Morgunblaðið - 24.10.2006, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 24.10.2006, Blaðsíða 28
28 ÞRIÐJUDAGUR 24. OKTÓBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ UMRÆÐAN MIKLAR breytingar hafa átt sér stað í íslensku samfélagi á síðustu ár- um. Segja má að í lok tuttugustu aldar hafi þetta afskekkta land opnað dyr sínar, bæði til inn- og útgöngu, því að um leið og Íslend- ingar fóru að ferðast að ráði um heiminn og dvelja og starfa erlend- is ferðuðust útlend- ingar í æ meiri mæli til landsins. Samgöngur til og frá landinu urðu fjölbreyttari og ódýr- ari en áður og svo kom að íbúar af erlendum uppruna tóku að setj- ast hér að um lengri eða skemmri tíma, einkum til að mæta þeirri þörf sem var á vinnuafli í þessu fámenna landi. Þessi þróun hefur haft mikil áhrif á atvinnu og menningarlega skipulagn- ingu í okkar samfélagi. Samfélagið hefur breyst úr nokkuð einsleitu menningarsamfélagi í fjölmenning- arsamfélag. Innflytjendur eru verða áberandi og stór hópur í íslensku samfélagi og hópurinn sem slíkur er margslunginn. Ekki er aðeins hægt að tala um erlent verkafólk á landsbyggðinni sem starfar í fiskvinnslu, því að innflytjendur hafa í auknum mæli komið til starfa í nánast öllum at- vinnugreinum og mikil menningar- og mennt- unarleg breidd er í þess- um hópi. Lykillinn að auknu valfrelsi í at- vinnumálum er þó fyrst og fremst kunnáttan í tungumálinu. Stór hópur innflytjenda kýs að vinna á sjúkrahúsum og hjúkrunarheim- ilum. Það er skemmtilegt og gefandi starf að vinna með öldruðum. Því hef ég sjálf kynnst eftir að hafa unnið um árabil á öldrunardeildum sem hjúkr- unarfræðingur og deildarstjóri. Ég sem innflytjandi hef átt dýrmætar sögustundir þar sem ég hef fengið tækifæri til að læra um sögu lands og þjóðar á skemmtilegan og lifandi hátt, frá fólki sem hefur lifað tímana tvenna og á langa lífsreynslu að baki. En því miður er einn skuggi á þessari mikilvægu og oft gefandi samvinnu og reynslu aldraðra og innflytjenda af henni. Fram hefur komið að í mörgum tilfellum skortir verulega á tungumálakunnáttu í hópi innflytj- enda sem starfa við öldrunarþjón- ustu og það leiðir til óöryggis og kvíða hjá báðum hópum. Það þarf vart að taka það fram að fæstir óska sér þess að geta ekki gert sig skilj- anlega á gamals aldri, þó að það geti verið bæði jákvætt og spennandi að hafa einstakling af erlendum upp- runa til að þjónusta sig og annast. Því að aldraðir fá að kynnast annarri og framandi menningu í gegnum erlent starfsfólk og auka þekkingu sína og víðsýni og krydda þannig tilveru sína á meðan hið erlenda starfsfólk fær tækifæri til að kynnast menningar- og sagnaarfi þjóðarinnar í gegnum reynda öldunga. Vegna alls þess fjölda innflytjenda, sem starfar við öldrunarþjónustu, og hugmynda um að bjóða fleiri valkosti í þjónustu, m.a. með aukinni heimaaðhlynningu, verður það að verða eitt af forgangs- verkefnum stjórnvalda í samstarfi við verkalýðsfélög, atvinnurekendur og innflytjendur að móta skýra stefnu í tungumálakennslu fyrir full- orðna innflytjendur, bæði hvað varð- ar leiðir til kennslu og kröfur til kunnáttu. Æskilegast er að unnið verði skipulega að starfstengdri ís- lenskukennslu sem fer fram inni á vinnustöðum, því þá hefur þekkingin sannanlega merkingu og þýðingu fyrir nemandann og viðleitnin og