Heima er bezt - 01.03.1962, Blaðsíða 7

Heima er bezt - 01.03.1962, Blaðsíða 7
þriggja bamanna, og sjálfur var hann flestum mönn- um orðheldnari bæði fyrr og síðar. Voru þá eftir hjá Jóni, af Hraukbæjarfjölskyldunni, Guðrún, sem var elzt barnanna, og þá orðin nærri fullvaxta, og Sigvaldi, er yngstur var. Síðla árs 1870 fæddi María tvíbura. Fæðingin gekk mjög erfiðlega og var læknir kvaddur til hjálpar. Þá var læknir á Akureyri Þórður Tómasson, Sæmundsson- ar. Var hann þá nýtekinn við embættinu. í þetta skipti hitti svo á, að þegar sendimaðurinn kom, var Þórður allmjög við skál, en fór þó upp eftir, að Eyrarlandi, með sendimanninum. Er hann kom inn til Maríu settist hann fyrst á stól við rúm það, er hún lá í, og er hann ætlaði að athuga hana nánar og reis úr sætinu, steyptist hann fram á gólfið og komst ekki af sjálfsdáðum á fæt- ur aftur. Varð að draga hann í sætið, og varð engin hjálp af hans hendi. Börnin fæddust þó að lokum eftir mikil harmkvæli, og voru bæði andvana. Þegar Jón fluttist að Eyrarlandi, og næstu ár þar á eftir, voru harðindi mikil og hafísar öðru hvom. Þá var búsvelta algeng hjá fátæklingum, sem reyndar oftast endranær, en Jón græddi drjúgum fé. Með fram bú- skapnum stundaði hann ýmsa atvinnu aðra. Hann tók upp ógrynni af mó og seldi bæjarbúum, stundaði sjó, veiddi síld í stórum stíl, en þá gekk hún ósjaldan inn á Akureyrarpoll og upp að fjörusteinum, starfaði að upp- og framskipun, er skip komu með vörur eða sóttu, sinnti og eyrarvinnu ef hún til féllst. Þá ól hann upp sláturgripi handa efnaðri borgurum bæjarins, og kom ár sinni svo fyrir borð, að hann sat þar oft einn að. Ekki vann hann erfiðisvinnu sjálfur, en hafði margt fólk til starfa, og forsagnir hafði hann á öllu, er hann’ lét aðhafast. Hann drakk mikið og var handgenginn verzlunarstjórum og öðmm, sem taldir voru heldri menn í bænum, en var þeim þó ekki hlynntur, heldur óvinveittur eins og fyrr er drepið á. Peningaspil voru þá talsvert spiluð á Akureyri meðal efnaðri manna. Tók Jón allmikinn þátt þar í. Var hann heppinn og slyngur spilamaður, og allákafur til þess gróða sem ann- ars. Græddist honum og mjög fé og var orðinn sterk- efnaður, er hann fór frá Eyrarlandi. IV. Þó að Jóni fénaðist vel á Eyrarlandi og flest virtist þar leika honum í lyndi, þreyttist hann samt á verunni þar, og kunni þar aldrei vel við sig. Hann afréð því að flytja þaðan svo fljótt sem hentugt tækifæri gæfist, og hann fengi aðra jörð við sitt hæfi. Varð honum að þeirri ósk sinni árið 1872. Silfrastaðir í Blönduhlíð losnuðu þá úr ábúð og fluttist Jón þangað búferlum um vorið. Ekki er þess getið hvernig Maríu gazt að ráðabreytni þeirri, og trúlega hefur hún séð eftir nágrenndinni við fyrirfólkið á Akureyri, en orðið að beygja sig og hlíta þar forsögn manns síns. Svo sem kunnugt er liggja Silfrastaðir í þjóðbraut. Þar var gestkvæmt mjög af langferðamönnum bæði til gistingar og annarrar fyrirgreiðslu. Jón sótti því um leyfi til veitingasölu og fékk það. Brennivín seldi hann þá óspart ásamt öðrum þörfum ferðamanna. Drakk hann sjálfur mikið, og var oft fulldrukkinn að kveldi. En þann hátt hafði hann þar á, að aldrei drakk hann nema einn dag í senn, og næsta morgun var hann jafn- an á fóturn fyrr en aðrir, og rétti sig aldrei af, eins og það er kallað. Aldrei varð honum meint við drykkinn, svo að séð yrði. A Silfrastöðum kom Jón upp stórbúi, enda er jörð- in útigangsjörð ágæt, en á þeim árum var það talinn einn af höfuðkostum 'hverrar jarðar. Efnaðist Jón þá stöðugt, þó að sparsemi væri lítil og margt í sukki haft. Almennra vinsælda naut hann ekki, er hann bjó á Silfrastöðum, hvað sem valdið hefur, en bæði fyrr og síðar varð honum vel til vina, einkum þó er á ævina leið. Hjúahald gekk honum ágætlega, enda var hann umburðarlyndur við hjú sín sem aðra og góðsamur, þó að hroðyrtur væri hann stundum, er hann var fullur, en jafnan var það allt reiðilaust af hans hálfu, þó að orðbragðið væri gróft. Jón galt hærra kaup en almennt gerðist, en ódrjúgt reyndist það þeim mönnum hans, er drykkfelldir voru. Voru brennivínsstaupin bæði mörg og dýr, er þeir fengu, og oftast reiknuð til fulls gjalds. Eina dóttur eignuðust þau hjón, Jón og María, eftir að tvíburamir dóu, sem fyrr er nefnt. Var hún heitin Magdalena í höfuðið á Magdalenu Thorarensen konu Odds lyfsala. Réði María nafngift þeirri. Stúlka þessi dafnaði vel og var efnilegt barn að öllu leyti og for- eldrum sínunt mjög hjartfólgin, enda eina barnið, sem þau áttu á lífi. Hún dó úr barnaveiki rétt fyrir jólin 1880. Var þá harmur mikill kveðinn að foreldrunum, og undu þau ekki á Silfrastöðum lengur. V. Svo sem kunnugt er var Möðruvallaskólinn stofnað- ur haustið 1880, og vorið eftir voru Möðruvellir lausir úr ábúð. í ársbyrjun 1881, sótti Jón um brytastöðuna við skólann og jafnframt um ábúð á Möðruvöllum. Fékk hann brytastarfið og tvo þriðju hluta Möðru- valla til ábúðar, en Jón Hjaltalín, skólastjórinn, tók einn þriðja. Fluttist Jón því brott frá Silfrastöðum til Möðruvalla, vorið 1881. Var þetta allt nokkuð mikið í fang færzt, að ætla sér að fæða fimm tugi skólapilta, auk margs heimafólks, en þá var hart í ári og víða fá- tækt mikil. Fyrsta vetur skólans hafði Kristín Tómasdóttir frá Steinsstöðum, Ásmundssonar, ekkja séra Jóns Thorlaci- us í Saurbæ, fæðissölu til pilta. Hún var góðkvendi frá- bært, ákaflega mild og móðurleg við strákana alla jafnt, og unnu þeir henni næstum sem móðir þeirra væri. Og þó að fyrir kæmi að allt væri ekki sem fullkomnast með fæðið, sættu þeir sig við það, er þeir fundu að hún gerði allt, sem unnt var til þess, að líðan þeirra væri sem bezt, en vetur þennan voru óskapleg harð- indi og því óhægara með aðdrætti og matreiðslu alla. (Framhald). Heima er bezt 79

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.