Morgunblaðið - 14.03.2004, Blaðsíða 37
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 14. MARS 2004 37
myndlist. Telur hann ekki að „myndlistarmenn-
irnir sjálfir, með sínar umkvartanir eða vænt-
ingar, [séu] upphafsmenn að þessari umræðu“
og segir þá ekki hafa „tekið þátt í henni nema í
takmörkuðum mæli“. Álítur reyndar að hún sé
„fyrst og fremst orðin til fyrir viðskiptalega
hagsmuni eina listhússins á landinu sem hefur
að markmiði að „koma á framfæri“, þ.e. selja
myndlist eftir valda íslenska listamenn í útlönd-
um“ – en hann vísar hér til gallerísins i8.
Þessi staðhæfing Aðalsteins um að viðskipta-
legir hagsmunir i8 hafi ráðið ferðinni í þeirri um-
fangsmiklu umræðu sem verið hefur um kreppu
íslensks myndlistarheims er tæpast sett fram í
alvöru, enda afar hæpin. Í fyrsta lagi hefur i8
ekki einungis unnið að því að koma íslenskri
myndlist á framfæri erlendis, heldur ekki síður
að því að kynna list fjöldamargra virtra erlendra
listamanna samhliða þeirri íslensku. Í öðru lagi
er sú viðleitni einmitt sú fjárhagslega undir-
staða er rekstur gallerísins byggir á og gerir því
kleift að selja og sýna íslenska myndlist. Sala i8
á íslenskum verkum hefur þó færst í aukana í
seinni tíð, en það hefði tæpast orðið ef ekki hefði
verið fyrir þau alþjóðlegu tengsl sem galleríið
hefur aflað sér, sem sýnir einmitt og sannar gildi
þess að opna hinn íslenska myndlistarheim út á
við, sýna innlenda myndlist samhliða erlendri
líkt og tíðkast annars staðar í heiminum.
Hitt er svo annað mál að það er mjög alvar-
legt, eins og Aðalsteinn bendir á, að önnur gall-
erí, svo sem Gallerí Hlemmur og Gallerí Skuggi,
skuli leggja upp laupana eða berjast í bökkum.
En í því sambandi er óneitanlega umhugsunar-
vert að eina galleríið sem beitir sér bæði innan
lands og utan, fjárfest hefur í tengslum og kynn-
ingum erlendis og tileinkað sér þá fagmennsku
sem krafist er á alþjóðlegum myndlistarmark-
aði, þ.e.a.s. i8, skuli enn lifa af. Hugsanlega væru
rekstrarmöguleikar annarra gallería betri ef
þau ynnu á stærri markaði. Af nógu er að taka á
myndlistarvettvanginum og fjölbreyttari flóru
faglega rekinna gallería, ólíkum áherslum í sýn-
ingarhaldi og meiri breidd í stefnumótun myndu
allir taka fagnandi.
Eins og Aðalsteinn bendir réttilega á hóf
Morgunblaðið máls á þeirri umræðu sem hann,
eins og fram kemur hér að ofan, telur svo eins-
leita og takmarkaða. Sá hljómgrunnur sem um-
fjöllun blaðsins um þetta málefni hefur fengið og
sér m.a. stað í fjölmörgum málþingum sem hann
nefnir, bendir þó þvert á móti til þess að löngu
hafi verið orðið tímabært að ræða þennan þátt
myndlistarlífsins. Jafnframt er hæpið að halda
því fram að myndlistarmenn hafi ekki tekið þátt
í henni, því þeir hafa fjölmennt á ofangreind
málþing og sameinast um að standa fyrir þeim.
Nýleg dæmi um það er málþing sem Samband
íslenskra myndlistarmanna, SÍM, stóð fyrir í lok
febrúar undir heitinu Heimslist – heimalist, og
þar áður málþing á Nýlistasafninu er listamenn-
irnir Guðný Rósa Ingimarsdóttir og Gauthier
Hubert efndu til samhliða sýningu sinni.
Það hversu víðtæk samstaða hefur verið um
það að taka þetta málefni upp meðal helstu
stofnanna menningar og myndlistar er að sjálf-
sögðu einnig til marks um mikilvægi þess. For-
svarsmenn Gerðarsafns, Listasafns Íslands sem
stendur fyrir röð af málþingum um þessar
mundir, Listasafns Reykjavíkur og Listahátíðar
í Reykjavík, hafa allir tekið málið upp á sína
arma með sköruglegum hætti sem vitaskuld ber
vott um viðhorfsbreytingu er vonandi kemur til
með að færa íslenskum myndlistarmönnum ný
sóknarfæri, ekki síst þeim sem eru í fremstu röð.
Það framtak menntamálaráðuneytisins að
stofna Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar,
KÍM, „appírat sem nefnist Útflutningsmiðstöð
myndlistarinnar“ eins og Aðalsteinn nefnir það,
sýnir einnig viðbrögð stjórnvalda við þessari
umræðu og vilja þeirra til að beina því fjármagni
sem úthlutað er til myndlistarlífsins í landinu í
betri farveg, þar sem hægt er að nýta þekkingu,
yfirsýn og fagleg sjónarmið myndlistarmönnum
til framdráttar. Ekki má heldur gleyma því að
gert er ráð fyrir að myndlistarmenn og skoðanir
þeirra muni hafa mikið vægi í starfsemi KÍM, og
þeir hafa lýst ánægju sinni yfir framtakinu.
Fræðsla, mynd-
listarmenntun
og markaðir
Aðalsteinn telur það
hafa gleymst í þessari
umræðu „að mynd-
listin á sér annað líf.
