Morgunblaðið - 18.09.2005, Blaðsíða 16
16 SUNNUDAGUR 18. SEPTEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ
N
ú hefst nýtt
líf,“ segir hún
glaðbeitt og
kastar kápu og
trefli í næsta
stól. „Fyrsta
áfanga lauk nú
í ágúst og þar
með undirbúningnum undir það sem
framundan er. Ég á því láni að
fagna að vera svolítið seinþroska og
því hef ég þurft allan þennan tíma
til þess að gefa þroskaferlinu það
rými sem þurfti.“
Svo verður andlitið alvarlegt og
einbeitt og hún setur lattebollann
frá sér.
„Það er svo mikil æskudýrkun í
gangi núna. Ég ætla að afsanna
hana! Og oft er talað um að söng-
konur fari að dala þegar breytinga-
skeiðið tekur við. Ég hef aftur á
móti fundið hið gagnstæða og ætla
að sýna það svart á hvítu!“
Svo brotnar andlitið aftur upp í
þetta alltumvefjandi bros sem er hin
hliðin á vinsældum hennar.
„Mér finnst framtíðin svo spenn-
andi núna þegar ég er komin í þann-
ig samband við hljóðfærið í mér að
ég er sátt við afraksturinn.“
– Þú hefur nú náð að syngja þig
inn í hugi og hjörtu þjóðarinnar á
þessum „undirbúningstíma“ þannig
að við megum þá eiga von á góðu
hér eftir!
Hvaðan fær hún þennan dillandi
hlátur, svona bjartan og smitandi?
„Það er nú alltaf svo, að þegar
einum tindinum er náð blasir annar
við. Þetta er óendanlegt. Það er allt-
af meira til þess að moða úr. Annars
væri ég löngu hætt.“
Hún sýpur á kaffinu og eitt and-
artak verður svipurinn fjarrænn.
„Hugsaðu þér! Ég er búin að vera
atvinnusöngkona í 30 ár. Það eru
þrjátíu ár síðan ég hóf upp raust
mína með Spilverkinu.
Mitt keppikefli hefur verið að
þóknast öllum; sumir vilja bara
dægurtónlist og aðrir bara sígilda
tónlist. Ég þurfti á tímabili að halda
þessu aðskildu. Þetta krefst mis-
munandi raddbeitingar og sálar-
ástands, þótt það sé eitt og sama
hjartað, einn og sami hugurinn, sem
flytur skilaboðin.
Nú er ég þangað komin, að ég
þarf ekki lengur að halda þessu að-
skildu. Ég get bæði verið á klass-
ískum nótum og óheft og frjáls í
dægurtónlistinni. Röddin er tilbúin
og ég er svo mikið kamelljón að ég
get hlaupið í allar stellingar. Og svo
er ég líka ljón!“
– Ljón og kamelljón í einum og
sama manninum! Fáum við að finna
fyrir því á tónleikunum með Sinfón-
íuhljómsveitinni í vikunni?
„Ójá. Ég ætla að syngja mjög sí-
gildar barokkaríur og safn óperu-
aría, sem ég held upp á, og lög eftir
rytmakónginn Bernstein. Svo verð-
ur eitthvað svolítið skoj!
Ég ætla að sýna alla eiginleika
raddarinnar á þessum tónleikum.“
Áttuðu sig ekki á þroskaleysinu
Það er mikið vatn runnið til sjáv-
ar síðan Sigrún Hjálmtýsdóttir kom
fyrst fram með Spilverkinu; Bruna-
liðið, Ljósin í bænum og fleiri dæg-
urhljómsveitir en taldar verða upp
hér: „Ég kom svo víða við, menn
voru alltaf að fá mig að láni!“ Og svo
klassíkin auðvitað. Af hverju valdi
hún klassíkina?
„Þeir voru margir sem heyrðu að
ég var með rödd, eitthvert grunn-
talent, og fólki fannst að ég yrði að
láta reyna á það, hvort ég gæti ekki
náð almennilegum tökum á henni.
Svo fór kærastinn minn, sem nú er
maðurinn minn, Þorkell Jóelsson, til
náms í London og ég elti hann,
þreytti inntökupróf og stóðst það.
Mönnum þótti ég að vísu nokkuð
fullorðin.“
– Þeir hafa ekki áttað sig á
þroskaleysinu!
„Nei, nei,“ með þessu brosi og
þessum hlátri, sem virðast alltaf við
höndina.
Eftir framhaldsnám og „fínpússn-
ingu“ á Ítalíu, „þar sem ég hef
reyndar alltaf verið af og til hjá
mínum lærimeistara, sem er orðin
háöldruð í dag“, einhenti Diddú sér í
klassíkina en dægurtónlistin fékk að
bíða.
