Morgunblaðið - 27.04.2007, Qupperneq 12
12 FÖSTUDAGUR 27. APRÍL 2007 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Eftir Sunnu Ósk Logadóttur
sunna@mbl.is
„Á SPÍTALINN að fórna fjármun-
um í þágu mannúðar eða á að fórna
mannúð í þágu fjárhagslegrar af-
komu?“ Svo spurði Anna Lilja Gunn-
arsdóttir, framkvæmdastjóri fjár-
reiðna og upplýsinga á Landspítal-
anum á ársfundi sjúkrahússins í
gær, eftir að hafa gert grein fyrir
ársreikningi og lýst því yfir að hún
teldi fjárveitingar til spítalans á und-
anförnum árum vera „í engum takti“
við þróun eftirspurnar eftir þjónustu
hans. Eftirspurnar sem aðeins ætti
eftir að aukast á næstu árum, m.a.
vegna þróunar sjúkdóma og fjölgun-
ar aldraðra. T.d. hafi 80 ára fólki og
eldra fjölgað um 17% frá árinu 2002.
Aukin þjónusta fyrir sama verð
Það kostaði 32,2 milljarða króna
að reka Landspítalann á síðasta ári
og þjónustan jókst á flestum sviðum
milli ára. Gjöld umfram tekjur, sem
fást fyrst og fremst af fjárlögum og
með þjónustugjöldum, voru 290
milljónir. Rekstarhallinn nam því
0,9% árið 2006 en uppsafnaður
rekstrarhalli var í lok þess árs 777
milljónir króna. Var hann 487 millj-
ónir í árslok 2005.
„Landspítali-háskólasjúkrahús
hefur á síðustu sjö árum aukið jafnt
og þétt starfsemi sína vegna vaxandi
fjölda Íslendinga, sérstaklega í röð-
um aldraðra, án þess að rekstrar-
kostnaður, á föstu verðlagi, hafi auk-
ist,“ sagði Anna Lilja og benti á að
erfið rekstrarstaða nú stafaði einnig
m.a. af gengisbreytingum. Þá hafi
yfirvinnukostnaður aukist um 20% á
síðasta ári sem „sýnir hinn mikla
vanda sem spítalinn glímir við sem
er skortur á starfsfólki.“
Það hefði aftur þýtt að starfsmenn
hafi þurft að bæta á sig mikilli yf-
irvinnu, mun meiri en þeir vilji, sem
sé auk þess mjög kostnaðarsöm fyrir
spítalann. „Spítalinn er háður
ástandi á vinnumarkaði og þensla
undanfarinna mánaða hefur verið
spítalanum erfið.“
Þá benti Anna Lilja á að kostn-
aður vegna S-merktra lyfja, sem að-
eins eru gefin á sjúkrahúsinu, hafi
aukist um 23% á síðasta ári sem
rekja megi til nýrra og dýrra lyfja
sem og gengisbreytinga. Sagði hún
dæmi um að lyfjakostnaður fyrir
einn sjúkling næmi fleiri tugum
milljóna á ári.
Stöndum á krossgötum
„Við stöndum núna á krossgötum
og verðum að ákveða hvaða stefnu á
að taka í okkar heilbrigðiskerfi,“
sagði Anna Lilja. „Mannúðarsjónar-
mið hafa alltaf verið í hávegum höfð
á Landspítala en sparnaðarkrafa síð-
ustu ára hefur þrengt mjög að starf-
seminni. Starfsfólk spítalans hefur
lagt sig fram um að veita frábæra
þjónustu þrátt fyrir erfiðar aðstæð-
ur […] En þversögnin sem mætir
starfsfólki á hverjum degi í vinnu
sinni er annars vegar sú að starfsemi
spítalans er drifin áfram af mann-
úðarsjónarmiðum og hins vegar
þeirri kröfu að rekstrarkostnaður
rúmist innan ramma fjárlaga. Fjár-
laga sem eru í engum takti við þróun
íbúafjölda, fjölda aldraðra og þróun
sjúkdóma. […]
Krafan er hallalaus rekstur en
krafan er líka að Landspítali sé
bundinn mannúðarsjónarmiðum og
beri ríka samfélagsskyldu. Ég spyr:
á spítalinn að fórna fjármunum í
þágu mannúðar eða á að fórna mann-
úð í þágu fjárhagslegrar afkomu?“
Anna Lilja sagði ljóst að ákveða
þyrfti stefnu til framtíðar, núverandi
tilhögun fjárveitinga gagnaðist ekki
lengur. Hún benti á að framleiðni
rekstrarkostnaðar hefði aukist á ár-
unum eftir sameiningu sjúkrahús-
anna árið 1999 til ársins 2005, hins
vegar væru nú teikn á lofti um við-
snúning. „Athygli vekur lækkun á
síðasta ári sem sýnir líklega að LSH
hefur spennt bogann um of.“
Hún sagði spítalann hingað til
hafa fjármagnað aukna starfsemi
með hagræðingu í rekstri sem mögu-
leg var í kjölfar sameiningar sjúkra-
húsanna í Reykjavík. Þá hafi verið
farið ofan í saumana á þjónustunni
og reksturinn endurskipulagður. Nú
sé svo komið að aukið fé þurfi inn í
reksturinn eða að takmarka verði
þjónustuna. „Hvaða leið viljum við
velja?“
Hefur Landspítalinn
spennt bogann um of?
