Morgunblaðið - 18.03.2004, Page 12
FRÉTTIR
12 FIMMTUDAGUR 18. MARS 2004 MORGUNBLAÐIÐ
GERA þarf meiri arðsemiskröfur til
ferðaþjónustunnar hér á landi og
„menn verða að fara að hætta að leika
sér“. Þetta kom m.a. fram á málstofu
viðskipta- og hagfræðideildar Há-
skóla Íslands í gær þar sem Vilhjálm-
ur Bjarnason aðjúnkt hélt erindi um
árangur og aðgangshindranir í ferða-
þjónustunni. „Ég vil sjá arðsemis-
kröfur og þá detta þeir út sem ekki
geta lifað af í greininni. Hinir halda
áfram og lifa góðu lífi,“ sagði Vil-
hjálmur.
Benti Vilhjálmur á að þrátt fyrir
fjölgun erlendra ferðamanna til Ís-
lands og aukið framlag ferðaþjónustu
til landsframleiðslunnar væri greinin
rekin með tapi. Þannig hefði tap fyr-
irtækja í hvalaskoðun verið alls tæpar
90 milljónir króna á árunum 1999 til
2002 og afkoman ekki verið góð í flug-
samgöngum og hótel- og veitinga-
húsarekstri árin 1998 til 2001. Þær at-
vinnugreinar stæðu undir um 70% af
ferðaþjónustunni í heild. Sem hlutfall
af tekjum hefði afkoman verið nei-
kvæð um allt að 5,5% í hótel- og veit-
ingahúsarekstri árið 2001 og mest tap
–3,7% af tekjum í flugsamgöngum ár-
ið 2000. Aðeins árið 1999 hefði komið
út í hagnaði í fluginu.
Vilhjálmur vakti einnig athygli á
því að ferðaþjónustan kæmi út í tapi á
sama tíma og tekist hefði að fjölga
ferðamönnum yfir vetrartímann. Á
tímabilinu 1990 til 2003 fjölgaði t.d.
erlendum ferðamönnum árlega um
8% í janúar og október, um 9% í febr-
úar, apríl og nóvember og um rúm
10% í mars.
Vilhjálmur sagði ennfremur að
menn skyldu fara varlega í að skella
skuldinni á hryðjuverkin í Bandaríkj-
unum 11. september árið 2001 og
áhrif þeirra á afkomu ferðaþjónust-
unnar. Benti hann á að samkvæmt
tölum um fjölda farþega í Leifsstöð
hefðu mun færri komið til Íslands
þrjá mánuðina á undan en á sama
tíma árið áður. Þá hefði tap í flug-
rekstri hér á landi verið meira árið
2000 en árið 2001.
Ábyrgðarlaus rekstur
Vilhjálmur sagði við Morgunblaðið
að menn yrðu að berjast við réttan
vanda og viðurkenna þann undirliggj-
andi vanda sem væri fyrir hendi, þ.e.
að ekki væru gerðar nægar arðsem-
iskröfur til greinarinnar og aðgengið
væri of auðvelt. Skortur væri á fag-
legum kröfum. Greinin sjálf ætti al-
veg eins að gera arðsemiskröfur til
sjálfrar sín eins og bankarnir gerðu
til hennar. Ekkert væri óeðlilegt við
það. Hér væri um alvöru atvinnu-
grein að ræða sem ekkert gamanmál
væri að reka. Ekki mætti líta á ferða-
þjónustu sem byggðamál, hún yrði að
standa undir sér sem atvinnugrein.
„Gjaldþrotin hafa verið mörg og
stór þar sem menn hafa í raun verið í
ábyrgðarlausum rekstri. Ég nefni
sem dæmi Samvinnuferðir-Landsýn.
