Náttúrufræðingurinn - 1980, Blaðsíða 59
um og þróunarhlutverki þeirra í fram-
haldi af þeirri umræðu sem hafin var
fyrr í þessari grein. Stökkbreytingar eru
að sjálfsögðu ein helsta forsenda þess að
tegundir breytist og nýjar myndist.
Áhrif þeirra á gerð og starfsemi, lífveru
eru fjarska mismunandi, allt eftir þvi
hvar breytingin hefur orðið í erfðaefn-
inu og hvers eðlis hún er. Eins og áður
var getið er einna algengast að stökk-
breytingar valdi röskun á röð amínósýra
í hvítusameindum. Enda þótt hvíturnar
séu gerðar úr nokkur hundruð amínó-
sýrum hver, má búast við að breytingar
á amínósýruröð hafi yfirleitt einhver
áhrif á starfshæfni þeirra. Stundum er
einungis um óveruleg áhrif til hins verra
að ræða, en aðrar breytingar eru mjög
skaðlegar og geta jafnvel gert hvítuna
óstarfhæfa með öllu. Sé breytta hvítan
lífsnauðsynleg fyrir lífveruna er þá ekki
að sökum að spyrja; breytingin er ban-
væn. Loks eru til stökkbreytingar sem
breyta virkni hvítu þannig að hún gegni
hlutverki sínu betur en ella eða öðlist
nýja eiginleika sem kunna að vera líf-
verunni til hagsbóta. Slíkar breytingar
eru mjög sjaldgæfar. En hafa ber í huga
að breyting sem er lífverunni gagnslaus
eða jafnvel skaðleg við ákveðin lífsskil-
yrði getur komið í góðar þarfir við aðrar
aðstæður.
Afdrif stökkbreytinga ráðast öðru
fremur af því hvaða áhrif þær hafa á
líkur lífveranna til að fjölga sér og jafn-
framt að flytja breytingarnar til næstu
kynslóðar. Náttúruval er hliðhollt þeim
breytingum sem auka á þessar líkur.
Þær sem hins vegar draga úr þeim njóta
ekki náðar náttúruvalsins og munu að
öðru jöfnu ekki ná að verða algengar
með tegundinni.
Stökkbreytingar eru sjaldgæfir at-
burðir. Stökkbreytt gen safnast samt
fyrir í genasafni tegundar og valda
þar breytileika sem einnig kemur
fram í eiginleikum einstaklinga. Varð-
veisla breytileikans í æðri jurtum og
dýrum helgast að verulegu leyti af því
að þau hafa tvö eintök af hverju geni í
líkamsfrumum sínum, eru tvílitna; oft
kemur ekki að sök þótt annað genið sé
gallað. Oll þekkjum við hinn mikla
breytileika í útliti og öðrum eiginleikum
innan okkar eigin tegundar. Hann
stafar einmitt að mjög miklu leyti af
breytileika erfðaefnisins. I hverri kyn-
slóð bætast nýjar stökkbreytingar við. I
genasafni hverrar tegundar má því yfir-
leitt finna mörgen misalgeng afbrigði af
flestum genum hennar. Erfðaefni teg-
undarinnar gengur í hverri kynslóð í
gegnum hreinsunareld náttúruvals. Við
það hljóta að verða í því breytingar á
hlutfallslegri tíðni genaafbrigða. Það
þróast. Og þróun erfðaefnis eða gena-
safns tegundar jafngildir í raun og veru
þróun tegundarinnar.
Enda þótt frumatburðir þróunar,
stökkbreytingarnar, séu tilviljunar-
kenndir, beinir náttúruval þróuninni
samt sem áður inn á ákveðnar. brautir.
Segja má að þróunaröflin vinni stöðugt
að bættri aðlögun lífveranna að um-
hverfi sínu. Breytist umhverfið eða lífs-
kjörin má búast við að valgildi ýmissa
stökkbreytinga geti breyst. Þær sem
áður voru til ógagns geta nú orðið nyt-
samlegar. Sú stefna sem þróun tegundar
tekur er því mjög háð þeim umhverfis-
aðstæðum sem tegundin býr við. En
ekki verður aftur snúið; þróunin er ger-
samlega óafturkræf. Eftir á má segja að
hún hafi fylgt ákveðnum meginbraut-
um eða stefnum. Hins vegar gefa niður-
stöður líffræðinga engar vísbendingar
um að þróunin stefni nokkurn tíma að
fyrirfram ákveðnu marki. Þeir sem af
trúarlegum eða heimspekilegum ástæð-
um aðhyllast slíkan skilning á þróun
lífsins geta ekki vænst að finna honum
stuðning í nútíma líffræði.
Mörgum leikmönnum þykir með
ólíkindum að þróun lífs frá frumstæðum
313