Morgunblaðið - 09.03.2004, Blaðsíða 10
FRÉTTIR
10 ÞRIÐJUDAGUR 9. MARS 2004 MORGUNBLAÐIÐ
DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra sagði á Al-
þingi í gær að það væri mat ríkisstjórnarinnar
að með kjarasamningum Starfsgreinasambands
Íslands, Flóabandalagsins og Samtaka atvinnu-
lífsins, sem undirritaðir voru á miðnæti sl.
sunnudag, skapaðist skilyrði til þess að áform
ríkisstjórnarinnar um skattalækkanir gætu náð
fram að ganga, þ.e. verði samningarnir mótandi
fyrir aðra þá kjarasamninga sem framundan
eru. „Ljóst er að þær [skattalækkanirnar] munu
auðvitað að sínu leyti enn auka við þann kaup-
mátt sem þessir kjarasamningar leggja þá
grundvöll að með því að skapa umgjörð stöð-
ugleika og sátta í þjóðfélaginu.“
Forsætisráðherra lét þessi orð falla við upp-
haf þingfundar á Alþingi í gær, eftir að hafa lesið
yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því á sunnu-
dag, en hún greinir frá atbeina hennar að fyrr-
greindum kjarasamningum. Yfirlýsingin var í
heild sinni birt í Morgunblaðinu í gær.
Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylk-
ingarinnar, og Guðjón A. Kristjánsson, formað-
ur Frjálslynda flokksins, tóku fram á þingfund-
inum að þeir fögnuðu umræddri yfirlýsingu
ríkisstjórnarinnar. Össur sagði að Samfylkingin
teldi að ríkisstjórnin hefði gert rétt með því að
liðka fyrir kjarasamningum með þessum hætti
og Guðjón sagði sömuleiðis að Frjálslyndi flokk-
urinn fagnaði því að ríkisstjórnin skyldi koma að
gerð kjarasamninga með þessum hætti. „Við
teljum að það sé mikil ábyrgð því samfara að
reyna að tryggja hér vinnufrið til næstu fjög-
urra ára.“
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-
hreyfingarinnar – græns framboðs, var ekki
eins sáttur við yfirlýsinguna. „Það vekur athygli
að hlutur ríkisins í pakkanum, þegar upp er
staðið, er mun minni en menn reiknuðu með.
Það er augljóst mál að verkalýðshreyfingin hef-
ur í þeim efnum gefið verulega eftir. Það voru
uppi hugmyndir um mun meiri þátttöku hins op-
inbera í að styrkja lífeyrissjóðina og létta til
dæmis af þeim greiðslu örorkulífeyris,“ sagði
Steingrímur m.a.
Árni Magnússon félagsmálaráðherra minnti
m.a. á að lífeyrismálin yrðu áfram til umfjöll-
unar milli ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðar-
ins. Hann sagði aukinheldur að mikilvægt skref
hefði verið stigið með umræddri yfirlýsingu.
„Hóflegir samningar á vinnumarkaði leggja
grunninn að auknum kaupmætti fólksins í land-
inu. Þar hefur ríkisstjórnin lagt sín lóð á vog-
arskálarnar.“
Útgjöld um 2,8 milljarðar á ári
Davíð Oddssson greindi frá því í upphafi þing-
fundar að yfirlýsingin hefði verið gefin út eftir
samráð við aðila vinnumarkaðarins á undan-
förnum vikum. Kom fram í máli hans að litið
væri svo á að samningarnir, sem undirritaðir
voru á miðnæti á sunnudag, væru mótandi
„varðandi samningsgerð almennt á vinnumark-
aði,“ eins og hann komst að orði. Ráðherra bætti
því þó við að menn gerðu sér grein fyrir því að
samningarnir væru háðir ýmsum fyrirvörum,
sem aðilar hefðu komið sér saman um. „Og auð-
vitað er sú yfirlýsing sem hér er gefin háð sömu
fyrirvörum, þ.e. að samningagerðin haldi til
fjögurra ára,“ sagði hann ennfremur. „Ríkis-
stjórnin lítur þannig á að þegar allir þeir þættir
sem ríkisstjórnin lofar að beita sér fyrir í
tengslum við gerð kjarasamninganna eru komn-
ir til framkvæmda að fullu verði útgjöld ríkisins
á ári hverju milli 2,7 og 2,8 milljarðar kr. vegna
kjarasamninganna. Ríkisstjórnin telur að það sé
verjanlegt að slíkar fjárhæðir séu látnar úr rík-
issjóði í tilefni þessarar kjarasamningagerðar
vegna þess að mjög mikilvægt er að samningur
sé gerður til svo langs tíma sem þarna er gert.
