Morgunblaðið - 03.10.2008, Blaðsíða 39

Morgunblaðið - 03.10.2008, Blaðsíða 39
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 3. OKTÓBER 2008 39 við svo ásamt Herði bróður þínum á lestarflakk um Evrópu. Sumarið 1985 var það svo 6 vikna ævintýra- ferð um Evrópu með Þórdísi vin- konu okkar. Í þeirri ferð bar hæst fyrir okkur tvær gönguferðina upp á Mt. Blanc. Þú hafðir undirbúið þenn- an þátt ferðarinnar afar vel og lesið þér vel til um leiðina. Þegar svo hryggurinn sem fara þurfti upp áður en toppnum væri náð var að fara að stoppa mig af, fékk ég notið þess hve auðvelt þú áttir með að stappa stál- inu í fólk því upp fór ég eftir nokkur hvatningarorð frá þér. Þú lagðir svo í heilmikla ævintýraferð til Nepals 1987 ásamt nokkrum góðum fé- lögum úr Ísalp og gekkst þú þá upp í enn meiri hæð en þú gerðir á Mt. Blanc. Seint á árinu 1996 var svo komið að nýjum kafla í lífi þínu, þú varst orðin stolt mamma, búin að eignast hana Arnheiði Gróu. Seinna kynntist þú eftirlifandi eiginmanni þínum, honum Sverri og saman eignuðust þið dótturina Kristrúnu í ársbyrjun 2004. Sverrir hafði svipuð áhugamál og þið fjölskyldan gerðuð margt skemmtilegt saman. Salla hafði gaman af að bjóða vinum og vanda- mönnum úr ýmsum áttum heim til sín í matar- eða kaffiboð og lét svo seinna veikindin ekki stoppa sig í því frekar en öðru. Hún tók þeim af miklu æðruleysi, hélt áfram að lifa sínu lífi, fór í ferðalög með fjölskyld- unni og hélt áfram íslenskunáminu. Það var gleðileg stund í útskriftar- veislu þinni á Hagamelnum núna í febrúar, þú að útskrifast með BA- próf í íslensku frá Háskóla Íslands. Í haust hrakaði þér skyndilega og ég var svo fegin að geta hitt á þig vak- andi og fá að kveðja þig almennilega. Ég votta Sverri, dætrunum, móður þinni og systkinum innilega samúð. Margrét Júlíusdóttir. Mín góða vinkona Salla er dáin. Hún var heilsteypt og vönduð og fáum hef ég kynnst sem voru jafn raungóðir og traustir og hún. Við vorum ferðafélagar og gengum um fjöll og firnindi. Alltaf var hún sami góði tillitssami ferðafélaginn. Við kynntumst vel í mikilli ævintýraferð til Nepal árið 1987 er við gengum Anapurna hringinn. Ekki kann ég að greina hve löng sú leið er en Salla hafði allt slíkt á reiðum höndum. Hún vissi einnig nákvæmlega hversu hátt við komumst, eitthvað yfir 5 þúsund metra. Ferðin var löng og hún reyndi á. Vinátta sem þá myndaðist okkar á milli hélst æ síð- an. Í gegnum hugann renna margar myndir, allar ánægjulegar. Salbjörg eignaðist Arnheiði Gróu fyrir tæpum 12 árum. Það var gott að heimsækja þær mæðgur á Fálkagötuna. Síðan kynntust þau Sverrir og litla Krist- rún fæddist. Fjölskyldan flutti á Hagamelinn. Þar réð húsum sama gestrisnin og á Fálkagötunni. Ég minnist Salbjargar með þakk- læti og sendi fjölskyldunni mínar dýpstu samúðarkveðjur. Sigríður H. Þorbjarnardóttir. Það var glaðleg, myndarleg stúlka sem kom til mín á fyrstu dögum okk- ar í Verslunarskóla Íslands og segir við mig: „Ert þú ættuð úr Skagafirð- inum?“ Þegar ég hvað já við fór hún að grennslast fyrir um fólk sem þar bjó og varð þetta upphaf að vináttu okkar. Við Salla vorum öll 4 árin í sama bekk og oft lærðum við saman eða lásum undir próf. Ef ég man rétt þá voru einkunnir meira að segja mjög svipaðar hjá okkur. Salla var afar minnug og því gott að geta flett upp í henni bæði þá og svo síðar. Salla hafði snemma mikinn áhuga á íslenskri tungu og fróðleik og svo námsfús var hún að hún var næstum alltaf í skóla eða á námskeiðum fyrir utan allan þann lærdóm sem hún afl- aði