Andvari - 01.01.2006, Qupperneq 125
ANDVARI
HAMLET VIÐ HEIMSKAUTSBAUG
123
- Umgjörðin var afar einföld, en „funktionelt“ opin rými sem í sömu andrá
var „klástófóbískt“, sem orsakaði innilokunarkennd. Formið skírskotaði til
stílfærðs kastala fyrri tíma. Einmana trjádrumbur á miðju sviði, eins konar
tákngervingur hins þögla sögumanns sem varðveitir vitneskju um örlög per-
sónanna í harmleiknum, Hamlet.“
Sýningin tók tvo tíma og fimmtíu mínútur með hléi. Textinn var þannig
mikið styttur. Hvergi var samið inn í hann og texti hvergi slitinn úr samhengi
þannig að ákveðnar setningar eða heil atriði kæmu fyrir í annarri röð en
skáldið virðist hafa hugsað sér. Hins vegar var mikið stytt í hverju atriði: fyrst
hafði leikstjóri komið textanum niður í 80 síður í A4-broti, síðan var enn haf-
inn hnífur á loft og sumir leikendanna duglegir við niðurskurðinn. En atburða-
röð var í samræmi við gang mála í leiknum eins og Shakespeare virðist hafa
hugsað sér hann. í samræmi við grunnhugsun sýningarinnar var vikið við ein-
stökum orðum, eins og því, að ungmennin, Hamlet, Hóras, Laertes og Ofelía
þúuðust. Heitið sem Hamlet gefur Póloníusi: fisksali, á ensku fishmonger, var
breytt í flyðrusali. í samræðum Hamlets um ríkiserfðir við Rósinkranz og
Gullinstjarna var braglínunni: Já, en þegar grasið vex, máltækið er farið að
mygla, breytt í: Þegar grasið vex í vor/ verður bikkjan dauð úr hor.
Atriðin urðu samtals 18. Fyrsta atriði hermannanna var að fullu sleppt, en
leikurinn hófst í ráðsalnum og samtal Hamlets og Hórasar (og Marsellusar
sem kom til staðfestingar því að vofan hefði sést) síðan í beinu framhaldi.
Fjórða atriði fjórða þáttar var tekið með, enda gegndi það lykilhlutverki til
skilnings á leiknum. Hórasi voru falin tilsvör aðalsmanns í fimmta atriði
sama þáttar. Grafaraatriðið var stytt og grafarinn aðeins einn. Lokaatriðið
mikið stytt og Fortinbras falin síðustu orðin.
Leikurinn er ortur á stakhendu eða blank verse og var mikið kapp lagt á
að láta skáldskap bragarins njóta sín um leið og eðlilegt hljóðfall setning-
anna flytti áfram inntak verksins; leikur í bundnu máli getur aldrei orðið né
á að vera raunsæilegur; hins vegar var leikurinn ekki stílfærður nema að því
leyti sem form hans krefur eða stílfærslan sprottin sjálfkvæmt í hita leiks-
ins. Leikmátinn var sparneytinn, engar óþarfa hreyfingar eða viðbrögð, ein
hreyfing eða eitt svipbrigði fyrir hvert viðbragð, hvort sem var um tilfinningu
eða nýja hugsun að ræða. Rytminn var ýmist ör eða hægur, ekki ósvipað og í
Amlóða sögu, og andstæðar stemningar leystu hver aðra af hólmi.
Leikmáti og yfirbragð var í samræmi við þá fagurfræði sem ég hafði verið
að móta með mér undanfarin ár eða áratugi, sbr. t.d. Fedru í Þjóðleikhúsi,
sýningar Bandamanna og Afturgöngur í Kaupmannahöfn. Minna bar á póst-
módernískum tilvísunum en í sýningum Bandamanna, en með áherslum
var stöðugt vísað til nútímans, þó að tími leiksins væri sögulaus. Mikið var
lagt upp úr samræmi í hreyfingum allra þeirra sem samtímis voru á sviðinu
(æfingatíminn gekk að nokkru beinlínis út á það með sérstökum æfingum í þá