Það tryggir áframhaldandi stöðugleika í landinu
og áframhaldandi kaupmáttaraukningu sem
verið hefur með allra mesta móti í þessu landi
miðað við önnur lönd,“ sagði hann.
„Jafnframt er rétt að fram komi að þegar rík-
isstjórnin lýsti því yfir í stjórnarsáttmála sínum
að á þessu kjörtímabili yrðu gerðar breytingar á
þar til greindum sköttum til lækkunar var fram
tekið að þær breytingar hlytu auðvitað að hafa
hliðsjón af og tengjast fyrirvörum um að kjara-
samningar almennt gæfu tilefni til þess að slík
skattalækkun ætti sér stað. Það er mat ríkis-
stjórnarinnar að með þessum kjarasamningum,
ef þeir verða mótandi fyrir aðra kjarasamninga,
skapist skilyrði til þess að þau áform öll um
skattalækkanir geti náð fram að ganga. Ljóst er
að þær munu auðvitað að sínu leyti enn auka við
þann kaupmátt sem þessir kjarasamningar
leggja þá grundvöll að með því að skapa um-
gjörð stöðugleika og sátta í þjóðfélaginu.“
Fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórn-
arinnar frá sl. vori að á kjörtímabilinu verði m.a.
tekjuskattsprósenta á einstaklinga lækkuð um
allt að 4%, eignarskattur felldur niður, erfða-
fjárskattur samræmdur og lækkaður og virð-
isaukaskattskerfið tekið til endurskoðunar með
það í huga að bæta kjör almennings. „Ennfrem-
ur er ætlunin að auka möguleika almennings á
skattfrjálsum viðbótarlífeyrissparnaði. Skatta-
lækkanir verði nánar ákveðnar í tengslum við
gerð kjarasamninga,“ segir
í stefnuyfirlýsingu ríkis-
stjórnarinnar.
Fagnar hækkun
lægstu launa
Össur Skarphéðinsson
kom í pontu eftir ræðu for-
sætisráðherra. „Ég vil strax
í upphafi máls míns lýsa því
yfir að Samfylkingin styður
þá yfirlýsingu sem ríkis-
stjórnin hefur gefið gagnvart aðilum vinnu-
markaðarins og við teljum að ríkisstjórnin hafi
gert rétt í því að liðka með þessum hætti til svo
hægt verði að ljúka kjarasamningum farsæl-
lega. Samfylkingin mun líka fyrir sitt leyti
greiða fyrir því að þær breytingar sem þurfa að
fara í gegnum þingið gangi hratt fyrir sig. Við
höfum lýst því yfir að það skipti miklu máli að ná
kjarasamningum, og til langs tíma. Kjarasamn-
ingar eru forsenda stöðugleika. Stöðugleiki er
forsenda vaxtar. Við þurfum á vexti að halda. Ef
það er eitthvað sem þessi ríkisstjórn hefur ekki
náð í jafnríkum mæli og hún skapaði væntingar
um í kosningabaráttunni er það einmitt atvinnu-
stigið í landinu.“
Össur fjallaði síðan um sjálfa kjarasamn-
ingana. Hann fagnaði m.a. hækkun lægstu
launa. „Það sem er sérlega gleðilegt við þessa
kjarasamninga er að þeir sem hafa lægst launin
fá einna mesta hækkun. Þeir hækka strax upp í
100 þúsund krónur og eiga síðan að fá jafnmikl-
ar hlutfallshækkanir og aðrir. Þetta er sann-
arlega gleðiefni og það er í anda þeirra mark-
miða sem við jafnaðarmenn vinnum eftir. Ég
vek eftirtekt á því að ríkisstjórn boðar hækkun
atvinnuleysisbóta og það er sömuleiðis í þeim
anda sem við í stjórnarandstöðunni höfum verið
að vinna eftir. Við höfum kallað eftir hækkun at-
vinnuleysisbóta. Samt sem áður er það stað-
reynd að þessi hækkun, sem núna fyrsta kastið
verður upp í tæpar 89 þúsund krónur, er of lítil.“
Össur kvaðst einnig fagna þeim áfanga sem
náðst hefði varðandi jöfnun lífeyrisréttinda sem
og ákvörðun um framlög Atvinnuleysistrygg-
ingarsjóðs í starfsmenntasjóð fram til ársins
2002. Þá fagnaði hann orðum forsætisráðherra
um skattalækkanir. „Al-
menningi var lofað skatta-
lækkunum upp á 25 millj-
arða þegar samningarnir
væru frá. Hvenær verður
staðið við þau loforð?“
spurði hann.
