Morgunblaðið - 09.03.2004, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - 09.03.2004, Blaðsíða 37
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 9. MARS 2004 37 ✝ Sigrún Pálsdótt-ir fæddist á Borg í Njarðvík við Borg- arfjörð eystri 15. apríl 1917. Hún lést á elli- og hjúkrunar- heimilinu Grund 1. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Páll Sveinsson, f. 29. febrúar 1888, d. 1. júlí 1947, og Þuríður Gunnars- dóttir, f. 20. júní 1893, d. 25. júlí 1956. Þau voru bændur. Systkini Sigrúnar eru Daníel, f. 10. apríl 1915, Þorbjörg, f. 21. maí 1920, og Sigurður Óskar, f. 27. desember 1930. Daníel og Þorbjörg eru lát- in. Hinn 26. september 1943 giftist Sigrún Þórði Jónssyni, f. 23. jan- úar 1918. Foreldrar hans voru Jón Þórður, maki Margrét Erlings- dóttir, þeirra dætur eru Sigurlaug og Andrea, b) Róbert, maki Selma Kristjánsdóttir, þeirra börn eru Ólöf og Kristján Daði, c) Birna Rún, d) Eggert, maki Linda Dögg Ólafsdóttir, þeirra sonur er Dag- ur. 3) Birna, f. 26. febrúar 1949, var gift Guðmundi Ingólfssyni, þau slitu samvistum, börn þeirra eru: a) Ingólfur, b) Ragnhildur. 4) Jón, f. 21. apríl 1954, sonur hans og Kristínar Albertsdóttur er Þórður. Sigrún og Þórður bjuggu í Borgarfirði eystri til 1972. Fluttu þá til Egilsstaða og þaðan til Reykjavíkur 1973. Sigrún lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands1940 og hóf þá kennslu á Borgarfirði eystri. Árið 1942 varð hún skólastjóri Barnaskólans á Borgarfirði og hélt því starfi til 1969. Sigrún starfaði með kven- félaginu Einingu og var formaður þess um árabil. Einnig starfaði hún innan Sambands austfirskra kvenna. Útför Sigrúnar fer fram frá Neskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15. Jóhannesson, búfræð- ingur og kennari, f. 9. maí 1879, d. 14. apríl 1958, og Sigurlaug Helgadóttir húsmóð- ir, f. 26. maí 1885, d. 5. júní 1985. Sigrún og Þórður eignuðust fjögur börn. Þau eru: 1) Páll, f. 10. ágúst 1944, maki Þorbjörg Einarsdóttir. Þeirra dætur eru: a) Sigrún, maki Ólafur Arason, þeirra börn eru Ýmir og Margrét, andvana fædd, sonur Sigrúnar og Halldórs Skúlasonar er Skúli, b) Kristín, maki Hörður Sigurðs- son, þeirra dóttir er Védís, c) Arna, maki Halldór Haraldsson. þeirra börn eru Hlín og Hlynur. 2) Sigurlaug, f. 28. október 1945, var gift Gísla Ágústssyni, þau slitu samvistum, þeirra börn eru: a) Kennari, fræðari, leiðbeinandi og uppalandi. Þetta eru orðin sem koma upp í hugann þegar ég hugsa til móð- ur minnar. Hún varð þeirrar gæfu aðnjótandi að lífsstarf hennar og áhugamál fóru saman. Móðir mín var kennari af guðs náð og á eðlislægan hátt varð henni allt að kennsluefni. Mynd í blaði varð tilefni landafræði- upprifjunar, blóm í vegarkanti kall- aði á krónublaðaumfjöllun og það var sem hún hefði himin höndum tekið þegar Mjólkursamsalan fór að birta orðatiltæki á mjólkurfernunum. Þeim var safnað og þau dregin fram þegar barnabörnin komu í heimsókn. Þegar hún flutti til Reykjavíkur fór hún strax að tala um fjallahringinn eins og gamlan kunningja, ég ratinn góndi út og suður og hafði hvorki myndað þekkingartengsl við Akra- fjallið né Skarðsheiðina. Móðir mín fæddist í afskekktri sveit og ólst upp í enn afskekktari, í Breiðuvík fyrir sunnan Borgarfjörð eystri. Það má með sanni segja að hjá henni hafi sannast að hvorki þarf stórt rými né mikinn mannfjölda til að öðlast þroska. Víðsýni og for- dómaleysi einkenndi hana og í öllu atferli gekk hún út frá rétti einstak- lingsins, sem