Morgunblaðið - 25.03.2006, Qupperneq 41
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 25. MARS 2006 41
MINNINGAR
Hreppafjöllum eða á flatneskjum
Sjálands. Hann var settur í gifs og
varð að liggja í því hreyfingarlaus í
marga mánuði. Komst ekki á ról
fyrr en snemma vors 1940. Bjarni
tók þessu mótlæti með þolgæði sínu
sem var reyndar einstakt alla tíð.
Hann sendi fjölda bréfa heim að
Hlíð og víðar til frændfólksins. Þau
voru öll skrifuð með blýanti því
hann lá í marga mánuði hreyfing-
arlaus á bakinu og gat ekki tekið
sér blekpenna í hönd.
En Bjarni mun hafa sent bréf frá
sér víðar. Til þess að stytta sér
stundir komu sjúklingarnir sér upp
bréfasamböndum innan spítalans.
Bjarni datt í þann lukkupott að
komast í bréfasamband við annan
langlegusjúkling í líkri aðstöðu. Það
var Margrét Helgadóttir sem varð
svo eiginkona hans, er þau bæði
höfðu náð heilsu um það bil tveimur
árum eftir að hann lagðist inn.
Þau náðu bæði lífinu, sem ekki
var þá endilega víst um berklasjúk-
linga. En þau náðu einnig góðum
ástum og lifðu í fallegu hjónabandi
sem stóð í áratugi. Ég minnist
heimilis þeirra fyrst í Hamri við
Eyraveg á Selfossi. Þar bjuggu þau
þröngt inni á annarri fjölskyldu og
deildu eldhúsi með húsráðendum.
En von bráðar voru þau komin út í
húsbyggingu að Reynivöllum 4 á
Selfossi og þar stóð heimili Mar-
grétar til æviloka þótt hún lægi síð-
asta tímann á hjúkrunarheimilinu
Ljósheimum.
Gestaboð dag og nótt er það sem
mér finnst einkennandi fyrir lífs-
starf Margrétar Helgadóttur. Hlý-
leiki við alla, lífsgleði og fjör, var
það sem einkenndi þau bæði,
Bjarna og Möggu. Það löðuðust all-
ir að þeim, þeir Hlíðarmenn öðrum
fremur. Og héðan frá Litlu-Sandvík
var vart farið að Selfossi án þess að
komið væri við að Reynivöllum 4.
Ég held að ég hafi ekki einu sinni
misboðið gestrisni þeirra er ég
kvaddi þar dyra eina vetrarnótt
fyrir áratugum síðan. Var að koma
af þorrablóti á Þingborg þar sem
mér var ætluð einhver upptroðsla.
En svo fór að vitlausan norðanbyl
gerði og ófærð var strax komin á
Selfossi. „Sýslumannsskaflinn“,
sem þá var næsta árlegur fyrir
austan Sýslumannsbústaðinn, var
alls ekki fær bílum, svo ekki var
farið lengra.
Magga kom til dyra er ég barði
þar upp á klukkan rúmlega 3. Og
hvað var sjálfsagðara en taka á
móti þreyttum ferðalang en einmitt
þá. Uppábúið rúm virtist tilbúið og
næsta morgun, eftir ríkulegan
morgunverð, þakkaði gesturinn
fyrir sig eftir þessa sjálfsögðu mót-
töku – að þeim fannst.
Magga var alla tíð heimavinnandi
húsmóðir. Það var yndi hennar að
búa gestum sínum glæsilegt veislu-
borð, og með miklu umburðarlyndi
þoldi hún að bóndi hennar væri ein-
att ónáðaður með öllu því kvabbi
sem fylgdi byggingarfulltrúa-
embættinu. Eitt sinn er ég var þar
við hádegisverðarborð þeirra hjóna
taldi ég að Bjarni hefði þrisvar ver-
ið kallaður frá því að sinna erind-
um.
Má nú ekki minna vera en að við
Hlíðarmenn þökkum fyrir okkur
þessari miklu höfðingsmanneskju
og óskum Margréti Helgadóttur
velfarnaðar í landi lifenda þar sem
hún mætir ástvinum sínum.
Páll Lýðsson.
Tuttugasti mars mánudagur á
keyrslu niður í miðbæ Reykjavíkur.
