Morgunblaðið - 25.11.2003, Page 25

Morgunblaðið - 25.11.2003, Page 25
LISTIR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 25. NÓVEMBER 2003 25 TVENNIR kórtónleikar voru haldnir síð- astliðna helgi. Þeir mynda samfellu að því leyti til, að Kór Langholtskirkju er að horfa yfir farinn veg eftir langt og farsælt starf en nýr kór Áskirkju er að hefja sína göngu og stofna til átaka við stórverkefni kórsögunnar. Messías eftir Handel Um það leyti sem Handel vann við að semja Messías hafði hann upplifað mikla erfiðleika við að halda úti óperufyrirtæki sínu, svo að þær sögur gengu í London, að hann væri gjaldþrota, sem mun ekki hafa átt við rök að styðjast, þótt flutningurinn á síðustu óperu hans hafi fallið. Handel hafði áður átt gott samstarf við tónleikahaldara í Dublin og þar sem Lundúnabúar höfðu að nokkru snúið við honum baki, og m.a. var því jafnvel haldið fram í Daily Post að hann hygðist flytja til Þýskalands, var Dublin besti kosturinn og er skemmst frá því að segja, að þar hlaut Messías frábærar viðtökur. Þegar verkið var fyrst flutt í London, 23. mars 1743, auglýsti hann það sem nýtt trúarlegt óratóríó, til að „móðga“ ekki neinn, nokkuð sem mistókst, því í dag- blöðum, áður en verkið var frumflutt, var flutningur þess í leikhúsi (Covent Garden) kallaður guðlast. Baksvið þessa voru deilur meðal manna um trúmál, evangalista, meþód- ista og jafnvel púrítana, sem voru andsnúnir allri „nautnahyggju“ í listum. Verkið féll og það var ekki fyrr en 1750, sem Lundúnabúar tóku þetta meistaraverk að fullu í sátt. Það sem var sérstakt við flutning Messíasar eftir Handel í Langholtskirkju sl. sunnudag er að hér gat að heyra eins konar uppskeru- tónleika, þar sem margir þeir sem frá upphafi hafa starfað í Kór Langholtskirkju, undir stjórn Jóns Stefánssonar, mættu til leiks, bæði kórfélagar og þeir sem síðar leituðu sér fram- haldsmenntunar á sviði sönglistar. Kórinn taldi ríflega stórt hundraðið og með sex einsöngvurum og 28 manna hljómsveit náði hópurinn í heild alls vel hálfu öðru hundr- aðinu. Þó er sagan ekki öll sögð, því flutning- urinn var einstaklega glæsilegur og oft stór- kostlega áhrifamikill og því mikill listasigur fyrir Jón Stefánsson og flytjendur alla sem einn. Hljómsveitin lék mjög vel, strengirnir sam- stilltir, þó á einstaka stað mætti heyra áherslutónana stytta, líklega samkvæmt ósk stjórnandans og úreltri gamalhyggju, svo sem heyra mátti í upphafskaflanum (Grave), sem gerði alvöruþrungið tónferlið höktandi. Þetta eru að vísu smámunir á móti öðru góðu hjá hljómsveitinni. Hljómsveitarrithátturinn er nánast allur í strengjunum og óbóið og fagott- inn tvöfalda að mestu kórraddirnar, eins og strengirnir. Í Halelújakórnum bætast við trompetraddir og pákur. Í aríunni The trum- pet shall sound var trompeteinleikur Ásgeirs Steingrímssonar sérlega glæsilegur. Þessi ein- faldi ritháttur átti sinn þátt í að margir ágætir tónlistarmenn, m.a. Mozart, reyndu að end- urbæta hljómsveitarútfærsluna, en allar út- færslurnar hafa verið dæmdar óhæfar, því hjá Handel fer saman í hljómsveit, kór og ein- söngsröddum nokkuð sem nefna mætti heil- stæða tónræna hugsun, sem í engu verður endurbætt. Svona til að agnúast yfir smámunum, þá var í efnisskrá (nema í texta Árna Heimis) hvergi, hvorki á forsíðu né annars staðar, þess getið að snilldarverkið Messías væri eftir George Frideric Handel, eins og hann ritaði nafn sitt (ekki Händel) eftir að hann gerðist enskur borgari. Kórinn var ótrúlega góður og þótt deila megi um hraðaval og þar með stemmninguna í einstaka þáttum