Morgunblaðið - 09.03.2004, Blaðsíða 29
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 9. MARS 2004 29
átta mig, því að fyrr um daginn höfð-
um við talast við í léttum dúr eins og
við vorum vanir.
Mikill listamaður er horfinn á
braut. Íslenska þjóðin er því fátæk-
ari en áður. Rögnvaldur er frá okkur
tekinn, nokkuð sem við vissum að
hlyti að gerast, en samt sem áður
hefum við mátt njóta krafta hans
lengur því enn var hann að auðga
tónlistarlíf okkar, meðal annars með
kennslu í Nýja tónlistarskólanum.
Nemendur sem voru langt komnir á
listabrautinni lögðu áherslu á að
njóta snilli hans sem leiðbeinanda,
enda var hann fremsti píanisti sem
þjóðin hefur eignast.
Ég á Rögnvaldi svo mikið að þakka
að ekki er unnt að lýsa því í fáum orð-
um. Nokkrir minnisstæðir atburðir
standa mér ljóslifandi fyrir hug-
skotssjónum, svo sem þegar við rið-
um í hópi nokkurra músíkvina frá
Norðtungu upp í veiðihúsið Víghól,
við Þverá, en þar höfðust breskir
veiðimenn við, en ég var leiðsögu-
maður þeirra. Hlé var á ferð Eng-
lendinganna því millilandaflug var
ekki hafið og stóðust áætlanir skipa
ekki alltaf jafn vel í þá tíð. Því áttum
við ungmennin fjóra náðuga daga í
veiðihúsinu. Engum viðstaddra líður
úr minni hvernig Rögnvaldur hélt
uppi húmornum í skálanum með
óborganlegri fyndni sinni. Honum
tókst að smita henni þannig út frá sér
að dvölin leið sem örskotsstund.
Þá gleymast aldrei fyrstu hljóm-
leikar hans í Gamla bíói, árið 1937.
Þar var troðfullt hús og rífandi
stemning. Rögnvaldur kom mér fyrir
sem dyraverði við bakdyr senunnar.
Móður og másandi, en ljómandi af
stolti, kom hann svo baksviðs og
spurði hvernig til hefði tekist. Ég
sagði honum að hann þyrfti ekki ann-
að en hlusta á klappið, sönnun þess
að hann hafði lagt salinn að fótum
sér. Svo frábærlega lék hann að gest-
ir trúðu vart eigin eyrum. Gat verið
að þessi unglingur væri slíkur af-
burða píanisti? Efnisskráin var að
mestu háklassísk, Beethoven, Schu-
mann og fleiri snillingar, en öllum að
óvörum bætti hann við nýlegum tón-
skáldum, svo sem Prókoffjev, sem þá
var nær óþekktur hér á landi.
Eftir framhaldsnám í París, 1938–
39, og í New York, á stríðsárunum,
kaus hann að koma heim í stað þess
að búa í ferðatöskum og spila fyrir
heiminn. Ragnar í Smára átti sinn
þátt í þeirri ákvörðun. Aðrar þjóðir
áttu þó nokkrum sinnum eftir að
njóta snilli hans. Til dæmis var hon-
um boðið til Rússlands vorið 1967,
fyrir tilstuðlan Furstevu, sem þá var
menntamálaráðherra Sovétríkjanna.
Mér bauðst að slást í för með honum
á vægast sagt ævintýralegu hljóm-
leikaferðalagi um hið víðáttumikla
ríki, en frá henni sagði Rögnvaldur í
bókinni „Með lífið í lúkunum“ eftir
Guðrúnu Egilson.
Rússar hrifust af þessum ein-
beitta, snjalla og vörpulega píanista
og var honum alls staðar tekið með
kostum og kynjum, meðal annars í
Grosny, og öðrum borgum Kákasus.
Ég man að ég var spurður spjörun-
um úr um tónlistarlíf á Íslandi og
naut ég þess að geta lýst því hve
langt við Íslendingar værum komnir
á listabrautinni.
Hér heima hélt Rögnvaldur áfram
að kenna við Tónlistarskólann í
Reykjavík, leika inn á hljómplötur og
diska, svo blessunarlega auðvelt er
að njóta hæfileika hans þótt maður-
inn sjálfur sé horfinn á braut. Sökn-
uður ríkir í mínum ranni því víst er
að skarð er fyrir skildi við fráfall þess
sem gaf tóninn og lífgaði líf vina
sinna með ómældri gáfu sinni. Ég
kveð því vin minn með sorg í hjarta
en orna mér við það að honum hefur
áreiðanlega verið vel fagnað hinum
megin við móðuna miklu.
