Sjómannablaðið Víkingur - 01.09.1980, Blaðsíða 35
Úlfur Uggason:
Næturgreiði í enskri höfn
Sá fallegi farkostur skonnortan
Tvei Systkin, frá Skála í Færeyj-
um, 237 rúmlestir að stærð, var
smíðuð í St. Male í Frakklandi, og
því rammkatólsk, eins og sjá má á
áttavitaskýlinu. Því auk áttavitans
er þar einnig glerkassi með lík-
neskjum af Maríu Guðsmóður og
Jesúbarninu og vitringunum
þremur. Leiðarsteinarnir eru því
tveir, enda engin vanþörf á því á
þessum umróts og stefnuleysis
tímum.
Og nú liggur hún við bólverkið
í Fleetwood, og það er komið
kvöld seint í marsmánuði á því
herrans ári 1940. Fiskfarminum
hefur að venju verið skipað upp
um nóttina. Og nú á að fara á
kvöldflóðinu á stað sem Runcern
heitir og taka þar saltfarm. Run-
cern er við Manchester-kanalinn
nær 20 mílur fyrir ofan Liverpool.
Klukkan er orðin tíu að kvöldi og
skipið tilbúið til brottferðar. En
nú ætla ég að kynna ykkur fyrir
vini mínum Hasse skipstjóra, lág-
vöxnum, snaggaralegum afburða-
sjómanni, sem tyggur ókjörin öll
af munntóbaki, og hefur af því
miklar áhyggjur, að sambands-
laust verði við Danmörku, því þá
yrði hann uppiskroppa með sitt
elskaða Brödrene Braun mellem
skraa.
En áhyggjur „Karlsins“ voru af
öðrum toga spunnar þessa stund-
ina. Það vantaði sem sé tvo yngstu
hásetana, þá Nils og Poul. Þeir
voru varla tvítugir, óvanir að um-
gangast peninga, 35 til 40 pund í
túr voru auðæfi sem eitthvað varð
að gera við. Sparisjóðurinn heima
var mörghundruð mílur í burtu,
svo ekki var hlaupið að því að
VÍKINGUR
leggja aurana í hann. Nú þar að
auk var ekkert vit í því. Maður átti
á hættu að verða skotinn niður, að
sér forspurðum, og þá var ekkert
gagn í að eiga aurana á vöxtum. Á
stríðstímum láta menn hverjum
degi nægja sína þjáningu. Eitt-
hvað á þessa leið hugsuðu strák-
arnir, og sjálfsagt fleiri. Karlinn er
orðinn ærið brúnaþungur, spýtir
vænum tóbakslegi í öskustóna,
rær fram í gráðið, gjóar til mín
augunum og segir með þunga í
röddinni:
Hvern fjandann eigum við að
gera Úlfur? Kokkurinn og annar
meistari sáu strákaskammirnar á
Rörinu, þegar þeir voru að fara
um borð um átta leytið. Strákarnir
voru þá orðnir fullir og þóttust
ætla að fara til stelpna þarna í ná-
grenninu.
Blótsyrðarunan sem fylgdi á
eftir hefði komið sundurgerðar-
manni í listinni til að roðna af
öfund.
Já eitthvað varð að gera, strák-
arnir gátu sáralítið bjargað sér á
enskri tungu, eins og raunar flestir
um borð. Ég var eina orðabókar-
rifrildið á því máli, gat beðið um
tvöfaldan whisky og bjór án þess
að vera með handapat, svo
nokkru næmi. Þar sem ég átti að
heita annar stýrimaður og super-
charge á skipinu varð ég auðvitað
að leggja eitthvað til málanna.
Það eina sem við getum gert,
sagði ég, er að fara upp í dokku-
hlið, þaðan er stutt á Rörið. Ég
gæti skotist þangað, ef ske kynni
að þeir væru þar ennþá, eða í ná-
grenninu. Þú bíður hjá lögregl-
unni við hliðið á meðan.
Við örkuðum af stað. Veðrið
var háenskt, þokusúld og rigning,
almyrkvað auðvitað, nema hvað
lituð smáljós, sem aðeins lýstu lá-
rétt og nefnd eru cateyes á ensku,
vörðuðu veginn, og vöruðu við
hættum. Að flestra dómi gagna
þau aðeins haukfránum templur-
um og kvekurum, og eru því vita-
gagnslaus venjulegu fólki, eins og
slysaskýrslur ensku lögreglunnar
frá þeim tímum sanna.
Við komum í hliðið. Ekki hafði
lögreglan orðið strákanna vör.
Varð skipperinn eftir, en ég setti
stefnuna á Rörið. Ekki var það hið
rétta nafn staðarins heldur upp-
nefni. Ofnrör gríðarlangt lá frá
fremur litlum ofni, sem stóð á
miðju gólfi í salnum. Hátt var til
lofts og var ofnrörið því mjög
áberandi. Hafði því kráin hlotið af
því nafni. Óvistleg var hún, enda
höfðu menn þar skamma viðdvöl,
áðu þar aðeins á leið til skárri
staða. Þegar ég kom inn, var þar
fátt gesta, og ekki kom ég auga á
strákana. Ég lýsti þeim eins vel og
ég gat fyrir barþjóninum, meðan
ég sötraði úr ölkollu. Eftir nokkra
umhugsun, kvaðst hann halda, að
þeir hefðu verið hér fyrr um
kvöldið, og sennilega farið um
hálfníuleytið. Þetta gat alveg
komið heim við fyrri frásögn fé-
laga okkar.
Klukkuna vantaði 10 mínútur í
ellefu. Ekki var útlitið fagurt,
lóðsinn á leið um borð, og strák-
arnir gjörsamlega horfnir, yrðu
auðvitað hirtir af lögreglunni. Það
var svo sem hægt að kvíða fyrir
minna en því, svona á styrjaldar-
árum. Ég krossbölvaði, keypti
síðan hálfflösku af Gin, sem ég
hugðist gefa lögreglunni í hliðinu,
35