þó getur aldrei náð lengra en að rétti náungans. Skólaganga móður minnar var ekki löng. Einn vetur í Barnaskól- anum á Borgarfirði eystri og stopul farkennsla að auki. Leiðin lá í Al- þýðuskólann á Eiðum þar sem hún var tvo vetur. Næstu tvö árin kenndi hún á Borgarfirði, litlu eldri en elstu nemendur skólans. Vorið 1938 þreytti hún inntökupróf í Kennara- skólann og stóðst með glans, það var reyndar eitt af því örfáa sem hún leyfði sér að monta sig af – í hófi þó! Kennaraprófi lauk hún eftir tveggja vetra nám vorið 1940 og hélt austur á Borgarfjörð daginn eftir að breski herinn hernam landið. Um haustið hóf hún kennslu á Borgarfirði, tók við skólastjórn 1942 og var skóla- stjóri til 1969. Á stundum hefur trúlega reynt á kennarann og skólastjórann, eins og verða vill í litlu samfélagi þar sem allir þekkja alla og grunnt getur ver- ið á athugasemdum. Ég veit hins vegar engin dæmi þess að nokkur hafi nokkru sinni viðhaft hnjóðsyrði um móður mína. Sem skólastjóri og kennari gætti hún þess vandlega að gefa ekki færi á sér vegna eigin skoðana. Hún gaf til dæmis aldrei upp hvað hún kaus. Eina skiptið sem ég man eftir að hún opinberaði sig pólitískt var þegar Magnús Torfi Ólafsson og félagar fóru fram, en þá gat hún þess að full ástæða væri til að kjósa Magnús Torfa þar sem hann væri svo vel gef- inn! Menntun og þekkingarleit skiptu móður mína miklu. Hvernig gengur í skólanum, var yfirleitt fyrsta spurn- ing þegar barnabörnin komu í heim- sókn, en næsta spurning var að sjálf- sögðu: viltu ekki fá eitthvað að borða? Hún var mikill jafnréttissinni og eina skiptið sem ég sá hana reið- ast var þegar henni barst bréf með utanáskrift til skólastýru Sigrúnar Pálsdóttur. Þá stappaði hún niður fæti og sagðist vera skólastjóri eins og hver annar! Hjá henni lærðist einnig að konur eru menn, það eru karlar og konur eða karlmenn og kvenmenn – og á þeim er ekki svo ýkja mikill munur! Móður minni þótt mjög vænt um íslenskt mál og umgekkst tungumál- ið af umhyggju og virðingu eins og maður gerir við ástvin sinn. Ég heyrði hana aldrei hallmæla neinum utan orðsóðunum sem heyra má á stundum á öldum ljósvakans. Um tíma skrifaði hún niður orðaleppa og ambögur úr Ríkisútvarpinu, en að því kom að hún gafst upp og sagðist ekki hafa undan. Ljóðelskan fylgdi móður minni úr foreldrahúsum þótt henni væri fyr- irmunað að setja saman vísu, að eigin sögn. Þaðan fylgdi henni einnig sannleiksástin sem hún sagði móður sína hafa innprentað sér. Segðu allt- af satt, því að þá þarftu ekki að muna neitt! sagði hún gjarnan og er mikil viska fólgin í því. Þegar móðir mín flutti suður, eftir ríflega þrjátíu ára kennslu við Barnaskólann á Borgarfirði eystri, reyndi hún í fyrstu fyrir sér sem for- fallakennari. En það gekk ekki. Hún sagðist einfaldlega ekki skilja börnin í Reykjavík. Hún var vön að þekkja aðstæður barnanna sem hún kenndi, vita allt um þeirra hagi og fjöl- skyldna þeirra, hafði í mörgum til- vikum kennt þremur kynslóðum, þannig að henni þótti sem hér sunn- an heiða væri hún algjörlega í lausu lofti hvað börnin varðaði. Hún sneri sér að heimilisþjónustu og vann við hana um nokkurra ára skeið og hafði mjög gaman af. Þar kom til fé- lagslyndi hennar og þörf fyrir sam- neyti og samskipti við annað fólk. Einnig las hún inn á spólur fyrir Blindrafélagið, enda prýðisgóður upplesari. Eftir að sjón hennar dapraðist og hún gat ekki lengur farið ein ferða sinna þá hrakaði heilsunni. Það er nú þannig að við