Andvari - 01.01.1987, Page 138
136
SIGURJÓN BJÖRNSSON
ANDVARI
skilningur endurspeglast að einum þræði í lífsviðhorfum hans og er undir-
staða þess innsæis sem er eitt mikilvægasta starfstæki hans. Enginn getur
skilið það hjá öðrum sem hann skilur ekki hjá sjálfum sér.
Sé litið á þau ritskýringarverk sem Sigurður Nordal lét eftir sig, þar sem
fjallað er um skáld og verk þeirra allt frá Hallgrími Péturssyni til Einars
Benediktssonar frá þessum sjónarhóli blasa nokkrar staðreyndir við augum.
Bókmenntaleg þekking hans var geysileg og hann virðist hafa lesið skáld-
verk flestum mönnum betur og af hreint óvenjulegu skáldlegu næmi. Smekk-
ur hans var fágaður og dómgreindin sérlega traust. f*á var og sálrænt innsæi
hans fágætlega mikið. En ekkert af þessu hefði gert umfjöllun hans að því sem
hún varð ef sköpunargáfa hans hefði ekki verið mjög frjó. Hún gerði honum
fært að fylgja skáldinu eftir inn í skáldheim þess og verða um leið skáld með
því. Sköpunargáfan olli því að hann gat fellt manninn og verk hans saman í
eina órofa heild og þegar best lét smíðað úr því nýtt listaverk.
Þá er það og áberandi hversu mjúkum höndum Sigurður fór alltaf um
sálarlíf og einkalíf skálda sinna. Skilningur hans var vissulega „samúðar-
skilningur“ án alls dóms. Og hann gekk aldrei lengra en hann taldi brýna
nauðsyn til bera. — Þegar við þetta bætist að Sigurði Nordal virðist hafa
lánast sú list að lifa fögru og innihaldsríku lífi og heyja sér öfgalitlar og
mannlegar lífsskoðanir fer varla á milli mála að hann hlýtur að hafa verið
góður sálfræðingur.
Jafnvel Hómer dottaði, segir ævafornt spakmæli. Sigurður Nordal átti sér
einnig sínar takmarkanir. Þarf að taka það fram? Það er kannski vegna þess
hversu hann komst langt sem við hörmum að hann skyldi ekki fara lengra.
Hann er líklega sá íslendingurinn sem mesta burði hefur haft til þess að rjúfa
hljóðmúrinn í stað þess að stansa við hann. Ég veit vel að þetta er mjög
ósanngjörn krafa og í rauninni mikið vanþakklæti. En spurningar sækja á:
Hvers vegna virðist hafa tekið svo snögglega fyrir sálfræðiáhuga hans eftir að
heim kom, að ekki lítur út fyrir að hann hafi lesið mikið af því sem skrifað var í
þeirri grein eftir 1920? Varla var það allt handónýtt. Hvers vegna minnist
hann aldrei á sálfræðilegar bókmenntaskýringar seinni tíma, hvorki til lofs né
lasts, frekar en þær væru ekki til? Nóg var þó til af þeim, bæði góðum og
vondum. Hvers vegna eru svo margir lausir endar sem raun ber vitni í
fyrirlestrum hans Lífi og dauða? Og hvers vegna stansaði hann svo oft á miðri
leið í skýringum sínum á persónugerð skálda? En hér falla hurðir að stöfum.
TILVÍSANIR:
1) Þorsteinn Gylfason: Inngangur að Einlyndi og marglyndi, bls. XIX-XX. Síðasta tilvitnunin eru orð
Sigurðar Nordals sjálfs, bls. XVIII.