Morgunblaðið - 17.12.2007, Page 33

Morgunblaðið - 17.12.2007, Page 33
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 17. DESEMBER 2007 33 Lundi og eftir að Jón og fjölskylda fluttu heim til Íslands árið 1995 höf- um við varið ármótum saman, átt yndislegar stundir við ljúfa tóna og rauðvínstár, skotið flugeldum og kampavínstöppum á loft um leið og þakkaðar hafa verið liðnar gleði- stundir og spáð í framtíðina. Skemmst er að minnast borgarferð- ar til Prag nú í haust en Jóni var mikið í mun að við færum í hana. Jóni var annt um hamingju og vel- ferð fjölskyldu sinnar, hann var stoltur af konu sinni og börnum og bar hag þeirra framar öllu öðru fyrir brjósti þar til yfir lauk. Þau voru gersemar hans og heimilið hreiður sem bar vott um umhyggju, natni og hlýju. Hann var þakklátur og kunni sannarlega að meta það sem fyrir hann og fjölskylduna var gert og átti auðvelt með að sjá það stóra í því smáa. Hann var sívakandi gagnvart umhverfi sínu og sýndi einlægan áhuga og gladdist yfir velgengni annarra. Þá lá hann ekki á skoðunum sínum og talaði tæpitungulaust en af sanngirni og með rök að leiðarljósi. Elsku Anna, Andri, Sandra og Tinna, missir ykkar er mikill en minning um kærleiksríkan og um- hyggjusaman eiginmann og föður mun lifa. Ykkur og öðrum aðstand- endum vottum við okkar dýpstu samúð um leið og við í söknuði og sorg þökkum yndislegar stundir með Jóni. Er við lítum um öxl til ljúfustu daga liðinnar ævi, þá voru það stundir í vinahópi sem veittu okkur mesta gleði. (Nico.) Rúnar og Arna. Kveðja frá Ríkisútvarpinu Það var í raun einstæð lífsreynsla að fylgjast með Jóni Gunnari Grjet- arssyni heyja sitt hetjustríð við sjúk- dóminn, sem hann hlaut þó að lúta í lægra haldi fyrir að lokum. Þetta æðruleysi, bjartsýni og baráttuþrek mætti sannarlega vera manni lexía í að vera ekki að fjargviðrast yfir smá- munum. Síðsumars hitti ég Jón Gunnar á tröppum Útvarpshússins – glaðan og reifan og upplitsdjarfan þótt fársjúkur væri. Ég hrósaði hon- um fyrir að heimsækja okkur en hann sagðist ekki vera að koma í heimsókn. „Ég er að mæta í vinnu“, sagði hann. „Nú“, sagði ég – svo steinhissa að mér datt ekki annað betra í hug. „Já, ég er í fínu formi og vil fá að vinna. Mér finnst það skemmtilegt“, sagði Jón Gunnar. Þetta stutta samtal held ég að hafi verið nokkuð lýsandi fyrir grundvall- arafstöðu þessa góða drengs til þeirra átaka sem hann var að ganga í gegnum. Það var raunar líka lærdómsríkt að sjá hvernig nánasta samstarfsfólk Jóns Gunnars á fréttastofu Sjón- varps studdi og stóð með honum í þessari baráttu allri. Ég er viss um að það skipti hann miklu máli og létti honum – og vonandi fólkinu hans – þungan róður. Fyrir hönd Ríkisútvarpsins þakka ég Jóni Gunnari góða og trausta samfylgd og votta fjölskyldu hans mína dýpstu samúð. Páll Magnússon. Það eru grimm örlög sem hafa tekið þennan góða dreng í blóma lífs- ins frá yndislegri fjölskyldu sem hann var svo stoltur af. Þeirra missir er óbætanlegur. Nú hefur eitthvað brostið, skarð er í hópi vina og félaga á Fréttastofu Sjónvarpsins, en miss- ir fjölskyldu og ættingja er þó mest- ur. Frá fyrstu kynnum okkar fyrir 20 árum þegar við unnum saman að dagskrárgerð í Útvarpinu var ljóst að Jón Gunnar var einstaklega heil- steyptur og traustur maður. Við kynntumst betur er hann kom til starfa á Fréttastofu Sjónvarps nokkrum árum síðar og þar komu mannkostir hans enn betur í ljós. Hann var metnaðargjarn í starfi, vildi ætíð gera hlutina eins vel og kostur var. Jafnframt var hann ljúf- ur og þægilegur í umgengni, hvers manns hugljúfi, sem aldrei hallmælti