þrífumst ekki nema í samneyti við aðra, mannskepnurnar, enda ekki að ástæðulausu sem rætt er um samfélag manna. Síðustu árin urðu móður minni mjög erfið. Hún greindist með Alz- heimer og hrakaði heilsu hennar, bæði andlegri og líkamlegri, jafnt og þétt. Erfiðast reyndist henni hve vel hún gerði sér grein fyrir hverju hún hafði tapað og var oft sem hún sæi engan veg út úr svartnættinu. Eitt var þó sem helst gat linað og það voru ljóðin. Lengst lifðu með henni ljóðin sem hún kunni utanbókar allt frá barnæsku og oft þurfti ekki nema vísubrot og þá var kominn ljóðabálk- ur. Það er margt sem ég á móður minni að þakka fyrir utan lífið sem hún gaf mér. Þar er fyrst að nefna víðsýni og fordómaleysi. Umburðar- lyndi einkenndi hana og dómharka var henni víðs fjarri. Þótt móðir mín hafi vissulega ekki ætíð verið sátt við athafnir mínar og afstöðu þá stóð hún ávallt að baki mér sem sá klettur er allir þarfnast í lífinu. Með smá- stuldi frá Páli Ólafssyni get ég vissu- lega sagt að móðir mín hafi gengið léttast á öllum mínum yfirsjónum. Að lokum vil ég þakka starfsfólki á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund, bæði á gangi 2A þar sem móðir mín dvaldi fyrst og sér í lagi á Frúar- ganginum á 3. hæð þar sem starfs- fólk allt annaðist hana af einstakri al- úð. Bestu þakkir. Birna. Gættu þess vin, yfir moldunum mínum, að maðurinn ræður ei næturstað sínum. Og þegar þú hryggur úr garðinum gengur ég geng þér við hlið þó ég sjáist ei lengur. En þegar þú strýkur burt tregafull tárin þá teldu í huganum yndisleg árin sem kallinu gegndi ég kátur og glaður, það kæti þig líka, minn samferðamaður. (James McNulty) Það var eitt kvöld að mér heyrðist hálfvegis barið, Ég hlustaði um stund og tók af kertinu skarið, Ég kallaði fram og kvöldgolan veitti mér svarið: Hér kvaddi Lífið sér dyra, og nú er það farið. (Jón Helgason) Elsku mamma mín, þakka þér fyr- ir allt. Þín dóttir Sigurlaug. Okkar elskulega amma Sigrún hefur nú kvatt hinn jarðneska heim, södd lífdaga. Um hana geta fleiri en ég með góðri samvisku vottað, að betri ömmu var eiginlega alls ekki hægt að hugsa sér. Hún var innblásinn kennari af guðs náð, og þó áratuga skólastjóra- og kennsluferli hennar væri lokið þegar ég kom í heiminn, þá var það þannig með hana ömmu mína að hún hætti aldrei að kenna. Ég nýtti mér íslensku-, ljóða- og söguþekkingu hennar til hins ítrasta á skólaárunum og þegar kom að próflestrinum var nánast óhugsandi annað en að setj- ast að hjá ömmu og afa. Amma virtist hafa nánast öll íslensk ljóð á taktein- um, hún kunni betri skil á Íslend- ingasögunum en flestir og var óþreytandi að miðla af þekkingu sinni. Hún var af þeirri sjaldgæfu og aðdáunarverðu manngerð sem aldrei heyrðist hallmæla nokkrum, og um- hyggja hennar fyrir öðru fólki var slík að hún virtist sjálf þjást ef aðrir þjáðust. Mér er í fersku minni sá morgunn er ég hélt í mitt fyrsta próf í Háskóla Íslands. Svo mikið var í húfi, að mér fannst, að ég kom ekki niður einum einasta bita morgun- verðar áður en ég hélt af stað í prófið. Amma sá hvernig mér leið og tók bersýnilega sjálf út fyrir það. Er ég um síðir kom glaðbeitt heim úr próf- inu, tók amma öll að ljóma og gat þá fyrst sjálf komið niður matarbita þann daginn. Þetta atvik var lýsandi fyrir augljósa hluttekningu hennar í lífi annarra. Mér þykja, við þessi leiðarskil, fræg orð úr Hávamálum eiga vel við ömmu Sigrúnu, ekki síst í ljósi þess að hún var sjálf óþreytandi að greypa þau mér í