Samvinnan - 01.10.1972, Side 15

Samvinnan - 01.10.1972, Side 15
Þorgeir Þorgeirsson: Hugleiðing um útgáfur Til bókmenntastarfsemi þarf tvenns konar gáfur — sálargáfur og útgáfur. Eins og allir vita hafa íslendingar kynstrin öll af þeim fyrrnefndu og dáld- ið af þeim síðarnefndu. Sálargáfurnar spinna hráefnið, sjálft bókmenntaléreftið. Veröldin sem við lifum í er sigurverk sem gengur eftir lögmálum framboðs, eftirspurnar og frjálsrar samkeppni. Sál- argáfur eru verslunarvara og verða því annað hvort miklar og billegar eða litlar og dýrmætar. Þannig helst allt i röð og reglu. Eins og fyrr segir eru sálargáfur ís- lendinga miklar. Af því leiðir geysilegt verðfall þeirra á okkar dögum. ☆ Útgáfurnar eru ekki vara heldur vöru- kaupandi, iðnrekandi og vöruseljandi. Staða þeirra í framleiðslukerfi bók- menntanna er svipuð og staða slátur- húsanna í landbúnaðarkerfinu. Munurinn á þessum tveim framleiðslu- kerfum er þó sá helstur að niðurgreiðsl- urnar eru mun réttlátari í framleiðslu- kerfi landbúnaðarins. Allir framleiðendur landbúnaðarvöru fá sömu ríkisstyrki, sömu niðurgreiðslur, en úthlutunarnefnd listamannalauna (les: verðlagsnefnd bókmenntanna) vel- ur fáeina úrvals blekbændur til að sitja að niðurgreiðslunum (svokölluðum lista- mannalaunum) ásamt flokksbræðrum, vinum og ættingjum nefndarmannanna. Það er því rétt sem formaður úthlutun- arnefndarinnar oft er að segja: bók- menntirnar gætu margt af búskapnum lært. ☆ Annað atriði sem vantar í framleiðslu- kerfi bókmenntanna eru nýbýlastyrkirn- ir. Einhvers lags aðstoð við þá sem eru að hefja sinn búskap í Braga túni. Þannig voru starfsstyrkirnir hugsaðir i fyrstu en hafa í raun farið nokkuð mikið til gróinna blekbænda. Máske það sé þannig í landbúnaðar- kerfinu lika. Seinasta afrek hins litterera Alþingis vors bendir raunar til þess að víðtækara niðurgreiðslukerfi sé i aðsigi. Eða var ekki samþykkt á seinasta þingi að félags- bundnir rithöfundar ættu að skipta með sér andvirði söluskattsins af bóksölunni í landinu? Þó þessi samþykkt kæmi nú til fram- kvæmda á dögum þeirra sem hana gerðu þá er enn óleystur vandi þeirra sem eru að byrja. Þeir eru eftir sem áður hjálp- arlaust ofurseldir sláturhúsum bók- menntakerfisins: útgáfunum. ☆ Hvað skyldi nú blasa við ungum manni sem tekur þá ákvörðun að gerast hrá- efnisframleiðandi fyrir útgáfurnar — öðru nafni rithöfundur? Þetta er hráslagaleg ákvörðun eins og sjá má af því að henni eru gefin sæt og lygileg nöfn eins og „að hlýða köllun skáldskaparins", „leggja út á rithöfunda- brautina“, „helga sig bókmenntunum." Aldrei heyrist talað um „að hlýða köll- un fiskveiðanna“, „leggja út á heildsala- brautina“ ellegar „helga sig járnsmíð- inni“. Hagfræðin er undirstaða tungumálsins. Því minna sem þú berð úr býtum þeim mun skrautlegri orðtæki eru höfð um atvinnu þína. Þetta að gerast rithöfundur er í sjálfu sér afar hrokafull ákvörðun og flestir þurfa á öllu sínu sjálfstrausti að halda til að taka hana og þyrftu eins þó þeim væri ögn hjálpað til þess. Það er þó öðru nær. Byrjandinn hrekst með fyrstaárs frá- lagið sitt milli útgefendanna. Sjaldnast er það skoðað. Sjálfstraust hans verður að endast í langa göngu frá útgefanda til útgefanda og margoft til sumra þeirra án þess hann fái svo mikið sem einn hundraðshluta af söluskattinum sem skókaupmennirnir greiða. í félagsskap svokallaðra rithöfunda kemst hann eftir útgáfu tveggja bóka. Þá fyrst er von um aðild að niðurgreiðslu- kerfi sálarafurðanna: listamannalaunum. Þó því aðeins að hann hafi fyrst smjaðr- að víða og lengi