Uppeldi og menntun - 01.01.1995, Blaðsíða 73
GERÐUR G . ÓSKARSDÓTTIR
tekist slíkar tilraunir. Þessir frumkvöðlar höfðu ekki verið með hærri einkunnir á
samræmdum prófum en úrtakið í heild og komu nokkuð jafnt úr öllum mennt-
unarhópum.
Um 80% svarenda kváðust stundum eða oft ráða því í hvaða röð þeir gerðu
hlutina og yfir 77% sögðust stundum eða oft ráða hvað þeir gerðu og hvernig. Þó
höfðu um 35% yfirmann sem oftast ákvað hvað þeir ættu að gera. Lítill munur var á
menntunarhópum hvað varðaði þessa þætti.
Athyglisvert er að menntun starfsmanna virtist hafa lítil áhrif á það hvort þeir
tækju ákvarðanir, hefðu frumkvæði eða leystu vandamál í starfi.
Samskipti og skipulagsfærni
Samskipta- og samvinnuhæfni í hópi samstarfsmanna eða í samskiptum við
viðskiptavini er hvað eftir annað nefnd þegar rætt er um mikilvæga færniþætti í
atvinnulífinu (Marshall og Tucker 1992, SCANS 1992, Reich 1991). Yfir 90% svar-
enda sögðust starfa með eða hafa samskipti við annað fólk í helmingi af vinnutíma
sínum eða meira (sbr. hér að framan). Þegar spurt var um samskiptaörðugleika
kváðust yfir 17% hafa átt í samstarfsörðugleikum við samstarfsmenn og þá oftast
um vinnuferlið eða dagleg samskipti. Brottfallsnemendur voru fjölmennari í þess-
um hópi en útskrifaðir. Þessi munur getur stafað af því að störf þessara hópa eru
ólík.
Tafla 4 sýnir hve margir sögðust ráðstafa tíma, fjármunum og efni í starfi eða
sögðust veita öðrum leiðsögn. Um það bil tveir þriðju sögðust stundum eða oft
þurfa að skipuleggja tíma sinn sjálfir og rúmlega fjórðungur þurfti stundum eða oft
að ráðstafa peningum. Talsverður munur kom þó fram á útskrifuðum og brott-
fallsnemendum í þessum efnum en hann getur stafað af því að störf þessara hópa
eru í eðli sínu mismunandi. Athyglisvert var að fólki með enga framhaldsmenntun
var í nokkrum mæli falin stjómunarstörf en yfirleitt virðast ungir starfsmenn í
stofnunum og fyrirtækjum ekki sinna slíkum verkum í stórum stíl.
Fólk með starfsmenntun og nám af háskólastigi (án gráðu) skipuleggur nýtingu
efnis fremur en aðrir menntunarhópar. Lítill munur kom fram á brottfalls-
nemendum og útskrifuðum þegar spurt var hvort svarendur tækju ákvarðanir um
vörupantanir eða dreifingu vöru. Sama átti við um skipulag á nýtingu húsnæðis.
Öflun, varðveisla og miðlun upplýsinga hefur verið talin grundvallarþáttur í
aðlögun fyrirtækis að þeim breytingum sem nú eiga sér stað í atvinnulífinu (Zuboff
1988, SCANS 1992). Tæplega þriðjungur svarenda hafði slíkar starfsskyldur að
einhverju marki. Yfir 36% útskrifaðra sögðust stundum eða oft skipuleggja og ann-
ast geymslu á gögnum eins og skjölum, reikningum og öðrum pappírum en aðeins
22% brottfallsnemenda höfðu slíkar starfsskyldur. Sömuleiðis kváðust 37% útskrif-
aðra stundum eða oft setja gögn inn í tölvu, en aðeins 19% brottfallsnemenda. Alíka
hlutfall af hvorum hópi sagðist stundum eða oft sjá um að leita að upplýsingum í
tölvukerfum. Þeir sem oftast vinna með gögn og upplýsingar eru þeir sem hafa
háskólamenntun eða stúdentspróf. Yfir 70% svarenda þurftu sjaldan eða aldrei að
vinna með upplýsingar og almennt voru brottfallsnemendur fjölmennari í þeim
hópi en útskrifaðir (sjá Töflu 5).
71