Einhvern veginn fékk sá rekstur að
ganga svo árum skipti með hjálp
lánastofnana og verkalýðshreyfing-
arinnar og velvilja samgönguráðu-
neytisins þar sem horft var framhjá
tryggingum. Síðan heldur ráðuneytið
áfram og hefur engin afskipti af flug-
rekstri Iceland Express, sem fer á
svig við loftferðalög og kröfur í reglu-
gerð um lausafé. Þegar spurt er um
afkomu hjá flugfélaginu fást þau einu
svör að fluttir hafi verið 100 þúsund
farþegar. Aldrei er að hægt að fá aðr-
ar tölur.“
Benti Vilhjálmur á að frá því Flug-
leiðir voru stofnaðar árið 1973 hefði
samkvæmt sinni bestu vitund ellefu
sinnum verið stofnað til flugrekstrar
til að sinna reglulegu áætlanaflugi til
og frá landinu. Tíu þessara aðila
hefðu farið á hausinn en sá ellefti væri
Iceland Express. Vilhjálmur sagði
þetta sanna að innkoma í ferðaþjón-
ustu væri frekar auðveld, kröfurnar
litlar og menn hefðu fengið „að leika
sér“. Koma ætti á aðgangshindrunum
með meiri arðsemiskröfum og tak-
markaðra aðgengi að fjármagni.
Notre Dame eða hvalir
Varðandi hvalaskoðunina sagði Vil-
hjálmur hana hafa verið ofmetna.
Talað hafi verið um þjóðhagslega arð-
semi með því að reikna út tekjur af
fargjöldum af hverjum farþega sem
kæmi til landsins. Látið væri svo líta
út að ferðamenn gerðu ekkert annað
hér á landi en að skoða hvali. Útreikn-
ingarnir gerðu ekki ráð fyrir neinum
gjöldum neins staðar.
„Ég get vel skilið að menn fari til
Parísar að horfa á Notre Dame-kirkj-
una en að fara norður á Húsavík að
skoða hvali er mér alveg óskiljan-
legt,“ sagði Vilhjálmur.
Krafa um meiri arðsemi
af ferðaþjónustunni
Menn verða að
fara að hætta að
leika sér, segir
aðjúnkt í HÍ
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Vilhjálmur vakti athygli á því að ferðaþjónustan kæmi út í tapi á sama tíma
og tekist hefði að fjölga ferðamönnum yfir vetrartímann
ALÞÝÐUSAMBAND Íslands hefur
lagt mikla áherslu á að efni tilskip-
unar Evrópusambandsins gegn mis-
munun á vinnumarkaði verði lögfest
hér á landi, skv. upplýsingum sem
fengust hjá Halldóri Grönvold, að-
stoðarframkvæmdastjóra ASÍ.
Talið er ósennilegt að Ísland sé
skuldbundið til að innleiða tilskip-
unina þar sem formlega séð er hún
ekki hluti af EES-samningnum, engu
að síður telur ASÍ mikilvægt að efni
hennar verði lögfest líkt og Norð-
menn hafa gert.
Helgi Hjörvar, þingmaður Sam-
fylkingarinnar, tók þetta mál upp á
Alþingi á mánudag og gagnrýndi
stjórnvöld fyrir að hafa staðið gegn
því að tilskipunin yrði tekin upp í
EES-samninginn og lögfest hér á
landi. Árni Magnússon félagsmála-
ráðherra svaraði því til að tilskipunin
hefði ekki komið til umræðu á vett-
vangi ríkisstjórnarinnar, ekki væri
einhugur um hvort Íslendingum bæri
að taka hana upp í okkar lög og reglur
skv. EES-samningnum en hann lýsti
vilja sínum til að fella mörg megin at-
riði hennar í lög hér á landi.
Engin sérstök ástæða til að inn-
leiða tilskipunina að mati SA
Í reynd er um að ræða tvær tilskip-
anir Evrópusambandsins sem settar
voru árið 2000 í þeim tilgangi til að
varna mismunun á vinnumarkaði.
Annars vegar tilskipun nr. 78/2000
sem sett er til að koma í veg fyrir mis-
munun á vinnumarkaði vegna trúar,
fötlunar, aldurs, kynhneigðar o.fl. og
hins vegar tilskipun nr. 43/2000 sem
fjallar um jafna meðferð á vinnu-
markaði án tillits til kynþátta eða
þjóðernis. Báðar tilskipanirnar eru
settar sem breytingar á 13. gr Róm-
arsáttmálans eftir að EES-samning-
urinn var gerður og eru því ekki hluti
af tilskipunum hans.
Hrafnhildur Stefánsdóttir, yfirlög-
fræðingur hjá Samtökum atvinnulífs-
ins, bendir á að umrædd tilskipun
heyri ekki undir EES-samninginn og
sé því utan gildissviðs hans.
