Andvari - 01.01.2006, Page 72
70
HJALTI HUGASON
ANDVARI
sér spurningar og ef til vill túlkanir á tilveru mannsins í heiminum. Þegar slík
glíma fer fram undir trúarlegum formerkjum einkennist hún þó oftast af því
að notaður er orðaforði eða táknheimur einhverra trúarbragða eða trúarhefðar;
notuð eru minni (í þröngri merkingu) sem sótt eru til trúarrita eða gengið er út
frá hugmyndum eða lífsviðhorfum sem sótt eru til einhverrar trúarhefðar eða
skírskota til trúarlegrar vitundar þeirra sem höfðað er til.17 Að hefðbundnum
skilningi vísar hið trúarlega líka jafnan til handanlægs veruleika, guðlegr-
ar, andlegrar eða yfirnáttúrulegrar víddar sem liggur handan tíma og rúms
- einhvers konar eilífðar. Unnt er að ástunda heiðarlega glímu við hinstu rök
mannlegrar tilveru án þess að nokkuð af þessu komi við sögu. Þegar sú er
raunin virðist rétt að ræða um tilvistarlega en ekki trúarlega glímu. Hér er því
litið svo á að merkingarbær munur sé á þessu tvennu. A það skal þó fallist að
á tímum aukinnar einstaklingshyggju í trúarefnum og upplausnar trúarhefða
sem mjög gætti allan skáldferil Snorra er oft mjótt á munum milli hins trúar-
lega og tilvistarlega. í raun er heldur ekkert aðalatriði að draga skörp skil á
milli þessara tveggja vídda í eilífri glímu manna, ekki síst listamanna, við
leyndardóminn sem felst í mennskunni og stöðu mannsins í heiminum.
Segja má að rauði þráðurinn í ljóðum Snorra Hjartarsonar sé glíma hans
við tilveru mannsins, einstaklings og þjóðar, í fallvöltum heimi. Það sem oft
er nefnt firring mannsins skapar þar sérstaka stöðu þrátt fyrir að hún komi
ekki oft fyrir á yfirborði ljóðanna. Með firringu er átt við þá tilfinningu
einstaklingsins að hann sé einangraður frá náttúrunni, félagslegu umhverfi
sínu, uppruna, gildum og reynslu fyrri kynslóða, jafnvel tilfinningum sínum
og öðru því sem mótar sjálfsvitund hans. Því má segja að firringin feli í sér
framandleika einstaklingsins frammi fyrir sjálfum sér og leiði þar með til
brostinnar sjálfsmyndar og röskunar á félagslegum tengslum og tilfinninga-
lífi. Firringin leiðir líka óhjákvæmilega til tómleika- og tilgangsleysiskennd-
ar. Eins getur hugtakið vísað til samfélagsins og felur þá í sér að það hafi
fjarlægst hin mennsku gildi, tekið að lúta eigin lögmálum, orðið vélrænt. Var
firringin mikilvægt viðfangsefni heimspekinga og guðfræðinga um og eftir
miðbik síðustu aldar eða um það leyti sem Snorri var virkastur sem ljóðskáld.
Einkum voru þeir sem mótaðir voru af tilvistarstefnunni uppteknir af firring-
unni.18
I þessari grein verður leitast við að varpa ljósi á hvernig Snorri Hjartarson
tekst á við firringuna í kveðskap sínum, hvernig hann lýsir henni en umfram
allt hvernig hann leitast við að vinna bug á henni. Jafnframt verður spurt
hvort sú lausn geti á einhvern hátt talist trúarleg. Fyrst verður þó stutt grein
gerð fyrir nokkrum helstu einkennunum á kveðskap Snorra. Verður þar höf-
uðáhersla lögð á þá þróun sem varð á boðskap eða inntaki ljóðanna.
\
J