féll allt í farveg glæsilegrar hljómgunar, t.d. var Halelúja-þátturinn yfir- þyrmandi tignarlegur. Fyrstur einsöngvara til að stíga á pall var Björn Jónsson í tónlesinu Comfort ye og arí- unni Every walley, sem hann söng mjög vel og með töluverðum tilþrifum. Eitthvað gaf hann eftir í seinni aríunum og átti m.a. í smáerf- iðleikum með hæstu tónana. Þóra Einarsdóttir söng mjög vel og sérstaklega var túlkun henn- ar sterk í síðustu aríu verksins, If God is for us. Ólöf Kolbrún Harðardóttir var sérlega yf- irveguð og söng mjög vel, einkum í fyrstu aríu þriðja hlutar, I know that my Redeemer li- veth. Ung söngkona, Marta Hrafnsdóttir, hef- ur mikla rödd og gerði margt fallega, t.d. í He was despised, þó nokkuð ætti hún í vök að verjast á móti sterkum hljómi hljómsveitar- innar í seinni hluta aríunnar. Það sem hún á eftir að ná valdi á varðar hljóðfræði, sem oft vill vera vandamál hjá þeim sem hefur lagt sig t.d. eftir þeirri hljóðfræði, sem er í gildi í námslandinu. Viðar Gunnarsson söng vel, bæði í tónlesinu Thus saith the Lord og arí- unni But who may abide. Ein af frægustu arí- um verksins er The Trumpet shall sound og þar fór Bergþór Pálsson á kostum, stundum þó nokkuð yfirdrifið en umfram allt með mikl- um „bravúr“. Það væri of langt mál að telja upp alla ein- söngsþættina en einsöngvararnir áttu sinn stóra þátt í glæsilegri uppfærslu verksins, sem Jón Stefánsson stjórnaði af öryggi og festu, og hvað sem líður afstöðu til einstakra atriða, er varða tempó og stemmningar, þá vann Jón Stefánsson stóran listasigur með þessari frá- bæru uppfærslu á Messíasi eftir Handel. Hátíðartónleikar Kórverk eftir Saint-Saëns og Vivaldi voru viðfangsefni á hátíðartónleikum kirkjukórs Áskirkju, undir stjórn Kára Þormars, sl. sunnudag, ásamt einsöngvurum og kammer- sveitinni Aldavinum, en fyrir henni fór Rut Ingólfsdóttir sem konsertmeistari. Fyrra verkið var Oratorio de Noël op. 12. nr. 2 eftir Camille Saint-Saëns, sem hann mun hafa samið mjög ungur. Frá 13 ára aldri stundaði Saint-Saëns píanónám við tónlistar- skólann í París en 16 ára hóf hann nám í tón- smíði hjá Halévy og Gounod við sama skóla. Hann var innan við tvítugt er fyrsta sinfónía hans op. 22. var uppfærð. Það sem einkennir þessa litlu jólaóratóríu er það sem vantar í tónmálið, þó að öðru leyti búi það yfir áferðarfallegri sviplítilli hljóman. Varðandi efnisskrá hefði verið til þæginda ef tilgreint hefði verið hverjir sungu hina ýmsu einsöngskafla en einsöngvararnir voru í felum í kórnum. Þeir sem undirritaður sá eftir tölu- verðar hálsteygjur og þekkti voru Elma Atla- dóttir, Hallveig Rúnarsdóttir og Hrólfur Sæ- mundsson, sem sungu af reisn, en aðrir voru Jóhanna Ósk Valsdóttir, Oddný Sigurðardótt- ir, Sibylle Köll og Björn Thorarensen, sem einnig sungu með kórnum, sem var nokkuð góður. Seinna verkið var Gloría eftir Vivaldi. Það er margt skemmtilegt stefjaefnið í þessu vin- sæla verki, þótt Vivaldi væri skammaður fyrir að nota hljóma ótæpilega í grunnstöðu og sí- spila sömu bassanóturnar. Það er greinilegt að Vivaldi hefur ætlað kaflaskilin á sumum köfl- um þéttari en gert var á þessum tónleikum. Hvað um það, þá söng kórinn oft nokkuð hressilega aðalkafla verksins, en glaðlegt og opinskátt tónmálið er einmitt aðalsmerki Vi- valdis. Það tekur langan tíma að búa til kór og kenna fólki að syngja inn í sama tóninn og einnig þarf að velja viðfangsefnin sem leið- arsteina á þeirri vegferð. Með heilsteyptan kór er nauðsynlegt að ráðast í flutning á stórum og erfiðum verkum og er Kári Þormar að því leyti til á réttri leið, þótt