Tímarit lögfræðinga - 01.10.2001, Blaðsíða 23
sem hún kann að hafa á umhverfið. Við þetta bætist að framkvæmdaraðili við-
urkennir treglega hugsanleg skaðleg umhverfisáhrif í matsskýrslu, einkum ef
þau geta haft áhrif á einstaklingsbundna hagsmuni, t.d. landeiganda. Hann
reynir að firra sig hugsanlegri skaðabótaskyldu með þögn, m.a. til þess að draga
úr líkunum á að sönnunarbyrðinni verði snúið við ef skaðleg áhrif koma fram.56
Nefna má fleiri atriði sem varða hagsmuni framkvæmdaraðila og líta má á sem
ákveðna galla. Undirbúningur og gerð matsskýrslu hefur í för með sér kostnað
fyrir hann og þar að auki tekur málsmeðferðin langan tíma, einkum og sér í lagi
ef endurskoðun æðra stjómvalds eða dómstóla fer fram. Þessi atriði undirstrika
að tiltekið jafnvægi verður að ríkja á milli framkvæmdaraðila og annarra sem
hagsmuna eiga að gæta vegna mats á umhverfisáhrifum. Löggjöf um mat á
umhverfisáhrifum og beiting hennar verður að endurspegla þetta jafnvægi.57
4. LÖG UM MAT Á UMHVERFISÁHRIFUM
4.1 Yngri lög og eldri
Kerfisbundið mat á umhverfisáhrifum tiltekinna framkvæmda hefur farið
fram hér á landi í tæpan áratug eða frá árinu 1993 þegar lög nr. 63/1993 um mat
á umhverfisáhrifum öðluðust gildi. Áður en lögin frá 1993 tóku gildi kom það
fyrir að gert væri mat á umhverfisáhrifum, m.a. í tengslum við gerð aðalskipu-
lags fyrir Skútustaðahrepp og vegna Fljótsdalslínu 1. Jafnframt voru í gildi
ákvæði í mengunarvarnareglugerð um forkönnun vegna staðarvals fyrir meng-
andi atvinnurekstur og mat á umhverfisröskun hans.58 Nú eru í gildi lög nr.
106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og eins og segir í 1. gr. laganna er mark-
mið þeirra:
a. að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna stað-
setningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér
umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum fram-
kvæmdar,
b. að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig mál-
ið varða vegna framkvæmdar sem áhrif hefur á umhverfið,
c. að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmdar sem kann að hafa í för
með sér umtalsverð umhverfisáhrif og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og að al-
menningur komi að athugasemdum og upplýsingum áður en úrskurður um mat
á umhverfisáhrifum framkvæmdar er kveðinn upp.
56 Þetta kom fram hjá M. L. Larsson í fyrirlestri sem hún hélt um skaðabótaábyrgð o.fl. vegna
tjóns sem verður á umhverfmu vegna ýmiss konar framkvæmda. Fyrirlesturinn var haldinn við
Uppsalaháskóla haustið 1999. Sjá nánar M. L. Larsson: On the Law of Environmental Damage.
Liability and Reparation. Stokkhólmsháskóli, 1997.
57 Sjá nánari umfjöllun í kafla 6.2 um mat á umhverfisáhrifum og íþyngjandi skyldu sem lögð er
á framkvæmdaraðila.
58 Sjá nánar Alþt. 1992-1993, A-deild, þskj. 87, bls. 988 og t.d. ákvæði mengunarvamareglugerð-
ar nr. 48/1994.
171