Hækkun bóta sjálfsögð
Í upphafi máls síns sagði
Steingrímur J. Sigfússon
það sannarlega ánægjuefni
að náðst „hefðu saman drög að kjarasamningi
milli Samtaka atvinnulífsins og fjölmennasta
sérsambands á almennum vinnumarkaði.“
Hann sagði ýmis atriði í samningnum vissulega
fagnaðarefni. „Ég vil þá sérstaklega nefna í
fyrsta lagi styrkingu á lífeyrissjóðakerfinu í
formi aukinna iðgjaldagreiðslna inn í sjóðina á
næstu árum í áföngum,“ sagði hann. „Ég vil í
öðru lagi nefna starfsmenntasjóðina sem unnið
hafa mjög þarft verk og skipt miklu máli. Að
sjálfsögðu hefði verið fráleitt að slá þar slöku
við. Ríkið framlengir nú þátttöku sína í þeim í
gegnum Atvinnuleysistryggingarsjóð um nokk-
ur ár en síðan er gert ráð fyrir því að þeir færist
yfir á atvinnurekendur.
Í þriðja lagi er svo hækkun atvinnuleysisbóta,
sem að vísu er svo sjálfsögð og svo löngu tíma-
bær aðgerð, og þó að meira hefði verið, að það
ætti í sjálfu sér ekki að þurfa að fagna því sér-
staklega. Það vekur að vísu athygli að hlutur
ríkisins í pakkanum þegar upp er staðið er mun
minni en menn reiknuðu með. Það er augljóst
mál að verkalýðshreyfingin hefur í þeim efnum
gefið verulega eftir. Uppi voru hugmyndir um
mun meiri þátttöku hins opinbera í að styrkja
lífeyrissjóðina og létta t.d. af þeim greiðslu ör-
orkulífeyris eða koma inn í þá mynd. Í reynd er
framlag ríkisins fyrst og fremst það að þessu
leyti að falla frá 0,45% hlutum af tryggingagjaldi
gegn hækkun inngreiðslna atvinnurekenda í líf-
eyrissjóði. Það er einnig ljóst að hér er samið um
mjög lágar prósentur. Hér er verið að semja á
hógværum nótum í trausti þess að verðbólgu-
markmið Seðlabankans haldi næstu fjögur árin
og að verðlag hreyfist nánast ekki neitt, um 2%
eða svo innan ársins, enda verða að sjálfsögðu
allar kjarabætur launamanna að engu sam-
kvæmt þessum samningum ef verðlag hreyfist
eitthvað að ráði. Þarna er að vísu um opnunar-
tíma að ræða á miðjum samningstímanum en
það er algjörlega ljóst að áhættan sem tekin er
að því leyti er á herðum launamanna. Það ræðst
nánast alfarið af verðlagsþróuninni hvað al-
mennir launamenn, ef þessi samningur verður
gerður, og þeir sem þar eiga í hlut fá út úr hon-
um nema ef til kæmi endurskoðun á samningn-
um.“
Steingrímur sagði það athyglisvert að skatta-
lækkunaráform ríkisstjórnarinnar væru alls
ekki nefnd nema í framhjáhlaupi. Hann sagði að
það hefði reyndar komið á daginn að verkalýðs-
hreyfingin, eins og Starfsgreinasambandið, sem
væri sérstaklega að semja fyrir tekjulægsta
fólkið í landinu, hefði ekki haft mikinn áhuga á
skattalækkunarpakka ríkisstjórnarinnar. Hann
sagði ástæðuna þá að skattalækkanir ríkis-
stjórnarinnar ættu fyrst og fremst að koma há-
tekjufólki og eignafólki til góða.
Í máli Steingríms kom einnig fram að hann
hefði orðið fyrir vonbrigðum með að ekki skyldi
hafa náðst meiri árangur í hækkun lægstu
launa.
