Morgunblaðið - 30.12.2007, Qupperneq 30
byggð í deiglu
30 SUNNUDAGUR 30. DESEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ
G
unnar var ekki
ókunnugur málefnum
bæjarins er hann tók
við starfi bæjarstjóra.
Hann hafði þá verið
forstöðumaður fræðslu- og menn-
ingarsviðs bæjarins í 10 ár en hann
kom upphaflega til starfa fyrir bæ-
inn sem íþróttafulltrúi 25 ára gam-
all eftir farsælan handknattleiks-
feril. Svo er að sjá sem
keppnisandinn úr handboltanum og
bakgrunnur úr skólamálum nýtist
jöfnum höndum í bæjarstjórastarf-
inu, ekki síst þegar kemur að skipu-
lagsmálum.
Fullmikil völd hagsmunaaðila
Þetta gerðist fremur brátt að þú
settist í stól bæjarstjóra. Hefur
sjónarhorn þitt á málefni bæjarins
breyst á þessum tíma sem þú hefur
gegnt starfinu?
„Já, það hefur gert það. Þegar
maður gegnir starfi eins og ég gerði
áður er maður að hugsa um þann
málaflokk fyrst og fremst og að
berjast fyrir umbótum þar enda var
ég ráðinn til þess. Svo þegar ég sest
í stól bæjarstjóra spretta upp miklu
fleiri málaflokkar sem skipta máli.
Skipulagsmálin skipta t.d. verulegu
máli fyrir lífsgæði og vellíðan íbú-
anna. Og mýmörg önnur mál. Þann-
ig fær maður smám saman tiltekna
mynd af samfélaginu. Sýn mín á
bæjarmálin hefur því breyst. Nú
reynir maður að hefja sig svolítið
upp fyrir einstaka málaflokka, horfa
fram á veginn og spyrja sig: „Hvað
er það sem þarf til að lyfta þessu
samfélagi á enn hærra plan – hvaða
sýn þarf að hafa til að láta íbúunum
líða vel?“ Það er eilífðarverkefni
sem mér finnst gríðarlega gaman
að takast á við.“
En hugmyndir þínar um það
hvað er brýnast að takast á við í
málefnum bæjarins, hafa þær
þróast og breyst á þessum tíma?
„Já, það er ýmislegt sem maður
áttar sig betur á með tímanum. Svo
við tökum skipulagsmálin þá skiptir
verulegu máli að bæjaryfirvöld hafi
þar ákveðna sýn og leiði vinnu við
skipulagið. Verktakar og aðrir
hagsmunaaðilar eiga oft land eða
kaupa það og hafa sínar hugmyndir
um nýtingu þess og þá fer kannski
byggingarmagn og annað að ráða
miklu meira ferðinni en einhver
heildarsýn. Nú vil ég ekki kasta
rýrð á verktaka sem slíka, þeir eru
dugnaðarfólk. En bæjaryfirvöld
verða að hafa stjórnina hér, verða
að vita hvert á að stefna og hvernig
þau vilja hafa þetta samfélag, sam-
setningu þess og umhverfi en láta
ekki teyma sig eftir fermetrum og
magni. Mér hefur fundist, þegar ég
er farinn að kafa betur ofan í þessi
mál, að verktakar geti ráðið hér
fullmiklu. Það kemur kannski til af
því að þeir eru gjarnan með boltann
í höndunum og hafa bæði kraft og
tíma til að hugsa og framkvæma.
Um leið og ég segi þetta þá styð ég
einkaframtakið sem valkost í skipu-
lagsmálum, skólamálum, heilbrigð-
ismálum og á fleiri sviðum, þar get-
ur það lyft hlutum á hærra plan.
Stjórnmálamenn vita einfaldlega
ekki allt, þess vegna erum við t.d.
ekki með miðstýrt hagkerfi.“
Geturðu nefnt dæmi um miður
æskileg áhrif hagsmunaaðila á
skipulagsmálin?
„Þeir geta til dæmis freistast til
að kynna fyrir bæjaryfirvöldum
teikningar með ákveðnu bygging-
armagni sem er meira en til stend-
ur. Þá er þeim í lófa lagið að draga í
land við andmæli og samþykkja að
minnka byggingarmagnið. Ef bæj-
aryfirvöld hafa ekki skýra sýn í
málinu þá standa þau kannski á
endanum uppi með byggingarmagn
sem er allt of mikið fyrir viðkom-
andi umhverfi. Hér þurfa bæjaryf-
irvöld að vera á varðbergi og
stjórna ferðinni. Að sjálfsögðu eiga
kjörnir fulltrúar ekki heldur að
leika þennan leik gagnvart íbúum.“
Urriðaholt: ný
sýn í framkvæmd
Segja má að hin nýja sýn í skipu-
lagsmálum Garðabæjar birtist óvíða
jafnvel og í skipulagi hins nýja
hverfis Urriðaholts, sem nú tekur
brátt að rísa sunnan við bæinn. Þar
hefur mikil vinna verið lögð í að
hanna hverfi með heildstæðri sýn á
vistvænt samspil byggðar og nátt-
úru, grænna reita og hlýlegra götu-
mynda. Hefur skipulag þess enda
þegar hlotið fjölda viðurkenninga í
alþjóðlegum hönnunarsam-
keppnum.