vilj- inn til námsins eykst. Með samstilltu átaki í íslensku- kennslu fyrir fullorðna innflytjendur í heilbrigðis- og félagsþjónustu get- um við aukið gæði þjónustu fyrir aldraða og gefið innflytjendum tæki- færi til að njóta starfs síns og búsetu í auknum mæli með því að bergja af brunni þekkingar þeirra sem hafa upplifað langa og viðburðaríka ævi á Íslandi. Grazyna M. Okuniewska skrifar um málefni innflytjenda á Íslandi Grazyna M. Okuniewska »Með samstilltu átakií íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytj- endur í heilbrigðis- og félagsþjónustu getum við aukið gæði þjónustu fyrir aldraða og gefið innflytjendum tækifæri til að njóta starfs síns … Höfundur er hjúkrunarfræðingur og gefur kost á sér í 9. sæti á lista Sjálf- stæðisflokksins í Reykjavík. Þátttaka innflytjenda í öldrunarmálum ALÞEKKT er að áróðursmeist- arar beita ýmsum brögðum til að blekkja fólk í þágu þess málstaðar sem þeir boða. Algengt er að þeir kveði hálf- kveðnar vísur og reyni að tengja saman beint eða óbeint í hugum fólks lítt skylda hluti eða atburði í von um að fólk dragi rangar ályktanir en þeim þóknanlegar. Önnur aðferð er að beita ljós- myndatækni til að draga fram eitthvað allt annað en þann raunveruleika sem við blasir. Dæmi um hvort tveggja gat að líta í Lesbók Morgunblaðs- ins 21. október, daginn sem Hellisheið- arvirkjun var vígð. Með grein Illuga Gunnarssonar á mið- opnu Lesbókar birtist stór mynd og undir henni stóð: „Á Hellisheiði, „Mér er til dæmis lífsins ómögulegt að skilja hvernig framkvæmdir Orkuveitu Reykjavíkur komust í gegnum um- hverfismat“. Tilvitnunin er í setn- ingu í greininni sem að öðru leyti fjallar nær ekkert um Hellisheið- arvirkjun. Myndin sýnir í aðal- atriðum þrennt; þéttan skóg af ljót- um háspennulínum, reykjarmökk og kolsvart landslag. Myndin gefur til kynna ljótleika, drunga og mengun og líkist helst mynd af iðnmeng- uðum svæðum Sovétríkjanna sál- ugu. Í myndtextanum er þetta síðan tengt við Hellisheiðarvirkjun. Les- endur eiga væntanlega að draga þá ályktun að þetta sé það sem komst á óskiljanlegan hátt í gegnum um- hverfismat vegna Hellisheiðarvirkj- unar. Við þetta er ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi er myndin tekin með að- dráttarlinsu sem þjappar raflín- unum saman í þéttan skóg hjá reykjarmekkinum. Þetta á lítið skylt við það sem blasir við augum á þess- um stað þótt vissulega séu raflínur yfir Hellisheiði lítt til prýði. Í öðru lagi tengjast þessar háspennulínur Hellisheiðarvirkjun lítið, þetta eru aðfærsluæðar raforku til höfuðborg- arsvæðisins frá virkjunum fyrir austan Fjall! Vissulega mun Hellis- heiðarvirkjun tengjast inn á ein- hverja þeirra en línurnar voru þarna fyrir, óháð Hellisheið- arvirkjun. Í þriðja lagi er sýndur reykjarmökkur sem ekki sést hvað- an kemur en gefur til kynna að verið sé að menga andrúmsloftið. Þetta er í raun borhola sem verið er að afl- mæla og blæs nær hreinni vatnsgufu á meðan. Örlítið fylgir þó með af lofttegund- undum koltvíoxíði og brennisteinsvetni. Holan verður síðar tengd virkjuninni og útblásturinn hverfur. Orkuveitan stefnir að því að dæla niður því litla koltvíoxíði sem kemur með gufunni og binda það í jarðlögum, nokkuð sem er á heimsmælikvarða ein- stakt framtak til mengunarvarna. Í fjórða lagi er jörðin á myndinni látin