Morgunblaðið - 07.02.2006, Side 45
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 7. FEBRÚAR 2006 45
MENNING
HJÖRTU kvenna myndu ábyggi-
lega slá örar við vitneskjuna eina
um að á meðal vor færi maður með
eld réttlætiskenndar logandi svo
heitt í brjósti sem hann gjörir hjá
Zorró í þessari sögu. Og það væri
óneitanlega meira fjör ef dul-
arfullur grímuklæddur maður ætti
það til að birtast óvænt á ögur-
stundu og bjarga lítilmagnanum frá
ofríki yfirvaldsins. Mætti jafnvel
sjá fyrir sér skikkjuprýdda hetju
hrifsa penna úr hendi jakkafata-
klæddra burgeisa við samningsborð
og koma í veg fyrir samþjöppun
auðvaldsins. Eða hvernig ætli
Zorró myndi bera sig að í dag? Og
hvar ætti hann helst erindi? En
það er erfitt að sjá ofdekraðan nú-
tímamann fyrir sér í hlutverki
Zorró af því að í vestrænni velmeg-
un virðist öllum vera svo nákvæm-
lega sama um það þó einhver ann-
ar hafi það skítt. Kannski á Zorró
best heima í fortíðinni, í goðsögn-
inni. Hvar sem hann á heima í tíma
og rúmi þá sprettur hann fram
bráðlifandi í þessari sögu suður-
amerísku skáldkonunnar Isabel All-
ende, sem var falið það verkefni að
skrifa um það hvernig hinn ungi
Diego de la Vega varð Zorró. Þótt
léttleiki ævintýrsins svífi vissulega
yfir frásögninni og yfirnáttúrlegir
hlutir eigi sér stundum stað, þá er
þetta allt saman þónokkuð sann-
færandi. Allt frá því hvernig leiðir
foreldra Zorró lágu saman í Kali-
forníu á síðari hluta átjándu aldar,
fram til þess dags sem hann er
orðinn fullmótuð alþýðuhetja. Per-
sóna hans ber þess óneitanlega
merki að í æðum hans rennur
blanda af blóði stríðandi fylkinga.
Frá móður sinni fær hann villt blóð
indíánakonunnar bláfátæku en frá
föðurnum kemur ráðsett blóð evr-
ópska að-
alsmannsins,
hershöfðingjans
og nýlendubúans.
Sagan gerist á
tímum Napóle-
ons og bylting-
arinnar og les-
andinn fyllist
vissulega réttlæt-
iskennd fyrir
hönd hinna kúguðu og það er aldrei
of oft minnt á þá skammarlegu
meðferð sem indíánar fengu í henni
Ameríku á þessum tíma. En þetta
er þó fyrst og fremst skemmtileg
saga, dulítið rómantísk og kattl-
iðuga hetjan Zorro er svarthvít.
Höfundur bókarinnar gerir óspart
grín að hégómleik hans. Þessi goð-
sagnakenndi bjargvættur birtist
hér í mannlegum breyskleika sín-
um, hann er af holdi og blóði. Per-
sónulýsingar Allende eru kunn-
uglegar, þarna koma til dæmis
fram á völlinn margar sterkar kon-
ur sem eru einstaklega klókar og
gjósa líkt og eldfjöll ef svo ber
undir. Og vald ástarinnar er slíkt
að það breytir framgangi mann-
kynssögunnar. Húmor og erótík
eru vel fléttuð inn í frásögnina,
sem er einnig kunnuglegt úr fyrri
bókum höfundar. Frásagnargleðin
ræður ríkjum og stundum tekst
henni að skapa mjög myndræna
stemningu þar sem hún dvelur við
smáatriði í náttúru eða umhverfi og
hún er vissulega á heimavelli þegar
hún lýsir einhverju villtu og óheftu.
Semsagt suðræn og seiðandi hetju-
saga sem er teprulaus, þar sem
lögð er áhersla á að lífið er ein
heild og að okkur koma örlög ann-
arra manna við og við megum aldr-
ei láta ranglæti gagnvart öðrum
viðgangast. Vissulega er alveg
hægt að láta klisjurnar í sögunni
fara í taugarnar á sér, en það er
líka alveg hægt að líta fram hjá
þeim og hverfa á vit ævintýrsins og
njóta.
