Heima er bezt - 01.03.1962, Blaðsíða 30
að þykir alltaf nokkrum tíðindum sæta, þegar
nýr rithöfundur kemur fram á vettvang al-
þjóðar. Ekki sízt verður mönnum starsýnt á
það, þegar um er að ræða menn, sem kunnir
eru á öðrum sviðum, og engan hefur órað fyrir, að
fengjust við skáldskap, þótt ekki væri nema í hjáverk-
um. „Heima er bezt“ kynnir í þessu hefti nýjan skáld-
sagnahöfund, sem ætla má, að falli lesendum vel í geð.
Er það hvort tveggja, að saga hans, sem verður fram-
haldssaga þessa árgangs, er viðburðarík og spunnin af
sérstæðum toga íslenzks þjóðlífs og sögu. Höfundur-
inn er Eiríkur Sigurbergsson, viðskiptafræðingur.
Fjarri fer því, að hann sé ókunnur íslenzkum lesend-
um, því að um mörg undanfarin ár hefur hann oft-
sinnis kvatt sér hljóðs í útvarpi og ritað í blöð. Erindi
hans og greinar hafa öðrum þræði fjallað um ókunn
lönd og þjóðir, en hins vegar um viðskiptamál og þjóð-
hagsfræði. Hafa greinar þessar og erindi einkennzt af
skýrri frásögn, rökfastri hugsun og skarpri athyglis-
gáfu. En fæstum mun þó hafa til hugar komið, að hinn
gjörhugali hagfræðingur fengist við skáldsagnagerð í
tómstundum sínum, og enn síður að hann hefði þegar
gerzt allmikilvirkur á því sviði.
Eiríkur, Sigurbergsson er fæddur 5. september 1903
að Fjósakoti í Meðallandi. Foreldrar hans voru hjón-
in Sigurbergur Einarsson og Arný Eiríksdóttir, og var
hann næstyngstur 13 systkina. Voru þau hjón bæði
greind vel og bókhneigð. Segja svo kunnugir menn, að
Sigurbergur hafi verið gæddur frábærri frásagnargáfu,
en Arný minnug með afbrigðum á sagnir, kvæði og
sálma og haldið því óskertu fram á síðustu ár, og varð
hún þó nálega hálftíræð. Vhrðist því ekki þurfa langt
að leita til þeirra uppsprettna, sem sagnagerð Eiríks er
frá runnin.
Fara má nærri um, að ekki muni Eiríkur hafa haft
gilda sjóði úr foreldrahúsum til náms og frama. En með
fádæma dugnaði og tilstyrk góðra manna brauzt hann
í gegnum menntaskólanám, og lauk prófi 1926. Hóf
hann þá nám í læknisfræði við Háskóla íslands, en þá
opnaðist honum leið til utanfarar, og hélt hann til
Parísar. Nam hann þar fyrst náttúrufræði um skeið,
en hvarf síðan að viðskiptafræði og lauk prófi í þeirri
grein 1931. Skömmu síðar veiktist hann af berklum og
hefur hann tvívegis dvalizt á Vífilsstöðum af þeim
sökum. Annars hefur hann unnið á vegum Fiskimála-
nefndar, verðlagsstjóra og viðskiptaráðs, en lengstum
þó stundað verzlun og kennslu.
Fjölbreyttur námsferill og margháttuð störf og
reynsla hafa gætt hann margbreytilegri þekkingu og
kynnt honum fjölda manna, og má sjá þess merki í
sögu hans. Annars verður hún ekki rakin, svo að les-
endurnir séu ekki sviptir þeirri ánægju að geta sér til
uin framhaldið hverju sinni.
„Heima er bezt“ fagnar því, að hafa fengið hina
fyrstu skáldsögu Eiríks Sigurbergssonar til birtingar.
98 Heima er bezt