Morgunblaðið - 26.03.2006, Síða 16

Morgunblaðið - 26.03.2006, Síða 16
16 SUNNUDAGUR 26. MARS 2006 MORGUNBLAÐIÐ alast upp. Hann tjáði mér að Litháar myndu vel eftir því að Íslendingar hefðu verið fyrsta þjóðin sem viður- kenndi sjálfstæði þeirra árið 1991. Nú væri það eitt af helstu markmið- um Litháa í utanríkismálum að að- stoða við lýðræðisvæðingu í ríkjum á borð við Hvíta-Rússland og Úkraínu. Rússneskar poppstjörnur Kjósendum gafst færi á að greiða atkvæði sitt í kosningunum frá og með 14. mars. Á laugardeginum fór- um við á nokkra kjörstaði í borginni og fylgdumst með því sem fram fór. Þegar komið var heim á hótelið um kvöldið voru stórtónleikar í beinni út- sendingu í sjónvarpinu. Þeir reynd- ust tengjast hinni opinberu herferð yfirvalda (Za Belarus). Litháinn sagði mér að margir sem þarna komu fram væru frægar rússneskar popp- stjörnur, sem áreiðanlega hefðu kost- að skildinginn. Þúsundir manna fylgdust með tónleikunum og milli at- riða veifaði fólk hvítrússneska fánan- um. Diskó og hlaðborð á kjördag Á kjördag, 19. mars, var snjóslabb á götum Brest – veðurskilyrði sem Íslendingar þekkja ágætlega. Á kjör- stöðunum sem við heimsóttum þenn- an dag var andrúmsloftið hins vegar gerólíkt því sem við eigum að venjast. Á íslenskum kjörstöðum má venju- lega heyra saumnál detta á kjördag, en í Hvíta-Rússlandi er þessu ólíkt farið. Á fyrsta kjörstaðnum sem við heimsóttum var allt með ró og spekt en á þeim næsta, sem var í barna- skóla, hafði ég nýtekið mér sæti í kjörfundarherbergi þegar hávær diskótónlist barst til eyrna. Mér varð dálítið hverft við og taldi víst að ein- hver hefði rekist óvart í takka á hljómlistargræjum skólans. Fljót- lega kom þó í ljós að svo var ekki, heldur þótti þessi undirleikur sjálf- sagður. Á flestum hinna kjörstaðanna sem við heimsóttum dundi á okkur hvít- rússneskt popp. Sums staðar hafði hátölurunum meira að segja verið komið fyrir utan við kjörstaðina og tónlistin sett á fullt þar líka. Hvort þessi tónlistarleikur var hugsaður sem skemmtun eða átti að þjóna öðr- um tilgangi er svo önnur spurning. En það var ekki bara tónlist sem setti svip sinn á kjörstaðina, heldur einnig matur. Þegar fólk hafði greitt at- kvæði sitt gat það keypt girnilegar veitingar á vægu verði við útgang kjörstaða. Litháíski samstarfsmaður- inn sagði mér að meðan Sovétríkin voru við lýði hefði slík veitingasala einnig tíðkast í heimalandi sínu – markmiðið hefði verið að hvetja fólk til þess að mæta á kjörstað. Á kjör- dag hefði fólki jafnvel gefist kostur á að kaupa á kostnaðarverði vörur sem skortur var á hversdags, líkt og ávexti. Hann varð dálítið móðgaður þegar ég spurði hann hvort slík veit- ingasala væri enn við lýði þegar geng- ið væri til kosninga í Litháen og svar- aði því til að það væri nú aflagt með öllu. Lögreglumenn við kjörkassana Þrátt fyrir diskótónlistina og mat- inn er þó ekki hægt að segja að stemningin á kjörstöðunum hafi bein- línis verið létt. Nærvera lögreglu var mjög áberandi og sums staðar höfðu lögreglumenn tekið sér sæti beint við hlið kjörkassanna. Ekki virðist kynja- jafnrétti hafa rutt sér til rúms í hvít- rússnesku lögreglunni, því enga lög- reglukonu sá ég að störfum. En lögreglumennirnir voru fljótir að láta yfirmenn kjörstaðanna vita ef þeir sáu eftirlitsfólkið nálgast staðina. Hvern á ég að kjósa? Almennt fóru kosningar vel fram á þeim kjörstöðum sem ég heimsótti. Allmargir kjósendur virtust þó ekki hafa sérstakar áhyggjur af kosninga- leynd. Þeir höfðu ekki fyrir því að brjóta kjörseðlana sína saman þegar þeir höfðu greitt atkvæði og í þeim til- fellum gat verið auðvelt fyrir nær- stadda að sjá hvern viðkomandi hafði kosið. Á einum stað spurði gömul kona hvaða frambjóðanda hún ætti að kjósa, en ekki varð vart við að starfs- fólk kjörstaðanna né aðrir reyndu hafa áhrif á ákvörðun kjósenda. Auk þeirra voru allnokkrir eftirlitsmenn á kjörstöðunum. Flestir þeirra til- heyrðu samtökum sem styðja Lúk- asjenkó, en nokkrir fulltrúar stjórn- arandstæðinga