Runólfur Sæmundsson.
Líf æskuvinar míns, Rögnvalds,
var mér fögru ljóði líkast. Um ljóð
var sagt: „A poem is never finished –
just abandoned.“ Hljómi lífsljóð
Rögga í huga mér í síðustu gjörn-
ingahríð minni, er það vel.
Atli Már.
Þegar góðir vinir kveðja hinstu
kveðju stöndum við vængbrotin eftir.
Þegar ég heyrði um lát Rögnvalds
Sigurjónssonar lét ég fljótasta far-
kostinn minn, hugann, fara á hrað-
ferð gegnum um 70 ára vináttu okk-
ar.
Ég læt hugann reika til þeirra ára
er við vorum saman í Tónlistarskól-
anum. Rögnvaldur var fágætur og
fjölhæfur listamaður sem bar höfuð
og herðar yfir nemendur skólans á
þessari tíð. Á tónleikum var hann sá
sem stóð með pálmann í höndunum
og naut yfirburða sinna og hæfileika.
Vinahópur Rögnvaldar var stór og
fjölmennur. Við fylgdumst með æf-
ingum hans og hann lék alltaf fyrir
okkur efnisskrá tónleika þeirra sem
hann vann að. Þessi ár voru okkur
vinunum dásamlegur tími. Hann
leiddi okkur á vit helstu píanókons-
erta og stórverka af öllu tagi. Rögn-
valdur var okkar „maestro“ og ég
minnist salons sem Liszt og Chopin
héldu fyrir sína vini í París, þar sem
dömurnar hnigu í öngvit að þeirra
tíma sið.
Það var notalegt að sitja í dagstof-
unni í Bankastræti þegar herrarnir
þurftu að sitja á gólfinu en stólar
voru munaður. En stemningin var
rafmögnuð. Það var stórt gat í gólf-
dúknum eftir pedalanotkun Rögn-
valdar. Slík var túlkun hans. Rögn-
valdur var hamhleypa til vinnu og
hraðlæs á nótur og eldfljótur að til-
einka sér efni og túlkun hvers verks.
Vinirinir voru orðlausir í lok hverra
tónleika. Rögnvaldur hafði þann fá-
gæta hæfileika að spinna saman
snilld sína við túlkun og skilning á
hverju verki. Hann átti stóran þátt í
að opna fyrir okkur heim stærstu pí-
anóverka sem samin höfðu verið.
Kenndi okkur að meta þau og gera að
vinum fyrir lífstíð.
Helga Egilson kona hans studdi
jafnan við bakið á honum í hverri
átakaraun og var það honum mikill
styrkur. Ég fæ seint þakkað vini
mínum og maestro, Rögnvaldi Sig-
urjónssyni, þá visku og þekkingu
sem hann miðlaði um mestu tónlist-
arverk sögunnar. Ég minnist míns
góða vinar sem eins mikilhæfasta
listamanns, sem náði til hjartans með
sinni djúpstæðu tækni. Með yfir-
burða túlkun leiddi hann vini sína í
annan og betri heim.
Ég kveð minn góða vin með sökn-
uði og votta öllum ástvinum hans
hjartans samúð nú þegar þessi sterki
persónuleiki kveður okkur hinstu
kveðju.
Unnur Arnórsdóttir.
Mikill píanóleikari og tónlistar-
maður er fallinn í valinn, óvænt og
snögglega. Með Rögnvaldi er geng-
inn einn fremsti listamaður Íslend-
inga á seinni hluta tuttugustu aldar-
innar. Er margs að minnast frá ferli
hans. Hann var einn af fyrstu nem-
endum Árna Kristjánssonar í Tón-
listarskólanum í Reykjavík. Að loknu
burtfararprófi 1937 hélt Rögnvaldur
til náms erlendis, fyrst í Frakklandi
hjá Marcel Chiampi en síðar á dög-
um seinni heimsstyrjaldarinnar í
Bandaríkjunum. Þar naut hann
handleiðslu Sascha Gorodnitzki og
tókst með þeim góð vinátta og gagn-
kvæm virðing. Gorodnitzki var mikill
snillingur af hinum rússneska píanó-
skóla, fyrrum nemandi hins fræga
Josephs Lhevinne. Hafði hann sterk
áhrif á píanóstíl Rögnvaldar og mót-
aði hann í anda hins rússneska píanó-
skóla.
Að námi í Bandaríkjunum loknu
komu þau Rögnvaldur og Helga Eg-
ilson, kona hans, til Íslands 1945 og
lífsbaráttan hófst. Áður en Rögn-
valdur yfirgaf Bandaríkin þreytti
hann frumraun sína þar með róm-
uðum tónleikum í Washington D.C.
