Kirkjuritið - 01.01.1949, Blaðsíða 5
Vegsamið Drottin.
Dagsljósið ennþá um foldina flæðir. —
Fagnaðu deginum, styrkur í lund;
vakna, og lyft þínum huga í hæðir,
helgaðu bæninni árdegisstund.
Vegsama Drottin, þú hjarta, sem hefur
hvíldina fengið í svefninum rótt.
Þakkaðu honum, er vernd sinni vefur
veikbyggðu slögin þín sérhverja nótt.
Eins þú, er hugsjúkur, andvaka liggur,
ættir að gleðjast við dagroðans bál.
Vertu í barnslega traustinu tryggur,
taktu við gjöf hans með fögnuð í sál.
Þakkaðu Guði á gæfunnar dögum,
gleðinnar sólskini útbýtir hann.
Vegsami Drottin í Ijóði og lögum,
líferni vönduðu, hver sem það kann.
Leitaðu Drottins í daganna vanda;
drúpirðu höfði við miskunnar lind,
mun hann þér veita sinn auðmýktaranda,
afmá úr hjartanu villu og synd.
Leitaðu Drottins í þjáningum þínum,
þangað til kvöldar og húmar af nótt.
Kveinin hann þaggar af kærleika sínum,
kraftinn þér veitir og þolgæði rótt.
*
Dýrka með sérhverju dagsverki þínu
Drottin, er veitti til starfanna þrótt,
þá mun hann upplyfta augliti sínu
yfir þig veikan, og blessa þig hljótt.
Erla.