með sjálfsnámi. Hún var mikil áhugamanneskja um útivist og ís- lenska náttúru og naut hennar best með því að fara um hana gangandi, oft með allt á bakinu. Hún gekk snemma til liðs við Ferðafélag Ís- lands sem fékk að njóta krafta henn- ar um langt árabil. Það var Salla sem kom mér í kynni við Ferðafélagið og áttum við eftir að eiga saman góðar stundir á fjöllum á vegum þess fé- lagsskapar ásamt því að kynnast mörgu góðu og skemmtilegu fólki. Eftir að við fórum út á vinnumark- aðinn gerðist það næstum alltaf á svipuðum tíma að við skiptum um vinnu og meira að segja gerðist það einu sinni að við sóttum um sömu vinnuna án þess að vita af því fyrr en eftir á. Þá fórum við í sambúð á svip- uðum tíma, en Salla hafði þá eignast hana Arnheiði sína. Já, Salla var heppin að hitta hann Sverri. Með honum eignaðist hún litla fiðrildið hana Kristrúnu sem hefur verið sólargeisli núna í veik- indunum og örugglega gefur hún föður sínum bjartari trú á framhald- ið. Sverrir hefur staðið við hlið konu sinnar og systranna eins og klettur frá fyrstu tíð og þá ekki síst núna þann hálfa mánuð sem Salla varð al- varlega veik. Það er hálf-skrítið að hafa ekki Söllu áfram til að rifja upp árin frá Versló og allt það sem við höfum brallað saman gegnum tíðina, en þar sem engu verður um breytt vil ég þakka fyrir þann tíma sem ég átti með Söllu og allt það sem hún gaf mér. Elsku Sverrir, Arnheiður, Krist- rún, Jóhanna, systkini og aðrir ást- vinir. Við Ágúst vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Hugur okkar er hjá ykkur. Ólöf Þorsteinsdóttir (Lóa.) Það voru uggandi foreldrar sem tvístigu við bekkjardyr 1.-A í Mela- skóla fyrsta skóladag haustið 2002. Við vorum í þeim hópi og Salbjörg líka. Hún eins og við var að fylgja stelpunni sinni í skólann í fyrsta sinn. Barnahópurinn sem þarna hóf skólagöngu settist í 7. bekk nú í haust. Síðasti veturinn þeirra í Mela- skóla var rétt hafinn þegar Salbjörg kvaddi. Allt of snemma. Það hvílir heilmikil ábyrgð á okkur sem eigum börn í skóla að hlúa að þeim og styrkja í hvívetna svo að þeim megi vegna sem best. Við berum líka ábyrgð á því að kenna börnunum okkar að umgangast hvert annað af vinsemd og virðingu svo að sam- skiptin gangi greiðlega og enginn fari halloka í hópnum. Salbjörg var vel meðvituð um þetta. Hún var vak- in og sofin yfir velferð stelpnanna sinna. Hún var jafnframt lífið og sál- in í bekkjarstarfinu frá upphafi. Hún var mikill gönguhrólfur og útivist- armanneskja. Þess naut bekkurinn góðs af í gegnum árin. Foreldrar og börn fylgdu Salbjörgu í ótal ferðir. Það var farið á söguslóðir í Viðey, í göngur og fjallgöngur í nágrenni Reykjavíkur, að ógleymdum ratleik um vesturbæinn. Allar þessar ferðir skipulagði Salbjörg af einstakri natni og það sýndi sig að hún var frá- bær leiðsögumaður. Fyrir þessar góðu samverustund- ir þökkum við nú. Salbjörg hefur lagt upp í sína síðustu ferð. Hugur okkar er hjá þeim sem hún lætur eft- ir sig, Sverri, Arnheiði og Kristrúnu litlu. Við þökkum Salbjörgu sam- fylgdina og kveðjum með söknuði. Blessuð veri minning hennar. Ragnheiður Harðardóttir og Jón Scheving Thorsteinsson. Fyrir réttu ári settist ný stjórn Foreldrafélags Melaskóla niður og skipti með sér verkum. Fyrir flest okkar voru þetta fyrstu kynni. Á sinn einkennandi hógværa hátt tók Salbjörg að sér ritarastarfið og sinnti því af alúð, fagmennsku og metnaði fram í lokin. Á síðasta fundi stjórnar lagði Sal- björg frá sér pennann, vitandi hvert stefndi. Hún hafði ekki flíkað veik- indum sínum, en