætt
mælikvarði á það hvað umhverfi fyr-
irtækja er að batna hér á landi. „Þetta
ætti að virka sem hvati á erlendar
fjárfestingar hér á landi og
ætti einnig að halda ís-
lenskum fyrirtækjum í
landinu. Það er mjög góð
þróun sem birtist í þessum
niðurstöðum,“ sagði
Tryggvi í samtali við Morg-
unblaðið.
Spurður um það af
hverju Ísland fengi jafn-
góða einkunn og raun bæri
vitni þegar metin væru
gæði stofnana sagði
Tryggvi að sú niðurstaða
kæmi ekki á óvart.
„Skattkerfið hér er mjög
gott. Hér eru lágir skattar
á fyrirtæki og tiltölulega auðvelt að
telja fram til skatts. Peningamála-
stjórnin er eins og hún þekkist best í
heiminum með flotgengi og verð-
bólgumarkmið og ef við skoðum fjár-
málahliðina þá var Ísland eitt af
fyrstu ríkjum heims sem fór að gera
ríkissjóð upp á rekstrargrunni. Það
hefur verið lítið tap og skuldir hafa
verið greiddar upp og slíkt. Ef við
skoðum lífeyrisskuldbindingar ríkis-
ins eru þær að mjög miklu leyti fjár-
magnaðar, ólíkt og í löndum t.d. í Mið-
Evrópu eins og Þýskalandi, Ítalíu og
Frakklandi, sem standa frammi fyrir
stókostlegu vandamáli.“
Skýrsla World Economic Forum
um samkeppnishæfi þjóða var birt í
gær, en 102 þjóðir taka þátt. Listinn
er unninn upp úr könnun sem gerð er
á meðal leiðandi aðila í viðskiptalífi
landanna. Mælikvarðar eru helstir;
tækniumhverfi, gæði opinberra stofn-
ana og efnahagslegt umhverfi í lönd-
unum.
$%
&%
'%
&(%
)%
*%
+%
&$%
,%
$(($
MEÐ komu Íslands inn á listann yfir tíu samkeppnishæfustu þjóðir heims
eru allar Norðurlandaþjóðirnar nú á meðal efstu tíu þjóða hvað samkeppn-
ishæfni varðar. Finnland trónir á toppnum, Svíþjóð er í þriðja sæti og Dan-
mörk í fjórða sætinu. Þá er Noregur í sætinu á eftir Íslendingum, eða því
níunda.
Samkvæmt því sem fram kemur í frétt frá Iðntæknistofnun, samstarfs-
aðila World Economic Forum á Íslandi, standa Íslendingar framar öðrum
þjóðum í upplýsinga- og fjarskiptatækni og eru í fremstu röð hvað varðar
gæði opinberra stofnana.
Helstu skýringar þess að samkeppnisumhverfi á Íslandi hefur batnað
milli ára eru betri efnahagsskilyrði, að því er segir í fréttinni. Þegar efna-
hagsskilyrði eru borin saman hafnar Ísland í 16. sæti og hefur hækkað um
átta sæti frá fyrra ári. Veikasti þátturinn í samkeppnishæfni Íslands er ný-
sköpun eins og fyrr sagði. Ísland hafnar aðeins í 21. sæti í samanburði á ný-
sköpun.
Bandaríkin falla úr fyrsta sæti
Fram kemur í skýrslunni að Bretland hefur dottið niður um fjögur sæti
og niður í það 15. og Kanada hefur dottið út af listanum yfir tíu efstu, í það
16, einkum vegna þess að gæðum opinberra stofnana hrakaði.
Bandaríkin eru í öðru sæti í ár en voru í fyrsta sæti í fyrra. Bandaríkin
standa öðrum þjóðum framar í nýsköpun en minnkandi gæði opinberra
stofnana og einnig versnandi efnahagsskilyrði draga landið niður.
Stöðug aukning
Í frétt Iðntæknistofnunar segir að samkeppnisumhverfi á Íslandi hafi
batnað jafnt og þétt undanfarin ár. Árið 2001 var Ísland í 16. sæti og hafði
þá hækkað um sjö sæti frá árinu 2000 og úr 38. sæti árið 1997.
Sterkustu stoðir Íslands hvað samkeppnishæfni varðar eru lítil spilling,
sterkir innviðir
og traustar opinberar stofnanir, að því er segir í fréttinni. Þeir þættir
sem mest koma niður á viðskiptaumhverfi á Íslandi að mati framámanna í
íslensku viðskiptalífi, eru verðbólga, íþyngjandi vinnumarkaðslöggjöf og
erfiður aðgangur að lánsfé. Aðrir þættir sem hafa neikvæð
áhrif á samkeppnishæfni Íslands eru mikill vaxtamunur í bankakerfinu,
lítill sparnaður og lítill fjöldi háskólanema.