öðrum. Enda var Jón Gunnar vina- margur og vinsæll, glæsimenni á velli og því var eftir honum tekið þó að hann tranaði sér ekki fram. Það er kaldhæðni örlaganna að þetta prúðmenni, sem lifði í alla staði heilbrigðu lífi, íþrótta- og útivistar- maður skuli vera látinn á besta aldri. Maður sem naut lífsins og hafði svo mikið að lifa fyrir. En sá illvígi sjúk- dómur sem lagði Jón Gunnar að velli fer ekki í manngreinarálit. Það er að- eins um hálft ár frá því ljóst var að hann væri alvarlega veikur. Við- brögð þeirra hjóna voru sannarlega hetjuleg, þau voru ákveðin í að fjöl- skyldan skyldi í sameiningu sigrast á sjúkdómnum, Jón Gunnar kveinkaði sér ekki, að loknum uppskurði og meðan á meðferð stóð hélt hann áfram að koma í vinnu hvenær sem hann mögulega gat og lagði hart að sér sem endranær. Hann var áfram léttur í lund og lífgaði upp á tilveru samstarfsmanna. En þessari hetjulegu baráttu er lokið. Sorgin ríkir hjá Önnu, börn- unum og öðrum ættingjum. Svo lengi sem við lifum sem kynntumst Jóni Gunnari Grjetarssyni lifir minn- ingin um góðan dreng í besta skiln- ingi þeirra orða. Bogi Ágústsson. Elsku vinur og samstarfsfélagi. Ég mun aldrei gleyma föstudeg- inum 2. nóvember sl. Ég var stödd í Leifsstöð á leið í langferð. Þegar ég kveikti á farsímanum mínum voru þar skilaboð frá ykkur Önnu um að hringja fljótt. Ég vissi strax að þið hefðuð vondar fréttir að færa mér. Enda kom það á daginn. Meinið hafði tekið sig upp aftur og var her- skárra en nokkru sinni. Þegar þú kenndir þér fyrst meins í vor héldum við að þú værir með flensu. Garpurinn, sem þú varst, hafðir gengið á Esjuna en fundið fyr- ir einhverjum slappleika og hrasað á göngunni. Allt út af einhverri flensu! Þegar flensan batnaði ekki eftir nokkra daga, eins og eðlilegt hefði verið, fóru að renna á ykkur Önnu tvær grímur. Svo kom hið sanna í ljós. Æxli hafði myndast við heilann. Tilvera ykkar fór algerlega á hvolf og við samstarfsmenn þínir upplifðum okk- ur svo hjálparvana. Þú þessi hrausti maður, sem hafði ekki vantað einn einasta dag í vinnu árum saman, varst skyndilega orðinn alvarlega veikur. Við vorum einmitt nýbúin að vera að gantast með það á fréttastof- unni að þú ættir að vera á hærra kaupi en allir aðrir fréttamenn af því að þú yrðir aldrei veikur. Þú talaðir opinskátt um sjúkdóm- inn við okkur í vinnunni og útskýrðir fyrir okkur hvers konar barátta væri framundan hjá þér. Þú og Anna og krakkarnir voruð harðákveðin í að berjast sem einn maður. Þvílíkri hugdirfsku og samheldni hjá einni fjölskyldu hef ég aldrei kynnst. Þú varst foringinn og framundan var stríð sem þið ætluðuð að vinna. Svo hófst baráttan. Fyrst var það uppskurðurinn, svo geislarnir og lyfjameðferðin og svo meiri lyfja- meðferð. Alltaf mættur í vinnuna þegar þú hafðir þrek til þess. Þú varst ótrúlegur. Vinnan og sam- starfsmennirnir voru þér svo mikils virði. Í símtalinu í Leifsstöð 2. nóvem- ber sl., þegar þú sagðir mér að sjúk- dómurinn hefði náð yfirhöndinni, varstu áfram sama hetjan. ,,Ertu hræddur við að deyja,“ spurði ég eins og álfur. ,,Nei,“ svaraðir þú af æðruleysi. ,,Við á fréttastofunni verðum öll komin upp til himna til þín áður en þú veist af,“ sagði ég til að reyna að hughreysta þig. ,,Já, ég veit,“ sagðir þú hlæjandi. Þögn ,,En ég skil ekki hvers vegna Guð vill fá þig til sín svona fljótt, elsku vinur,“ sagði ég. ,,Nei, ég skil það ekki heldur, kæra Elín,“ sagðir þú. Vegir Guðs eru órannsakanlegir! Fyrir hönd allra hér á fréttastof- unni vil ég senda Önnu, Andra, Söndru og Tinnu mínar hlýjustu og dýpstu samúðarkveðjur. Þau hafa misst