Andvari - 01.05.1961, Blaðsíða 32
KRISTMANN GUÐMUNDSSON:
SAGA UM HAMINGJU
Um hamingjuna eru til margar sögur, og meðan máðurinn gengur um
jörðina og kann að halda á penna, verða sífellt gerðar nýjar. Þótt hamingjan sé
aðeins ein, er hún margvísleg eins og mannshjörtun, sem eru farvegir hennar.
Og sagan sjálf, sagan um hamingjuna, eins og hún raunverulega er, verður
aldrei sögð til hlítar. Hún er daglega að mótast og heldur því áfram öld eftir
öld, eftir að visnar eru hendur þeirra skálda, sem reynt hafa að færa hana í
letur allt fram á vora tíð.
Þegar við nefnum hamingju, eigunr við oftast við ástarsælu tveggja, konu
og karls. 1 hugum flestra er hantingjan hundin ástinni. Og ástin er eins og
regnboginn, tákn friðarsáttmálans milli Guðs og manna, en þegar þú reynir
að snerta hann til að öðlast uppfyllingu óska þinna, víkur hann undan og er
ávallt jafnfjarlægur þér, hversu mjög sem þú reynir að höndla hann. Þó höfum
við sagnir um menn, sem staðið hafa undir regnboganum, og til eru þeir, sem
á sarna hátt hafa höndlað ástina og gert hana að veruleika í lífi sínu.
Vitrir menn hafa sagt, að ástin fölni og hverfi á braut, þegar allt gengur
henni í vil, en eflist við mótstöðu og sé jafnvel fegurst og indælust undii
skugga dauðans. Og sagan, sem ég ætla að segja ykkur í dag, virðist sanna
þetta sjónarmið. Eigi að síður hygg ég, að önnur sjónarmið verði að skoðast
jafngild, og að leiðir ástarinnar verði aldrei kannaðar eða kortlagðar.
Rolf og Grete voru vinir rnínir á æskudögum. Ég þekkti þau, áður en
þau giftust. Þeim var báðum allt vel gefið, sem manneskjur má prýða; ung
voru þau og falleg, greind vel og höfðu fengið hæfilega menntun. Foreldrar
beggja voru ríkir og leyfðu þeim að lita áhyggjulausu, skemmtilegu lífi. Bæði
voru vel siðuð og höfðu mikla persónutöfra; það var gott að vera í návist þeirra,
og þau áttu mikinn vinahóp.
Ég minnist þess, að það var heimilislæknir fjölskyldu Rolfs, sem sagði mér
fyrst frá því, að þau væru að draga sig saman. Læknir þessi hét Iderman Kuld;
aldraður maður, hættur störfum að mestu. Idann var mannþekkjari mikill og
ekki hjartsýnn á mannlegt eðli. Eg man enn orð hans, er hann hló stuttlega
og sagði: „Mér er vel við þau, krakkagreyin; það er leiðinlegt til þess að vita,
að þau skuli verða til að gera hvort annað óhamingjusamt.“