„Í Urriðaholti birtist mjög skýr
áhersla á umhverfismál. Þar náði
bærinn mjög góðri samvinnu við
þróunarfélagið Urriðaholt ehf. við
að þróa viðkomandi hverfi. Sú vinna
hefur staðið yfir í nokkur ár. Þarna
eru einfaldlega lagðar nýjar
áherslur í skipulagsmálum með
áherslu á að skapa vissan stað-
aranda, gera náttúrunni hátt undir
höfði og að hugsa mikið um vellíðan
fólks. Þar má nefna svonefndar of-
anvatnslausnir til að varðveita Urr-
iðavatn og svo nýja nálgun í dreif-
ingu rafmagns, svokallað 5 víra
kerfi í stað hefðbundins 4 víra kerf-
is sem dregur úr rafmengun. Þar er
notast við það nýjasta sem er að
gerast á þessu sviði. Skipulag þessa
hverfis styðst við það skipulag bæj-
arins sem fyrir var, það er bara
þróað lengra og þetta gefur kannski
tóninn til framtíðar. Nú er búið að
hugsa þetta hverfi í þaula og byrjað
að selja lóðir og við erum enn að
bæta skipulagið. Það fellur vel að
áherslum okkar í þá veru að vilja
gera Garðabæ að snyrtilegasta og
umhverfisvænasta bæ á Íslandi.“
Nú hefur Garðabær í gegnum tíð-
ina kannski fyrst og fremst verið
einbýlishúsabyggð í hugum fólks?
„Kannski það – en það er ekkert
lögmál að hér þurfi að vera eintóm
einbýlishús. Við erum bara venju-
legt samfélag með fjölbreytta flóru
og viljum hafa bæinn þannig. Það
sést líka á næstu hverfum sem eru
að verða deiliskipulögð, þar er mik-
ið af rað- og fjölbýlishúsum. Við
viljum hafa fjölbreytt form bæði í
húsagerð og yfirbragði, og að þeir
sem vilja flytja í Garðabæ geti valið
á milli mismunandi búsetuforma og
aðstæðna. Það hefur raunar verið
rauði þráðurinn í okkar pólitík að
íbúarnir hafi val, hvort sem er í
skólamálum, búsetu eða þjónustu,
og við erum trúir því.“
Þörf á betra vinnulagi
Gunnar kveðst yfirhöfuð vilja sjá
aðra forgangsröðun í skipulags-
málum bæjarfélaga hér.
„Ég hef orðið var við það á vett-
vangi sveitarstjórnarmála að menn
hafa áhyggjur af ferli skipulags-
mála hér. Fyrirkomulag skipulags-
mála á Íslandi hefur yfirleitt verið
þannig að íbúarnir koma gjarnan á
síðustu stigum að þeim. Þá er oft
búið að ákveða ansi mikið og það
verða stundum mikil mótmæli. Ég
spyr: Er þá ekki eitthvað að öllu
ferlinu? Þurfum við ekki að gera
þetta með öðrum hætti, fara nær
íbúunum í upphafi, mynda rýni- eða
áhugahópa og ræða meira við
íbúana um það sem til stendur, til
að fá fram þeirra áherslur? Við höf-
um gert þetta til dæmis við hönnun
á skólamannvirkjum hér í Garðabæ.
Þá fengum við íbúana, sérfræðinga,
kennara og aðra til skrafs og ráða-
gerða. Arkitektinn tók líka þátt –
en honum var uppálagt að teikna
ekki nokkurn skapaðan hlut í fyrstu
heldur bara hlusta. Þannig reynd-
um við að skapa grundvöll með öll-
um hagsmunaaðilum. Síðan fékk
arkitektinn að vinna teikningar út
frá því.“
Þetta er eitthvað tímafrekara
ferli?
„Já, það er það, en afurðin verður
oft betri og miklu meiri sátt um
hana. Hér áður fyrr fengu arkitekt-
ar kannski það verkefni að teikna
eitt stykki skóla. Svo kom teikn-
ingin og þá lögðust menn yfir hana
og sögðu kannski: „Er ekki hægt að
breyta þessu herbergi aðeins eða
færa það ögn?“ Svo var tekist á um
það, einhverri breytingu hugs-
anlega hleypt í gegn á endanum en
engu öðru breytt. En þegar starf-
semi var hafin í skólanum kom í ljós
að húsið gegndi hlutverki sínu ekki
nógu vel. Ég segi bara: Við skulum
gera þetta öðruvísi til þess að verja
okkur fyrir slíku. Eignarhald á
skipulagi þarf að vera hjá fleirum
en skipulagsnefnd og bæj-
arfulltrúum. Það þarf líka að vera
hjá íbúunum svo meiri sátt geti orð-
ið. Þetta er verðugt verkefni fyrir
stjórnmálamenn.“
Plástralausnir kvaddar
Annað dæmi um nýja tíma í
skipulagsmálum Garðabæjar er
nýtt skipulag miðbæjar bæjarins.