voru einnig mættir til þess að fylgjast með. Flestir yfirmenn kjörstjórna létu okkur eftirlitsfólkinu í té þær upplýs- ingar sem við föluðumst eftir, svo sem um fjölda fólks á kjörskrá og kosn- ingaþátttöku. Á einstaka stað var okkur þó neitað um slíka tölfræði. Víðast fengum við hlýlegar móttökur og ég var margoft spurð hvernig ég kynni við mig í Hvíta-Rússlandi. Ég svaraði ávallt, sannleikanum sam- kvæmt, að mér þættu íbúarnir afar vingjarnlegir. Greinilega mátti finna að Hvít-Rússar eru stoltir af landinu sínu og því sem það hefur upp á að bjóða. Miðaldra kona sem ég ræddi við sagði að ég ætti endilega að borða hvítrússneska matinn, hann væri afar hollur og laus við öll aukaefni, annað en vestrænn skyndibiti! Fólk var líka almennt vel til fara, þótt fæstir hafi úr miklu að moða, og börnin vel dúðuð í kuldanum. Konurnar virtust hins vegar ekki hika við að ganga á háum hælum í snjónum og hálkunni – og var greinilega umhugað um að tolla í tísk- unni. Tók ekki við kvörtun eftirlitsmanns Við lok kjörfundar fylgdumst við með talningu atkvæða á einum kjör- staðnum. Nú brá svo við að eftirlits- mönnum var ekki leyft að koma nógu nálægt borðinu þar sem atkvæðin voru talin til þess að geta séð hvernig þau féllu. Á þessum kjörstað var ung hvít- rússnesk kona við eftirlit, en hún var í hópi stuðningsmanna Milinkevits. Konan var ekki ánægð með fram- kvæmd kosninganna og hugðist leggja fram kvörtun til yfirmanns kjörstaðarins, sem neitaði að taka við kvörtuninni. Kvaðst yfirmaðurinn ekki hafa tíma til þess að skoða slíkt, en unga konan var ósátt og sagði þetta brot á lögum. Almennt virðist aukin harka hafa færst í leikinn þeg- ar atkvæðatalningin hófst, en algengt var að eftirlitsmönnum væri neitað um greiðan aðgang að atkvæðataln- ingu. Einn eftirlitsmaður sem ég ræddi við eftir kosningarnar sagði mér að á síðasta kjörstaðnum sem hann heim- sótti hefðu rúmlega 400 manns verið á kjörskrá. Tilkynnt hefði verið að þeir hefðu allir greitt Lúkasjenkó at- kvæði sitt og var eftirlitsmaðurinn þess fullviss að þar hefðu brögð verið í tafli. Í kvöldfréttum í sjónvarpinu á kjördag snerist allt um kosningarnar. Fluttar voru fréttir af góðri kjörsókn og sérstaklega sýnt frá því þegar Lúkasjenkó greiddi atkvæði og ræddi við blaðamenn. Ég sá hins veg- ar engar myndir frá því þegar mót- frambjóðendur hans gengu að kjör- kassanum. Í ljósi fyrri atburða kom það ekkert sérstaklega á óvart. Mótmælt í Minsk Daginn eftir kosningarnar var haldið til Minsk að nýju. Þegar ég rölti um borgina seinnipart dagsins gekk lífið sinn vanagang og fólk sinnti daglegum störfum. Að kvöldi kjör- dags höfðu um 10.000 stjórnarand- stæðingar mætt til þess að mótmæla Lúkasjenkó á Októbertorginu í mið- borginni og frést hafði að mótmæl- unum yrði haldið áfram um kvöldið. Sú reyndist líka raunin. Sennilega hafa um 3.000–4.000 manns verið saman komin á torginu á mánudags- kvöldið. Fáni Evrópusambandsins sást á lofti og þá veifuðu margir rauð- hvítum fána, sem á sér langa sögu og var þjóðfáni Hvíta-Rússlands frá því að landið fékk sjálfstæði árið 1991 eftir hrun Sovétríkjanna og fram til ársins 1995. Það ár var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu sem Lúkasj- enkó boðaði til að taka aftur í notkun fánann sem Hvít-Rússar notuðu á tímum Sovétríkjanna, utan þess að hamarinn og sigðin voru fjarlægð. Ungt fólk var í meirihluta þeirra sem samankomnir voru á Október- torginu á mánudagskvöld. Það hrópaði slagorð og flutt voru ávörp, en einkennisklæddir lögreglu- og sér- sveitarmenn fylgdust grannt með öllu. Eflaust voru þarna líka margir lögreglumenn í borgaralegum klæð- um. Oftar en einu sinni fannst mér ég finna vökul augu hvíla á mér þegar ég leit um öxl á torginu. Mótmæli stjórn- arandstæðinga héldu svo áfram á torginu alla vikuna og margar fréttir bárust af handtökum fólks sem þau sótti. Hvers vegna Lúkasjenkó? Á fimmtudag tilkynntu hvítrúss- nesk stjórnvöld formlega að Lúkasj- enkó hefði hlotið 83% atkvæða