Iðunn : nýr flokkur - 01.10.1926, Blaðsíða 67
IÐUNN
Rauða rúmið.
309
vana^sínum. Hann hafði ekkert minst á það, að við
myndum sjást aptur, sem hann þó altaf gjörði.
Ég sneri við, og gekk inn aptur.
»Þér mintust ekkert á það þegar ég var að fara, að
við myndum sjást aptur, eins og þér þó eruð vanur«,
sagði ég.
»Þér tókuð eptir því«, sagði hann og hló, en það
var eins og mér heyrðist hláturinn vera í öðru herbergi.
»En ég skal segja yður, að það er svona með tilviljuna,
sem eins og ég hefi margsagt yður ekkert er nema við
sjálfir, að hún veit ekki altaf fyrirfram hvar hún ætlar
okkur næturstað«.
Með það fór ég. — — — — — — — — — —
— — Ég kom næsta dag eldsnemma til Eyvindar. Ég
var í miklum önnum þá dagana vegna kvefsins, svo ég
fór snemma ofan, og ég held að ég hafi komið til Eyvind-
ar milli klukkan 8 og 9.
Ég gekk inn í svefnherbergið og þar lá Eyvindur
steinsofandi og hreyfingarlaus á hægri hliðinni. Ég fór
að bollaleggja hvort ég ætti ekki að lofa honum að
sofa, og koma heldur aptur seinna, en gekk þó að
rúminu. Það var eins og orðin, sem hann hafði til mín
talað daginn áður, en þó miklu frekar það, sem hann
hafði látið ósagt, ræki mig þangað.
Ég heyrði að Eyvindur dró ekki andann. Ég bylti
honum til, hann var stirður. Ég dró upp hlustarpípuna
og hlustaði hann. — Eyvindur gamli jónsson var dáinn.
Það lagði einkennilega angan frá vitum hins dauða
manns upp til mín. Ég kannaðist við hana. Grímur
prófessor hafði lofað Eyvindi gamla að skreppa síðasta
spölinn með hraðlestinni, eins og hann hafði óskað.
Ég lagði gamla manninn til, og breiddi yfir hann.
20