Uppeldi og menntun - 01.01.1995, Blaðsíða 31
KRISTÍN INDRIÐADÓTTIR
mun það hafa gerst fyrir áhrif úr öðrum áttum þó hugmyndafræðin að baki þeirra
sé svipuð (viðtöl Eiríkur Stefánsson 1992, Jónas B. Jónsson 1992).
Því verður ekki á móti mælt að Steingrímur var brautryðjandi á mörgum
sviðum. Hann bæði nýtur þess og geldur að vera fyrsti skólamaðurinn sem fer til
framhaldsnáms til Vesturheims og kemur svo heim með misvelkomnar nýjungar.
Hann var duglegur að koma þeim á framfæri en tíminn og aðstæðurnar réðu því
hvort þær náðu fótfestu. Þó mikil gróska og vöxtur væru í menntamálum þjóðar-
innár á þriðja áratugnum og margir skólamenn væru ötulir talsmenn nýrra við-
horfa í uppeldismálum var jarðvegurinn varla tilbúinn fyrir stjórnarbyltingu.
A fjórða áratugnum lét Steingrímur mun minna til sín taka í skólamálum á
opinberum vettvangi. Það má geta sér þess til að honum hafi sámað mjög þegar
Jónas frá Hriflu veitti ungum og óreyndum manni, Sigurði Thorlacius, skólastjóra-
stöðuna við hinn nýja Austurbæjarskóla og þegar kennslueftirlitið var lagt niður.
Hann var ekki heldur skipaður í þá nefnd sem undirbjó breytingar á lagasetningu á
þessum árum. Hann flutti þó ýmis erindi, bæði á kennaraþingum og víðar, og
bækur hans voru endurútgefnar. Eftir að bókum um uppeldisfræði á íslensku fjölg-
aði ritaði hann oft um þær og vildi að þær kæmust í hendur sem flestra. Taldi hann
íslendinga of hirðulausa um uppeldi því þeir hefðu verið haldnir þeirri „rótgrónu
og alt of algengu meinvillu, að upplag hvers manns valdi næstum því öllu um það,
hvað úr honum verður" (Steingrímur Arason 1938).
Alla sína starfsævi var Steingrímur trúr sínu íslenska sveitauppeldi sem hann
mat mikils (1953 víða) en þau viðhorf, sem hann varð svo fanginn af á námsárum
sínum í Ameríku, entust honum einnig til æviloka. Afstaða hans til barnsins og
þroskamöguleika þess, væri því skapað gott umhverfi, var hin sama og bandarískra
verkhyggjumanna. Hann leit fyrst og fremst á notagildi þess sem kennt var í
skólum og var eindreginn andstæðingur hins gamla „námsgreinaskóla". Skólinn
var að hans áliti eðlilegur hluti af lífinu og hann undirstrikaði það bæði með
kennsluaðferðum sínum og ekki síður öllu því efni sem hann samdi fyrir börn.
Skóli Steingríms var mannbótaskóli og hann var sjálfur lifandi dæmi um mann, sem
varð mikið úr eðlislægum hæfileikum fyrir atbeina menntunar og reynslu, og sýndi
í verki óbilandi trú á að það sama gilti um alla aðra menn.
29