og lagað framleiðslu sína að smekk fjölmargra gamalmenna, sem vaninn hefur límt við allar lykil- stöður í kerfinu, sem þó ekkert kerfi er. ☆ Rithöfundur sem gengið hefur með framleiðslu sína á milli útgefenda hér á fáránlegra hluta að minnast. Ég minnist þess sjálfur að hafa lagt handrit að fjórum bókum á skrifborðið hjá útgefanda. Þetta var geysivíðáttu- mikið harðviðarborð — á að geta and- virði svosem þrefalds innbúsins á mínu heimili. Það fór ekki mikið fyrir nokkurra ára vinnu minni á svona dýru og stóru borði. Eigandi borðsins brosti mæðulega og sagðist þrá það eitt að lesa handritin. Enga ósk átti hann heitari en að gefa þau út án minnstu tafar. Hann hafði bara ekki ráð á þvi og vildi ekki bæta því ofan á margháttaðar persónulegar raunir sin- ar að lesa þetta yfir. Maðurinn var nánast óhuggandi. Ég tók handritin af borðinu dýra, stakk þeim í handarkrikann og gekk út í gegn- um harðviðarbúðina hans nýju, opnaði koparslegna hurðina og forðaði mér sem hraðast burt úr risafjárfestingu þessa fátæklings. Þarna var eitthvað á ferðinni sem út- gáfurnar voru búnar að reikna út án þess að spyrja sálargáfurnar ráða. Þetta er meinið viðar er þarna. Útgáfurnar eru ekki staðir handa ung- um og gáfuðum mönnum. Útgáfurnar eru ekki staðir fyrir sálar- gáfurnar. Og ég sem hafði haldið að sálargáfan væri beinlínis forsenda útgáfunnar. Þá var ég ekki orðinn nógu gáfaður til að skilja alla helvítis maskínuna. Ég hélt að þetta væri spilling einka- framtaksins og fór til opinberu útgáfunn- ar og spurði eftir forstjóranum sem var ekki við. Var hann kannski oní þingi — spurði ég — því þar tekur hann hin launin sín. Nei — hann var vestur í Amríku — visast á þriðju launum sínum og allt starfsfólkið í þriggja mánaða kaffihléi að því manni skildist. Svo kom hann úr Amríkunni og sann- færði mig undir eins og hann hafði tíma frá þingstörfum um það að opinbera útgáfan er heldur ekki staður fyrir sál- argáfur. Þar er bara hæli fyrir letingja og druslur. Þar leysast engin vandamál. Nú má lesandinn ekki fara að halda að ég sé persónulega beiskur og sár út í útgefendur sem ekki hafi sinnt mínum málum. Þvert á móti. Ég skulda þessum mönnum afar margt. Mín er öll þakkarskuldin og mitt er allt vanþakklætið í okkar samskiptum. Einum þeirra skulda ég svo margar nístandi kvikindislegar kjaftasögur um náungann að ég yrði ekki borgunarmað- ur fyrir helmingi þeirra þó ég stundaði persónufræði til 150 ára aldurs. Öðrum skulda ég frábæra útlistun á því að það kosti 150 til 200 þúsund krónur að gefa út miðlungs stóra ljóðabók í sómasamlegu jólagjafaformi og standard eintakafjölda. Þeim þriðja skulda ég þökk fyrir útlist- un á því hvert tap hans yrði ef hann gæfi út annað viðameira handrit frá mér og tilboð um að taka á sig tapið. Sú þakkarskuld hefði orðið mér ofviða. Þeim fjórða og einkennilegasta skulda ég allan minn skilning á allri helvítis maskínunni. Hann greiddi mér ritlaun fyrir ritgerðasafn en hafði ekki efni á því að láta prenta það. Nei. Þessir menn eru í fullkomnu samræmi við tímana og vanda sínum vaxnir. Þeir hafa reiknað dæmin sín rétt. Starfsemi þeirra er vanalegur kapítal- ismi. Hráefniskaup, úrvinnsla vörunnar og sala hennar fullunninnar ásamt með- fylgjandi peningaveltu gerir þeim kleift að ráða sér starfsfólk. Arðránsprósentan af þessu starfsfólki er vitaskuld aðalatrið- ið. Hún er rétt reiknuð og henni er breytt í fjárfestingu eða annað arðbært pen- ingakerfisform. Sama máli gegnir um bóksöluna. 15

x

Samvinnan

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.