Morgunblaðið - 17.12.2005, Blaðsíða 26
26 LAUGARDAGUR 17. DESEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ
ERLENT
Þingkosningarnar í Írak ífyrradag vekja vonir um aðhægt verði að koma á friði ílandinu, draga úr spenn-
unni milli sjíta, súnní-araba og Kúrda
og blása lífi í efnahaginn eftir linnu-
laust ofbeldi í þau tæpu þrjú ár sem
liðin eru frá innrásinni í landið.
Yfirvöldum tókst að halda ofbeld-
inu í lágmarki á kjördag með geysi-
strangri öryggisgæslu og kjörsóknin
var mikil.
Sérfræðingar í málefnum Íraks
telja að viðræðurnar um myndun
ríkisstjórnar dragist á langinn og ný
stjórn verði ef til vill ekki mynduð
fyrr en í apríl. Hugsanlegt er að upp-
reisnarmenn notfæri sér valdatóm-
arúmið til að herða árásir sínar og að
vopnaðir hópar úr röðum sjíta færi
sig upp á skaftið.
Uppbyggingarstarfið í Írak getur
ekki hafist fyrir alvöru fyrr en starf-
hæf ríkisstjórn verður mynduð. Tak-
ist það geta Írakar tekist á við það
erfiða verkefni að koma öryggismál-
um landsins í viðunandi horf, binda
enda á ofbeldið, rétta efnahaginn við
og sætta þjóðernis- og trúarhópa
landsins.
„Tekur langan tíma“
Joost Hiltermann, sérfræðingur í
málefnum Íraks hjá hugveitunni
International Crisis Group, segir að
næstu mánuðir geti skipt sköpum. „Í
hönd fer mjög mikilvægt tímabil fyrir
Írak, vegna þess að þá ræðst hvort
landið færist lengra í átt að borgara-
styrjöld eða hvort hægt verður að
toga það úr grængolandi hyldýpinu,“
hafði fréttastofan AFP eftir Hilter-
mann.
Ráðamenn víða um heim, þeirra á
meðal George W. Bush Bandaríkja-
forseti, luku lofsorði á Íraka fyrir að
láta ekki hótanir hryðjuverkamanna
aftra sér frá því að kjósa. „Þetta er
mikilvægt skref í þá átt að ná mark-
miði okkar, sem er
lýðræðislegt Írak,
þjóð sem getur staðið
á eigin fótum og varið
sig sjálf, þjóð sem
verður liðsmaður
okkar í baráttunni
gegn hryðjuverkum
og öflugt fordæmi
fyrir aðrar þjóðir á
svæðinu, hvort sem
þær búa í Íran eða
Sýrlandi,“ sagði
Bush.
Vestrænn stjórnar-
erindreki í Bagdad
viðurkenndi þó að
Írakar ættu enn langt
í land með að mynda
starfhæfa stjórn,
draga úr spennunni milli súnníta og
sjíta, sem verða öflugastir á þinginu,
og binda enda á árásir uppreisnar-
manna. „Þetta tekur langan tíma og
verður ekki áhlaupaverk,“ hafði AFP
eftir stjórnarerindrekanum.
Takist á við vopnaðar
hreyfingar sjíta
Talið er að úrslit kosninganna
verði ekki birt fyrr en eftir að
minnsta kosti hálfan mánuð. Bráða-
birgðatölur verða þó ef til vill birtar í
næstu viku.
Wamid Omar Nadhami, prófessor
við Bagdad-háskóla, sagði að örlög
Íraks myndu ekki ráðast fyrr en úr-
slit kosninganna lægju fyrir og
stjórnarmyndunarviðræður hæfust
með tilheyrandi hrossakaupum.
Hann kvaðst vona að þingkosning-
arnar yrðu til þess að hernáminu lyki.
„Ef Bandaríkjamenn sætta sig við
niðurstöðu ósvikins lýðræðis þá
hljóta þeir að sætta sig við brotthvarf
hernámsliðsins frá Írak sem sjálf-
stæðs ríkis,“ sagði Nadhami, sem er
súnníti.
Hernámsliðið getur þó ekki farið
fyrr en öryggissveitir Íraks eru orðn-
ar nógu öflugar til að tryggja öryggi
landsins án þess að þurfa að reiða sig
á atbeina vopnaðra hreyfinga, eink-
um sjíta. „Ég tel mjög brýnt að
stjórnin takist á við vopnuðu hreyf-
ingarnar á næsta ári. Það getur ekki
beðið,“ hafði AFP eftir vestræna
stjórnarerindrekanum.
Enn fremur þarf að leysa deilurnar
um hvernig stjórna eigi olíu- og gas-
vinnslunni í landinu og skipta olíu-
tekjunum. Kúrdum í olíuhéruðunum í
norðanverðu Írak er umhugað um að
héruðin ráði sem mestu í þeim efnum
en súnní-arabar vilja miðstýringu.