Umferðin þung og þá gellur síminn.
Þennan dag dó Margrét Helgadótt-
ir móðir Helga Bjarnasonar vinar
míns. Hugurinn leiftrar tilbaka,
Margrét var gift frænda mínum
Bjarna Pálssyni frá Hlíð, iðnskóla-
stjóra og arkitekt. Hjónin og börnin
þeirra voru okkar nánustu vinir og
okkar öryggi er foreldrar okkar
voru ekki nálægir ef eitthvað fór
úrskeiðis í þessu litla samfélagi sem
Selfoss var. Foreldrar okkar byrj-
uðu sinn búskap í kjallaranum hjá
þeim og seinna fluttum við skáhallt
yfir götuna á Reynivelli 5. Mín
fyrstu kynni af frænda mínum
Helga urðu þá og varð hann strax
einn af mínum bestu vinum. Alltaf
tók Margrét mér einstaklega vel,
sama hve mikið var að gera hjá
henni því húsið var yfirleitt fullt af
fólki því Bjarni var með skrifstof-
una heima. Minnist ég þess að um
kvöld og helgar var oft þéttsetinn
bekkurinn af fólki vegna teikninga
af húsum og hönnun í kringum það.
Bernskuár mín og systkina minna
voru einstaklega góð, ekki síst
vegna nágrennis við þetta góða
fólk. Margrét og Bjarni áttu stóran
frændgarð og einnig var Bjarni í
mjög erilssömu starfi þannig að
Margrét hafði mjög fáar hvíldar-
stundir. Hjónin voru mjög samhent
og heimilislífið var kátt þrátt fyrir
allt. Við börnin í götunni fluttum út
í heim eftir að við stálpuðumst en
komum aftur og settumst flest að í
Reykjavík. Oft var keyrt á Selfoss
og þá var ótrúlega gott að koma við
hjá Margréti á Reynivöllum 4,
bragða á kökum hennar og sérstak-
lega á hafrakexinu sem var nánast
himneskt. Þá var maður svo sann-
arlega kominn heim. Í minningunni
um bernsku okkar er Margrét stór
því hún var alltaf til staðar og henn-
ar heimili opið fyrir okkur. Þegar
við strákarnir vorum fimm ára
gamlir ákváðum við að færa Mar-
gréti stórt tré að gjöf, svo mjög
mátum við hennar góðu kosti. Við
fórum í næsta nágrenni, tókum fal-
legt tré og gróðursettum það í miðj-
an kartöflugarð Margrétar. Frúin
sem átti tréð grunaði okkur strax
og við játuðum fljótlega og vorum
settir snemma í rúmið þann daginn.
Daginn eftir vorum við drengirnir
boðnir í kökur hjá Margréti og ekk-
ert var talað um gærdaginn, Mar-
grét hafði leyst málið.
Í dag á útfarardegi Margrétar
eru fimmtíu ár síðan Selfosskirkja
var vígð af Ásmundi biskup en
Bjarni Pálsson teiknaði hana. Ég er
viss um að þegar fram líða stundir
verður hún talin eitt af gersemum
okkar, þessi látlausa en samt hríf-
andi kirkja þar sem hún stendur á
þessum tignarlega stað og er þegar
orðin kennileiti Selfoss. Trúlega
hefur Bjarni kallað á Margréti til
sín í dag. Guð blessi minningu Mar-
grétar og innilegustu samúðar-
kveðjur mínar og fjölskyldunnar til
afkomenda hennar og vina.
Ólafur Hjaltason.
Það er nú meira hvað það voru
margar Möggur í litlu götunni okk-
ar á Selfossi. Af fimm húsum var
bara eitt sem engin Magga bjó í.
Það voru Magga systir, Magga
Tage eða Bjarna, eftir því hver tal-
aði um hana, Magga Eyjólfs og svo
hún Magga Helga eða Bjarna eftir
því hver talaði um hana. Þær voru
kátar og glaðar vinkonur en um-
fram allt voru þær góðar. Og hún
Magga Helga, eða Magga hans
Bjarna, var svo hlý að það var bara
best að vera hjá henni allan daginn.
Eini gallinn á henni var sá að hún
vaknaði seinna á morgnana en ég,
svo ég komst ekki til hennar jafn-
snemma og mig langaði til. Þá var
gott að búa á ská á móti og sjá þeg-
ar fólkið var komið á ról og skoppa
þá yfir á Bjarnastaði.