lét af þögninni á vormánuðum og deildi með okkur fréttum af erfiðri sjúkdómsgrein- ingu og batahorfum. Sumarið leið og við vonuðum það besta, en náttúran er bæði fögur og grimm og verður ekki umflúin. Með Salbjörgu er farin hlý og al- úðleg kona. Hún var rökföst og mál- efnaleg og kom sínum málum fram í sátt og samlyndi. Salbjörg kryddaði einnig fundi okkar með fágaðri og látlausri kímni. Var hún og verður áfram fyr- irmynd okkar í foreldrastarfinu. Við munum minnast Salbjargar með söknuði og hlýhug og vottum aðstandendum hennar okkar dýpstu samúð. F.h. stjórnar Foreldrafélags Melaskóla 2007–2009, Ólafur Mathiesen. Kveðja frá Ferðafélagi Íslands Ung að árum gekk Salbjörg Ósk- arsdóttir til liðs við Ferðafélag Ís- lands enda var hún mikil útivistar- manneskja sem hafði ánægju af því að ferðast með góðum félögum. Ferðafélagið naut góðs af vinnu hennar um langt árabil á mörgum sviðum. Þekking hennar á landinu, íslenskri tungu, ásamt leiðsöguhæfi- leikum skilaði sér í vandaðri vinnu fyrir félagið, nánast alltaf í sjálf- boðavinnu. Salbjörg var ávallt reiðubúin að taka að sér verkefni og sóttist beinlínis eftir því að fá að leggja til vinnu fyrir félagið án þess að laun kæmu á móti. Hún sat í stjórn Ferðafélagsins um tíma auk þess að sitja í nokkrum nefndum á löngu tímabili. Hún var fararstjóri í fjölmörgum ferðum og nutu samferðamenn hennar góðrar leiðsagnar ekki síður en þeirrar miklu hlýju og jákvæða hugafars sem einkenndi hana. Það var ætíð ánægjulegt að ferðast með Sal- björgu um fjöll og óbyggðir. Þar var hún á sínum heimavelli. Hún var hugmyndarík og hvetj- andi og nýtti þá hæfileika Ferða- félaginu óspart til framdráttar. Þannig efndi hún t.d. til mikillar ljós- myndasamkeppni fyrir félagið þar sem efnistökin voru ferðalög um náttúru landsins. Árangurinn var engu líkur og skreyttu vinnings- myndirnar húsnæði Ferðafélagsins í fjöldamörg ár og gera reyndar enn sumar hverjar. Félagið naut einnig góðs af þekkingu hennar á íslenskri tungu og las hún t.d. prófarkir fjöl- margra árbóka. Ferðafélag Íslands horfir með söknuði á eftir góðum félaga sem var félaginu mikils virði og sendir fjöl- skyldu Salbjargar innilegar samúð- arkveðjur. Jón Viðar Sigurðsson. Okkur langar til að minnast vin- konu okkar, Salbjargar Óskarsdótt- ur, í fáeinum orðum. Við kynntumst Salbjörgu fyrir nokkrum árum þegar við vorum við nám í Háskóla Íslands. Eftir að hafa setið saman í námskeiði um Íslend- inga sögur ákváðum við að stofna leshóp og lesa fleiri fornsögur. Sal- björg blés strax til fundar á heimili sínu haustið 2005. Fyrsta sagan sem við lásum var Fóstbræðra saga en þar komum við ekki að tómum kof- unum hjá henni. Salbjörg hafði brennandi áhuga á dróttkvæðum vísum og lagði mikla vinnu í að skilja hinn forna kveðskap og deila merk- ingu hans með okkur. Salbjörg var einnig einstaklega fróð um alla stað- hætti sögunnar enda hafði hún ferðast víða um landið, ekki síst Vestfirði. Salla, eins og hún var jafnan köll- uð, kunni að tvinna saman áhuga sinn á útiveru og sögulegum fróð- leik. Okkur er minnisstæð frásögn hennar af fyrstu ferð hennar á Hornstrandir. Hún sagði kímin frá því að auk nauðsynlegs viðlegubún- aðar hafði hún meðferðis fimm þykkar skruddur um náttúrufar og sögu landsins. Alls vó bakpokinn hennar 27 kg. Eftir þessa ferð gaf hún fólki gjarnan góð ráð um hæfi- lega þyngd farangurs og mælti með að ferðalangar læsu skræðurnar áð- ur en lagt væri í langferð. Margs er að minnast frá samverustundum okkar. Einna minnisstæðust er för