Morgunblaðið - 30.12.2007, Blaðsíða 33
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 30. DESEMBER 2007 33
hafa með Bandaríkin að gera. Musharraf tók því
áhættu þegar hann ákvað að gerast bandamaður
Bush og styðja meðal annars innrásina í Afganist-
an. Til marks um það er að honum hafa verið sýnd
nokkur banatilræði síðan. Einnig var ljóst að það
myndi ýta undir pólitíska ólgu í landinu. Á hinn
bóginn má segja að þótt Musharraf hafi talað af
hörku um stríðið gegn hryðjuverkum hafi því ekki
verið fylgt eftir af sömu hörku í verki. Þennan tví-
skinnung hafa Bandaríkjamenn sætt sig við,
sennilega vegna þess að þeir hafa talið að þeir
ættu ekki annan kost.
Tengsl pakistanska hersins og leyniþjónustunn-
ar við talibana voru sterk og eru það reyndar enn
að því er virðist. Þegar Bandaríkjamenn réðust
inn í Afganistan árið 2001 sneru Pakistanar baki
við fyrrverandi bandamönnum sínum. Í Afganist-
an var hins vegar fjöldi pakistanskra herforingja,
leyniþjónustumanna og sjálfboðaliða, sem börðust
með talibönum. Frásögn Seymour Hersh í bókinni
Chain of Command af því þegar þeim var bjargað
úr umsátri Norðurbandalagsins um Kunduz er at-
hyglisverð. Á sínum tíma sagði George Bush
Bandaríkjaforseti að ekki yrði samið um uppgjöf í
Kunduz, borgin yrði tekin. Strax fóru hins vegar
að koma fram vísbendingar um að Pakistanar
hefðu fengið að fljúga flugvélum til Kunduz til að
koma sínu fólki undan. Það hefði verið of mikil nið-
urlæging fyrir Musharraf að horfa upp á Norður-
bandalagið myrða hundruð ef ekki þúsundir pak-
istanskra hermanna og leyniþjónustumanna og
því hefði Bush samþykkt brottflutninginn í skjóli
nætur.
Hersh segir að ein afleiðingin hafi verið sú að
liðsmenn bæði talibana og al-Qaeda hafi komist
undan með Pakistönunum. Þegar ráðist hafi verið
inn í Afganistan hafi ætlunin ekki verið að hrekja
talibana alfarið frá völdum og Pakistanar hafi flutt
brott menn úr þeirra röðum, sem þeir gerðu ráð
fyrir að gætu tekið þátt í að mynda stjórn að átök-
unum loknum. Það fór hins vegar á annan veg. Þá
hafi Bandaríkjamenn átt að eiga aðgang að talib-
önunum, sem fluttir voru brott, en það hafi ekki
staðist.
Hersh rekur einnig að menn úr greiningardeild
bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, telji að
Osama bin Laden hafi komist undan Bandaríkja-
mönnum með hjálp pakistönsku leyniþjónustunn-
ar. Þá segir hann að innan CIA hafi vaknað miklar
efasemdir um að rétt væri að reiða sig á hjálp ISI í
viðureigninni við al-Qaeda. „Sömu pakistönsku yf-
irmennirnir og byggðu upp talibanana sáu um
þýðingar fyrir CIA,“ segir einn viðmælandi
Hersh. „Þetta var eins og að nota Gotti-fjölskyld-
una til að þýða samtal við Luchese-fjölskylduna.“
„Okkar stærstu mistök voru að gera ISI að augum
okkar og eyrum,“ segir annar viðmælandi hans.
Nú hafa talibanar náð sér á strik á nýjan leik í
Afganistan. Þeir hafa bækistöðvar í landamæra-
héruðum Pakistans og þaðan stjórna þeir aðgerð-
um sínum. Joschka Fischer, fyrrverandi utanrík-
isráðherra Þýskalands, segir í grein í þessu
tölublaði Morgunblaðsins að Pakistanar hafi einn-
ig látið fé renna til talibana og segir að án þeirra
hjálpar væri útilokað fyrir talibana að halda upp-
reisn sinni til streitu. Fischer segir enn fremur að
Pakistanar hafi ákveðið að styðja talibana á ný
vegna þess hvað fjarað hafi undan áhrifum Banda-
ríkjamanna á þessum slóðum.
Bandalag Musharrafs og Bush
Þ
etta er kaldhæðnisleg þróun og það
má velta fyrir sér hvaða peningar
renni nú frá Pakistönum í vasa tal-
ibana. Í upphafi vikunnar birtist
grein á forsíðu blaðsins Inter-
national Herald Tribune um pen-
ingana, sem Bandaríkjamenn hafa látið af hendi
rakna til að efla hernaðaraðgerðir Pakistana gegn
al-Qaeda og herskáum talibönum. Alls er um að
ræða fimm milljarða dollara og viðurkenna banda-
rískir embættismenn að ekki hafi verið haft nægi-
legt eftirlit með því hvernig fénu var varið og að-
stoðin hafi verið misheppnuð. Í fréttinni segir að
rætt hafi verið við bæði embættismenn úr banda-
ríska hernum og Bandaríkjastjórn og þeir hafi
sagt að peningarnir næðu ekki til þeirra, sem
væru í fremstu víglínu. Þeir hefðu verið notaðir í
kaup á vopnakerfum, sem ætluð væru til varnar
gegn Indverjum, en ekki talibönum og al-Qaeda.