minni: Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ́ið sama, en orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur. Amma mín elskuleg : Ég veit að þér verður fundinn besti staður sem völ er á handan móðunnar miklu. Annað væri þér ekki samboðið. Hafðu innilegar þakkir fyrir allt það góða og dýrmæta sem þú veittir mér í lífinu. Ástkær minningin um þig mun lifa með mér að eilífu. Birna Rún. Andlátsfregn Sigrúnar Pálsdóttur vekur upp fagrar minningar og sökn- uð. Þeim fækkar óðum sem muna menningarheimilið Sigtún á Borgar- firði eystri, sem hjónin Sigrún og Þórður Jónsson stofnuðu og stýrðu um árabil. Þeirra hjóna verður seint minnst sem vert er, svo einstök var gestrisni þeirra, góðvild og hjálp- semi. Það er mikil gleði í minningunni að hafa notið samvista við slíkt fólk. Sig- rún hneigðist mjög að bóklestri og var orðlögð fyrir fróðleik og einstakt minni. Þess vegna var það harður og ranglátur dómur að hún skyldi þurfa að sitja í myrkri og minnisleysi síð- ustu árin. Lokið er vöku langri liðinn er þessi dagur. Morgunsins röðulroði rennur upp nýr og fagur. Miskunnarandinn mikli metur þitt veganesti. Breiðir út ferskan faðminn fagnandi nýjum gesti. (Hákon Aðalsteinsson.) Við sendum vini okkar Þórði og börnum hans innilegar samúðar- kveðjur. Systkinin frá Sólbakka. Elsku Silla mín. Örfá orð til að þakka þér fyrir allt og allt. Þakka þér fyrir að hafa kennt mér af einstakri þolinmæði alla mína barnaskólatíð og alltaf hvatt mig og umborið. Þakka þér fyrir elskulegt nágrenni heima á Borgarfirði sem aldrei bar skugga á. Þakka þér fyrir margar og góðar stundir sem við áttum saman er ég heimsótti þig á Grund. Ég fór oftast fróðari af þínum fundi en smátt og smátt fórstu að fara inn í óminnis- heim og samfundirnir urðu færri og færri. Ég sendi þér kærar kveðjur frá okkur Hólsbörnunum: Bjarna, Nonna, Bóa, Diddu, Eyju, Gumma og mér undirritaðri með þakklæti fyrir allt sem þú varst okkur. Innilegar samúðarkveðjur til ykk- ar: Þórður, Palli, Systa, Birna, Jón og aðrir aðstandendur. Guð annist þig, Silla mín. Þórhalla Sveinsdóttir. Eitt sinn þegar Sigurlaug eldri dóttir mín var rétt um þriggja ára spurði hún: „Hvað er jarðaför, pabbi ?“ Síðan svaraði hún sjálfri sér í sömu andrá. „Já, það eru auðvitað förin sem þeir sem deyja skilja eftir á jörð- inni.“ Þegar maður skoðar förin þín, amma mín, þá hafa mörg þeirra snert líf mitt. Allur sá góði tími sem ég eyddi hjá ykkur afa í Stóragerðinu á mínum yngri árum, í pössun, í heim- sókn, og ekki síst við heimanám og ritgerðasmíðar. Amma fylgdist vel með námi mínu og var alltaf boðin og búin að aðstoða mig ef með þurfti. Og svo má ekki gleyma því þegar ég var að vinna hjá afa sem sendill og við komum alltaf heim í hádegismat, og þið kennduð mér að borða fisk. Frá þér, amma mín, hef ég fengið þann mikla spilaáhuga sem hefur fylgt mér síðan. Þú kenndir mér að spila, og oft sátum við Sigrún frænka með afa og ömmu og spiluðum vist eða manna fram á kvöld, en einkum spilaði ég rommý, borðvist eða kasínu við þig. Þú kenndir mér bragfræði, að lesa ljóð og vísur ortar eftir öllum kúnst- arinnar reglum. Ég sýndi þér svo, fyrstri allra, minn eigin skáldskap, og hvattir þú mig áfram og leiðbeindir mér með formið. Þetta áhugamál hef- ur einnig fylgt mér æ síðan, ásamt þínum góðu ráðum um form og fram- setningu. Nú hafa báðar dætur mínar sýnt þessum tveimur förum áhuga, þannig að vonandi kem ég þessu til skila eins og þú hefðir viljað. Minning