Heima er bezt - 01.03.1962, Blaðsíða 26

Heima er bezt - 01.03.1962, Blaðsíða 26
andi. „En þér er illa við þau, og ekki lái ég þér það. Gleymdu þeim bara, láttu fortíðina eiga sig. Þú munt sjá, að þetta er ekki svo voðalegt. Verra hefði verið, ef þú hefðir gifzt honum, og þau svo öll litið niður á þig. Og þó get ég ekki séð, hvaða ástæðu þau hefðu til þess.“ Asta þagði lengi. „Karlsen,“ sagði hún loks. „Segðu mér nú eitthvað um þig, nú veiztu allt um mig, en ég ekkert um þig, nema hvað þú heitir.“ Hann hló. „Ég nenni ekki að tala um sjálfan mig núna. Það er svo dauðleiðinlegt umræðuefni, en seinna máske. Nú þarft þú líka að fara að sofa, og ég að fara á vakt.“ Hann fylgdi henni að klefa nr. 3. Þar þakkaði hún honum fyrir skemmtunina í hálfum hljóðum, því ekki var að treysta því, að sú gamla svæfi. Hurðin á klefanum opnaðist ofurhægt, og tvö for- vitin augu horfðu á þau með samblandi af öfund og hneykslun. Karlsen sendi henni fingurkoss, þegar hann tók eftir henni, en sú gamla fussaði og skellti í lás. Þau litu bros- andi hvort á annað. „Nú ert þú heppin, Ásta, að hafa þessa verndar- vætti í klefanum þínum,“ hvíslaði hann við eyra hennar. Hún svaraði ekki, en opnaði klefann og smeygði sér inn. Var hann þá eins og allir hinir? Nei, ekki alveg eins. — „Ekki veit ég, hvar þessi ungdómur lendir,“ tautaði sú gamla, meðan Ásta var að hátta, og sneri sér harka- lega í rékkjunni. En Ásta breiddi upp yfir höfuð til að heyra ekki vandlætingarþus kerlingarinnar. Hún vildi fá að njóta drauma sinna um þessa nótt í friði. III. Nýr heimur opnast — Suðurleiðin gekk fljótar. Það var minni viðdvöl á höfnunum, og sumum alveg sleppt, þar á meðal Lág- eyri. Ásta var því fegin, hún kærði sig ekki um að sjá þann stað aftur, fyrst um sinn að minnsta kosti. Það stóð hópur af fólki á hafnarbakkanum í Reykja- vík, þegar skipið lagðist þar upp að. Borgin var upp- ljómuð, og í augum Ástu leit hún út sem ævintýraborg, þar sem allt var á sífelldu iði. Sterk einmanakennd greip hana, og ekki tók betra við, þegar fólkið fór að heilsast og kallast á. Henni var stjakað til hliðar og ýtt aftur og fram. Hún var alls staðar fyrir. Ættingjar og vinir komu til að taka á móti öllum nema henni. Fólk- ið hló og masaði allt í kringum hana. Með kökk í hálsi rölti hún ofan í klefa sinn og fór að taka saman dótið sitt. Síðan settist hún á rekkjustokkinn og studdi hönd undir kinn. Karlsen hafði hún ekki séð síðan um há- degi. Þá hafði hann sagt henni, að hún yrði að bíða eftir sér. Hann gæti ekki farið alveg strax í land eftir að lagzt væri upp að. Og hér beið hún og gat ekkert annað gert. Því þó hún færi í land, rataði hún ekkert og vissi ekki einu sinni, hvernig hún gæti náð í leigubíl. Það var nú fyrsta atriðið. Gangandi kæmist hún ekki langt með farangur- inn, þótt lítill væri.... En að fara með ókunnugum manni, — því að hvað þekkti hún Karlsen? Þannig sat hún í þungum þönkum, þegar Karlsen kom niður. „Jæja, Ásta mín, þú ert þá hér enn þá. Ég var hálf- hræddur um, að þú laumaðist á land frá mér. Finnst þér ekki ofurlítil áhætta að fara með mér einum?“ Skelfingarsvipur kom snöggvast á andlit Ástu. Hún starði framan í hann, en varp svo öndinni léttara. „Nei, Karlsen,“ sagði hún svo. „Geti ég ekki treyst þér, verð ég að trúa, að allt fólk sé jafnvont í heimin- um, og sumir segja.“ „Þakka þér fyrir traustið, vinkona,“ sagði hann hlý- lega og tók um axlir hennar. „Ég skal ekki bregðast þér.“ Þau stigu upp í leigubíl, sem beið á bryggjunni, og eftir stundarkorn voru þau komin á leiðarenda. Karl- sen bar dót þeirra upp á tröppurnar á stóru húsi og hringdi einni dyrabjöllunni. Enginn svaraði, svo hann tók að leita að lyklinum í vösum sínum og opnaði síð- an, eftir að hafa skýrt Ástu frá því, að mamma sín myndi vera að vinna og því ekki heima. „Mamma,“ endurtók hún. „Átt þú mömmu á lífi?“ Hann hló. „Auðvitað á ég mömmu. Hefirðu vitað nokkurn verða til án þess. Var ég ekki búinn að segja þér frá henni?“ Ásta hristi höfuðið. „Nei, ég veit nú heldur lítið um þig.“ Hann gekk á undan upp breiðan, teppalagðan stiga og inn í stórt herbergi, dró gluggatjöldin fyrir og kveikti Ijósið. Ásta stóð kyrr frammi á ganginum og horfði þegj- andi fram fyrir sig. „Velkomin heim,“ sagði Karlsen og leiddi hana bros- andi inn í stofuna. „Hér í þessu húsi á heimili þitt að vera, svo lengi sem þú vilt, vinkona,“ sagði hann á meðan hann hjálp- aði henni úr kápunni. „En mamma þín?“ stundi hún upp. „Henni kynnist þú á morgun;“ svaraði hann. „Hafðu engar áhyggjur, hún bítur ekki.“ Ásta leit í kringum sig. Svona fínt herbergi hafði hún ekki komið inn í áður. Það var gólfteppi hornanna milli, en ekki aðeins bleðill á miðju gólfi eins og hjá kaupmannshjónunum. í einu horninu stóð stórt píanó, og á því þrjár stórar myndir, í miðjunni mynd af mið- aldra konu, eða tæplega það, hinar tvær auðsjáanlega af Karlsen, önnur nýlega tekin, en hin af honum á fermingaraldri. Svefnsófi stóð við einn vegginn, en annar var þak- inn bókum frá gólfi til lofts, djúpur stóll þar rétt hjá, og^gólflampi við hlið hans. Ásta hugsaði með sér, hve dásamlegt það væri að 94 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.