Þá hefðu Bandaríkjamenn greitt tugi milljóna
dollara vegna reikninga, sem Pakistanar hefðu
smurt rækilega á fyrir olíu, skotfærum og öðrum
kostnaði. Eitt dæmi um það að bandarískt fé skili
sér ekki er að á átta mánaða tímabili á þessu ári
voru 55 milljónir dollara endurgreiddar til við-
halds og flugs á þyrlum, en herinn fékk aðeins 25
milljónir dollara til að viðhalda og fljúga öllum
þyrluflotanum allt þetta ár. Ekki eru allir, sem
rætt er við í fréttinni, á einu máli um að fénu hafi
verið illa varið, en viðmælendur blaðsins eru á
einu máli um að endurskipuleggja þurfi hernaðar-
aðstoð við Pakistan frá grunni. Það á reyndar
einnig almennt við stefnu Bandaríkjamanna gagn-
vart Pakistan.
Bandaríkjamenn hafa löngum stutt einræðis-
herra og harðstjóra þegar þeir hafa talið það
henta sér. Segja má að það hafi verið undir þeim
formerkjum að óvinir óvina þeirra hafa verið vinir
þeirra. Eitt dæmi um slíkan harðstjóra er Saddam
Hussein, leiðtogi Íraks, sem um langt skeið naut
góðs af því að vera óvinur erkiklerkastjórnarinnar
í Íran.
Það hefur orðið erfiðara fyrir Bandaríkjamenn
að réttlæta stuðninginn við Musharraf eftir því
sem tíminn hefur liðið. Átök Musharrafs við
hæstarétt, neyðarlög og handtökur pólitískra and-
stæðinga í þúsundavís bera lýðræðisuppbyggingu
vitni. Hvers vegna ættu Bandaríkjamenn að
styðja leiðtoga, sem stjórnar með þessum hætti?
Hvernig samræmist það því markmiði að koma á
lýðræði í múslímskum ríkjum? Það var út af
þessu, sem Bandaríkjamönnum var í mun að hafa
milligöngu um einhvers konar bandalag milli
Bhutto og Musharrafs um að deila völdum, annars
vegar í þeirri von að það myndi ýta undir lýðræð-
isþróun og hins vegar til að draga úr þrýstingi um
að Musharraf fari frá. Hins vegar er annað mál
hvort Musharraf hafi nokkurn tímann haft í
hyggju að deila völdum með Bhutto.
Með dauða Bhutto eru tilraunir stjórnar Bush
til að hafa áhrif til breytinga runnar út í sandinn.
Bandaríkjastjórn hefur ekki viljað leita til Sharifs
vegna þess að hann hafi of víðtæk tengsl við ísl-
amista, en The New York Times greindi frá því í
gær, föstudag, að bandaríska sendiráðið hefði haft
samband við flokksmenn hans eftir morðið á
Bhutto. Blaðið telur að þetta sýni hversu erfitt það
sé fyrir Bandaríkjamenn að finna bandamann,
sem hægt sé að treysta, í Pakistan. „Launmorðið
sýnir einnig með stórbrotnum hætti hvernig tvö
meginmarkmið Bush á þessu svæði hafa mis-
heppnast; sókn hans til að koma á lýðræði í
múslímaheiminum og hrekja brott herskáa íslam-
ista, sem hafa þráast við af seiglu í Pakistan,“ seg-
ir í blaðinu.
Bandaríkjamenn þurfa að endurskoða nálgun
sína gagnvart Pakistan og einn kosturinn er að
hætta að veðja á einstaklinga og leggja þess í stað
áherslu á tiltekin markmið á boð við innleiðingu
lýðræðis og stuðning við lýðræðisöfl. Það er auð-
velt að ætla að án Musharrafs fljúgi Pakistan fram
af hengifluginu, en það má ekki gleyma því að her-
foringinn fyrrverandi ber líka ríka ábyrgð á því
hvernig komið er.
» Það er auðvelt að ætla að án Musharrafs fljúgi Pakistanfram af hengifluginu, en það má ekki gleyma því að herfor-
inginn fyrrverandi ber líka ríka ábyrgð á því hvernig komið er.
rbréf
Reuters
Ringulreið Stuðningsmenn Benazir Bhutto, sem var ráðin af dögum á fimmtudag, hrópa slagorð gegn stjórnvöldum í Rawalpindi þar sem morðið var framið.