Samvinnan - 01.12.1967, Blaðsíða 39
í bóli og hraut. ÞaS var uggvænlegt,
fannst honum, hvaS hann þekkti þenn-
an mann lítið. Hann púlaði frá morgni
til kvölds, það vissi Smári, og þegar hann
kom heim var hann þreyttur og svang-
ur. En þess utan, hvers konar maður var
þetta þá? Hvað var hann að hugsa, þeg-
ar hann brosti framan í verkstjórann
og sagði, „mikið rétt, mikið rétt?“ Eða
á morgnanna þegar hann hneppti að sér
samfestingnum og starði annars hugar
fram fyrir sig? Hvað var hann að reyna
að segja, þegar hann ýtti fitugum disk-
inum hranalega frá sér og stóð upp frá
borðum? Hvaða tilfinningar bærðust í
þessu innfallna brjósti? Smári vissi, að
héðan af yrðu þetta eintóm spurningar-
merki????? Ekkert svar. Hann myndi
aldrei ná að kynnast föður sínum.
„Ja, ja, ég verð að flýta mér,“ sagði
hann. Eins og venjulega lét hann í það
skína að hann væri tímabundinn. Þann-
ig leið henni betur.
„Hugsaðu um það, sem ég var að segja“,
sagði hún. Hann svaraði engu, en gekk
til hennar og kyssti hana á kinnina.
„Vertu sæl, mamma mín, og hafðu það
alltaf gott“, sagði hann í huganum. Því
næst leit hann inn til föður síns og
kvaddi hann með sama hætti. Um fyrir-
ætlan hans fengju þau ekkert að vita,
fyrr en hann væri kominn út á sjó. Þá
ætlaði hann að hringja til þeirra.
„Það er hérna bréf til þín,“ kallaði
móðir hans, þegar hann var kominn í
útidyrnar. Hún færði honum umslag, en
fór síðan inn aftur. Þegar hann var
kominn út á gangstétt, reif hann upp
bréfið. Þetta reyndist þá vera boðskort
á opnun málverkasýningar. Miðvikudag-
ur, 3. júní kl. 8, stóð á bréfspjaldinu. Nú,
það var einmitt í kvöld. Sýningin var þá
að hefjast rétt í þessu. Um lengri tíma
höfðu sneplar af þessu tagi farið beint
í ruslakörfuna, hann ekki hirt um að
sjá neitt eftir aðra. En nú langaði hann
skyndilega til að fara á þessa sýningu
og kveðja þannig listalíf borgarinnar, þó
ekki væri til annars. Það var líka ágætt
að þurfa ekki að fara heim í herbergi
alveg strax. Hann gekk áleiðis að mið-
bænum og þegar hann nálgaðist Lista-
mannaskálann, sá hann fólk streyma
að. Við dyrnar sat lítil kona. Hún var
með sjal breitt yfir axlirnar, en við fæt-
ur hennar stóð rafmagnsofn. Þegar hún
tók við miðanum skalf hönd hennar
lítið eitt. Það var töluverður fjöldi kom-
inn og Smári hvarf í mannþröngina.
Hattakonur voru þarna mest áberandi.
Þær kíktu yfir sýningarskrárnar og
reyndu að finna snöggan blett á klæða-
burði annarra hattakvenna. Þess í milli
virtu þær fyrir sér málverkin og þóttust
vera áhugasamar. Ein og ein settist nið-
ur og lét fyrirberast góða stund fyrir
framan sömu myndina eins og til þess að
láta áhrifin síast inn í sig á einhvern
dularfullan hátt. Þarna var líka sjálf-
skipuð gáfumannafylking bæjarins.
„Hann hefur dágott vald á abstrakt
formurn," sagði einhver.
„Sérðu ekki að þetta er moldarbarð?"
sagði annar.
„Nei, fjandakornið.“
„Nú, málverkið heitir það,“ sagði hinn.
„Hann fer sínar eigin leiðir,“ heyrðist
úr annarri átt.
„Skemmtilega ósvífinn í litavali,"
sagði einhver.
„Þetta er líklega það sem koma skal,“
sagði annar.
Listamaðurinn sjálfur ráfaði þarna um
og reyndi að hlera það sem sagt var.
Hann virtist kolruglaður mannauming-
inn.
Ung stúlka með allt á réttum stað hafði
króað veiklundaðan listgagnrýnanda af
úti í horni. Kannski var þetta vinkona
málarans, sem vildi með snotrum til-
burðum tæla fram eitthvað jákvætt hjá
gagnrýnandanum.
Embættismenn voru þarna líka og
hnarreistir kúluvambar, sem reyndu að
vera duglegir í listatali.
Smári horfði á myndirnar, en síðan
á fólkið aftur, og skyndilega fylltist hann
ofboðslegri reiði. Reiði út í þessi mál-
verk, sem sögðu honum ekki nokkurn
skapaðan hlut, og reiði út í þetta bjálfa-
lega ístrufólk. En aðallega var hann þó
reiður sjálfum sér fyrir að gefa sig að
þessu botnlausa snobbi. Hann var raun-
verulega ekkert betri sjálfur. Nú, og það
voru einmitt svona myndir, sem hann
hafði verið að mála undanfarin ár. Allt
í einu þoldi hann ekki við þarna lengur.