Spilaði hann þá m.a. sónötu Liszts í
h-moll, einn af hátindunum í tónbók-
menntunum. Lýsir það vel metnaði
Rögnvaldar og áræði, sem ávallt
fylgdi honum síðan, og hvílíku valdi
hann hafði náð yfir píanóinu. Rögn-
valdur hóf kennslu við sinn gamla
skóla, Tónlistarskólann í Reykjavík.
Einng tók hann til við tónleikahald
bæði innanlands og utan, austanhafs
og vestan, við góðar undirtektir. Hélt
hann bæði einleikskonserta og spil-
aði með hljómsveitum. Var verkefna-
val hans víðfeðmt en mest bar þó á
Chopin, Liszt, Debussy, Prokofiev
(sem hann kynnti fyrir Íslendingum),
Schumann og Beethoven auk ís-
lenskra höfunda. Er Rögnvaldur fór
á eftirlaun sem yfirkennari Tónlist-
arskólans í Reykjavík hóf hann að
leiðbeina nemendum við Nýja Tón-
listarskólann og miðla þeim af
reynslu sinni og þekkingu. Gerði
hann það til dauðadags því hann
hafði mikla ánægju af kennslu, sér-
staklega á seinni árum. Rögnvaldur
hafði ánægju af að umgangast ungt
fólk enda ákaflega ungur í anda og
áhugasamur um alla framvindu í tón-
listarheiminum jafnt sem í heiminum
öllum. Leist honum ekki alltaf vel á
ástandið og hafði ákveðnar skoðanir í
þeim efnum sem mótuðust af mann-
gæsku hans og réttlætiskennd.
Sem betur fer er allmikið magn
hljóðritana til með leik Rögnvaldar
og hefur töluvert af því verið gefið út
bæði á hljómplötum og geisladiskum.
Er þar mörg gullkornin að finna sem
gefa góða mynd af spilamennsku
hans og persónuleika. Því miður er
engin hljóðritun til af túlkun hans á
sónötu Liszts og er það mjög miður.
Rögnvaldur hafði, ef svo má segja,
náðargáfu persónuleikans í spili sínu
þannig að auðheyrt var hver var að
verki. Hann hafði mikla nærveru í
tónleikasal og það var ávallt eftir-
vænting í lofti er hann lék. Það var
aldrei deyfð í spili hans en yfirveguð
og sönn ró þegar það átti við. Hins
vegar áttu átakakaflarnir vel við
hann og var þá oft teflt á tæpasta vað
til að ná fram þeim áhrifum sem hann
vildi. Slík var náttúrugáfa hans og
vald á hljóðfærinu, sem fengið var
með þrotlausum æfingum. Hann var
að upplagi mikill einleikari þótt
kammermúsík og samleikur höfðuðu
einnig til hans. Með árunum fór slit-
gigt að hrjá hendur hans og kom þar
að hann hætti opinberum píanóleik
þótt hann spilaði áfram fyrir sjálfan
sig og aðra í heimahúsum. Rögnvald-
ur hélt sína síðustu opinberu tónleika
í Ýdölum í Aðaldal í september 1981.
Voru þá á efnisskrá hans tvær són-
ötur eftir Beethoven (Pathetique og
Appassionata) ásamt noktúrnu,
þrem völsum og ballöðu eftir Chopin.
En hann sat ekki auðum höndum í
tónlistarstarfi. Kennslan hélt áfram.
Hann tók að sér tónlistargagnrýni
fyrir dagblöð í nokkur ár og síðast en
ekki síst hélt hann úti geysivinsælum
útvarpsþáttum, „Túlkun í tónlist“,
sem margir muna eftir. Þar fjallaði
hann um spilun og túlkun hinna
ýmsu listamanna á tónverkum og bar
saman á sinn alþýðlega og skemmti-
lega hátt.
Það voru mikil forréttindi fyrir
okkur hjónin að fá að kynnast Rögn-
valdi og eiga vináttu hans og Helgu í
áratugi. Hann var sérstæður og eft-
irminnilegur persónuleiki með
ógleymanlegan húmor og frásagnar-
gáfu. Hann hélt reisn sinni til hins
síðasta. Við Hildur sendum Þór og
Geir og fjölskyldum þeirra okkar
innilegustu samúðarkveðjur. Bless-
uð sé minning Rögnvaldar Sigur-
jónssonar.
Runólfur Þórðarson.