Allar Norðurlandaþjóð-
irnar meðal tíu efstu
Samkeppnishæfni landsins góð
KONUR úr íslenskum kvennasam-
tökum fjölmenntu á þingpalla Al-
þingis í gær er Kolbrún Halldórs-
dóttir, þingmaður Vinstrihreyfing-
arinnar – græns framboðs, mælti
fyrir frumvarpi til laga sem kveður
á um bann við kaupum á kynlífs-
þjónustu. Með frumvarpinu er m.a.
lagt til að hver sá sem greiði fyrir
kynlífsþjónustu af nokkru tagi skuli
sæta fangelsi allt að tveimur árum.
Fjórtán þingkonur úr VG, Samfylk-
ingu, Frjálslynda flokknum og
Framsóknarflokknum standa að
frumvarpinu.
„Þetta mál hefur verið lagt fram á
fjórum undangengnum þingum,“ út-
skýrði Kolbrún, „en nú ber svo til að
þingkonur allra flokka, utan Sjálf-
stæðisflokksins, hafa komið sér
saman um þetta mál“. Hún gerði
nánari grein fyrir frumvarpinu og
sagði: „Nú er það svo að refsiábyrgð
vegna vændis hvílir á herðum þeirra
sem leiðast út í vændi, þ.e. á herðum
þeirra sem neyðast til að selja að-
gang að líkama sínum. Þetta telja
flutningsmenn frumvarpsins vera
misráðið. Við viljum breyta
áherslum með því að færa refsi-
ábyrgðina yfir á herðar þess sem
býr til eftirspurnina, þ.e. á herðar
kaupandans.“ Með frumvarpinu er
m.ö.o. gert ráð fyrir því að refsi-
ábyrgð vegna vændis breytist þann-
ig að kaup á vændi og annarri kyn-
lífsþjónustu verður refsiverð en
vændi sem stundað er til framfærslu
verður ekki lengur refsivert.
Nýta sér eymdina og volæðið
Nokkrar þeirra þingkvenna sem
standa að frumvarpinu tóku til máls
í umræðunni. Guðrún Ögmundsdótt-
ir, þingmaður Samfylkingarinnar,
sagði m.a. að það gæti ekki verið sið-
legt að einhver keypti aðra mann-
eskju til að þjóna kynlífsþörfum sín-
um. Og Jónína Bjartmarz, þing-
maður Framsóknarflokksins, sagði
m.a. að þeir sem keyptu sér vændi
væru að nýta sér veika félagslega,
andlega og efnahagslega stöðu fólks
sem seldi líkama sinn. „Þeir sem eru
að kaupa eru að nýta sér eymdina
og volæðið sem þetta fólk býr við,“
sagði hún.
Drífa Hjartardóttir, þingmaður
Sjálfstæðisflokksins, greindi frá því
að þótt þingkonur Sjálfstæðisflokks-
ins hefðu ekki staðið að frumvarp-
inu, þá væru þær síður en svo sam-
þykkar vændi. Jónína kom aftur í
pontu og sagði m.a. að í allsherj-
arnefnd þingsins yrði rætt frekar
um frumvarpið. Kvaðst hún vonast
til þess að í þeirri nefnd yrði hægt
að ná „einhverri lendingu“ um frum-
varpið „þannig að allar konur geti
staðið saman að því“.
Engin systrasamstaða
Ágúst Ólafur Ágústsson, þing-
maður Samfylkingarinnar, sagði að
með frumvarpinu væri verið að færa
refsiábyrgðina þangað „sem hún
ætti heima“ og Steingrímur J. Sig-
fússon, formaður VG, sagðist vonast
til þess að umrætt mál fengi af-
greiðslu á þessu þingi. „Ég bind
miklar vonir við að svo verði.“
Ásta Möller, varaþingmaður
Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi
hvernig staðið hefði verið að kynn-
ingu frumvarpsins. Sagði hún að við
kynninguna hefði tækifærið verið
notað til að ráðast á þingkonur
Sjálfstæðisflokksins fyrir að vera
ekki meðflutningsmenn frumvarps-
ins. „Skilaboðin voru þau að konur í
Sjálfstæðisflokknum væru svo aum-
ar að þær þyrðu ekki að taka af-
stöðu nema bera það undir karlana í
flokknum,“ sagði hún. „Það fór því
lítið fyrir systrasamstöðu. Það átti
að koma höggi á starfssystur sínar.
