Réttur


Réttur - 01.08.1968, Blaðsíða 20

Réttur - 01.08.1968, Blaðsíða 20
alísks áætlunarbúskapar. Jafnvægið milli þessara tveggja afla verður því óstöðugt og breytilegt og skapar sífellt ný vandamál; í stað þess að sætta sig við ákveðin hlutföll milli áætlunar og markaðs sem endanleg, hlýtur því sósíalískur áætlunarbúskapur að miða að takmörkun markaðslögmálanna (ekki útrýmingu) eftir því sem hægt er á við- komandi þróunarstigi. I öðru lagi var ýmist reynt að breiða yfir eða réttlæta í nafni sósíalismans þá staðreynd, að nýja áætlunarkerfið hlaut — a.m.k. um stundarsakir — að auka mjög völd ýmissa þjóðfélagshópa (efnahagssérfræðinga, for- stjóra o.fl.) sem þannig fengju aðstöðu til að framfylgja sérhagsmunum sínum. Þannig túlkuðu talsmenn þessara skoðana sjálfstjórn fyrirtækjanna fyrst og fremst sem aukið for- stjóravald og stóðu gegn kröfum verkalýðs- samtakanna um meiri þátttöku í henni. Hliðstæð fyrirbæri gerðu vart við sig á pólitíska sviðinu. Ollum var ljóst að ætti sósíalískt lýðræði nokkurn tíma að verða annað og meira en nafnið tómt, varð fyrst að tryggja nokkur frumskilyrði þess, sem þó eru alls ekki sósíalísk í sjálfu sér: þ. e. rit- og mál- frelsi — fyrst og fremst frelsi til gagnrýni á stjórnarvöldin — og samtakafrelsi. En marg- ir gengu hér feti lengra og töldu það brýnast verkefni að innleiða aftur í Tékkóslóvakíu hin hefðbundnu lýðræðisform, sem þeir töldu að gætu samrýmzt sósíalísku þjóðfélagi engu síður en borgaralegu. Höfuðkrafa þessa skoð- anahóps varð því stofnun stjórnarandstöðu- flokks. Þeir, sem settu þessa kröfu fram og rökstuddu hana, tóku skýrt fram, að slíkur flokkur gæti að vísu engan veginn orðið and- sósíalískur, en hins vegar hlytu að koma upp mjög mismunandi hugmyndir um næstu verkefni og framtíðarstefnu hins sósíalíska þjóðfélags, sem réttlætt gætu tilveru fleiri stjórnmálaflokka. Rithöfundurinn Václav Havel rökstuddi t.d. kröfuna um stjórnarand- stöðu með því, að kommúnistaflokkurinn hefði að vísu lagt grundvöllinn að sósíalísku þjóðfélagi, en gert það á kostnað lýðræðisins; þannig væri þörf á flokki, sem legði áherzlu einmitt á nauðsynlega sameiningu þessa tvenns. Krafan um skipulagða stjórnarandstöðu var að vísu ekki út í hött, og fráleitt er að telja hana aðeins yfirvarp gagnbyltingarafla, en þó verður vart talið, að hún hafi komizt að kjarna málsins. Eins og ýmsir borgaralegir gagnrýnendur bentu raunar á, voru engin líkindi til þess, að nýr flokkur, stofnaður á meðan allar mikilvægar valdamiðstöðvar voru enn í höndum kommúnistaflokksins, gæti orðið neitt annað en ósjáifstæður lepp- flokkur af sama tagi og hinir flokkarnir í þjóðfylkingunni svonefndu. Þar að auki — og það er höfuðatriðið — dró krafan um stjórnarandstöðuflokk athyglina frá þeim raunhæfu leiðum til aukins lýðræðis, sem á þessu augnabliki voru færar. Þær voru, eins og reynsla síðasta misseris sýndi, einkum þrjár: aukið innanflokkslýðræði; áhrif þjóð- félagslegrar gagnrýni, sem fram kom frá menntamönnum, einkum málgagni rithöf- undasambandsins, bæði á flokkinn og al- menningsálitið; og í þriðja lagi sjálfstæð þátt- taka verkalýðssamtakanna í umbómnum og meiri hlutdeild þeirra í stjórn efnahagsmála. Sér í lagi þetta síðasta atriði var miklu mikil- vægara en endurreisn þingræðisforma. Með frekari þróun í lýðræðisátt hefði að sjálf- sögðu komið að því, að mismunandi stjórn- málastefnur hefðu keppt opinberlega, en miklu líklegra er að það hefði gerzt með skiptingu kommúnistaflokksins í tvo eða fleiri arma en með flokksstofnun utan hans vébanda. I umræðum um þau mál, sem hér hafa verið rædd, komu þannig ljóslega fram tveir 144

x

Réttur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Réttur
https://timarit.is/publication/319

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.