Og hvað var svo hægt að gera
þarna allan daginn? Í fyrsta lagi
var nú eiginlega ekkert bannað. En
ef maður gerði eitthvað af sér, þá
var sagt: … uss! Uss var mesta
skammaryrðið í því húsi. Í eldhús-
inu var skúffa með kexi, í ísskápn-
um mysingur sem við Inga settum í
teskeiðar og sleiktum og kölluðum
ís. Í litla herberginu var skápur
sem gaman var að gramsa í og best
þegar maður lokaði að sér. Kjall-
arinn var annar heimur, eftirlits-
laus, og bauð upp á ótal tækifæri,
þvottahúsið með suðupottinum,
rullunni og blankunni og kyndiklef-
inn þar sem við Inga sátum stund-
um í rökkrinu og horfðum í eldinn.
Á veturna bjuggu eldri krakkarn-
ir til snjóhús og ekki var bannað að
fleygja sér af svölunum í skaflana
né að klifra upp á bílskúrsþak og
hoppa fram af.
Magga var lágvaxin, hnellin, glöð
og góðvildin sjálf. Bjarni var hár og
grannur, listrænn, mildur en al-
vörugefinn. Þau voru hvort öðru
happafengur. Magga veiktist af
berklum árið 1938, fór á Landakot
og beið bata lengi. Bjarni, sem hafði
haldið til Kaupmannahafnar með
pabba til framhaldsnáms, varð að
snúa heim berklaveikur og leggjast
inn á Landakot. Þar kynntust þau
Magga gegnum bréfaskriftir milli
hæða og trúlofuðust án þess að hafa
sést.
Þó maður eltist og yfirgæfi göt-
una sína var maður ekki komin
„heim“ á Selfossi nema að koma við
hjá Möggu. Hún hafði þann ómet-
anlega kost að vilja bara vera heima
hjá sér og fara hvergi, nema í mesta
lagi út á horn í Daddabúð. Því mátti
ganga að því vísu að finna hana á
sínum stað, brosmilda og gjöfula á
samveru og heimsins bestu kleinur
og hafrakex.
En nú er hún Magga sofnuð
svefninum langa og ekki þýðir að
bíða þess að hún vakni. Og ljúfur er
sá draumur, þegar kemur að okkur
að vakna hinum megin, að finna
hana á sínum stað og njóta samveru
sem fyrr og ná að þakka henni fyrir
hlýjuna og birtuna sem fylgir minn-
ingu hennar.
Unnur Hjaltadóttir.
Elskuleg vinkona mín og fyrrver-
andi tengdamóðir er kvödd í dag.
Mér eru enn minnisstæðar mót-
tökurnar sem ég fékk á Reynivöll-
um hjá Margréti og Bjarna í fyrsta
sinn sem ég kom þangað. Þær
hefðu sæmt þjóðhöfðingja. Þessar
móttökur lærði ég síðar voru ein-
kenni þeirra hjóna. Gestir voru
boðnir velkomnir og alltaf var boðið
til veislu. Elska og umhyggja um-
vafði þá sem Reynivelli heimsóttu
og gistu.
Margrét varð fyrir alvarlegum
veikindum sem ung stúlka og ég hef
alltaf trúað að sá erfiði skóli hafi
mótað viðhorf hennar til lífsins.
Margrét helgaði líf sitt því að
annast ástvini sína. Hún lét ekkert
tækifæri ónotað til að sýna um-
hyggju sína í verki. Rauð-
sokkahreyfingin var henni ekki að
skapi. Henni fannst boðskapur
þeirra gera litið úr húsmóðurstarf-
inu og það líkaði henni ekki. Mar-
grét er eina konan sem ég hef
kynnst sem skipti húsverkum niður
í flokka.
Á morgnana vann hún grófari
verk í morgunkjól. Um hádegi
skipti hún um föt, snyrti sig og
sinnti léttari verkum síðdegis Mér
fannst alltaf jafnmerkilegt hvernig
gestgjafi Margréti var. Hún gat
eldað, bakað og undirbúið stóra
máltíð án þess að maður gerði sér
grein fyrir. Allan tímann sat hún
inni í stofu spjallaði, skrapp af og til
fram og skyndilega var komið
veisluborð hókus, pókus.