líta út eins og kolsvört iðn- menguð klessa en í raun er hún mosagræn og brúnleit ómenguð íslensk náttúra. Sú mynd sem þarna er dregin upp af Hellisheiðarvirkjun er víðs fjarri öll- um raunveruleika. Staðreyndin er að við byggingu virkjunarinnar er afar mikið tillit tekið til umhverf- ismála, orkuframleiðslan er end- urnýjanleg, mengun hverfandi lítil og mannvirkjum að talsverðu leyti komið fyrir á landi sem þegar var raskað af öðrum. Þá eru fram- kvæmdirnar eru að mestu aft- urkræfar kjósi menn að hætta þarna orkuvinnslu í framtíðinni og fjarlægja mannvirki. Hitt er svo annað að mér finnst eins og Illuga að betur hefði mátt dylja röralagnir í grennd við Suðurlandsveg og þykir af þeim lítil prýði. En menn skyldu forðast að „fordæma skóginn“ þótt þeir finni „laufblað fölnað eitt“ svo vitnað sé til þekktrar stöku Stein- gríms Thorsteinssonar. Mér er til efs að það finnist mörg fyrirtæki í þessu landi sem vinna umhverf- ismálum jafnmikið gagn og Orku- veita Reykjavíkur og vandi betur til umgengni um landið. Ekki veit ég hvort Illugi valdi myndina með greininni eða hvort valið var Morgunblaðsins. En mér finnst að hvorki stjórnmálamaður né dagblað, sem vilja láta taka sig alvarlega og njóta trausts, eigi að beita blekkingum af þessu tagi. Blekkingar um Hellisheiðarvirkjun Ólafur G. Flóvenz gerir at- hugasemdir við Lesbókargrein Illuga Gunnarssonar Ólafur G. Flóvenz » Sú mynd semþarna er dregin upp af Hellisheiðar- virkjun er víðs fjarri öllum raun- veruleika … Höfundur er jarðeðlisfræðingur og forstjóri Íslenskra orkurannsókna. SVO lánsöm var ég í byrjun sumars að vera beðin um að taka þátt í leiksýningunni Þjóðarsálin sem nú er sýnd í Reiðhöll Gusts í Kópavogi. Að sjálf- sögðu tók ég boðinu (af fúsum og frjálsum vilja) og sé ekki eftir því þar sem þetta er búin að vera mikil skemmtun, lífsreynsla og lærdómur. Sýningar hófust sunnudaginn 8. októ- ber og eru nú í fullum gangi. Sýningin hefur vakið sterk viðbrögð og þá sérstaklega sá hluti sem kemur að fólki með fötlun, þar sem deilt er m.a. á fóstureyðingar á öðruvísi fóstrum, fóstrum með fötlun. Þriðjudaginn 10. október sl. birtist gagnrýni í Morgunblaðinu eftir Maríu Kristjánsdóttir þar sem hún segir m.a.: „Víst þykir mannslífið lítils virði á Íslandi en nær ímyndunarafl íslensks leik- húsfólks ekki lengra eða treystir það ekki ímyndunarafli áhorfand- ans meira en svo að það þurfi að gera fatlað fólk að sýningaratriði, áhættuatriði, innan um spúandi vatnsslöngur og hlaupandi hesta – til þess að leggja áherslu á það?“ (Mbl. 10.10. 06) Miðvikudaginn 18. október sl. birtust fleiri orð eftir Maríu en þá segir hún: „En tilfinningin að baki var vissulega að mér féll ekki að sitja í leikhúsi, þess- um griðastað ímynd- unaraflsins, og þurfa að óttast raunveru- lega um varnarlausar manneskjur í hjóla- stólum og á hjóla- borðum á sviðinu.“ (Mbl. 18.10. 