Ekki hækkað jafnmikið frá 1991
Árni Magnússon félagsmálaráðherra sagði í
fyrstu að það væri ánægjulegt að tekist hefðu
samningar um helgina. Ráðherra gerði hækk-
anir á atvinnuleysisbótunum að sérstöku um-
fjöllunarefni og sagði að þær hefði ekki hækkað
jafnmikið og nú á einu ári frá árinu 1991. „Með
þessari ákvörðun hækka atvinnuleysisbætur um
14,3% á þessu ári eða 11.318 krónur,“ sagði
hann. „Sá ráðherra sem hér stendur hefur líka
lýst því yfir að hann vilji sjá breytingar á at-
vinnuleysistryggingarlöggjöfinni. Sú vinna er
farin af stað.“ Ráðherra sagði auk þessa ástæðu
til að leggja áherslu á að með yfirlýsingu rík-
isstjórnarinnar yrði lagt fram aukið fé til starfs-
menntasjóðs verkafólks. „Í tengslum við kjara-
samninga árið 2000 var tekin ákvörðun um það
að verja til þeirra aðgerða um 200 milljónum
króna á því samningstímabili. Nú hefur verið
tekin ákvörðun um að þetta verði 400 milljónir.“
Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjáls-
lynda flokksins, fagnaði eins og aðrir undirritun
kjarasamninganna um helgina. Hann sagði
hækkun lágmarkslauna upp í hundrað þúsund
krónur á mánuði áfanga á réttri leið, sem bætti
afkomu þeirra sem verst væru settir. „Sömu-
leiðis eru auknar inngreiðslur í lífeyrissjóðina
merkur áfangi í því að bæta afkomu fólks á efri
árum.“
Þingmaðurinn fagnaði einnig hækkun at-
vinnuleysisbótanna. „Atvinnuleysibætur hafa
verið allt of lágar hér á landi því miður, þess
vegna ber virkilega að fagna þessum áfanga.“
Guðjón kvaðst, eins og áður sagði, fagna al-
mennt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. „Ég verð
hins vegar að segja að ég sakna þess að ekki
skuli vikið að lækkandi raungildi persónuafslátt-
arins. Það er í raun og veru ekkert vikið að
skattamálum sem slíkum í þessari yfirlýsingu.
Og við höfum eingöngu orð hæstvirts forsætis-
ráðherra hér áðan um það.“ Guðjón sagði að enn
ætti eftir að koma í ljós hvernig þær skattalækk-
anir yrðu útfærðar. Í lok máls síns sagði hann að
Frjálslyndi flokkurinn myndi að sjálfsögðu
leggja góðum málum lið.
Komi öllum til góða
Davíð Oddsson þakkaði talsmönnum flokk-
anna góðra og málefnalegar undirtekir undir lok
umræðunnar um þetta mál á Alþingi í gær.
Hann gerði síðan skattamálin aftur að umtals-
efni og sagði að auðvitað myndu þær skattalegu
breytingar, sem gerðar yrðu, koma félögum
þessara samtaka og annarra aðila á vinnumark-
aðnum með einhverjum hætti til góða. „Við vit-
um til að mynda – þó það hljómi þannig að eign-
arskattar séu eingöngu fyrir þá sem mest eiga –
að það er til að mynda margt eldra fólk, sem fyr-
ir ráðdeild, dugnað og sparnað hefur til að
mynda önglað fyrir sæmilegri íbúð. Þegar ald-
urinn færist yfir og tekjur minnka er eignar-
skatturinn eins og hann birtist hér á landi þessu
fólki mjög íþyngjandi og erfiður, þannig að slíkt
fólk hefur mikið gagn af því að eignarskattur sé
til að mynda aflagður.“
Davíð rifjaði það upp að forðum daga hefðu
spurningar fréttamanna snúist um það hvort
nýgerðir kjarasamningar væru raunhæfir;
hvort þeir myndu halda gagnvart verðlaginu í
landinu. Síðan sagði hann: „Það sem nú er að
gerast – ekki með þessum samningi endilega,
heldur með honum og með öðrum samningum –
er að kjarasamningar eru almennt orðnir raun-
hæfir. Menn vilja frekar tryggja mestu kaup-
máttaraukningu sem menn hafa séð, bæði í
þessu landi og öðrum á undanförnum áratug,
fremur heldur en að setja inn í samninga stórar
tölur sem engin forsenda eða undirstaða er fyr-
ir. Þetta er hin mikla breyting sem hefur orðið
og það er ríkisstjórninni fagnaðarefni að mega
fyrir sitt leyti taka þátt í því að leggja sitt af
mörkum við gerð slíks kjarasamnings.“
Davíð Oddsson forsætisráðherra við umræður um nýgerða kjarasamninga á Alþingi
Samningar
skapa skilyrði
fyrir skatta-
lækkanir
Davíð Oddsson gerði grein fyrir aðkomu ríkisstjórn-
arinnar að kjarasamningunum sem undirritaðir voru
um helgina á Alþingi í gær. Formenn Samfylkingar og
Frjálslynda flokksins tóku vel í yfirlýsinguna en for-
maður Vinstri grænna sagði hlut ríkisstjórnarinnar
minni en reiknað hefði verið með.
Morgunblaðið/Golli
Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði við upphaf þingfundar í gær að útgjöld ríkisins vegna
aðgerða ríkisstjórnarinnar í tengslum við samningana yrðu 2,7–2,8 milljarðar kr. á ári.