„Já, ég varð svolítið að einblína á
klassíkina til þess að ná tökum á
tækninni. En eftir að ég fann að ég
hafði tæknina á valdi mínu get ég
gert hvað sem ég vil, hvenær sem er
og hvar sem er.“
Klassíski listinn er ekki síður
langur og fjölbreyttur en dægurlist-
inn; Jose Carreras og Placido Dom-
ingo þar á meðal. „Ég safna ten-
órum!“ segir hún og hlær. Ég rifja
upp söguna af dívunni sem hafði
sungið með mörgum helztu söngv-
urum samtímans og var spurð,
hvernig þeir hefðu verið.
Þeir pössuðu misvel við röddina í
mér, svaraði dívan. Diddú finnst
svarið brilljant en ekki fyrir sig.
„Eitt af því sem gerir góðan lista-
mann eru góðir samverkamenn;
söngvarar, hljómsveitarstjórar og
hljóðfæraleikarar. Það er svo
gaman að syngja með frábæru fólki,
það opnar allar gáttir og örvar til
dáða. Hver um sig gefur eitthvað
nýtt. Maður færist fram um tíu
skref.“
Veikur söngur er metkúnst
„Það er margt sem mig langar til
að hafa fullkomlega á valdi mínu.
Þegar hljóðfærið er nánast komið á
hreint, vil ég kafa dýpra í nóturnar.
Ég hef alltaf lagt mikið upp úr
textanum, viljað að orðin heyrðust,
jafnvel þótt það sé oft á kostnað fal-
legra tóna. Ég vil að mín rödd túlki
textann.
Mér finnst allir heimsins beztu
söngvarar eiga það sameiginlegt að
gera betur en við hin með því að
syngja háa tóna veikt. Veikur söng-
ur er metkúnst; að hafa hugrekki til
þess að láta röddina fljóta í veikum
háum söng. Þeir beztu hafa þetta
framyfir okkur meðaljónana. Ég
veit ekki hvað gerir þennan herzlu-
mun, en við söngvarar erum svolítið
eins og íþróttamenn; sumir eru
kraftlyftingamenn og aðrir fimleika-
menn.
Þessi kona, sem ég læri hjá á Ítal-
íu, Rina Malatrasi, er ein af fáum
sem enn eru eftir af kynslóð gullald-
arsöngvara sem kunna að miðla hin-
um eina sanna belcantosöngstíl.
Hún lærði hjá kennara, sem frum-
flutti verk eftir Puccini og Verdi, og
ég lærði nokkur þeirra með punkt-
um frá þessum kennara og sumir
komu handskrifaðir frá Toscanini.
Nú fer þessi hefð þverrandi í
söngheiminum.“
– Hvað tekur við?
Nú hugsar Diddú sig um og veltir
lattebollanum fyrir sér.
„Það er svolítið mikill kraftsöngur
finnst mér. Þetta er orðið svo mark-
aðssett og stundum er maður gap-
andi yfir því, sem heyrist í stórum
óperuhúsum, og skilur ekki hvað er
að gerast, hvernig þessir söngvarar
hafa komizt þarna á svið. En svo er
þetta auðvitað alltaf spurning um
smekk.“
Ég er svoddan leikhúsrotta
– Þú kaust að setjast að á Íslandi.
„Já. Hér er mitt vígi. Ég tók þá
ákvörðun snemma að vera heima til
þess að fá svigrúm til að finna sjálfa
mig í friði.
Þessir ungu óperusöngvarar sem
eru ráðnir við húsin erlendis eru
nýttir nótt og dag og oft settir í
hlutverk sem eru alltof stór fyrir þá.
Stundum fær sú uppákomua ekki
farsælan endi.
Ég var líka svo heppin að þegar
ég kom frá Ítalíu fékk ég hlutverk
hér heima sem voru klæðskera-
saumuð fyrir mig. En ég hef líka
neitað hlutverkum, sem mér hafa
ekki fundizt henta mér. Og verið
óhrædd við það.“
– Erfitt?
„Já. Ég leggst grenjandi undir
feld. En svo er það einhver eðl-
isávísun sem ræður.“
– Freistaði þín ekkert að setjast
að úti?
„Nei. Ég hef svo sem farið í
prufusöng erlendis og fólk viljað fá
mig, en það strandar alltaf á kröf-
unni um að ég flytji út. Þeir vilja
hafa mann við höndina. Það er eins
og það sé auðveldara og sjálfsagð-
ara fyrir karlmenn að fara í söng-
útilegur, en málin horfi öðruvísi við,
þegar um konu er að ræða.
En ég hef líka fengið skemmtileg
tækifæri í útlöndum. Ég er alltaf
beðin að syngja annað slagið og
skrepp þá í það héðan. Þannig verð-
ur það að vera.“
– Engin eftirsjá?
„Ekki yfir því, nei. En eins sakna
ég í lífinu; að hafa ekki sungið meira
á óperusviði. Ég er svoddan leik-
húsrotta, mér líður svo vel á sviðinu.