mikið. Við á fréttastofunni höfum misst góðan dreng og liðsmann. Elín Hirst fréttastjóri Sjónvarpsins. Kveðja frá Fréttastofu Útvarpsins Þegar minnst er Jóns Gunnars Grjetarssonar kemur manni fyrst til hugar glaðvært og bjart viðmótið. Hann gaf af sjálfum sér og hreif aðra með sér. Góðir eðliskostir hans nutu sín í leik og starfi – og styrktu í stríð- inu sem háð var síðustu mánuðina. Megi Jón Gunnar nú njóta hvíldar og friðar. Minningu hans heiðrum við best með því að gleðjast yfir hverjum degi sem okkur er gefinn. Jón Gunnar var þrautreyndur fé- lagsmálamaður, óeigingjarn, rétt- sýnn og heiðarlegur. Hann leiddi Fé- lag fréttamanna á ólgutímum, þegar reyndi á faglega samstöðu um grundvöll óháðs og sjálfstæðs al- mannaútvarps. Þá var gott að hafa Jón Gunnar í fylkingarbrjósti. En hann var ekki bara félagsmálafröm- ur og baráttujaxl, heldur líka góður og elskulegur félagi, maður sem gott var að hafa nærri sér og leita til. Verk hans öll báru merki fag- mennsku og vandvirkni. Það er ekki stór hópur sem knýr áfram afkastamiklar fréttamaskínur Ríkisútvarpsins allan sólarhringinn – árið um kring, og mikils er oft kraf- ist af þeim sem standa vaktina. En starfið er gefandi og lærdómsríkt, verkefnin fjölbreytt og ögrandi. Mikilvægust er þó þessi daglega upplifun – að eiga samleið með hæfi- leikaríku, kraftmiklu og skemmti- legu fólki, góðum félögum sem kunna að gleðjast og standa líka saman þegar á móti blæs. Nú er skarð fyrir skildi. Jón Gunnar hefur verið hrifinn á brott frá okkur í blóma lífsins. Þessi glæsilegi, bjarti og sterki félagi okkar er horfinn. En áfram lifir minningin um góðan dreng. Við sendum fjölskyldu og ást- vinum öllum innilegar samúðar- kveðjur. Óðinn Jónsson. Þegar myrkvið grúfir yfir byggð og bóli og skammdegið er hvað svartast, syrtir í sálum okkar allra sem áttum góðan vin og félaga þar sem Jón Gunnar Grjetarsson var. Mikill er missir fjölskyldu, ættingja og allra þeirra sem Jón Gunnar átti í samskiptum við, bæði í starfi og leik. Áræðinn, kraftmikill dugnaðarfork- ur í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. En það var ekki aðeins dugnaðurinn sem einkenndi fas hans mest, heldur einnig hjartahlýja og sá góði hugur sem fylgdi öllum hans verkum. Við Hafnfirðingar vorum lánsamir að fá Jón Gunnar og hans fjölskyldu til okkar í Fjörðinn. Víða liggja spor- in á liðnum árum sem forystumaður í æskulýðs- og íþróttastarfi og síðustu árin sem fyrirliði í þeirri öflugu liðs- sveit sem heldur utan um íþrótta- hreyfinguna í bænum, Íþróttabanda- lagi Hafnarfjarðar. Það hefur verið gæfa hafnfirskrar æsku og íþrótta- fólks í gegnum tíðina, að í forystu- sveit ÍBH hafa verið sannir fyrirlið- ar sem hafa leitt saman ólík sjónarmið og áherslur í eina sam- hljóma rödd. Þar var Jón Gunnar réttur maður á réttum stað. Hann var fylginn sér í öllum mál- flutningi og framgöngu en þó fyrst og fremst sanngjarn og sáttfús. Það var ekki bara ánægjulegt að fá að starfa með slíkum foringja að upp- byggingu íþrótta- og æskulýðsmála í bænum okkar, heldur líka lærdóms- ríkt. Við Jón Gunnar vorum vel kunn- ugir af öðrum vettvangi og úr ann- arri baráttu, ég sem formaður Blaða- mannafélagsins og hann sem formaður Félags fréttamanna. Sú samvinna og samstarf sem við áttum á þeim árum leiddi félög okkar fram til margvíslegs ávinnings. Á þeim gamla grunni var auðvelt að taka upp þráðinn þegar leiðir okkar lágu saman að nýju heima í Hafnarfirði. Mikill er missir okkar allra sem áttum samstarf og samvinnu við Jón Gunnar á umliðnum árum, en mest- ur er missir eiginkonu, barna og ætt- ingja allra sem