Margrét hafði lag á að gera jafn-
vel soðna ýsu á mánudegi að veislu-
máltíð. Ýsan var lögð á hvítan dúk,
servéttur og blóm úr garðinum í
litlum vasa, umvafið þessu öllu var
hlýja og gestrisni. Ég fæ oft kökk í
hálsinn þegar ég hugsa um þessar
stundir. Svo mikið lagði Margrét
sálina í eldamennsku og bakstur að
þegar eitthvað angraði hana féllu
kökurnar og við grínuðumst með að
það væri taugabragð af kökunum.
Ef ég spurði hana hvort ekki væri
allt í lagi hló hún. Það var alltaf allt
í lagi í hennar lífi. Hún ræddi ekki
vandamál þeim var ýtt til hliðar.
Aldrei hef ég heyrt hana lasta
nokkurn mann en hún var alltaf
fundvís á jákvæða eiginleika í fari
allra. Heimurinn sem við lifum í
væri betri ef fleiri Margrétar
byggju hann.
Elsku Margrét. Ég get aldrei
þakkað allt það sem þú kenndir mér
og gafst. Þú tókst ekki bara við mér
heldur allri minni fjölskyldu.
Ég vil að leiðarlokum þakka ást-
ina og umhyggjuna sem þú gafst
mér, börnum mínum og fjölskyldu
minni allri.
Ástvinum öllum votta ég samúð.
Það okkur er til rauna
hve ógjarnt var að launa,
við könnumst við það klökk.
En fyrir allt sem ertu
um eilífð blessuð vertu!
Og haf þú okkar hjartans þökk.
(G.J.G.)
Sigríður Hermannsdótt-
ir (Sigga Magga).
✝ Hermann Sigur-vin Þorgilsson,
bóndi á Hrísum í
Fróðárhreppi í Snæ-
fellsbæ, fæddist á
Þorgilsstöðum í
sömu sveit 27. febr-
úar 1926. Hann lést
á St Franciskusspít-
alanum í Stykkis-
hólmi 19. mars síð-
astliðinn. Foreldrar
hans voru Áslaug
Kristensa Jónsdótt-
ir f. á Nýlendu 1.
desember 1892, d.
25. febrúar 1973, og Þorgils Þor-
gilsson fæddur á Höfða í Eyrar-
sveit 5. september 1884, d. 18. júní
1971. Á Þorgilsstöðum ólst hann
upp í hópi fjögurra
systkina, sem á legg
komust en tvö létust
í æsku. Systkinin,
sem upp komust
eru: Þorgils, bóndi á
Efri-Hrísum, f. í
Hausthúsum 5. des-
ember 1918, d. 28.
ágúst 2000, Una, f.
18. apríl 1920, bú-
sett í Ólafsvík, Her-
mann, sem hér er
minnst og Anna, f.
14. mars 1928, bú-
sett í Reykjavík.
Útför Hermanns verður gerð
frá Brimilsvallakirkju í Fróðár-
hreppi í dag og hefst athöfnin
klukkan 14.
Þegar við mannanna börn fæð-
umst inn í þessa veröld, vitum við
fátt um framhaldið öðru fremur en
að við munum einnig kveðja hana.
Þrátt fyrir þessa vissu kemur það
alltaf jafnmikið á óvart þegar sú
stund rennur upp, að dauðinn vitjar
samferðafólks okkar. Tómleikinn,
sem fyllir hjartað þegar fregnin
berst er alltaf jafnsár og svo er mér
innanbrjósts þegar ég kveð mág
minn og vin Hermann Þorgilsson.
Hermann bjó lungann úr ævi sinni
í foreldrahúsum og vann því heimili,
sem sínu eigin jafnt nótt sem nýtan
dag. Þar kom að hann festi kaup á
jörðinni Hrísum, sem þá var í eyði og
þurfti aðhlynningar við. Hafist var
handa við að gera íbúðarhúsið upp,
rífa allt innan úr húsinu, sem var ein-
angrað með torfi, einangra það upp á
nýtt og klæða í hólf og gólf. Þarna
var komið gott íbúðarhús og ákvað
því Hermann að taka foreldra sína til
sín svo þau hefðu það betra í ellinni.