Vissulega er það svo að konur og
karlar í Sjálfstæðisflokknum – og
reyndar þingheimur allar – eru í
sárum eftir þá niðurstöðu þingkosn-
inganna í vor að fimm reyndar
stjórnmálakonur Sjálfstæðisflokks-
ins duttu út af þingi. Það var hins
vegar lúalegt bragð af konum í öðr-
um flokkum þingsins að snúa hnífn-
um í sárinu.“ Hún sagði að konum í
Sjálfstæðisflokknum hefði ekki ver-
ið gefið tækifæri til að standa að
frumvarpinu. Þeim sem haft hefði
verið samband við hefði verið gefinn
kostur á að svara samdægurs. Hún
sagði það þó annað mál hvort þing-
konur Sjálfstæðisflokksins væru
efnislega sammála frumvarpinu.
Sjálf sagði hún að frumvarpið gengi
út á að gera það ólöglegt að kaupa
vændi en gera það löglegt að stunda
það. „Þetta passar ekki saman í
mínum huga. Ég er ósammála þess-
ari nálgun og finnst hún ekki rök-
rétt.“
Kolbrún Halldórsdóttir kom aftur
í pontu og vísaði fyrrgreindri gagn-
rýni Ástu á bug. „Mér finnst þetta
mál svo miklu mikilvægara heldur
en svo að það sé hægt að ásaka mig
um það að ég hafi með lúalegu
bragði reynt að koma höggi á þing-
konur Sjálfstæðisflokksins. Það hef
ég sannarlega ekki gert, sagði Kol-
brún.“
Mælt fyrir frumvarpi um bann við kaupum á vændi
Kaupandinn beri
refsiábyrgðina
FJÖLDI fólks lagði leið sína á Aust-
urvöll í gær til að taka þátt í með-
mælastöðu þar sem mælt var með
hinu svonefnda vændisfrumvarpi.
Þingfulltrúar voru hvattir til að sam-
þykkja frumvarpið sem felur í sér að
kaup á vændi verða gerð refsiverð og
sektinni verður létt af vændiskonum
og körlum.
Margrét K. Sverrisdóttir, þing-
maður Frjálslynda flokksins, mætti
til meðmælastöðunnar en að hennar
mati á ekki að vera leyfilegt að versla
með fólk. „Þetta er siðferðisleg yf-
irlýsing sem skiptir mjög miklu máli.
Við höfum stutt þetta frumvarp frá
upphafi og það hefur ekkert breyst.“
Guðrún Ögmundsdóttir, þingmað-
ur Samfylkingarinnar, býst fastlega
við því að allir þingmenn Samfylk-
ingarinnar greiði atkvæði með frum-
varpinu. „Þetta mál er með mjög
góðan stuðning í mínum þingflokki,“
segir Guðrún.
Landssamband framsóknar-
kvenna sendi á dögunum frá sér yf-
irlýsingu þess efnis að frumvarpið
skyldi samþykkt og fulltrúar sam-
bandsins mættu í meðmælastöðuna.
Bryndís Bjarnason varaformaður
segir að þetta frumvarp eigi að vera
þverpólitísk mál. „Þetta er mjög
þarft mál. Í Svíþjóð hefur ástandið
lagast til muna síðan frumvarpið var
samþykkt,“ segir Bryndís.
Aðilarnir 14 sem stóðu að með-
mælunum eru: Bríet – félag ungra
feminista, Femínistafélag Íslands,
Kvenfélagasamband Íslands,
Kvennakirkjan, Kvennaráðgjöfin,
Kvenréttindafélag Íslands, Neyðar-
móttaka vegna nauðgunar, Samtök
um kvennaathvarf, Stígamót, Tíma-
ritið Vera, Unifem á Íslandi, Félag
kvenna í læknastétt á Íslandi,
Landssamband framsóknarkvenna
og V-dagssamtökin.
Morgunblaðið/Þorkell
Fjórtán aðilar stóðu að meðmælum við Alþingishúsið í gær til að lýsa
stuðningi við frumvarp um vændi sem þá var til umræðu.
Mælt með lagafrum-
varpi um vændi
VEGNA mistaka við vinnslu
fréttar blaðsins í gær var sagt
að hlutfall varaþingmanna á Al-
þingi væri nú um 7% en hið
rétta er að hlutfallið er rúm
17%. Beðist er velvirðingar á
þessu.
Hlutfall vara-
þingmanna
rúm 17%