Ég hef ekki sungið í óperu í sjö ár.
Ég sakna leikhússins, lyktarinnar
af búningunum, leikhúsryksins, ljós-
anna og þessarar tilfinningar, sem
er bara hægt að upplifa.“
Þetta segir Diddú allt að því fjálg-
lega. Svo: „En svona er þetta. Það
er ekkert sjálfgefið. Og Ísland er
mitt val.“
– Af hverju?
„Þótt ég eigi mér annað föðurland
þar sem Ítalía er, sem togar líka í
mig, þá er Ísland mitt heima. Þegar
ég kem í dalinn grípur mig alltaf
einhver ólýsanleg dásemd, það er
eins og að eignast barn.
Þegar þú ert í umhverfi sem þú
ert sáttur við og þú í góðu andlegu
jafnvægi, þá syngurðu vel.
Það syngur enginn óglaður.“
– En ekki ertu alltaf jafnvel upp-
lögð?
„Ég er að eðlisfari frekar glað-
sinna. Það vinnur með mér. En oft
er ég yfirbuguð af þreytu. Ég kem
samt alltaf endurnærð frá því að
syngja. Það eru einhverjir vernd-
arenglar með mér. Oft þegar ég er
þreytt í byrjun og þarf að taka mig
verulega á til þess að falla inn í
sönginn gerist það að fólk kemur til
mín á eftir og segist hafa orðið fyrir
svo sterkri upplifun undir söng mín-
um. Einbeitingin er einhvern veginn
í réttum punkti og það fer eitthvað
óskiljanlegt í gang inni í manni. Ef
vel tekst til er söngurinn oft mjög
líknandi. Hann er ótrúlegur miðill.
Þegar söngvarinn er rétt stemmdur
leysir söngurinn sterkar tilfinningar
úr læðingi hjá hlustandanum.“
Þessi orð setur Diddú fram á al-
varlegum nótum. Henni er eðlislægt
að skilja að þannig hitta þau betur í
mark. Hér má brosið bíða.
Meitluð dul sönglaganna
– Áttu þér einhver uppáhalds-
söngverk?
„Mér þykir voðalega vænt um ar-
íu í Rigoletto; Caro Nome. Ég man
að þegar ég fékk fyrst tækifæri til
þess að syngja hlutverk Gildu í Óp-
erunni, þá sagði ég að þegar manni
hefði gefizt kostur á þessu hlutverki
þá gæti maður dáið drottni sínum.“
– En þú lézt það nú ógert sem
betur fer!
„Já.“ Broslýst andlitið ber við
bollann. „En sú ópera sem stendur
hæst á mínum óperuferli er Lucia di
Lammermoor, sem ég söng fyrir 13
árum. Þar náði ég hæstum hæðum í
óperuflutningi – á því þroskastigi!
Nú hef ég þau tök á rödd minni
að ég gæti skilað þessu hlutverki
eins og ég helzt vildi.“
– Svona mikill Íslendingur eins og
þú hlýtur að unna íslenzkum söng-
lögum?
„Þau eru mér mjög hjartfólgin og
ég geri mikið af því að koma þeim á
framfæri. Þau eru svo mikill fjár-
sjóður.
Og þennan fjársjóð er fólk í út-
löndum farið að uppgötva. Þrátt fyr-
ir málleysið er það alveg dolfallið yf-
ir séríslenzkum tóni lagnanna. Ég
hef ósjaldan gefið útlendingum nót-
ur og nótnabækur; til dæmis gaf ég
fyrir nokkru frönskum hópi hljóð-
færaleikara nótur og nú hafa þeir
útsett lögin og spila þau á tónleik-
um.“
– Hvaða seiðmagn er þetta?
„Það er einhver meitluð dul, eins
og í landslaginu, eins og í vindinum,
eins og sólarlagið, það er þögnin í
náttúrunni og heiðríkjan.“
Tónleikana á fimmtudag og föstu-
dag segist Diddú tileinka söngferli
sínum. En hún er ekki öll séð eins
og hún syngur þar.
„Í Salnum í desember fær fólk að
sjá hina hliðina á mér. Þar ætla ég
að fá til liðs við mig ýmsa félaga.
Ég ætla mér sem sé að gera mér
allri skil á árinu.“
Vil að mín rödd túlki textann
Þar sem Sigrún Hjálmtýs-
dóttir stendur á fimmtugu
með þrjátíu ára söngferil að
baki telur hún sig loksins
hafa náð því valdi á rödd-
inni að hún sé til í hvað sem
er. Freysteinn Jóhannsson
sat fyrir söngkonunni á
þessum krossgötum.
Morgunblaðið/Kristinn
Sigrún Hjálmtýsdóttir: Þegar ég kem í dalinn grípur mig alltaf einhver ólýsanleg dásemd, það er eins og að eignast barn.
freysteinn@mbl.is