Þeir óttast að Írak skiptist í þrennt,
olíurík svæði sjíta í suðri og Kúrda í
norðri en auðlindasnautt ríki súnní-
araba í miðju og vesturhluta landsins.
Vilja frið, ekki ofbeldi
Ekki er enn ljóst hversu mikil kjör-
sóknin var en talið er að tveir af
hverjum þremur atkvæðisbærum
Írökum hafi kosið. Yfirvöld í Bagdad
sögðu í gær að 10–11 milljónir Íraka
hefðu neytt atkvæðisréttar síns, eða
um það bil 70% atkvæðisbærra lands-
manna.
Dagblöð í löndum araba fögnuðu
mikilli kjörsókn meðal súnníta, sem
sniðgengu að mestu kosningarnar í
janúar þegar bráðabirgðaþing var
kosið. Mörg blaðanna sögðu þátttöku
súnníta í kosningunum marka tíma-
mót og geta orðið til
þess að mynduð yrði
stjórn með skýrt um-
boð þjóðarinnar.
„Það var rödd
írösku þjóðarinnar
sem heyrðist, ekki
sprengjugnýr hryðju-
verkamanna,“ sagði
sádi-arabíska dag-
blaðið Arab News
sem gefið er út á
ensku. „Sú staðreynd
að svo margir súnnít-
ar flykktust á kjör-
staði í fyrsta skipti,
eftir að hafa sniðgeng-
ið fyrri kosningar, er
skýr boðskapur um að
fólkið, sem flestir upp-
reisnarmennirnir þykjast berjast fyr-
ir, vill frið, ekki ofbeldi.“
Uppreisnin gegn hernámsliðinu
hefur notið mikils stuðnings meðal
súnní-araba, sem óttast að við ein-
ræði Saddams Husseins taki einræði
sjíta. Mikilvægt er að sigurvegarar
þingkosninganna, flokkar sjíta, gangi
til samstarfs við að minnsta kosti einn
flokk súnní-araba eftir kosningarnar.
Sjítar þurfa að sannfæra súnníta um
að þeir verði ekki áhrifalausir í Írak
og þeim sé fyrir bestu að leggja sitt af
mörkum til að stöðva blóðsúthelling-
arnar.
Fréttaskýring | Þótt kosningarnar í Írak hafi heppnast vel er óvissan enn mikil, skrifar Bogi Þór Arason, og næstu mán-
uðir gætu ráðið úrslitum um framtíð landsins. Á miklu ríður að mynduð verði stjórn sem súnní-arabar geta sætt sig við
Samstarf við íraska súnníta
nauðsynlegt til að tryggja frið
AP
Her- og lögreglumenn fagna því að verkefni þeirra er lokið eftir að kjörkassar voru fluttir frá kjörstöðum í gær.
’Í hönd fer mjögmikilvægt tímabil
fyrir Írak, vegna
þess að þá ræðst
hvort landið færist
lengra í átt að
borgarastyrjöld
eða hvort hægt
verður að toga það
úr grængolandi
hyldýpinu.‘
MEÐALHITINN á jörðinni á þessu
ári er sá næsthæsti sem mælst hefur
síðan áreiðanlegar mælingar hófust
á sjöunda áratug 19. aldar, að sögn
fréttavefjar breska ríkisútvarpsins,
BBC. Einnig kemur fram að með-
alhiti á norðurhveli jarðar hafi aldr-
ei mælst hærri, hann er 0,65 Cel-
síusgráðum hærri en meðaltalið
1961–1990.
Hækkunin á meðalhita á heims-
vísu er 0,48 gráður, aðeins árið 1998
var heitara. Hiti í sjónum mælist
einnig meiri en nokkru sinni síðan
mælingar hófust.
Vitnað er í vísindamenn hjá
bresku veðurstofunni og háskól-
anum í Austur-Anglíu. Þeir segja
þessar niðurstöður vera nýjar vís-
bendingar um að loftslag sé að
hlýna og það sé vegna notkunar
manna á jarðefnaeldsneyti eins og
kolum, gasi og olíu er valdi gróður-
húsaáhrifum. Þeir telja að hækk-
unin sé meiri á norðurhvelinu vegna
þess að þar er meira þurrlendi en á
suðurhvelinu. Land bregðist hraðar
við breytingum á loftslagi en sjór.
Efasemdarmenn um gróðurhúsa-
kenninguna segja á hinn bóginn að
niðurstöðurnar sýni aðeins að með-
alhitinn sé nú sá hæsti síðan mæl-
ingar hófust. Ekkert sé hægt að
ráða af þeim um orsakir breyting-
anna og hve mikinn þátt menn eigi í
þeim.
Hæsti meðalhiti í 150 ár