Eimreiðin - 01.07.1956, Blaðsíða 34
186
EIMREIÐIN
Þannig leið meira en ár — hálft annað ár — og ekkert eða
lítið lagaðist þetta hörmulega og hlægilega ástand mitt. Þú
fórst úr bænum, ég frétti það — eða þú sagðir mér það, ég
man það ekki, og þar með var ég algerlega einn. — Ég hef
gleymt flestu, sem gerðist þau árin. Einhver dularfullur andi
hafði gagntekið mig. Ég var stöðugt í sömu hringiðunni,
máttlaus hraktist ég hring eftir hring, ásamt öðru rekaldi,
sem ég fann til frekar en sá. Ég hafði enga samúð með því
fólki, engan áhuga, — ég var á mínu hringsóli, sem hlaut,
að því er mér fannst, að enda á Kleppi eða í dauðanum.“
Hann þagnaði um stund og horfði út í bláinn.
„Ég veit ekki, af hverju ég er að segja þér þetta,“ sagði
liann svo.
Ég svaraði engu.
„Nú líklega af því,“ hélt hann áfram, „að þú varst eini
maðurinn, sem ég fann að skildi mig að einhverju leyti.
Svo var það einn laugardag síðla sumars. Ég kom frá mat,
— var alltaf í fæði á sama stað. Laugardagar og sunnudagar
voru mínir verstu dagar. Þá var ekkert að gera, hið eina,
sem hélt lífinu — eða öllu heldur vitinu — í mér, var vinnan.
Þá vann ég í skrifstofu íþróttasambandsins, en ekki nema
mjög lítið við íþróttakennslu. Ég hafði blátt áfram lagt
sjálfar íþróttirnar og leikfimina á hilluna. Hafði ekkert þrek
til þess að fást við slíkt, sem auðvitað hefði verið mér hollast.
Nei, það var eins og annað.
Ég gekk fram hjá Austurvelli og sá þá, að þar stóð stór
vagn og hópur af fólki kringum hann. Fólkið hafði með sér
svefnpoka, bakpoka og ferðatöskur, ætlaði sýnilega að fara í
útilegu yfir helgina. Ég vék mér að manni, sem virtist vera
fararstjóri, og spurði hann, hvert förinni væri heitið. Hann
sagði mér það. Ætlunin var að aka upp í fjöll, alllangt frá
bænum, og gista þar í sæluhúsi og tjöldum. Ég spurði hann,
hvort fullskipað væri í vagninn, og kvað hann það ekki vera;
gætu tveir eða þrír í viðbót fengið far. Vagninn færi eftir
hálfan tíma, klukkan tvö. Ég tók mér far, sjálfum mér til
mikillar undrunar og skundaði heim til þess að ná í svefn-
pokann minn. Á leiðinni keypti ég mér smurt brauð í nestið
og nokkrar flöskur af maltöli. Ég gekk að þessu eins og í