Uppeldi og menntun - 01.01.1995, Blaðsíða 55
SIGRÚN AÐALBJARNARDÓTTIR, KRISTJANA BLÖNDAL
breyst á þessum tíma. Árið 1976 sögðust um 69% 14 ára unglinga hafa drukkið
áfengi samanborið við 66% í þessari rannsókn. Þetta kemur nokkuð á óvart í ljósi
þeirrar umræðu að áfengisneysla á meðal unglinga verði sífellt almennari. Á átt-
unda áratugnum varð þó mikil aukning á drykkju unglinga (Hildigunnur Ólafs-
dóttir 1982) en spurning er hvort hún hafi staðið nokkuð í stað síðan.
Nýlegar kannanir benda til þess að um helmingur 14 ára unglinga hafi neytt
áfengis einu sinni eða oftar (Einar Gylfi Jónsson 1993, Guðrún R. Briem 1987). Sem
dæmi má taka að niðurstöður rannsóknar sem gerð var hér á landi árið 1986
(Guðrún R. Briem 1987) leiddu í ljós að af þeim 15 ára unglingum sem neyttu áfeng-
is hafði 11% prófað að drekka í fyrsta sinn 12 ára eða yngri. I annarri rannsókn frá
1989 (Ása Guðmundsdóttir 1993) kom fram að 11% 13 ára unglinga höfðu einhvern
tímann neytt áfengis og 41% 14 ára unglinga. Þegar hugað var að upphafsaldri
áfengisneyslu unglinganna í þessari rannsókn kom í ljós að um 24% þeirra sögðust
hafa drukkið í fyrsta sinn 12 ára eða yngri, 43% þeirra 13 ára eða yngri en um 66%
þeirra 14 ára og yngri. Þar sem spurningarnar sem lagðar voru fyrir unglingana
voru af sama toga í þessum rannsóknum vaknar sú spurning hvort upphafsneysla
áfengis sé enn að færast í yngri aldurshópa. Þessi aukning gæti þó stafað m.a. af því
að breytingar hafa orðið á neyslumynstri íslendinga. Neysla á léttu víni og bjór
hefur færst í vöxt og algengara er að vín sé haft um hönd inni á heimilunum, t.d.
með mat (Ása Guðmundsdóttir 1993). Um leið gæti verið að sjálfsagðara þætti að
unglingar fengju að dreypa á víni sem gæti þá skýrt að hluta að þeir eru yngri nú
þegar þeir smakka vín í fyrsta sinn en áður. Spurningar sem vakna eru m.a. þær
hvort þetta geti flýtt fyrir því að unglingar hefji áfengisneyslu og hvort unglingar í
yngri aldurshópunum sem drekka illa séu fleiri nú en áður.
Af framansögðu má ljóst vera að mikil breidd er í áfengisneyslu unglinga þar
sem aðgreina má nokkra neysluhópa, þ.e. þá sem aldrei hafa prófað áfengi, þá sem
hafa rétt smakkað áfengi, þá sem eru að byrja að drekka og hafa fundið á sér og þá
sem drekka reglulega. Ekki er ólíklegt að í forvarnarstarfi þurfi að taka tillit til allra
þessara hópa. Einnig er mikilvægt að gera sér grein fyrir hvaða unglingar það eru
sem eru í sérstökum áhættuhópi hvað snertir áfengisneyslu.
Félagslegt umhverfi
Áfengisneysla unglinga tengdist ekki stéttarstöðu foreldra þeirra. Þannig voru böm
faglærðs verkafólks jafn líkleg til að neyta áfengis og börn háskólamenntaðs fólks.
Ekki kom á óvart að þeir unglingar, sem áttu nána vini sem drukku oft, neyttu
áfengis oftar en aðrir. VinahópurimT skiptir greinilega miklu. Efalaust þrýsta vinir
oft á unglinga til að drekka. Einnig er líklegt að unglingar, hvort sem þeir drekka
eða ekki, velji sér vinahóp með hliðsjón af svipaðri afstöðu til áfengisneyslu, en
algengt er að vinahópurinn sé endurnýjaður á unglingsárum (Youniss 1980).
Aftur á móti virtist ekki vera samband milli drykkju unglinga og foreldra. Við
fyrstu sýn virðist hér skýrt dæmi um hve sterk félagsmótunaráhrif vinahópurinn á
unglingsárum hefur á áfengisneyslu unglinga í samanburði við foreldra. í ljósi þess
að unglingamir voru spurðir um drykkju foreldra sinna verður þó að setja nokkra
varnagla. Unglingarnir gætu verið kunnugri því hversu oft vinir þeirra drekka en
53