í kosn- ingunum og Milinkevits 6,1%. Margir töldu líklegt að forsetinn hefði farið með sigur af hólmi þótt ekki hefði verið gripið til þess að reyna að hefta framgöngu mótframbjóðenda hans. En hvers vegna skyldu margir Hvít- Rússar styðja Lúkasjenkó? Áróður fyrir forsetanum og afrekum hans í fjölmiðlum hefur áreiðanlega nokkuð að segja. En kannski skýrir svar sem leigubílstjóri í hvítrússnesku borg- inni Grodno gaf blaðamanni AFP- fréttastofunnar á dögunum málið að nokkru leyti. „Ég á íbúð, eiginkonu og veiðistöng, ég drekk ekki – ég skil ekki þessa kröfu um skoðanafrelsi,“ sagði leigubílstjórinn. Þótt Hvít- Rússar búi við ofríki forsetans og meðallaun séu lág (jafnvirði um 18.000 króna á mánuði) býr fólk þó við ákveðið öryggi. Margir óttast að lenda í sömu ótryggu aðstæðunum og almenningur í sumum nágrannaríkj- unum, til að mynda í Úkraínu, veðji þeir á nýjan hest í stjórnmálum. Það er erfitt að spá um framtíðina í hvít- rússneskum stjórnmálum. Hún velt- ur á ýmsu, þar með talið á þróun sam- skipta Hvít-Rússa og Rússa og því hversu öflug stjórnarandstaðan í landinu reynist. Eins og staðan er í dag er hins vegar útlit fyrir að Lúk- asjenkó muni sitja á valdastóli í Hvíta-Rússlandi næstu árin. ALEXANDER Lúkasjenkó, forseti Hvíta Rússlands, hefur stundum ver- ið kallaður síðasti einræðisherrann í Evrópu. Á hvít-rússnesku heitir for- setinn í raun ekki Lúkasjenkó, heldur Aljaksandr Lúkasjenka. Eflaust kann hann því vel að sjá nafnið sitt skrifað upp á rússnesku, en þau ár sem Lúkasjenkó hefur setið á valdastóli hafa Rússar verið helstu bandamenn Hvít-Rússa. Lúkasjenkó fæddist árið 1954 og ólst upp hjá einstæðri móður í fá- tæku þorpi í austurhluta Hvíta- Rússlands. Á sínum yngri árum lauk hann kennaraprófi og lagði einnig stund á nám í Landbúnaðarháskóla Hvíta-Rússlands. Á níunda áratugn- um gegndi Lúkasjenkó svo starfi framkvæmdastjóra á samyrkjubúi, en hóf afskipti af stjórnmálum undir lok áratugarins. Sem stjórnmálamaður var Lúkasjenkó snemma talinn sýna einræðistilburði og þær fullyrðingar hefur hann ekki reynt að hrekja. Í ágúst árið 1991, þegar Lúkasjenkó sat á hvít-rússneska þinginu, lýsti hann yfir stuðningi við harðlínumenn sem reyndu valdarán gegn Mikhaíl Gorbatsjov, leið- toga Sovétríkjanna. Olía og gas á hagstæðum kjörum Lúkasjenkó sigraði óvænt í forsetakosn- ingum árið 1994 en þá voru helstu kosninga- loforð hans þau að berj- ast gegn spillingu og að bæta efnahagsástandið í landinu, sem átti undir högg að sækja eftir hrun kommúnismans. Lúkasjenkó kom á svo- kölluðum markaðs- sósíalisma, sem byggð- ist á ríkisyfirráðum og fimm ára þjóðhagsáætlunum. Í forsetatíð sinni hefur Lúkasjenkó lagt áherslu á samskipti við Rússa, sem meðal annars hefur orðið til þess að Hvít-Rússar geta keypt olíu og gas á hagstæðu verði. Kippur kom í hagvöxt í landinu árið 1996 og í fyrra var jókst landsframleiðsla um 8–9%, samkvæmt op- inberum tölum. Talið er að lágt verð á inn- fluttu gasi frá Rúss- landi hafi hér umtals- vert að segja. Völd forseta lands- ins hafa aukist til muna eftir að Lúkasj- enkó náði fyrst kjöri. Þjóðaratkvæða- greiðslur sem fram fóru 1995 og 1996 gerðu forsetanum kleift að semja nýja stjórnarskrá, sem fel- ur í sér að forsetinn hefur æðsta vald á öll- um sviðum ríkisvalds- ins, þ.e.a.s. á sviðum löggjafar-, fram- kvæmda- og dómsvalds. Meðal þess sem er á verksviði forsetans er skip- un og brottrekstur forsætisráðherra landsins og annarra helstu ráðherra, að kalla saman og leysa upp þjóðþing landsins og að skipa dómara í emb- ætti (nema þá sem starfa við stjórn- lagadómstól landsins). Snemma sagður sýna einræðistilburði Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands. AP Rauðhvítum fánum veifað á Októbertorginu í Minsk. Lögregla hefur ráðist gegn mótmælendum í vikunni og handtekið þá. Morgunblaðið/Elva Björk Sverrisdóttir Gömul kona virðir fyrir sér kræsingar á borði við útgang á kjörstað í Brest. elva@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.