áttu hann að sem ást- vin. Fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar færi ég ykkur öllum okkar innileg- ustu samúðarkveðju á þessari kveðjustund. Hugur okkar er hjá ykkur öllum. Brátt fer daginn að lengja að nýju og birtan sigrar myrkrið. Sú sama birta sem fylgdi Jóni Gunnari alla tíð. Þannig viljum við minnast okkar góða félaga. Lúðvík Geirsson bæjarstjóri Kveðja frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands Góður félagi er fallinn frá. Slíkt er ávallt sorglegra og erfiðara þegar mönnum er kippt í burtu í blóma lífs- ins. Jón Gunnar Grjetarsson var vin- sæll í hópi forsvarsmanna sam- bandsaðila Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, ráðagóð- ur og málefnalegur. Hann var vissu- lega landsþekktur sem fréttamaður, og átti ekki í erfiðleikum með að taka til máls á fundum og samkomum íþróttahreyfingarinnar. Hann kunni jafnt að hrósa sem gagnrýna, og hann kunni að hrífa fólk með sínum sjónarmiðum. Jón Gunnar átti fjölbreyttan feril á vettvangi stjórnunarstarfa innan íþróttahreyfingarinnar. Það eru ekki margir sem gegnt hafa formennsku í bæði sérsambandi íþróttagreinar og íþróttabandalagi, en Jón Gunnar á að baki bæði formennsku í Tennis- sambandi Íslands og Íþróttabanda- lagi Hafnarfjarðar, sem hann gegndi allt fram að andláti. Átti undirritað- ur farsæl og gefandi samskipti við hann í þeim störfum. Jón Gunnar skilaði miklu starfi í sjálfboðavinnu fyrir hreyfinguna og var sæmdur gullmerki ÍSÍ fyrir framlag sitt í þágu íþróttanna. Íslensk íþróttahreyfing saknar Jóns Gunnars sárt, og leyfi ég mér fyrir hönd hreyfingarinnar að senda Önnu og börnunum innilegar sam- úðarkveðjur. Ólafur Rafnsson, forseti ÍSÍ. Lífið er sífellt að minna okkur á hve hverfult það er og hve fátt er fast í hendi. Okkur í stjórn Tennissam- bands Íslands finnst, sem vinur okk- ar Jón Gunnar Grjetarsson hafi farið frá okkur á sama hraða og hugsanir hans og óskir um framkvæmdir í stjórn sambandsins. Svo hratt gekk sjúkdómurinn og hafði betur á skömmum tíma. Jafnvel orð hans „get-ætla-skal“ dugðu honum ekki í þeirri erfiðu baráttu. En vilji hans og jákvæður hugur hvarf ekki fyrr en hann féll frá. Jón Gunnar var kjörinn í stjórn Tennissambands Íslands 15.nóvem- ber 1997 og hafði því unnið með okk- ur að tennismálum í 10 ár. Stjórn TSÍ ákvað við þau tímamót að veita honum fyrsta gullmerki Tennissam- bandsins. En kallið kom á meðan við biðum eftir tækifæri til athafnarinn- ar. Við minnumst Jóns Gunnars fyrir óvenjulega skapandi, skarpa og já- kvæða hugsun, fyrir það hve miklar kröfur hann gerði til okkar um vinnuhraða og framþróun, hvað hann var líflegur, hvað hann hafði mikla trú á því sem við vorum að gera í tennismálum, og fyrir það hvað hann gat verið snjall ræðumað- ur á mikilvægum stundum. Þetta hvatti okkur hina áfram. Á stjórn- arfundum var aldrei dauflegt. Hann hafði margt að segja af miklum áhuga og hugur hans flaug hraðar og víðar en við gátum fylgt eftir með verkum. Ég gleymdi mér stundum við að hlusta á fallega rödd hans og kjarnyrta og fjölskrúðugu íslensku, sem hann réð svo vel yfir og ekki síð- ur vegna þess leiftrandi áhuga, sem hann sýndi þeim málefnum sem til umræðu voru. Hlátur Jóns Gunnars var ákveðinn og hvetjandi og allt þetta gerði störfin með honum skemmtileg. Hann var fljótur að vinna þegar búið var að marka og ákveða stefnu. Það má ef til vill kalla Jón Gunnar draumóramann en dag- draumar hans voru jákvæðir, sem áttu að leiða til einhvers góðs og það gerðu þeir iðulega. Að vera og vinna með Jóni Gunnari var lærdómur, sem við nutum og munum nýta áfram til