Það var vorið 1965, og ég var á
gangi um Vesturgötuna í einhverjum
gleymdum erindagerðum. Ég gekk
framhjá fornfálegu, tvílyftu timbur-
húsi, sem stóð úti við gangstéttina.
Þegar ég var kominn framhjá, sneri
ég við og gekk til baka. Tók ég rétt
eftir því, að það voru engin glugga-
tjöld á neðri hæðinni? Húsið skyldi
þó ekki vera til sölu? Ég var nýkom-
inn heim frá námi og hafði ströng
fyrirmæli um að hafa augun opin fyr-
ir húsnæði í gamla vesturbænum. Ég
knúði dyra hálfhikandi. Og mikið
rétt. Húsráðandi, frú Sigríður Siem-
sen, ekkja Páls Einarssonar, fyrsta
borgarstjóra Reykjavíkur, sagðist
vera að bíða eftir kaupanda. Og hér
var hann kominn. Daginn eftir var
gengið frá kaupunum. Þetta var ást
við fyrstu sýn. Ég fann, að húsið
hafði sál, og það tók hlýlega á móti
mér. Hitt vissi ég ekki fyrr en Bryn-
dís var flutt inn með allt sitt hafur-
task og búin að gæða þetta gamla hús
nýju lífi, að því fylgdi kaupbætir á
efri hæðinni. Þar bjuggu Rögnvaldur
og Helga ásamt sonum sínum Þór og
Geir. Upp frá því var tónlist Rögn-
valdar undirtónninn í lífi okkar allra
næstu árin. Reyndar varð þetta
sögufræga hús umgjörðin um líf okk-
ar Bryndísar og barnanna í aldar-
fjórðung. Að vísu varð tæplega tíu
ára hlé meðan við Bryndís skruppum
vestur til að stofna menntaskólann.
Þegar við snerum aftur, voru Rögn-
valdur og Helga á braut. En sam-
bandið rofnaði aldrei, heldur varð að
vináttusambandi fyrir lífstíð.
Rögnvaldur og Helga voru ólík
sem dagur og nótt. Hann lifði fyrir
tónlistina, en hún lifði fyrir hann.
Hann var hávær, stórkarlalegur, frá-
sagnaglaður og hamhleypa við hljóð-
færið. Hún var hljóðlát, hugulsöm,
mild í dómum og hjartaprúð og sá um
í smáu og stóru, að hann gæti sinnt
köllun sinni. Til samans voru þau
fullkomin, menningarheimili í hjarta
þessa vaxandi þorps, sem hafði að-
dráttarafl fyrir þá, sem leituðu út
fyrir hversdagsleikann.
Rögnvaldur hafði að vísu komið við
mína sögu áður. Hann var prófdóm-
ari, þegar ég þreytti mitt fyrsta og
seinasta próf við tónlistarskólann í
framúrstefnuverki eftir Béla Bartók,
sem leiddi til þess, að ég snerti ekki
hljóðfæri síðar á ævinni. En nú bætti
hann mér þetta upp. Mér er minn-
isstætt frá þessum tíma, að Rögn-
valdur var að undirbúa af kappi tón-
leikaferð til Rúmeníu. Húsið var
hljóðbært, svo að Chopin, Rachman-
inov, Liszt og Katsjaturian enduróm-
uðu um allt húsið og nágrennið, svo
að undir tók uppi á Stýrimannastíg.
Þarna kynntist ég því, hvernig ein-
leikstónleikar mikils meistara verða
til: Þrotlausar æfingar, endurtekn-
ingar ad nauseam, mistök sem eru
leiðrétt, túlkun og blæbrigði breyt-
ast, og að lokum fengum við að heyra
stórkostlega tónleika alskapaða fyrir
ekki neitt. Þetta bætti mér upp hið
endasleppa nám í tónlistarskólanum
á menntaskólaárum. Við Bryndís
þykjumst hafa búið að þessari
reynslu alla tíð síðan. Þarna lærðum
við að njóta tónlistar, að skynja gald-
urinn og að hrífast af orkunni og feg-
urðinni, sem á köflum er næstum
ómennsk.
Þegar Rögnvaldur hélt upp á
fimmtugsafmæli sitt, sem bar upp á
15. október 1968, var húsið allt und-
irlagt til að taka á móti vinum og
aðdáendum Rögnvaldar, sem reynd-
ust vera legio. Helga og Bryndís
göldruðu fram stórkostleg veislu-
föng, kjallaranum var breytt með
netadræsum og glimmerljósum í krá
á la Manhattan eða Vínarborg, og
langborðum raðað upp úti í garði, því
að húsið rúmaði hvergi nærri allan
þennan mannfjölda, þótt á þremur
hæðum væri. Sjálfur var ég dubbað-
ur upp í gervi dyravarðar og tók á
móti gestum konsertmeistarans.