Hún segir SA ekki hafa séð neina
ástæðu til þess að tilskipunin verði
tekin upp sérstaklega hér á landi því
þrátt fyrir að þarna sé kveðið á um
reglur sem allir geti fallist á í grund-
vallaratriðum þá séu flóknir tækni-
legir erfiðleikar á framkvæmd þeirra.
Vísar hún einnig til þess að gildandi
ákvæði í stjórnarskránni gangi í sömu
átt gegn mismunun á vinnumarkaði.
Að sögn Halldórs Grönvold hefur
ASÍ ekki ennþá fengið upplýsingar
um afstöðu stjórnvalda til málsins.
„Þessar tvær tilskipanir hafa verið
í skoðun hjá EFTA og það ég best
veit er ekki enn búið að gefa formlegt
svar við því hvort taka eigi þessar til-
skipanir upp skv. EES-samningn-
um,“ segir hann.
Hann segir að Norðmenn hafi lagt
áherslu á að menn ættu ekki að
hengja sig í lagatæknileg atriði varð-
andi það hvort tilskipanirnar falli
undir EES eða ekki heldur verði þær
lögteknar á svæðinu. Íslensk stjórn-
völd hafi hins vegar staðið gegn því.
Spurður hvort lögfesting tilskipan-
anna muni bæta réttarstöðu þeirra
hópa sem þær taka til miðað við gild-
andi réttarreglur hér á landi sagði
Halldór tiltölulega veikar reglur í
gildi hér á landi hvað varðar stöðu
aldraðra og öryrkja á vinnumarkaði.
„Þarna eru settar fram meginreglur
og í annan stað er þar fjallað um gild-
issvið, hvernig fyrirtæki eiga að
standa að málum og um sönnunar-
byrði. Þetta er að vísu rammatilskip-
un en hún myndi setja fyrirtækjum
töluverðar skyldur um að gæta að því
að framganga og skipulag sé með
þeim hætti að það feli ekki í sér mis-
munun,“ segir hann.
Tilskipun gegn mismunun á vinnu-
markaði ekki hluti af EES
ASÍ gerir kröfu
um að tilskipun-
in verði lögfest
„ÞARNA var verið að vinna án þess
að gera fullnægjandi öryggisráðstaf-
anir,“ segir Eyjólfur Sæmundsson,
forstjóri Vinnueftirlits ríkisins.
Vinnueftirlitið hefur bannað vinnu í
Kárahnjúkavirkjun á þeim stað í
gljúfri Jökulsár á Dal þar sem bana-
slys varð á aðfaranótt mánudags. Þá
lést starfsmaður í grjóthruni. Hafa
sérfræðingar frá Vinnueftirlitinu í
Reykjavík og á Austurlandi kannað
aðstæður ásamt lögreglunni á Egils-
stöðum.
„Engin vinna verður leyfð í gilinu
fyrr en nýtt áhættumat liggur fyrir,“
sagði Eyjólfur í samtali við Morgun-
blaðið í gær. „Öryggisstjórar á svæð-
inu segjast vera að vinna í því á fullu
og þeir munu ætla að leggja það fram
mjög fljótlega. Við höfum stöðvað alla
vinnu á svæðinu uns matið liggur fyr-
ir og búið er að gera ráðstafanir sam-
kvæmt því og koma þeim í fram-
kvæmd.“
Verður að stöðva grjóthrun
Ekki er enn ljóst hvort grjótið sem
banaði manninum kom ofan úr
Fremri-Kárahnjúk eða bergstálinu
ofan við vinnusvæðið, en samkvæmt
upplýsingum Morgunblaðsins hefur
grjóthrun verið nokkuð niður á svæð-
ið þar sem menn eru við vinnu alla
jafna og því í raun aðeins tímaspurs-
mál hvenær slys myndi verða.
