Heima er bezt - 01.03.1962, Blaðsíða 29
spyrja hana um leyfi áður, eða gerðirðu það kannske?"
„Heldurðu að ég hafi fæðzt í gær, mamma mín,“
sagði hann og smellti koss á kinn hennar. „Að ég láti
þig veiða svona upp úr mér!“
„Það er þá bezt að halda heim, svo ég fái að sjá ást-
ina þína sem fyrst.“
Þau spjölluðu saman á heimleiðinni og minntust ekki
meir á Astu.
Ingunn opnaði herbergisdyrnar hægt eftir að hafa
drepið á dyr, en ekkert svar fengið. Karlsen gægðist
yfir öxl henni.
Ásta lá steinsofandi, með annan handlegginn undir
höfðinu, og Ijósa hárið flóði eins og gull um koddann.
Ingunn lokaði hurðinni aftur. „Mér sýnist þetta ekki
vera annað en barn,“ sagði hún og tók að hita kaffið.
Karlsen settist við borðið.
„Hún er heldur ekki nema seytján ára,“ svaraði hann.
Ingunn virti son sinn fyrir sér yfir borðið. Hún gat
ekki að sér gert að fyllast hreykni í hvert sinn, er hún
leit á hann. Það yljaði henni inn að hjartarótum, hve
góður og hugulsamur hann var alltaf við hana, og hana
dreymdi um að hann stofnaði sitt eigið heimili, færði
henni tengdadóttur og barnabörn, helzt mörg. Hún
elskaði lítil börn, þau voru það yndislegasta, sem hún
gat hugsað sér.
Það hafði svo oft hvarflað að henni, eftir að Kalli
var svona lítið heima, hvort það hefði ekki verið
heimska af sér að giftast ekki, þá hefði hún átt fleiri
börn, og sum máske enn verið lítil og þurft hennar
með. En í hvert sinn er hún hafði átt kost á að giftast,
hafði minningunni um föður Kalla skotið upp í huga
hennar. Mynd hans vildi ekki blikna. Hún lét sér því
nægja að hugsa um löngu liðnar yndisstundir og láta
sig dreyma um, hvernig framtíðin hefði getað orðið,
ef Margrét hefði ekld komið til sögunnar.
Hafði Sigurður orðið hamingjusamur með henni?
Hún var ekki viss um það. Þau voru mjög ólík að öllu
leyti. Allt var það arfsvon Margrétar að kenna, hvernig
fór. Hann var stórhuga, en skorti fé, sjálf hafði hún
ekkert átt til að leggja í búið. Á þeim árum hafði stað-
ið ljómi af Hábæjar-heimilinu, og Margrét eini erfing-
inn. Þó fór það svo, að lítið var eftir af auðnum, þegar
faðir hennar dó. Það var eins og allt gengi á afturfót-
unum fyrir gamla manninum síðustu árin. Einu sinni
hafði hann borið höfuð og herðar yfir sveitunga sína,
en dó loks sem hálfruglaður, volaður vesalingur, sem
öllum var orðinn til ama og leiðinda.
Ingunn hafði heyrt, að Sigurður drykki töluvert,
sérstaklega hefði hann gert það fyrstu árin.
Aumingja Siggi, hugsaði hún og andvarpaði. Hann
hefði Hklega orðið eins ánægður mcð henni, þó þau
hefðu verið fátæk. Og hefði hún sagt honum, að hún
ætti von á barni, hefði hann aldrei látið hana fara, svo
að þessi sonur hans var áreiðanlega verr innrættur en
hann.
„Hvað ert þú að hugsa urn, mamma mín?“ spurði
Karlsen og stóð upp. „Þú varst svo annars hugar, en nú
skalt þú fara að sofa, ég fer að kaupa í matinn, og svo
vek ég ykkur báðar, þegar ég er búinn að brasa. Ég
gæti trúað, að bækurnar hafi freistað Ástu í nótt.“
Hann ýtti móður sinni ákveðinn út úr eldhúsinu og
lokaði hurðinni.
Allt í einu flaug honum dálítið í hug, sem hann
hafði gleymt að spyrja hana um. Hann gekk inn í
herbergið til hennar og sagði:
„Heyrðu, mamma. Eg spurði Ástu, hvort hún þekkti
einhvern Karl á Lágeyri, og það kom í Ijós, að eng-
inn Karl sem á þar heima, getur verið faðir minn, því
sá elzti er 10 árum eldri en ég, og sá yngsti er í vöggu.“
Móðir hans brosti.
„Vertu rólegur, Kalli minn. Faðir þinn er enn í
sama húsinu sem hann var í fyrir 20 árum. Máske
skreppum við einhvern tíma þangað, og ég sýni hon-
um þig, — það er að segja, ef ég þekki hann þá aftur.“
„Nei, mamma,“ andmælti Karlsen. „Þú getur ekki
farið með mig eins og krakka lengur. Því má ég ekki
vita, hver Karlinn er og sjá hann, mig grunar sem sé,
að hann gangi ekki undir þessu Karls-nafni þar.“
„Jæja, jæja, góði minn. Áður en ár er liðið, skaltu fá
að vita, hver hann er, því skal ég lofa þér, — ef þú
verður góður drengur!“ bætti hún við glettnislega. „En
farðu nú að hugsa um matinn og lofaðu mér að sofa
í friði.
Karlsen blístraði glaðlega, meðan hann steikti rifjung-
ana og þeytti rjómann út á ávextina. Nú átti að verða
veizla, namm, namm! Hann horfði löngunaraugum á
pönnuna, en ef hann borðaði fleiri núna, yrði hann að
hringja í kaupmanninn og biðja hann að senda meir.
Eftir stutta umhugsun gómaði hann enn eitt rifið, nag-
aði það af beztu lyst og henti því síðan í ruslafötuna
hjá hinum.
Hann var duglegur að matreiða og kunni ágætlega
við sig í eldhúsinu með stóru, köflóttu svuntuna af
móður sinni bundna framan á sig. Þau mæðginin fóru
oft í útilegur á sumrin, þegar hann var í landi. Þá tóku
þau lífinu með ró, bjuggu í tjaldi og létu hverjum
degi nægja sína þjáningu.
Eins hafði hann oft farið með félögum sínum, því
hans mesta yndi var að ferðast um landið. Náttúran
heillaði hann til sín, en væri hann of lengi í landi, tók
eirðarleysið að gera vart við sig. Þá var ekki um annað
að gera en halda á sjóinn aftur, þar leið honum alltaf
vel.
„Hafið er föðurland mitt,“ sagði hann oft í gaman-
blandinni alvöru, og það var töluvert til í því.
Þegar maturinn var tilbúinn, vakti Karlsen móður
sína og síðan Ástu. Hún var alveg miður sín. Kjarkur-
inn var alveg þrotinn. Eftir stutta stund yrði hún að
standa augliti til auglitis við þessa konu, sem á þessari
stund virtist hafa örlög hennar í höndum sér. Mundi
hún vilja skjóta skjólshúsi yfir hana, eins og Karlsen
taldi svo víst, eða elcki?
Framhald.
Heima er bezt 97