Samvinnan - 01.12.1967, Side 57

Samvinnan - 01.12.1967, Side 57
Jón Vídalín Hallgrímur Pétursson N. F. S. Grundtvig skipuðust málin í Noregi. Þar í landi bar siðbótin ekki gæfu til að eignast neina umtalsverða innlenda forystumenn, og varð afleiðingin sú, að umskiptin komu mestmegnis fram í mynd valdboðs frá Danakonungi. Innlend bókagerð varð næsta takmörkuð, en í hennar stað komu danskar guðsorðabækur, er höfðu ör- lagarík áhrif á þróun norskrar tungu, fjarlægðu hið opinbera ritmál frumgerð sinni, en skáru því danskan stakk. Verður sú saga bezt skilin í ljósi þeirra við- bragða, er íslenzkir siðbótarmenn höfðu í frammi við áþekkar aðstæður. Hér á landi reið ofbeldi Danakonungs baggamuninn við tilkomu hins nýja siðar. Ásælni konungs til kirkjueigna og brigðmælgi hans við Gissur Einarsson sýna og, að honum hefur verið annað ofar í huga en efling kristinnar menn- ingar úti hér. En þar skildi á milli ís- lendinga og Norðmanna, að hinir fyrr- nefndu höfðu frá upphafi á að skipa úrvalsmönnum, er hugðust koma í fram- kvæmd raunverulegum umbótum á trú- arlífi landsmanna og menningu. Hér var í öndverðu slegin hin tvístrengjaða harpa trúar og tungu, sem Marteinn Lúther hafði hnitað saman suður í Wittenberg. Oddur Gottskálksson þýddi Nýja testa- mentið á íslenzku, prédikanasöfn og ritl- ingar töluðu til manna þeim orðum er allir skildu, og sálmakveðskapur leit dagsins ljós, óburðugur í fyrstu, en stóð til bóta. Og í fylling tímans gekk Guð- brandur Þorláksson fram á sjónarsviðið, þetta fágæta stórmenni, sem fékk þjóð sinni í hendur Heilaga ritningu í við- hafnarmeiri útgáfu en síðan hefur sézt hér á landi, sálmabók og messusöngsbók, en þar að auki aragrúa sundurleitustu rita, er flest horfðu með nokkrum hætti til eflingar trú íslendinga og þjóðlegri reisn. Bókaútgáfa Guðbrandar verður ekki rakin í þessu máli. En starf hans og þeirra siðbótarmanna, er fyrir honum fóru, bjargaði íslenzkri tungu á örlaga- stund. íslenzkir menn þurftu aldrei að notast við danskar guðsorðabækur. Hjálpræði Guðs var þeim um ókomnar aldir boðið í búningi ástkæra ylhýra málsins, er ágætt hefur börn þessa lands frá upphafi byggðar til vorra daga. Og þeim sérleik íslenzkrar menningar, sem allt til þessa er einasta réttlæting vor í augum heimsins, var af siðbótarmönnum siglt hjá háskalegasta blindskerinu, er orðið hefur á vegi hans fyrr og síðar. Því að svo ríkt var vald trúar og kirkju yfir hugum manna á 16. og 17. öld, að hefði íslenzka kirkjan orðið að grípa til danskra rita málstað sínum til fram- dráttar, þarf ekki um það að spyrja, hvaða tunga hefði orðið ríkjandi í land- inu um síðir. Hitt er og jafn víst, að með siðbót- inni hljóp nýr vöxtur í bókmenntir lands- manna í heild og þar með ástundun ís- lenzkrar tungu bæði í lausu máli og þó einkum bundnu. Væri auðgert að finna þeirri fullyrðingu stað, þó að við það eitt verði látið lenda að vísa almennt til hinna fjölmörgu íslendinga, er á síðari hluta 16. aldar og á hinni 17. fengust við skáldskap, sagnaritun og fræðimennsku ýmiss konar, fornmenntir innlendar og erlendar, málvísindi, lýsingu lands og þjóðar o. fl. o. fl., að ógleymdri guð- fræðinni, sem iðkuð var í ýmsum mynd- um og af meiri elju en nokkru sinni fyrr og síðar. Er ekki að efa, að lútherskur rétttrúnaður skartaði hér hinni húman- ísku skikkju sinni svo sem bezt mátti verða, en bar hana íslenzkum arfi hlað- búna í skaut niður. Þjóðmenning vor átti við ramman reip að draga á þeim öldum, er í hönd fóru við lok siðbótaraldar. Krumma hins ófyr- irleitna konungsvalds herti með öllum ráðum það steinbítstak, er hún hafði náð um og eftir siðbótina, þó að íslenzkir menn og einmitt oddvitar kirkjunnar toguðust á við konunginn um hvert það hráskinn, er þeir fengu hönd á fest. Hallæri tröllriðu landsmönnum, og hæk- ilbjúgir stóðum vér um það er biskups- stólar og alþingi voru til grafar borin í lok 18. aldar. Tungan fór ekki varhluta af þessari hnignun, þrátt fyrir atfylgi meistara Jóns og annarra, er uppréttir stóðu. En þegar aftur birti af degi, átti kirkj- an enn sem fyrr sinn leik í tafli. Jón Þorláksson, Tómas Sæmundsson og Matthías Jochumsson skulu nefndir, og mun enginn minnkaður þó að sagt sé, að þessir Kristsmenn þrír hafi mörgum fremur skilað endurreisn íslenzkrar menningar síðari tíma drjúgan spöl áleiðis, en þar með varðveitt og vökvað hina fornu arfleifð siðbótarinnar með eftirminnilegum hætti. IV í upphafi þessa máls var á það bent, að verkefnaval hins almenna kirkju- fundar, sem nú er haldinn, væri mjög tímabært. Öðru er skylt að bæta við. Um þessar mundir minnumst vér 450 ára af- mælis siðbótar. Sú hátíð verður tæpast öllu betur haldin en með þeim hætti, sem nú er að stefnt, að liðsmenn lútherskrar kristni á íslandi ráðgist um, hvað gera skuli trú vorri og tungu til eflingar. í þeirri umræðu höfum vér að bak- hjarli kirkjuföðurinn sjálfan, hinn óskelfda uppreisnarmann frá Witten- berg, er elskaði Guð svo heitt, að hon- um varð andstyggð öll smásálarleg var- kárni varðandi málstað hins hæsta, en unni jafnframt þjóð sinni og tungu svo óbrigðulum sefa, að eldmóður hans end- urnýjaði ásýnd beggja. í fylgd með honum eru íslenzkir kirkju- menn margra alda, þreyttir menn af löngu stríði, en þrautseigir og óbugaðir, hertir í linnulausri baráttu fyrir erindi Guðs á jörðu og varanlegri togstreitu við þau öfl, er rista vilja íslenzku þjóð- erni blóðörn.

x

Samvinnan

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.