Þar verður m.a. reist hringlaga
bygging umhverfis torg í miðju
bæjarins. Á jarðhæðum þess húss
verða verslanir og þjónustustofn-
anir en íbúðir á efri hæðunum.
„Við vonumst til að fá lifandi og
skemmtilegan miðbæ með áherslu á
verslun, þjónustu og menningu. Þar
verður líka Hönnunarsafn Íslands
til húsa.“
Þið eruð í svolítið einstæðri stöðu
hér í Garðabæ. Bærinn er svo ung-
ur að þið getið meira að segja
skipulagt miðju hans frá grunni?
„Já. Það kom líka að því að við
sögðum: „Við skulum hanna þennan
miðbæ frá A-Ö.“ Við fengum þróun-
arfélagið Klasa til samstarfs – héld-
um fyrst hugmyndasamkeppni og
völdum svo aðila til að starfa með
okkur. Út úr þeirri vinnu allri er nú
kominn miðbær. Þetta er miklu
gáfulegra að mínu viti en að vera
með sífelldar plástralausnir sem
taka 10 ár. Það er líka mikil sam-
staða um þessa lausn hjá bæði
meirihluta og minnihluta og eins og
ég skynja þetta ríkir almennt sátt
um hana meðal íbúa.“
Nú er risinn heilmikill stórversl-
anakjarni, Kauptún, austan við bæ-
inn, með risaverslunum eins og
IKEA og fleiri slíkum. Hefur svona
viðbót ekki mikil áhrif á bæjarfélag
eins og Garðabæ og setur það í nýtt
samhengi?
„Það gerir það. Við erum hæst-
ánægð með að fá verslun eins og
IKEA hér í nágrennið. Um leið
eykst auðvitað umferð mikið í
kringum bæinn. Auðvitað sýnist
hverjum sitt um það að taka allt
þetta svæði undir verslun og þjón-
ustu en við höfum farið í gegnum þá
umræðu og erum ánægð með nið-
urstöðuna. Nú kunna einhverjir að
halda að þetta merki að hægt sé að
fá hér hvaða svæði sem er undir
verslun og þjónustu bara ef það er
keypt nógu háu verði. Svo er þó alls
ekki. Í því samhengi má nefna að
við erum til dæmis nýbúin að frið-
lýsa Vífilsstaðavatnið og nágrenni
þess upp á fleiri hundruð hektara –
það er gríðarlega stórt og mikið
mál. Svo er á dagskrá að friðlýsa
hraunið frá Búrfelli alla leið niður
að sjó. Ég vil meina að það sé ein-
stakt að svo stórt svæði í miðri
byggð sé friðlýst með þessum
hætti. Við erum áreiðanlega fyrsta
sveitarfélag á Íslandi og þótt víðar
væri leitað sem gerir slíkt. En við
ætlum einfaldlega að skila þessu
svæði ósnortnu til næstu kynslóðar.
Auðvitað eru margir sem segja:
„Eruð þið alveg brjáluð, ætlið þið
ekki að selja þetta? Þið gætuð feng-
ið marga milljarða fyrir þetta land.“
En það verður ekki allt talið í pen-
ingum. Með því að friðlýsa svona
svæði og setja hverfisvernd á
Grunnvötnin sem eru fyrir ofan Víf-
ilsstaðavatn þá sýnum við að okkur
er alvara þegar við segjumst ætla
að gera Garðabæ að umhverfisvæn-
asta bæ á Íslandi. Annað væri tómt
orðagjálfur.“
En hvað með til dæmis Vífilsstaði
sjálfa? Áttu von á að þar verði
áfram sjúkrahús um ókomna tíð?
Morgunblaðið/Ómar
Óákveðinn Gunnar Einarsson hefur ekki gert upp við sig hvort hann vill kveða sér frekara hljóðs á vettvangi
stjórnmálanna en að sinna starfi bæjarstjóra.
Ný sjónarmið í skipulags
Það bar fremur brátt að
að Gunnar Einarsson var
skipaður bæjarstjóri
Garðabæjar. Það var árið
2005 sem þáverandi bæj-
arstjóri, Ásdís Halla
Bragadóttir, hvarf til
annarra starfa og stóllinn
stóð auður. Hallgrímur
Helgi Helgason ræddi
við Gunnar, sem nú hefur
gegnt starfinu í hálft
þriðja ár en mun taka sér
fjögurra mánaða leyfi eft-
ir áramót til að ljúka
doktorsprófi frá háskól-
anum í Reading á Eng-
landi.
»Nú reynir maður að hefja sig svolítið upp fyrir
einstaka málaflokka, horfa fram á veginn og
spyrja sig: Hvað er það sem þarf til að lyfta þessu
samfélagi á enn hærra plan – hvaða sýn þarf að
hafa til að láta íbúunum líða vel?