BÆKUR
Skáldsaga
Isabel Allende
Íslensk þýðing Kolbrún Sveinsdóttir
336 bls., Mál og menning, 2005
Zorró, sagan á bak við goðsögnina
Isabel Allende
Kristín Heiða Kristinsdóttir
Þá riðu hetjur
um héruð
STÆRSTA ástin á sjötíu ára pip-
arsveinsævi danska ævintýrakóngs-
ins H. C. Andersens var líklega sópr-
ansöngkona. Jenny Lind (1820–87),
„sænski næturgalinn“ sem svo var
kölluð, náði óvefengjanlegri heims-
frægð á aðeins níu ára óperuferli sín-
um á 5. áratug aldarinnar. En þótt til-
finningar Andersens væru
óendurgoldnar, héldust þau nánir
vinir meðan bæði lifðu, og haft er fyr-
ir satt að ævintýri Andersens um kín-
verska söngfuglinn (síðar tónsett af
m.a. Stravinskíj) hafi hann skrifað til
hennar. Boðskapur þess er sem
kunnugt er hvað hið óspjallaða og
náttúrulega tekur ávallt öllu sýnd-
argervi fram, enda var á sínum tíma
til þess tekið hvað Jenny megnaði
öðrum fremur að tjá beint frá hjarta
til hjarta. Það innræti kom einnig
fram í fjárstuðningi hennar við tón-
listarmenn, þ. á m. Schumann-hjónin.
Manngöfgandi list söngkonunnar
þótti með afbrigðum tær og ómeng-
uð. Eða eins og H. C. orðaði það í ljóð-
mælabók hennar: „Selv Du ei din
bedste Ynde kjender, / sjælens Reen-
hed, ubevidst udtalt;“[...] Og kannski
á sá grunnsannleikur ekki sízt við
okkar tíma, meðan skrumið er í meiri
hámælum en lengi hefur þekkzt. Hið
nýliðna tveggja alda afmæli æv-
intýraskáldsins (f. 1805) gaf þess utan
tilefni til ýmissa uppákomna lands-
yðra þar sem minnzt var sambands
þeirra Jennyar, og má segja að angi
hafi færzt norður hingað með þokka-
lega vel sóttum tónleikum Sólrúnar
Bragadóttur og landa Linds, Thom-
asar Landers, í Salnum á þriðjudags-
kvöld þegar sýni voru reifuð af við-
fangsvali sænsku
heimssöngkonunnar.
Dagskráin skiptist í 12 ljóðasöngva
fyrir hlé og 6 óperuaríur eftir. Sungu
þau Sólrún í fyrri hluta tvo dúetta eft-
ir Mendelssohn (Gruß og Ich wollt’
meine Lieb’ ergöße sich), og í seinni
dúett Luciu og Enricos úr Lucia di
Lammermoor Donizettis. Pössuðu
raddir þeirra merkilega vel saman,
jafnvel þótt Sólrún hefði nokkurn
styrkvinning á dýnamískum tindum.
Skiptust þau annars jafnt á sviðsljós-
inu, og meðal hápunkta ljóðasöngva
þótti mér hjá Sólrúnu standa upp úr
seljaköllin til búsmalans í Norsk
fjällsaang (þjl. í úts. Ahlström,
Thrane & Bjerregaard) er minnt
gátu jafnvel á Auvergnesöngva
Canteloubes, en hjá Lander þrótt-
stælt meðferð hans á Der Soldat og
Der Spielmann Schumanns við And-
ersen-texta.
Af þrem óperuaríum Sólrúnar eftir
hlé skaraði Je suis seule úr Les Hug-
uenots eftir Meyerbeer fram úr, þökk
sé mikilli styrkvídd og fjölbreyttum
tjábrigðum. Í alfrægustu aríu kvölds-
ins, Casta diva úr Normu Bellinis þar
sem óperusöngkonur þurfa enn í dag
að sæta viðmiðun við Maríu Callas í
hlutverki keltnesku hofgyðjunnar,
tókst henni einnig furðuvel upp.
Minna þótti mér hins vegar um túlk-
un Landers í óþarflega raddekktri
meðferð hans á Ah, per sempre io ti (I
Puritani/Bellini) og La sua lampada
vitale (I Masnadieri/Vivaldi), þar sem
að vísu þróttmikill söngur hamlaðist
verulega af ósannfærandi holri og
einsleitri raddbeitingu.
Annars átti sú einsleitni, einkum
þegar fram í sótti, jafnt við báða
söngvara. Því áður en lauk var ég satt
að segja farinn að þreytast á full-
mörgum orkurokum á kostnað
skýrra tónskila og fíngerðari blæ-
brigða. Það gildir greinilega jafnt um
óperu- sem ljóðasöng – einkum á
löngum tónleikum sem þessum (hátt í
3 klst. með hléi) – að eitthvað þarf
meira til að viðhalda athygli hlustand-
ans en kraftur og háir tónar.
Sænski
næturgalinn
Morgunblaðið/ÞÖK
Sólrún Bragadóttir, Thomas Lander og Anna Guðný Guðmundsdóttir.
Ríkarður Ö. Pálsson
TÓNLIST
Salurinn
„Skáldið og næturgalinn“. Söngverk úr
viðfangsvali Jennyar Lind. Sólrún Braga-
dóttir sópran, Thomas Lander barýton og
Anna Guðný Guðmundsdóttir píanó.
Þriðjudaginn 31. janúar kl. 20.
Einsöngstónleikar