Andvari - 01.01.1987, Page 144
142
VÉSTEINN ÓLASON
ANDVARI
veruleikans var gefin upp á bátinn og „dýrðin á ásýnd hlutanna“ leidd til
öndvegis — en það er orðatiltæki sem finna má í þessari bók, eins og í
Vefaranum mikla — er eins og Halldóri takist einkar vel að sigrast á þessum
vanda. Það er sem hann standi frammi fyrir óræktarlandi, jarðvegurinn góður
en grýttur og allt á kafi í illgresi. Hann er ekkert að tvínóna við að ráðast til
atlögu við illgresi og ryðja burt grjóti og byrjar jafnóðum að gróðursetja í
hina erjuðu jörð fagrar og blómberandi nytjajurtir. Hér er hin sama tvinnun
upplýsingar og nytjahyggju við fegurðardýrkun sem einkennt hafði starf
Fjölnismanna. Feir höfðu náð miklum árangri menningarlega, en þjóðfélagið
stóð nær í stað, og kyrkingur kom í það sem þeir höfðu gróðursett. Nú var
þjóðfélagið komið á hreyfingu, tæknivæðing hafin í sjávarútvegi, þéttbýli í
myndun. En túnskæklar menningarinnar voru smáir og þýfðir og biðu manns
með plóg og herfi og umfram allt stórhug.
Þannig er hægt að hugsa sér að viðhorf Halldórs Laxness hafi verið á
þessum árum, og vitaskuld ekki aðeins hans; margir aðrir sáu að hér var verk
að vinna, og auðvitað litu sumir það allt öðrum augum en Halldór hvaða
verkefni væru brýnust og hvernig væri haganlegast að vinna þau. Um það má
fræðast í riti Árna Sigurjónssonar, sem brátt skal vikið að.
Það er annars ástæðulaust að telja fram einkenni á ritsmíðum Halldórs
Laxness í þessari bók. Það gæti naumast orðið annað en endurtekning á því
sem margsagt hefur verið um greinasafn hans frá þessum tíma, Alþýðu-
bókina. En af því að hér er að finna bæði eldri ritsmíðar og yngri er ástæða til
að víkja stuttlega að þeim breytingum sem skynja má á áhugamálum og
viðhorfum þegar greinarnar eru lesnar í tímaröð. Skemmst er frá því að segja
að greinasafn þetta sver sig ótvírætt í ætt svo kallaðrar menningarróttækni,
sem mikið kvað að bæði á meginlandi Evrópu og á Norðurlöndum á árunum
milli heimsstyrjalda. Borgaraleg menning Evrópu er fyrirmynd og viðmiðun
höfundar, og þá vitaskuld það besta sem sú menning hafði af sér fætt í listum
og lífsháttum en ekki það sem markað var stöðnun og hræsni og líka var nóg
af. Gagnrýnin á ýmsa ósiði sem nátengdir eru fátækt íslenskrar alþýðu og
fáfræði, er eiginlega fagurfræðileg, eins og Peter Hallberg hefur bent á,
fremur en að hún sé reist á kröfum um félagslegt réttlæti. ,,Það er ljótt að vera
fátækur, elsku Dísa mín,“ segir Halldór við íslensku stúlkuna. En jafnframt
gætir vitaskuld mikillar nýjungagirni: skáldið er hugfangið af örum breyting-
um á veröldinni og skipar sér ótrauður í fylkingarbrjóst nýjungamanna:
Með þeirri þjóð er lífræn menníng, þar sem nýúng fylgir nýúng; ný föt, ný ráðabreytni,
ný endurfæðíng, ný hugsun, ný orð, ný nöfn — þetta eru altsaman dálitlar páskahátíðir í
mínum augum. Eitt er sem ég tek frammyfir hið gamla, að öðru jöfnu, og það er hið nýa.
(87)