þín lifir áfram. Kveðja Þórður og fjölskylda. Kæra Silla. Nú hefur þú lagt í hina löngu ferð sem við förum öll á end- anum. Ég býst við því að þú hafir ver- ið fegin hvíldinni, enda búin að vera veik lengi. Ég kom til þín í Vesturbæ- inn, þá varstu enn hress. Þú sýndir mér myndirnar af barnabörnunum og barnabarnabörnunum, þetta er myndarlegur hópur enda ekki við öðru að búast úr svona myndarlegri fjölskyldu. Þú varst að rifja upp af- mælisdaga, þú varst einstök með að muna afmælisdaga og maður stóð undrandi og spurði sig hvernig getur hún munað alla þessa afmælisdaga? Mig minnir að þú hafir verið að fara með ljóð. Þið pabbi náðuð nú vel sam- an í þeim, eins að tala um gamla tím- ann á Borgarfirði. Það er ómetanlegt fyrir yngra fólkið þegar öldungarnir fara á skrið í minningunum, það kem- ur svo margt fram um hluti sem eru löngu gleymdir, en þarna getum við tengt okkur við upprunann í sögun- um ykkar. Þú varst barnakennari á Borgarfirði eystra ásamt Sigga bróð- ur þínum, ég held að það hafi verið gæfa fyrir okkar litla byggðarlag að hafa ykkur svo lengi og þurfa ekki að skipta um marga kennara á skóla- göngunni. Það var margt sem við lærðum og það stóð ekki allt í bókum, þið lögðuð grunninn að framtíð barnanna á Borgarfirði. Ég man eftir þér þar sem þú stóðst við ofninn og varst að hlýða okkur yfir eða kenna okkur ljóð. Þú lést okkur læra ótrú- legustu ljóð, þú sagðir okkur frá al- þingishátíðinni 1930, það var rigning en þetta var svo lifandi í frásögninni að ég ákvað að fara á Þingvöll ein- hverntímann seinna. Þú gerðir lýs- ingarorðasögu á leiðinni í skólann. Við áttum að bæta lýsingarorðum inn í svo lastu söguna fyrir okkur, þetta fannst okkur skemmtilegt. Það var gaman að læra landafræði hjá þér, þú varst svo vel að þér um löndin að við flugum á vængjum hugans til fjar- lægra landa. Ekki var kristinfræðin síðri hjá þér. Maður fór bara aftur í aldirnar svo lifandi varstu í frásögn- inni. Í litlu skólastofunni fórum við í hástökk og dönsuðum Vefaradansinn svo eitthvað sé nefnt. Ég þarf að minnast á handavinnuna, hún var frá- bær. Svo var öllu komið inn í Sigtún á vorin og þú, kannski með einhverri hjálp, settir upp flotta sýningu á verkum okkar og allir komu að skoða, það var gaman. Ég þarf að þakka fyr- ir allt atlætið í Sigtúni. Við útbæjar- krakkarnir komum oft við á leiðinni. Það var gott að koma inn í hlýjuna, fá pönnuköku og mjólkurglas. Það var rætt við okkur eins og fullorðið fólk. Stundum þurfti að finna til þurr föt á okkur ef við höfðum blotnað óþægi- lega mikið á leiðinni inn eftir. Það var betra þó að stundum væru fötin í stærra lagi. Mig minnir að þú hafir verið potturinn og pannan á barna- samkomunum í gamla daga. Ég man eftir þér ganga með okkur í kringum jólatréð, gefa eplin, og ganga frá svo hægt væri að fara að dansa ræla og valsa. Svo var farið út í Nýja skóla og fengum við þar kakó og rjómatertur með sultu og skrautsykri, þetta var toppurinn á tilverunni, algjört ævin- týri. Ég bið Guð að leiða þig til Sum- arlandsins þar sem allt er bjart og fagurt, engir verkir og veikindi. Kannski ferð þú að kenna englunum, hver veit? Þórður, Palli, Sista, Birna, Nonni og aðrir aðstandendur, ég sendi ykkur innilegar samúðarkveðj- ur. Gunna í Geitavík og systkini mín og foreldrar biðja fyrir kærar kveðjur og þakkir fyrir allt. Guðrún Björnsdóttir. SIGRÚN PÁLSDÓTTIR  Fleiri minningargreinar um Sig- rúnu Pálsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.