Til að fjármagna jarðakaupin fór
hann á vertíðir til Hafnarfjarðar og
var þar landmaður hjá útgerðarfyr-
irtæki.
Hermann var góður drengur í alla
staði og bað fyrir fólki í nauð og ekki
stóð hann í útistöðum við neinn. Ein-
hleypur var hann allt sitt líf þótt
hann hefði alla burði til að eignast
sína eigin fjölskyldu. Svona er lífið,
sumir njóta sín, en aðrir ekki. Bú-
skapur varð hans ævistarf og yndi
hafði hann af því sem starfið bauð.
Hestar voru þó í mestu uppáhaldi
síðari árin.
Okkar kynni eru orðin löng.
Fimmtíu og fimm ár höfum við Her-
mann skrafað saman, unnið saman
og hlegið saman og alltaf var hann
sama góða sálin.
Hann átti við vanheilsu að stríða
síðustu árin og naut þá aðhlynningar
Unu systur sinnar og nú síðast hefur
hann dvalist á sjúkrahúsi í Stykk-
ishólmi og naut á báðum stöðum
bestu umönnunar, sem hægt var að
veita. Þökk sé þeim.
Nú er góður drengur kært kvadd-
ur.
Blessuð sé minning hans.
Sveinn B. Ólafsson.
Ég átti því láni að fagna, að fá að
dvelja mörg sumur hjá ömmu og afa
í sveitinni þar sem þau ásamt sonum
sínum Þorgils og Hermanni bjuggu
félagsbúi á jörðunum Þorgilsstöðum,
Hrísum og Efri-Hrísum. Hermann
var ungum drengnum hafsjór af
fróðleik og var auk þess mjög laginn
við að auðvelda honum að sjá heim-
inn frá sjónarhóli fullorðinna og
veitti honum gott vegarnesti í skark-
ala borgarlífsins að loknum sumar-
störfunum í sveitinni.
Hermann ólst upp við hefðbundin
sveitastörf og gekk til þeirra starfa
af dugnaði og eljusemi frá unga
aldri. Hann átti einnig mjög auðvelt
með að tileinka sér það sem af bók-
um má læra. Snemma hafði hann
mikinn áhuga á landafræði og sögu.
Brennandi áhugi á heimsmálunum
entist honum alla ævi og voru honum
hugleikin.
En næg verkefni blöstu við honum
í búskapnum, sem hann gekk til af
einstakri ósérhlífni þótt vinnudagur-
inn væri oftast langur. Jörð foreldr-
anna var lítil og hugur Hermanns og
Þorgils bróður hans stóð til meira
landnæðis og þar með ræktunar- og
stækkunarmöguleika. Hermann og
Þorgils keyptu því jarðirnar Hrísa
og Efri-Hrísa. Tók þá við þrotlaus
vinna við jarðarbætur. Keypt var öfl-
ug dráttarvél á þess tíma mæli-
kvarða til landbúnaðarstarfanna og
hafist handa við að stækka véltæk
tún. Árin liðu, túnin urðu stór, vél-
arnar stærri, fleiri og fullkomnari.
Síðustu árin voru Hermanni erfið,
en hann tók því með einstöku jafn-
aðargeði, sem reyndar einkenndi líf
hans allt. Naut hann þess að vera
síðustu misserin hjá Unu systur
sinni í Ólafsvík, sem af dugnaði og
ósérhlífni hefur gert allt sem í henn-
ar valdi hefur staðið til að honum liði
sem best.
Með þessum orðum kveð ég Her-
mann. Hann var heiðarlegur og ætl-
aðist til þess af öðrum, bóngóður,
ósérhlífinn, látlaus, hlédrægur, orð-
var, mikið ljúfmenni og góður vinur,
sem ég mun ætíð minnast með sökn-
uði og þakklæti fyrir samferðina.
Ólafur Sveinsson.
HERMANN SIGUR-
VIN ÞORGILSSON
Útfararþjónustan ehf.
Stofnað 1990
Þegar andlát ber að
Alhliða útfararþjónusta í 16 ár
Símar: 567 9110 & 893 8638
www.utfarir.is • utfarir@utfarir.is
Rúnar
Geirmundsson
Sigurður
Rúnarsson
Elís
Rúnarsson