að efla tennis. Jafnframt minnir skyndilegt fráfall hans okkur á að njóta hverrar stundar. Við erum þakklát fyrir allt það sem Jón Gunn- ar gerði fyrir tennisíþróttina á Ís- landi. Fyrir hönd stjórnarmanna Tenn- issambands Íslands votta ég eigin- konu Jóns Gunnars, Önnu Sigur- borgu og börnum þeirra samúð okkar. Skjöldur Vatnar Björnsson, formaður TSÍ. Jón Gunnar Grétarsson sat sem formaður Félags fréttamanna í mið- stjórn Bandalags háskólamanna árin 2001-2005. Félagasamtökum eins og Banda- lagi háskólamanna er það nauðsyn- legt að með þeim starfi hæfileikaríkt fólk sem gefur sér tíma til að íhuga málin og leggur sig fram í störfum sínum. Jón Gunnar var slíkur maður. Hann kom ferskur inn í miðstjórn bandalagsins og gerði fundina líf- legri og skemmtilegri með fram- komu sinni. Í miðstjórn er fjallað um flest þau mál er snerta félagsmenn bandalagsins og kennir þar ýmissa grasa. Jón Gunnar gætti þar ekki einungis hagsmuna félagsmanna sinna heldur leit hann svo á að hlut- verk hans væri að fylgjast með hags- munum allra félagsmanna banda- lagsins og kom gjarnan með nýja og ferska sýn á þau málefni sem voru til umfjöllunar. Hann hafði ætíð eitt- hvað gott til málanna að leggja og gerði það á þann jákvæða og rök- fasta hátt sem einkenndi hann. Fyrir hönd Bandalags háskóla- manna sendi ég fjölskyldu hans inni- legar samúðarkveðjur. Halldóra Friðjónsdóttir, formaður. Jón Gunnar sýndi glögglega síð- ustu mánuði lífs síns sömu eiginleika og hann nýtti í þágu félaga sinna í Félagi fréttamanna; þrautseigju og dirfsku. Hann vildi ekki láta undan sjúkdómnum sem engu eirir heldur beitti öflugri mótspyrnu. Margur hefði fyrir löngu verið búinn að gef- ast upp. Eins var í félaginu, uppgjöf ekki inni í myndinni, sama þótt hvorki gengi né ræki í baráttunni. Það þykir ekki eftirsóknarvert að vera í forystu fámenns stéttarfélags, þar sem allir vilja hærra kaup og betri kjör en fæstir hafa mikinn áhuga á því mikla starfi sem slíku fylgir. Þegar Jón Gunnar kom til starfa á Fréttastofu Sjónvarpsins 1996 kom fljótt í ljós að þar fór mað- ur sem meðvitaður var um kjarabar- áttu og félagslega samstöðu. Hann hafði góðan bakgrunn í því efni og gat líka sótt í föðurhús dágott vega- nesti. Hann var stjórnarmaður í Fé- lagi fréttamanna í sex ár, formaður frá 2001-2005. Þótt Jón Gunnar væri enginn há- vaðamaður var hann fylginn sér og lét ekki sinn hlut, fastur fyrir þegar þess þurfti með en kunni líka að taka rökum þegar séð var að ekki yrði lengra komist. Það er alkunna að þegar kjarasamningar eru í höfn finnst launþegum alltof skammt hafa miðað og fátt náðst fram af því sem lagt var upp með. Þá er samninga- nefnd og félagsstjórn gjarna látin „heyra það“ og fór Jón Gunnar ekki varhluta af því að „heyra það“ enda hart tekist á um kaup og kjör. Hann tók þátt í strembinni samningagerð 2001 og þegar hann lét af for- mennsku tók hann að sér að vera í samninganefnd fyrir komandi kjara- samninga. Þar er nú skarð fyrir skildi. Allir sem til þekkja vita að Jón Gunnar bar hag félagsins fyrir brjósti og vildi veg þess og fé- lagsmanna sem mestan. Það gilti sömuleiðis um Ríkisútvarpið. Dagfarslega var Jón Gunnar jafn- lyndur, glaður í bragði og þægilegur í umgengni, en líka afburðasmekk- legur í klæðaburði. Hann lagði ekki illt til nokkurs manns og átti mörg áhugamál en þar tók stangveiðin öðrum fram. En það sem stóð hjarta hans næst var fjölskyldan, Anna og börnin. Engum sem til þekkti duldist að Jón var mikill fjölskyldumaður sem fylgdist svo náið með börnum SJÁ SÍÐU 34

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.