okkar á söguslóðir Laxdælu síðast- liðið haust sem var bæði fróðleg og skemmtileg. Við þurftum stundum að minna okkur á að Salla gekk ekki heil til skógar. Þótti okkur aðdáun- arvert hvernig henni tókst með seiglu og þrautseigju að halda áfram náminu þrátt fyrir erfið veikindi. Það sem einkenndi hana var einstak- lega góð nærvera og hógværð og ávallt var stutt í kímnina. Við þökkum Söllu lærdómsrík og góð kynni. Við vottum Sverri, Arn- heiði, Kristrúnu og öðrum ættingj- um okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning Salbjargar. Anna, Birna, Katrín, Ólöf, Sigríður Ólöf og Sigurður Jón. Við hjónin kynntumst Salbjörgu (eða Söllu eins og hún var alltaf köll- uð) þegar hún og vinur okkar, Sverr- ir, tóku saman. Reyndar giskuðum við síðar á hvernig hún hefði komið inn í líf hans, þegar við litum á gaml- ar ljósmyndir og sáum Söllu sem vinkonu Sólrúnar, systur Sverris. Við glöddumst innilega við að sjá þessar tvær persónur, sem höfðu svo mikið að gefa með sinni hljóðlátu kímnigáfu, stofna fjölskyldu. Sam- eiginleg áhugamál þeirra endur- spegluðu þessi heilindi, t.d. útivera og heilbrigt líf. Salla átti fyrir eina dóttur, Arnheiði, og saman eignuð- ust þau aðra, Kristrúnu. Þau urðu nágrannar okkar og meðal þeirra vina sem standa okkur næst. Ýmis tilefni gáfust til að treysta vináttuböndin, til dæmis eigum við sjálf dætur á svipuðu reki. Við skipt- umst því á boðum í barnaafmæli, hittumst í tónlistarskóla eldri dætra, á tónleikum þeirra og hittumst í leik- skóla yngri dætra. Einnig gátum við samglaðst þeim í brúðkaupinu, við útskrift Söllu og notið gestrisni í sumarbústað hjá þeim. Það kom því eins og reiðarslag þegar við fréttum af því fyrir um tveimur árum að Salla hefði greinst með alvarlegan sjúkdóm. Á þessum tíma sem baráttan við sjúkdómin stóð lét Salla á engu bera og lifði lífinu af þrótti með fjölskyldu sinni, eins og bloggsíða hennar sýn- ir. Oft hefði mann ekki grunað hversu alvarleg veikindi hún átt við að glíma. Eflaust hefur það þó verið dugnaður hennar og stuðningur fjöl- skyldu sem bar hana áfram, frekar en líkamlegt afl. Er við gengum saman heim í Vesturbæinn í bjartri vornóttinni, að lokinni fimmtugsaf- mælisveislu Sverris í maí, gengu þau Salla og Sverrir svo rösklega að allir sjúkdómar virtust víðs fjarri. Við viljum þakka samfylgd með Söllu sem varaði allt of stutt. Um leið og við vottum Sverri og dætr- unum Arnheiði og Kristrúnu samúð okkar, þá gerum við það vitandi að þótt líf Söllu sé á enda verður hún með þeim og í þeim alla tíð. Sigurður Emil og Piret. Salbjörg Óskarsdóttir hóf nám í íslensku við Háskóla Íslands haustið 2001. Ekki fór mikið fyrir henni í Árnagarði, en engum sem kynntist henni duldist að hér fór skynsamur og athugull nemandi. Þegar rann- sóknaverkefnið „Tilbrigði í setninga- gerð“ fór af stað vann Salbjörg með okkur málfræðingunum. Hún hafði ekki hátt, lét ekki mikið á sér bera á fundum en kom með góðar ábend- ingar ef hún var spurð. Hún nýtti sérþekkingu sína og þjálfun vel og þó hún ætti ung börn lét hún ekki deigan síga heldur vann að sínum þætti í rannsóknaverkefninu heima við. Haustið 2007 lauk hún BA-ritgerð sem var byggð á einum þætti verk- efnisins, frumathugun á ákveðnum einkennum á máli Vestur-Íslend- inga. Í apríl síðastliðnum flutti hún fyrirlestur á Hugvísindaþingi um efni ritgerðarinnar og sýndi fram á að sumt af því sem fræðimenn höfðu haldið fram um vesturíslensku var bara þjóðsaga. Þannig lagði hún sitt af mörkum til aukinnar þekkingar á íslensku máli vestan