Morgunblaðið/Golli
Þétt setið Að venju var fjölmennt á ársfundi Landspítala háskólasjúkrahúss sem fram fór í Öskju í gær.
MAGNÚS Gottfreðsson læknir hlaut á ársfundi
Landspítalans í gær 2,5 milljónir króna úr verð-
launasjóði stofnuðum af Árna Kristinssyni og
Þórði Harðarsyni. Verðlaunin eru líklega
stærstu verðlaun sem veitt eru fyrir vís-
indastörf á Íslandi. Magnús er sérfræðingur í
smitsjúkdómum við Landspítalann og dósent í
læknisfræði við Háskóla Íslands.
Magnús Pétursson, forstjóri Landspítalans,
afhenti Magnúsi styrkinn. „Hann er einn fárra
lækna á Íslandi sem hefur tekist að brúa bilið
milli grunnrannsókna og klínískra fræða,“ sagði
forstjórinn.
Meðal fjölmargra rannsókna sem Magnús
hefur unnið að eru rannsóknir á alvarlegum
sýkingum af völdum baktería og sveppa sem
hann segir vaxandi vandamál í hinum vestræna
heimi. Hefur hann í félagi við aðra rannsak-
endur beint sjónum m.a. að heilahimnubólgu en
hún hefur um árabil verið tvisvar til þrisvar
sinnum algengari hér á landi en annars staðar í
Evrópu. „Þetta er mjög alvarleg sýking og horf-
ur þeirra sem fá hana eru jafnslæmar í dag og
þær voru fyrir 30–40 árum, þrátt fyrir allar
framfarir í læknisfræði.“
Rannsóknin leiddi í ljós að hér á landi hafa
fundist 19 stofngerðir heilahimnubólgu sem
ekki hafa fundist annars staðar í heiminum. Þar
af ein gerð sem er fjórða algengasta stofngerðin
á Íslandi. „Þetta bendir til þess að þessar bakt-
eríur séu upprunnar hér á landi,“ sagði Magn-
ús. „Að um sé að ræða þróun sem á sér stað inn-
anlands. Þetta er ekki innflutt vandamál.“
Undanfarin ár hefur Magnús í samvinnu við
Íslenska erfðagreiningu og bandarísku heil-
brigðisstofnunina unnið ásamt öðrum að rann-
sóknum á erfðaþáttum alvarlegra sýkinga, m.a.
á spánsku veikinni sem geisaði hér árið 1918.
Sagði hann góðar aðstæður hér á landi til að
varpa ljósi á „þessa miklu ráðgátu í læknisfræði
sem spánska veikin er“. Hann sagði margt
hægt að læra af viðbrögðum við veikinni á sín-
um tíma. Sérstaklega í ljósi þess að þetta
vandamál gæti komið upp aftur. T.d. hefði sam-
göngubann, sem sett var á Holtavörðuheiði og
við Sólheimasand, haft mikil áhrif og heft út-
breiðslu veikinnar til Norður- og Austurlands.
Engu að síður hefðu um 500 manns látist hér á
landi á stuttum tíma. Þeir sem létust voru að-
allega ungt og hraust fólk. „Því hefur þeirri
kenningu verið varpað fram að erfðaþættir
kunni að skýra þessa veiki,“ sagði Magnús.
Hins vegar hefði niðurstaða rannsókna hans
leitt í ljós að svo var ekki. Með ýmsum upplýs-
ingum, m.a. dánartilkynningum úr Morg-
unblaðinu, skýrslum lækna frá þessum tíma og
Íslendingabók, væri hægt að kortleggja nær
alla þá sem létust af völdum spánsku veikinnar
hér og reikna út áhættu innan fjölskyldna.
„Niðurstöður okkar sýna að við þær kring-
umstæður sem þarna voru ríkjandi virðast
erfðaþættir lítið hafa haft að segja,“ sagði
Magnús.