kórinn hafi ein- um of borið merki samtínings þjálfaðra söngv- ara, en kórinn sjálfur verið heldur veikburða fyrir þessi viðfangsefni, sérstaklega Gloríuna, sem að mörgu leyti var þokkalega flutt. Glæsilegur flutningur á Messíasi TÓNLIST Langholtskirkja ÓRATÓRÍAN MESSÍAS EFTIR HANDEL Flytjendur voru Kór Langholtskirkju, Sinfóníuhljómsveit Íslands, með Sigrúnu Eðvalds- dóttur sem konsertmeistara, undir stjórn Jóns Stef- ánssonar. Einsöngvarar: Ólöf Kolbrún Harðardóttir, Þóra Ein- arsdóttir, Marta Hrafnsdóttir, Björn Jónsson, Berg- þór Pálsson og Viðar Gunnarsson. Fimmtudagurinn 20. nóvember. Áskirkja KÓRTÓNLEIKAR Flutt voru kórverk eftir Saint-Saëns og Vivaldi. Flytj- endur; Kór Áskirkju og Kammersveit, konsertmeist- ari Rut Ingólfsdóttir og einsöngvararnir Elma Atla- dóttir, Hallveig Rúnarsdóttir, Jóhanna Ósk Valsdóttir, Oddný Sigurðardóttir, Sibylle Köll, Björn Thor- arensen og Hrólfur Sæmundsson. Stjórnandi Kári Þormar. Sunnudagssíðdegi 23. nóvember. Morgunblaðið/Jim Smart Jón Stefánsson æfir Kór Langholtskirkju fyrir flutninginn á Messíasi eftir Handel. Jón Ásgeirsson Á SÍÐUSTU háskólatónleikum þessa haustmisseris í Norræna húsinu kl. 12.30 á morgun, mið- vikudag, syngur Graduale nobili undir stjórn Jóns Stefánssonar. Á dagskránni eru verk eftir Báru Grímsdóttur, Hildigunni Rúnars- dóttur, Hjálmar H. Ragnarsson, Jón Ásgeirsson (úts.), Javier Busto, Matti Hyökki (úts.), Gustav Holst, Robert Sund, Alice Tegner og Giuseppe Verdi. Graduale nobili var stofnaður haustið 2000. Kórinn er skipaður 24 stúlkum á aldrinum 17–25 ára, völdum úr hópi þeirra sem sungið hafa með Gradualekór Langholts- kirkju. Morgunblaðið/Árni Sæberg Stúlknakór syngur á hádegistónleikum EPTA-píanókeppni fyrir unga pí- anóleikara fer fram í Salnum í Kópavogi dagana 26.-30. nóvember. Það er Íslandsdeild EPTA, Evrópu- sambands píanóleikara, sem stend- ur fyrir keppninni sem er ætluð efnilegum píanónemendum 25 ára og yngri. Þetta er í annað sinn sem keppnin er haldin í Salnum. Fyrst fór hún fram árið 2000 en þá fór Víkingur Heiðar Ólafsson með sig- ur af hólmi. Keppnin fer fram í þremur flokk- um: miðnám (4-5 stig, ekki eldri en 15 ára), framhaldsnám (6-7 stig, ekki eldri en 19 ára) og háskólanám (ekki eldri en 25 ára). Forkeppni fyrir mið- og háskólanám verður haldin á morgun og fyrir fram- haldsnám hinn daginn. Úr- slitakeppni í öllum flokkum verður á laugardag. Keppnin stendur yfir frá kl. 9-17 miðvikudag og fimmtu- dag og frá 10-16 á laugardeginum. Keppnin er opin almenningi til áheyrnar gegn gjaldi. Verðlaunaaf- hending fer fram á sunnudag. Keppendur velja verk samkvæmt uppgefnum verkefnalistum fyrir hvern flokk fyrir sig en þar er gefið upp val á verkefnum frá ákveðnum tímabilum tónlistarsögunnar. Haukur Tómasson hefur samið verkið Brotnir hljómar fyrir keppn- ina en það skal leikið í úrslitum í efsta flokki. Dómnefnd keppninnar sam- anstendur af fimm dómurum en hana skipa: Anna Guðný Guð- mundsdóttir, Anna Þorgrímsdóttir, Halldór Haraldsson, Þorsteinn Gauti Sigurðsson og formaður dómnefndar, próf. Peter Topercz- er, rektor Listaakademíunnar í Prag. Sunnudaginn 30. nóvember kl. 14 verða veitt verðlaun og við- urkenningar fyrir 1., 2. og 3. sæti í hverjum flokki. Sigurvegarar hvers flokks munu koma fram og leika fyrir áheyrendur. Stjórn EPTA vill hvetja kennara, nemendur þeirra og aðra sem áhuga hafa til að mæta á keppnina. Ungir píanóleikarar keppa Morgunblaðið/Kristinn Víkingur Heiðar Ólafsson bar sigur úr býtum í síðustu keppni.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.