Það er lífið sem hún
lifir – eða ætti að lifa –
meðal okkar, í íslensku samfélagi, sem skilgetið
afkvæmi þess og hluti af menningarlegri vit-
und“. Hann bendir réttilega á að myndlist sé
„spegilmynd þjóðfélagsins sem við höfum skap-
að, samantekt þeirra menningarlegu strauma
sem við höfum meðtekið og lagað að þörfum
okkar“. Sú spurning vaknar þó hvort það líf sem
hann nefnir og vissulega er mjög mikilvægt,
gleymist þótt það sé sett í stærra samhengi og
eigi orðastað við umheiminn. Ef litið er til ann-
arra listgreina þá myndu fáir óttast að það líf og
sú menningarlega vitund er finna má í íslensk-
um bókum eða leikritum á borð við þau sem
fjallað var um hér að ofan, gleymist eða sé van-
rækt þó verkin séu þýdd, lesin eða flutt víðar en
innanlands. Eins og Aðalsteinn bendir á kemur
„enginn útlendur sýningarstjóri hingað til að
leita að myndlist sem hann þekkir fyrir í sínum
ranni“, enda er það ekki markmiðið með því að
kynna íslenska list erlendis að þurrka út þjóðleg
einkenni hennar eða herma eftir því sem lifir af í
útlöndum. Þvert á móti geta þjóðleg einkenni –
þó hæpið sé að leggja þá skyldu á herðar öllum
listamönnum að vera „trúir uppruna sínum“ eins
og Aðalsteinn orðar það – orðið til þess að skapa
listsköpuninni sérstöðu að því tilskildu að hið
þjóðlega þjóni sköpuninni en ekki öfugt.
Sú áhersla sem Aðalsteinn leggur á að framtíð
myndlistar á Íslandi sé ekki undir útrás komin
heldur „innrás, skipulegri viðleitni bæði opin-
berra og óopinberra aðila til að koma henni „á
framfæri“ á íslenskum markaði, inn í þjóðarvit-
undina, [...]“, ber vott um nokkra þröngsýni. Því
þó Morgunblaðið hafi talað fyrir útrás íslenskrar
myndlistar, fer því fjarri að það sé skoðun blaðs-
ins að ekki þurfi að hlúa að myndlistarlífinu hér
innanlands. Í nútímasamfélagi þurfa þessir
þættir einmitt að fara saman og vinna hvor með
öðrum. Hér á landi rétt eins og annars staðar
ætti að vera svigrúm fyrir alla þá ólíku þætti
sem þrifist geta í myndlistarlífi einnar þjóðar;
skreytilist og leigugallerí, faggallerí á alþjóð-
legum nótum, framsækin grasrótargallerí, söfn,
gestavinnustofur, skiptiprógrömm og svo mætti
lengi telja. Allt vinnur þetta saman að ákveðnu
marki og styður hvað annað.
Aðalsteinn hefur rétt fyrir sér þegar hann
heldur því fram, eins og Morgunblaðið hefur
reyndar líka gert, að hér ríki óþarfa fáfræði um
myndlistararfinn og að myndlistarstofnanir
þurfi á meira fjármagni að halda. Hann segir
fræðslu vera „lykilorðið“ og nauðsynlegt að
„hamra á menningarlegu mikilvægi myndlistar-
innar og sjónlista yfirleitt“. Um þetta er Morg-
unblaðið honum sammála. Það breytir þó ekki
þeirri staðreynd að Íslendingar hafa aldrei fyrr
„átt stærri hóp vel menntaðra og hæfileikaríkra
myndlistarmanna“ eins og Aðalsteinn orðar það,
sem er vitaskuld ein helsta ástæða þess að
margumrædd straumhvörf, eða útrás, er að eiga
sér stað í íslensku myndlistarlífi. Það er einmitt
fagmennska myndlistarmanna sem er einn
helsti hvatinn að fagmannlegum vinnubrögðum í
sýningarhaldi, kynningu og skrifum um mynd-
list, sem og að auknum kröfum í sjálfri sköp-
uninni. Kröfum sem vonandi munu leiða til þess
að hér verði til list sem hægt er að líta á sem
fjárfestingu – jafnt fyrir einstaklinga og fyr-
irtæki, innanlands og utan. Sá gjafavörumark-
aður – auk takmarkaðra innkaupa listasafnanna
– sem íslenskir myndlistarmenn hafa þurft að
reiða sig á fram að þessu þjónar að sjálfsögðu
ákveðnum þáttum myndlistalífsins, en hreint
ekki öllum. Þó að Ísland sé eyland, er hættulegt
að líta á það sem slíkt í hugmyndafræðilegum
skilningi; útrás er að eiga sér stað hér á öllum
sviðum þjóðlífsins; í leiklist, bókmenntum, tón-
list, vísindum, viðskiptum og fræðimennsku – og
myndlist á ekki að vera nein undantekning.
Lokaorðin í grein Aðalsteins eru þau að „um
útflutning myndlistarinnar hljóti að gilda það
sama og í öðrum útflutningi, að þeir sem vilja
keppa á öðrum mörkuðum verði að búa við sömu
skilyrði og keppinautarnir“. Þetta eru orð að
sönnu, og þess vegna þurfa íslenskir myndlist-
armenn að fá aðgengi að hinum alþjóðlega
markaði, auk heimamarkaðar, rétt eins og koll-
egar þeirra í nágrannalöndunum.
Morgunblaðið/Ásdís
Á Víðimel í Vesturbænum.
Þó að Ísland sé ey-
land, er hættulegt
að líta á það sem
slíkt í hugmynda-
fræðilegum skiln-
ingi; útrás er að eiga
sér stað hér á öllum
sviðum þjóðlífsins; í
leiklist, bókmennt-
um, tónlist, vís-
indum, viðskiptum
og fræðimennsku –
og myndlist á ekki
að vera nein und-
antekning.
Laugardagur 13. mars