hafs. Við kveðj- um hana með þakklæti fyrir sam- starfið og sendum eiginmanni, dætr- um og öðrum aðstandendum inni- legar samúðarkveðjur. F.h. Tilbrigðahópsins, Höskuldur Þráinsson. Árið sem Sigurður Eymundsson flutti inn í Haga voru íbúar Hafnar í Hornafirði 69 samkvæmt Sóknarmanntali Bjarnanesprest- skalls. Gunna frænka fæddist tveim- ur árum síðar, sú fjórða í röðinni af börnum þeirra hjóna sem áttu eftir að verða tíu til samans. Ég, eins og aðrir afkomendur Sigurðar afa og ömmu Agnesar Móritzdóttur Stein- sen í Haga, hef verið svo gæfusöm að eiga Gunnu sem frænku. Heima á Þrastarhól hjá þeim Ingvari var allt- af tekið vel á móti okkur frá Brunn- hól. Sérstaklega held ég að mikil vin- átta hafi verið milli föður míns, Arnórs Sigurjónssonar, og Gunnu frænku. Þær góðu samverustundir sem fjölskyldurnar áttu gleymast seint. Agnes móðuramma var dáin áður en við Svafa systir fæddumst. Guðrún Sigurðardóttir ✝ Guðrún Sigurð-ardóttir fæddist í Haga á Höfn í Hornafirði 4. sept- ember 1923. Hún lést á Hjúkrunar- heimilinu á Höfn 9. september síðastlið- inn og fór útför hennar fram frá Hafnarkirkju 22. september. Líklega hefur Gunna tekið að hluta við hennar hlutverki gagnvart okkur krökk- unum í ættinni sem fæddust eftir að afi og amma voru dáin. Gunna var þó bara átta árum eldri en tvíbura- systurnar Ragna móð- ir mín og Hulda. Í fórum mínum á ég gömul minningarorð sem skrifuð voru við lát Agnesar ömmu. Þar segir meðal ann- ars: „Ástvini hennar og aðra, sem þekktu hana, setur hljóða. Þessi mikla starfskona er ekki lengur á meðal okkar. Þessi viljafasta, lífs- glaða kona hefir kvatt í síðasta sinn. Þessi góðviljaða kona, sem allt vildi gera fyrir þá, sem höllum fæti stóðu, er farin. Þessi mikla rausnarkona, sem gaf tvöfalt á við flesta aðra.“ Þessi persónulýsing á ekki síður við um Gunnu frænku. Gestrisin og gjaf- mild var hún, góð og hlý. Sú kynslóð sem sleit barnsskónum í litla sjávar- og sveitaþorpinu á Höfn er nú óðum að kveðja, og þar með lif- andi tenging við löngu horfna veröld frumbyggjanna. Gunna frænka var ekki orðin fimm ára þegar afi hennar, Eymundur Jónsson frá Dilknesi, dó, en hann lést heima í Haga 1. apríl 1927 hjá Sigurði syni sínum. Ey- mundur var menntaður járnsmiður frá Kaupmannahöfn, hafði meðal annars verið einn af þeim sem smíð- uðu gömlu Laxárbrúna, sem ég man vel eftir og þótti mikil listasmíð. Hann hafði dvalið í Ameríku með hluta af fjölskyldunni frá 1902-1907 og var mikið ljóðskáld. Hann var, með orðum Davíðs Stefánssonar, sannkallaður höfðingi smiðjunnar; „voldugur maður að verki, með vit og skapandi mátt“. Afkomendur Ey- mundar og Halldóru langömmu hafa varðveitt þann dugnað sem þau hjón- in sýndu bæði í orði og verki. Og barnahópurinn stóri sem ólst upp í Haga hefur skilað vel sínu dagsverki. Gunna frænka á sinn hógværa og milda hátt. Hlutverk hennar í sögu fjölskyldunnar hefur verið stórt og minningin um hana mun lengi lifa. Við fráhvarf Gunnu er nú horfin enn ein úr stóra systkinahópnum frá Haga. Vegna búsetu erlendis í meira en tvo áratugi hef ég fylgst mest með ættingjunum úr fjarlægð, en fallega jólakveðjan frá Gunnu frænku, með myndunum hennar Öggu frá Horna- firði og fallegu ljóðunum hans Guð- bjartar, hafa yljað hver jól. Nú eruð þið bara tvö eftir. Fyrir hönd fjölskyldu minnar í Ár- ósum sendi ég Agnesi og Guðbjarti innilegar samúðarkveðjur og þakka Gunnu frænku fyrir samfylgdina. Blessuð sé minning hennar. Agnes Siggerður Arnórsdóttir.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.