Þarna tók ég í höndina á gervallri
tónlistarelítu Íslands. M.a.s. Páll Ís-
ólfsson og Jón Leifs létu sig hafa það
að staldra við undir sama þaki, og
lýrískasti tenór Norðursins, sjálfur
Íslandi, varð vinur minn fyrir lífstíð.
Ég held ég hafi ekki enn í dag komið í
gáskafyllri gleðskap.
Rögnvaldur Sigurjónsson var há-
menntaður tónlistarmaður, sem
helgaði líf sitt allt köllun sinni og
kúnst. París, Vín og New York voru
hans borgir. Það þurfti heila heims-
styrjöld til að binda snöggan enda á
vist hans hjá Ciampi í París með inn-
rásinni í Frakkland. Þá færði Rögn-
valdur sig um set og settist að á Man-
hattan á stríðsárunum, þar sem hann
lauk prófum í píanóleik hjá hinum
fræga Sacha Gorodnitzki, útlaga
Rússa, og í hljómsveitarútsetningum
hjá Vittorio Giannini við Juilliard-
tónlistarháskólann í New York. Það
er til marks um meðfædda hæfileika
Rögnvaldar og einbeitta ástundun,
að honum var kornungum og nýút-
skrifuðum boðið að flytja einleikstón-
leika í Washington í tónleikasal, þar
sem engum leyfðist að stíga fæti inn
fyrir dyr nema höfuðsnillingum. Og
nú stóð hann frammi fyrir hinu sí-
gilda vali íslenskra afreksmanna fyrr
og síðar: Átti hann að leggja á bratt-
ann, föðurlandslaus í alþjóðlegum
karríer, eða snúa heim? Rögnvaldur
valdi Ísland, eða valdi Ísland hann?
Það var happ Íslands, en heimurinn
veit minnst um það, hvers hann fór á
mis. En Rögnvaldur lét aldrei deigan
síga. Hann lagðist í víking út í hinn
stóra heim frá Íslandi og fór í ótelj-
andi tónleikaferðir til Austurríkis og
Þýskalands, Bandaríkjanna og Kan-
ada og í austurveg til Austur-Evrópu
og Rússlands. Hann gerði strangar
kröfur til sjálfs sín og bar sig saman
við hina bestu. Þeir sem til þekkja
vita, að hann fékk frábæra dóma,
enda bjó hann yfir mikilli tækni og
yfir eigin stíl og túlkun, sem endur-
speglaði karakter hans.
Fyrir utan einleikstónleika heima
og erlendis kom hann fram víða með
úrvalshljómsveitum og lék inn á
margar hljómplötur, sem halda
munu nafni hans á loft. Ævistarf
hans var hins vegar kennsla við Tón-
listarskólann í Reykjavík í næstum
hálfa öld. Þeir eru ófáir landar vorir
af yngri kynslóð, sem getið hafa sér
orð sem framúrskarandi tónlistar-
menn, sem fengu það uppeldi sem
dugði hjá Rögnvaldi Sigurjónssyni.
Þeirra á meðal er vinur minn Atli
Heimir Sveinsson, sem verið hefur á
sinni tíð eitt fremsta tónskáld Norð-
urlanda og víða borið hróður ís-
lenskrar tónlistar.
En Rögnvaldur var ekki einasta
frábær tónlistarmaður. Hann kunni
að fjalla um tónlist af innsæi og
ástríðu hins innvígða, en á máli, sem
allir gátu skilið og numið. Á árunum
1985–1988 fengu útvarpshlustendur
beint í æð að njóta frásagnarlistar
Rögnvalds í þáttum, sem hann kall-
aði „Túlkun í tónlist“. Þar lét hann
frægustu snillinga konsertsalanna
spila perlur tónbókmenntanna og
talaði sjálfur af ástríðu, innlifun og
orðheppni um blæbrigði í tón- og stíl-
brögðum og kvað upp dóma um
tækni og túlkun og kom því þannig
eftirminnilega til skila, hvernig kúlt-
úr, kunnátta og karakter flytjandans
gefur meistaraverkum líf og lit í
óendanlegri fjölbreytni. Þetta voru
stórkostlegir þættir. Ég minnist þess
enn, úrvinda og aðþrengdur pólitíkus
Ljósmynd/Ólafur K. Magnússon
Rögnvaldur við flygilinn á heimili þeirra Helgu á Þórsgötu 21a.
SJÁ SÍÐU 34