06) Þegar ég horfi á þessi orð veit ég hreinlega ekki hvort ég á að hlæja eða gráta. Ég vil helst ekki hlæja því að svona gagnrýni tel ég eins og lélegan brandara og hver hlær að þeim? Ég vil eiginlega heldur ekki gráta því ég á ekki að láta orð byggð á svo mikilli fá- fræði særa mig sem manneskju. Það að ég sé talin varnarlaus manneskja í hjólastól innan un spúandi vatnsslöngur og hlaupandi hesta finnst mér algjörlega út úr kortinu. Við sem erum með fötlun erum aldrei í atriði þegar hestar hlaupa né þegar vatni er sprautað svo að ég er eitt spurningarmerki í augunum yfir þessari staðhæf- ingu. Annað sem gerir mig orð- lausa er að virtur fjölmiðill eins og Morgunblaðið skuli heimila meið- yrði gagnvart fólki með fötlun. Í sýningunni eru allir þátttakendur í einhverri áhættu í kringum hest- ana en það er ekkert minnst á það, það er greinilega bara fólk með fötlun sem er í stórhættu í augum Maríu, fólk með fötlun sem ákvað það sjálft að taka þátt. Þetta með spúandi vatnsslöng- urnar skil ég einfaldlega ekki og ætla því ekki að eyða fleiri orðum í það en svo að „enginn er verri þó hann vökni“, hvort sem hann er fatlaður eða ófatlaður. Svo virðist sem áðurnefnd kona haldi að við höfum ekki valið það sjálf hvort við tækjum þátt í sýn- ingunni eða ekki, sko varnarlausa fólkið í hjólastólum og á hjóla- borðum. Ætli hún haldi að við tök- um þátt í hverju sem er? Ætli hún telji að við séum fólk án skoðana og vilja? Ætli hún haldi að við séum fólk sem kann ekki að segja nei eða já? Eða er þetta einungis felustaður eigin fordóma? Er þetta varnarbragð til þess að koma í veg fyrir að segja að henni hafi fundist við óþægileg? Átti hún erfitt með að horfast í augu við þjóðarsálina? Telur hún fólk með fötlun kannski ekki falla inn í hana? Mér er spurn! Ég get sagt fyrir sjálfa mig að ég er að taka þátt í Þjóðarsálinni vegna þess að mig langar til þess þar sem ég tel þetta boðskap- arsprengju í öllum regnbogans lit- um. Ég hef skoðanir og vilja sem birtast svo sannarlega með þátt- töku minni í sýningunni. Ég kann að segja nei og já. Mér finnst þessi gagnrýni end- urspegla það að við viljum loka augum okkar fyrir því óþægilega. Við viljum staðsetja það einhvers staðar þar sem það sést ekki, svo við getum haft það huggulegt á meðan. Fólk með fötlun er óþægi- legt í íslensku samfélagi, margir inni á vernduðum stofnunum sem enginn sér. Við eigum erfitt með að kyngja því að fólk með fötlun vill vera þátttakendur sem sjást í samfélaginu. Í Þjóðarsálinni erum við sjáanlegir þátttakendur sem völdum greinilega ákveðnum áhorfendum óþægindum. Mér þyk- ir það leitt. Mér þykir það leitt að þar sem við erum sýnileg, eins og við ætt- um alltaf að vera, séum við að kalla fram þessa fordóma, van- þekkingu og brengluðu viðhorf. Mér þykir það leitt að ég skuli valda fólki óþægindum bara með því að vera sú sem ég er, fötluð, lítil, hamingjusöm, stolt, öðruvísi, tvítug kona. Því get ég með engu móti breytt og hef engan áhuga á því. Ég vil hvetja alla til að koma og mynda sér sína eigin skoðun á Þjóðarsálinni. Ég vona að fólkið í landinu okkar láti ekki gagnrýn- anda spilla fyrir sér þessari dúnd- ursýningu sem tekur á litrófi þjóð- arinnar eins og það leggur sig. Látum ekki sýningu um raunveru- leikann sýna hversu raunveru- leikafirrt við erum. Horfumst í augu við hina einu sönnu Þjóð- arsál! Var ég gerð að sýningar- og áhættuatriði? Freyja Haraldsdóttir gerir athugasemdir við ritdóm um leikritið Þjóðarsálina »Ég vona að fólkið ílandinu okkar láti ekki gagnrýnanda spilla fyrir sér þessari dúnd- ursýningu sem tekur á litrófi þjóðarinnar eins og það leggur sig. Freyja Halldórsdóttir Höfundur er fyrirlesari. vaxtaauki! 10%

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.