„Menn hafa séð það fyrir að þarna
yrði grjóthrunshætta, en okkar af-
staða hefur alltaf verið sú og alveg
skýr, að grjóthrun verður að stöðva,
eða verja menn á þann hátt að þeir
geti ekki orðið fyrir skaða af grjót-
hruni,“ segir Eyjólfur. „Þetta er
mjög erfitt mál og þarf að stíga var-
lega til jarðar. Það er hins vegar ljóst
að við teljum það skýra niðurstöðu af
þessu öllu að þarna var verið að vinna
án þess að gera fullnægjandi örygg-
isráðstafanir.“
Ekki ljóst hvenær vinna
verður leyfð að nýju
Eyjólfur segir hægt að draga mjög
mikið úr líkum á grjóthruni með rétt-
um aðgerðum, svo sem girðingum,
klæðningu, neti o.s.frv. „Þetta eru
dýrar ráðstafanir en við tökum enga
áhættu með líf manna til að spara.“
Spurður um hvort vinnubann verði
daga eða vikur í gljúfrinu segir hann
menn vera snögga að framkvæma
undir pressu og að víðar sé unnið á
virkjunarsvæðinu en á þessum til-
tekna stað og því sé ekki eins og
vinna á virkjunarstaðnum liggi öll
niðri.“
Fjöldi öryggiseftirlitsaðila
við virkjunina
„Það er meira öryggisbatterí við
þessa framkvæmd en nokkurn tíma
hefur áður þekkst á Íslandi. Þarna er
öryggisstjóri hjá aðalverktakanum
Impregilo með aðstoðarmanni, sam-
ræmingarstjóri Landsvirkjunar, sér-
stakur eftirlitsaðili af hálfu Lands-
virkjunar með öryggiseftirlitsmanni,
aðaltrúnaðarmaður og þrír öryggis-
trúnaðarmenn verkalýðshreyfingar-
innar sem eiga að gæta hagsmuna
starfsmanna og grípa inn í, til dæmis
með því að hafa samband við okkur ef
ástæða þykir til. Þarna eru öryggis-
trúnaðarmenn og öryggisverðir nán-
ast á öllum vinnustöðunum og búið að
halda námskeið fyrir um þrjátíu
manns. Samt eru menn ekki að
kveikja og bregðast við eins og hefði
átt að gerast í tiltölulega augljósu
máli.
Ég vil þó vekja athygli á því að við
gerð þeirra jarðganga sem þegar er
lokið í Kárahnjúkavirkjun, voru
ráðnir jarðfræðingar og jarðeðlis-
fræðingar í fullt starf sem vöktuðu
aðstæður þar allan sólarhringinn.
Allur framgangur verksins var met-
inn af þeim m.t.t. öryggis og þar var
vel að verki staðið. Síðan snúa menn
sér að næsta verki og þá bregðast
hlutirnir.“
Búið að móta tillögur
að varúðarráðstöfunum
Ómar R. Valdimarsson, talsmaður
Impregilo S.p.A., segir að þann hluta
vinnusvæðisins í gljúfrinu þar sem
menn eru að vinna utan vinnuvéla
eigi að tryggja með netum eftir föng-
um. „Þar sem því verður við komið,
en margir staðir eru þess eðlis að
ekki er hægt að komast að með net,“
segir Ómar. „Þá verða byggðir
tveggja til þriggja metra háir sterk-
byggðir veggir á nokkrum stöðum og
það er til viðbótar við tvo veggi sem
eru fyrir og var ætlað að hindra slys
af þessu tagi.“ Að sögn Ómars er þeg-
ar búið að móta tillögur að varúðar-
ráðstöfunum og verða þær brátt
sendar til Vinnueftirlitsins.
Rannsókn á tildrögum slyssins
stendur enn yfir. Jón Þórarinsson yf-
irlögregluþjónn á Egilsstöðum segir
tildrög slyssins ekki hafa skýrst enn
sem komið er. Nú sé unnið að
skýrslutökum og beðið eftir skýrslu
frá Vinnueftirliti. Jón segist ekki vita
hvenær hennar er að vænta en rann-
sóknin muni standa yfir næstu daga.
„Vinna í gljúfrinu undir Fremri-Kárahnjúk stöðvuð uns áhættumat liggur fyrir og búið er að skipu-
leggja ráðstafanir samkvæmt því og framkvæma þær,“ segir forstjóri Vinnueftirlits
Aðeins tímaspurs-
mál hvenær slys yrði
Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
Ekki liggur fyrir hvenær vinna niðri í gilinu hefst að nýju.