Honum fannst hann verða að komast út
undir bert loft og vita þetta tilgangs-
leysi að baki sér. Hann olnbogaði sig
fram að dyrum, og á leiðinni gekk hann
beint í flasið á konu. Hún var með svart-
an túrbanhatt á höfði og einhvers kon-
ar umburðarlynt, kímið bros í öllu and-
litinu.
„Afsakið," mumlaði hann og flýtti sér
út. Það var gott að anda að sér fersku
lofti, fannst honum. Hann gekk götu úr
götu og reiðin hélt áfram að magnast.
Það var ekki þessi nuddkennda smá-
reiði, sem liggur í vöðvum og taugum
vikum eða mánuðum saman, heldur ein-
beitt, jákvæð reiði, sem vissi hvert hún
var að fara og líkt og þurrkaði móðuna
af skilningarvitunum.
Smári vissi ekki hve lengi hann hafði
gengið, en þegar hann rankaði við sér,
sá hann gamalkunn hús í öllum áttum.
Hingað var hann þá kominn eftir allt
saman, hingað í götuna þar sem hann
var alinn upp. Það var eins og hann hefði
gengið í hring, ekki núna í kvöld, heldur
allt sitt líf, og væri nú kominn aftur
til upphafsins.
Hér hafði hann leikið sér lítill drengur,
hlaupið yfir grindverk, klifrað rennur.
Og þarna í kjallaranum á gulu timbur-
húsi hafði afi hans verið söðlasmiður.
Smári gekk yfir götuna og staðnæmdist
við rykugan glugga. . . .
Liðin tíð kom á móti honum, í fyrstu
heldur ógreinileg, en smátt og smátt
skýrðust línurnar. Gamli maðurinn stóð
við vinnuborðið. Augun voru þreytuleg
og líkaminn tekinn að hrörna, en hend-
urnar síungar.
„Réttu mér töngina,“ segir hann og
strýkur leðrið sem hann er að sníða.
Hann gerði eins og gamli maðurinn bauð
og það var gott að vera til gagns. Þarna
leið Smára vel. Aldrei neinn asi, ekkert
málæði. Heilir dagar snigluðust hjá og
kannski ekki sagt annað en „O sei sei“
eða „Látum okkur sjá.“ Það fylgdi ein-
hver öryggisværð gamla manninum og
svo var það leðurlyktin.
Og núna, þar sem Smári stóð og horfði
inn í fortíð sína gegnum þennan rykuga
glugga, rann það upp fyrir honum, hvað
hann var kominn langt, langt að heiman,
hvað hann hafði fjarlægzt þetta fólk,
fólkið sitt, þessar hæglátu mannverur,
sem bjuggu í þessum gömlu, skökku
húsum. Og allt í einu var eins og eldingu
slægi niður. Það greip hann óstjórnleg
löngun til þess að mála þetta allt sam-
an, mála þennan heim, lífið við þessa
götu, hugsunarhátt fólksins, sorgir, tár,
kveinstafi og þá ögn af hamingju, sem
hverjum og einum er gefin. Hann var að
springa undan óviðj afnanlegri sýn, sem
honum fannst hann verða að festa á lér-
eft, áður en hún hyrfi honum. Hann tók
á rás niður götuna og í áttina heim.
Sýnin blasti enn við honum, þegar hann
þaut upp stigann og inn í herbergið
sitt. Ákafinn var svo mikill, að hann var
nærri dottinn um þröskuldinn. Hann fór
úr jakkanum og henti honum út í horn.
Svo reif hann hina langstæðu mynd af
strammanum og setti auðan striga í stað-
inn. Hann sótti áhöldin og byrjaði að
mála. Fyrstu pensilförin voru hikandi,
en ákafinn jókst og að lokum gleymdi
hann sér fullkomlega. Svitaperlur þöktu
ennið og augun tindruðu. Skyrtuermarn-
ar flöksuðust til og frá, en pensillinn þaut
um léreftið. Hann skynjaði hvorki stað
né stund.
Það var ekki fyrr en löngu seinna, að
hann heyrði umgang í húsinu og manna-
mál. Þá lagði hann frá sér litaspjaldið
og gekk nokkur skref aftur á bak. Ein-
kennilegir töfrar mættu honum. Það var
eins og sprenging í málverkinu, ólgandi
líf, engin reglustikuform. Efst var sjón-
deildarhringur, en neðar sást móta fyrir
húsum og fólki. Það var eins og þarna
væri komið örlítið brot af þeim veru-
leika, sem hann hafði rofnað úr tengsl-
um við. Hann kastaði sér á dívaninn og
notaleg þreyta smaug um hann allan.
Hugur hans var tær eins og litirnir í mál-
verkinu og hann lokaði augunum. Hann
hugsaði um olíuskipið, sem hlaut að
leggja úr höfn innan skamms, en um leið
fann hann að svefninn var að hrífa hann
til sín. Hann gleymdi sér andartak, en
vissi svo af sér á ný.
„Út með trollinu,“ hugsaði hann og
gleymdi sér aftur.
„Láttu það verða afmælisgjöfina hans,“
kom svo, og hann heyrði rödd móður
sinnar. Hugsun hans var eins og þoku-
slæðingur, sem þéttist æ meir, og að lok-
um féll hann í fastasvefn.
□
39