Magnús Gottfreðsson verðlaunaður
Stærstu verðlaunum sem veitt eru fyrir vísindastörf á Íslandi úthlutað á ársfundi Landspítalans
Morgunblaðið/Golli
Verðlaunaður Magnús hefur lagt stund á
rannsóknir á alvarlegum sýkingum.
YFIR 90% landsmanna bera mjög mikið eða frekar
mikið traust til Landspítala – háskólasjúkrahúss.
Svipaður fjöldi er mjög jákvæður eða frekar jákvæð-
ur gagnvart sjúkrahúsinu. Þetta er niðurstaða könn-
unar Capacent Gallup um LSH sem gerð var dagana
22. mars til 3. apríl sl. Hringt var í yfir 1.300 manns
og var svarhlutfall rúm 61%. Landsmenn telja LSH
veita góða þjónustu, hafa góða reynslu af honum og
segja að starfsfólkið leysi vel úr þeim málum sem
lögð eru fyrir stofnunina. Í könnuninni kemur líka
fram að þrír af hverjum fjórum telja að þjónusta LSH
muni enn batna í nýju háskólasjúkrahúsi sem er í
undirbúningi.
Einnig var kannað hversu hlynntir landsmenn eru
því að LSH auglýsi þjónustu sína opinberlega, t.d. í
fjölmiðlum og var niðurstaðan sú að yfir 24% voru
mjög hlynnt því og um 37% frekar hlynnt. Tæp 27%
sögðust mjög andvíg eða frekar andvíg því.
Þjóðin treystir Landspítalanum
Fjárveitingar til Land-
spítalans eru ekki í nein-
um takti við þróun íbúa-
fjölda, fjölda aldraðra og
þróun sjúkdóma, sagði
Anna Lilja Gunnars-
dóttir, framkvæmdastjóri
fjárreiðna sjúkrahússins
á ársfundi LSH í gær.
„LANDSPÍTALINN hefur líkt og
flestar aðrar heilbrigðisstofnanir
glímt við mönnunarvanda sem hef-
ur skapað stofnuninni margvíslega
erfiðleika,“ sagði Siv Friðleifsdóttir
heilbrigðisráðhera í ávarpi sínu á
ársfundi LSH í gær. „Þegar rætt er
um skort á starfsfólki verður ekki
undan því vikist að nefna kaup og
kjör, þ.e. opinbera kjarasamninga
þótt launamálin séu ekki á minni
hendi heldur á ábyrgð fjár-
málaráðuneytis og viðsemjenda
þess. Það eru uppgangstímar og
þensla í efnahagslífinu, fólk sækir í
önnur störf séu þau betur launuð og
það leiðir síðan til aukinnar starfs-
mannaveltu. Í kjarasamningum
þarf að einbeita sér sérstaklega að
því að lyfta umönnunarstörfum upp
en þau hafa frá upphafi verið að-
allega á hendi kvenna, en launa-
munur kynjanna er um 15–16% hér
á landi eins og flestir vita.“
Þá ræddi Siv um forgangsröðun í
heilbrigðiskerfinu og sagði: „Bilið á
milli þess sem er tæknilega mögu-
legt og þess sem fjárhagur leyfir er
nokkurt og fer vaxandi, því þarf að
forgangsraða og hagræða.“
Sjónum verði
beint að kjara-
samningum
KOMUM á slysa- og bráðadeildir
Landspítalans fjölgaði um 31% milli
áranna 2005 og 2006. Á síðustu
fimm árum hefur vitjunum í heima-
þjónustu fjölgað um 38% og komum
á dag- og göngudeildir um 25%.
Innlögnum á legudeildir hefur
fækkað en hlutfall bráðra innlagna
hefur aukist. Er það í takt við það
sem gerist á sjúkrahúsum erlendis.
Á sama tíma hefur öldruðum fjölg-
að hratt.
31% fleiri kom-
ur á slysadeild
LANDSPÍTALINN hefur sett sér
það markmið að vera árið 2012 eitt
af fimm bestu háskólasjúkrahúsum
á Norðurlöndum hvað varðar árang-
ur og afköst í vísindarannsóknum.
Magnús Pétursson, forstjóri LSH,
segir öflugt vísindastarf forsendu
góðrar heilbrigðisþjónustu og
menntunar heilbrigðisstétta.
Í vísindastefnu sjúkrahússins seg-
ir að stefnt sé að því að fjárframlag
stjórnvalda til vísindarannsókna
fylgi þeirri þróun sem sé hjá nor-
rænum háskólasjúkrahúsum og
verði orðið 3% af veltu spítalans fyr-
ir árið 2011. Jafnframt er gert ráð
fyrir að vísindamenn spítalans sæki
samsvarandi fjármagn til ytri sam-
keppnissjóða.
LSH komist í
hóp fimm bestu